20.04.1955
Sameinað þing: 53. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í D-deild Alþingistíðinda. (2598)

156. mál, samvinnunefnd

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Till. þessi var flutt af hv. þm. S-Þ. (KK) og hv. þm. A-Sk. (PÞ) og er þess efnis, að ríkisstj. skuli falið að hlutast til um, að félagssamtök atvinnurekenda og verkalýðssamtakanna í landinu skipi fulltrúa í samstarfsnefnd, sem hafi það hlutverk að afla upplýsinga frá ári til árs um afkomu atvinnuveganna og hag almennings, í þeim tilgangi, að síðar megi leita álits þessarar nefndar þegar ágreiningur virðist vera í uppsiglingu um kaup og kjör.

Fyrir tillögumönnunum vakti, að með starfi slíkrar samstarfsnefndar verkalýðssamtakanna og atvinnurekendasamtakanna væri e. t. v. hægt að afla þýðingarmikilla upplýsinga um atvinnulífið og getu þess og aðstöðu til að greiða hinu vinnandi fólki viðunandi kaup, að skynsamlegra væri að afla slíkra upplýsinga, þegar friður væri í atvinnulífinu, og að tíminn til þess að afla slíkrar vitneskju væri ekki heppilegur, þegar út í deilur væri komið. Ég er alveg sammála hv. flm. um þetta atriði og að ég hygg jafnvel hæstv. ríkisstj., sem fór fram á það, að nú væri kosin nefnd með svipuðu hlutverki og þessu, að afla upplýsinga um gjaldþol atvinnuveganna einmitt eftir að sú hin mikla deila, sem nú stendur yfir, hófst, og hefði það hlutverk að afla upplýsinga um gjaldþol atvinnuveganna. Ég var þeirrar skoðunar, og verkalýðssamtökin eru þeirrar skoðunar, að meðan á deilu stendur sé ekki heppilegur tími til slíks samstarfs, það þurfi að hefjast á friðartímum.

Tillögumennirnir lýstu því yfir í grg., að þeir teldu mikilsvert, að atvinnurekendur og kaupþegar hefðu ekki aðeins um stundarsakir, heldur til frambúðar frá ári til árs samstarf með sér í nefnd, sem ríkisstj. gæfi þessum aðilum kost á að tilnefna menn í, til þess að leita upplýsinga og leggja fram rökstutt álit um atvinnumálin — atvinnuvegina í landinu og greiðsluþol atvinnuveganna. Síðan var þeirra ætlan, að upplýsingar væru á takteinum hjá þessari n., áður en atvinnurekendur og verkafólk segðu upp samningum og legðu út í deilur. Þeir viðurkenna í grg., að þetta væri að vísu ekki nema tilraun, en ég er þeim sammála um það, að þetta sé tilraunar vert. Það gæti þá aldrei af starfi slíkrar nefndar leitt annað en það, að fyrir lægi fyllri vitneskja en ella um þessi viðkvæmu mál og það er langtum betra og skynsamlegra að afla allrar þeirrar vitneskju, sem hægt er að útvega um þessi efni, þegar friðsamlegt samstarf er ríkjandi milli atvinnurekenda og verkamanna. Hitt er óefað, að eitthvað mundi starf slíkrar nefndar kosta ríkissjóð, en það er þó gefinn hlutur, að ef slíkt starf nefndar gæti komið í veg fyrir stórfelld átök, sem trufla atvinnulífið alltaf meira og minna, þá gæti þarna samt verið um útgjöld að ræða, sem borgaði sig vel að inna af hendi og gætu orðið til að spara a. m. k. þjóðfélaginu — ef ekki ríkissjóði — fé.

Fjvn. athugaði þetta mál og kom sér saman um að breyta till. nokkuð, þó á þann veg, að hlutverki hennar er á engan hátt breytt. Hún er aðeins færð í nokkru fastara og ákveðnara form. Það er í fyrsta lagi tekið fram, að þeir aðilar, sem eiga rétt á því að tilnefna fulltrúa í þessa nefnd, skuli vera Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands, og tekið einnig ákveðið fram, að hvor þessara aðila skuli tilnefna tvo fulltrúa í slíka samstarfsnefnd atvinnurekendanna og verkalýðssamtakanna. Orðalaginu í till. eins og hún kemur frá fjvn. um hlutverk nefndarinnar er á engan hátt breytt, að öðru leyti en því, að við er bætt, að þessi nefnd skuli eiga aðgang að Hagstofu Íslands um, að sú stofnun veiti nefndinni alla þá aðstoð, sem óskað er, einkanlega í sambandi við skýrslugerð og útreikninga. Einnig er n. gefin heimild til að leita hvers konar fræðilegrar aðstoðar annars staðar, ef hún teldi þess þörf. Þetta eru atriði, sem eru viðbót við till. eins og hún var upphaflega flutt og miða að því að bæta aðstöðu n. til starfa, þannig að betur sé að henni búið og meiri líkur til þess, að árangur geti hlotizt af störfum hennar.

Það var að vísu ekki samkomulag um það, að þessi n. fengi aðstöðu til að rannsaka hag einstakra atvinnufyrirtækja, sem ég hefði þó talið æskilegt, a. m. k. undir vissum kringumstæðum, og þar sem hér er um að ræða n., sem skipuð er að jöfnu aðilum frá atvinnurekendum og verkalýðssamtökum, þá hygg ég, að slíkt vald í höndum n. hefði ekki orðið á neinn hátt misnotað, því að slík rannsókn á einstökum, þýðingarmiklum atvinnufyrirtækjum hefði auðvitað ekki átt sér stað, nema því aðeins að báðir aðilar í n. eða fulltrúar beggja aðila í n. hefðu talið ástæðu til þess og talið æskilegt, að slík athugun færi fram.

En það eru atvinnuvegirnir í heild, sem n. er veitt umboð til að rannsaka og gera sér grein fyrir afkomu þeirra allri og hvaða gjaldþol atvinnuvegirnir teljast hafa á hverjum tíma í sambandi einkanlega við launagreiðslur, þau útgjöld, sem snerta framkvæmd framleiðslustarfanna.

Í þessu formi var fjvn. sammála um að mæla með samþykkt till., og er það aðeins von fjvn., að með slíku starfi megi koma í veg fyrir í einhverjum einstökum tilfellum ágreining, sem kynni annars að stöðva atvinnulífið og valda framleiðslu þjóðarinnar tjóni, og gæti þá farið svo, að þau útgjöld, sem óneitanlega verða við starf slíkrar n., kynnu að margborga sig.