09.02.1955
Sameinað þing: 34. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í D-deild Alþingistíðinda. (2556)

112. mál, niðursuðuverksmiðja í Ólafsfirði

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Meðal þeirra ráðstafana, sem gerðar voru eftir síðustu heimsstyrjöld til þess að efla atvinnulíf þjóðarinnar og gera það fjölþættara, var aukning niðursuðuiðnaðarins, og voru í því sambandi sett upp nokkur ný fyrirtæki til þess að vinna að ýmiss konar niðursuðu úr íslenzkum hráefnum og þá fyrst og fremst úr fiski. Eitt af þessum fyrirtækjum, sem þá voru sett á fót, var niðursuðuverksmiðja í Ólafsfirði, sem var fullkomið fyrirtæki og með hinni nýjustu tækni á öllum sviðum, þannig að fyrirtækið var svo úr garði gert, að ástæða var til að halda, að það gæti orðið mikil lyftistöng fyrir þetta bæjarfélag, ef rættust þær vonir, sem tengdar voru við fiskiðju og fiskniðursuðu yfirleitt. Nú hefur því miður reyndin orðið sú, af hvaða ástæðum sem það er, að vonir þær, sem tengdar hafa verið við niðursuðuiðnaðinn sem veigamikinn þátt í atvinnulífi Íslendinga, hafa brugðizt, þannig að þau niðursuðufyrirtæki, sem sett voru á stofn, hafa ýmist hætt störfum eða átt við mjög mikla erfiðleika að stríða.

Það fór því svo með niðursuðuverksmiðjuna í Ólafsfirði, að hún hefur átt mjög erfitt uppdráttar, varð að hætta starfrækslu hvað eftir annað, en ítrekaðar tilraunir voru þó gerðar til þess að koma henni af stað aftur. Fyrst var hún rekin sem bæjarfyrirtæki, en eftir að bærinn hafði lagt í hana mjög mikið fé og orðið fyrir miklum áföllum hennar vegna, gafst hann upp á rekstri verksmiðjunnar, enda ekki neinn möguleiki á að selja afurðir hennar. Næst var síðan gerð tilraun með að stofna um verksmiðjuna hlutafélag, og lögðu menn í Ólafsfirði allverulegar fjárhæðir fram í hlutafé til þess að gera enn á ný tilraun með að koma þessu atvinnufyrirtæki af stað, en það bar ekki heldur árangur, og urðu endalokin þau, að verksmiðjan var seld á nauðungaruppboði á s. l. ári, og var verksmiðjan lögð ríkissjóði út sem ófullnægðum veðhafa.

Það er nú komið hartnær ár síðan verksmiðjan komst í eigu ríkissjóðs, og ekkert hefur verið gert með fyrirtækið, þannig að verksmiðjan stendur auð og ónotuð og alger óvissa ríkjandi um hennar framtíð. Þetta ástand er tilefni þess, að við þingmenn Eyf. höfum leyft okkur að bera fram þessa þáltill., sem að vísu er nokkuð óljóst orðuð, vegna þess að þar er ekki sagt, að ríkisstj. skuli selja þessa verksmiðju, eða talað um neinar ákveðnar leiðir í sambandi við nýtingu hennar, og stafar það af því, að við gerum okkur ljóst, að það eru á því miklir annmarkar að starfrækja þessa verksmiðju áfram sem niðursuðuverksmiðju, eftir því sem horfir með þann iðnað, en engu að síður teljum við með öllu óviðunandi, að þessi myndarlega bygging með miklum vélakosti sé látin standa þarna óstarfrækt, meðan svo horfir, að atvinnuörðugleikar í þessu byggðarlagi eru mjög miklir og það svo, að telja má, eins og nú standa sakir, að þar sé algert atvinnuleysi, ef undan er skilinn sá hluti íbúanna, sem fer burt hingað til Suðurlands á vetrarvertíð. En heima fyrir er ekki um neina atvinnu að ræða. Og það gefur að skilja, að það hlýtur að leiða til mikillar óánægju hjá almenningi, þegar hann sér standa þarna ónotað stórt fyrirtæki, meðan fólkið gengur atvinnulaust. Þetta veldur því, að ég tel, að ekki sé með nokkru móti unnt annað en að gera einhverjar ráðstafanir í sambandi við þessa verksmiðju. Því mun sennilega verða til svarað af ýmsum, að fyrsta skilyrðið sé þá, að menn heima hefjist handa um að kaupa verksmiðjuna eða gera einhverjar ráðstafanir til þess, að hægt verði að reka hana af mönnum þar, annaðhvort sem verksmiðju eða á annan hátt. En því er þar til að svara, að við teljum, að það hvíli á sama hátt nokkur skylda á ríkinu, sem á þetta atvinnufyrirtæki á staðnum, með hliðsjón af þeim miklu örðugleikum, sem þar eru, að gera sjálft einhverjar ráðstafanir um nýtingu verksmiðjunnar, og þá í samráði við menn þar heima, því að sannleikurinn er sá, að fjárhagsörðugleikar atvinnurekenda þar og annarra, sem kæmu til með að eiga þetta fyrirtæki eða kaupa það, eru svo miklir, að það geta orðið á því miklir annmarkar, að þeir geti rekið fyrirtækið á eigin ábyrgð.

Ég vildi láta þessar útskýringar fylgja þessari till. úr hlaði til þess að gera grein fyrir ástæðum þess, að við leggjum hana hér fram. Við gerum okkur vel ljósa erfiðleikana, sem eru á rekstri þessa fyrirtækis, en teljum hins vegar mjög brýna nauðsyn, að hafizt verði handa um nýtingu verksmiðjunnar á einhvern þann hátt, sem geti orðið til eflingar atvinnulífi í kaupstaðnum. Og tilgangur okkar með till. er fyrst og fremst að leita eftir viljayfirlýsingu hv. þingmanna til stuðnings ríkisstj., þannig að hún hafi á bak við sig vilja þingsins um það að gera einhverjar ráðstafanir af sinni hálfu, til þess að þetta fyrirtæki, sem á mælikvarða Ólafsfirðinga a. m. k. er stórfyrirtæki, standi ekki þarna áfram ónotað, því að vitanlega er það þá einnig gersamlega verðlaust fyrir ríkissjóð sem eiganda þess og honum glatast þá þeir fjármunir, sem þarna eru, ef svo á áfram að horfa, að engin not verði af húsinu.

Ég hef ekki þessi orð mín fleiri, en vil leggja til, að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til fjvn.