13.04.1955
Sameinað þing: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (2615)

55. mál, atvinnumál í Flateyjarhreppi

Frsm. (Pétur Ottesen):

Ég mun hafa gleymt áðan í minni framsöguræðu að geta þess, sem raunar er þó rætt um í nál., að n. gat ekki fallizt á að mæla með samþykkt á 2. lið þáltill. um það, að ríkið færi að greiða ógreidd vinnulaun vegna fyrrverandi rekstrar frystihússins og útgerðar Sigurfara. N. gat ekki lagt til, að farið væri inn á þá braut að heimila ríkissjóði að greiða skuldir, sem þannig er ástatt um, enda hafði ríkið orðið að taka á sig skuldagreiðslur í sambandi við frystihúsið, sem það vitanlega var skyldugt að gera samkv. þeim ábyrgðum, sem það hafði veitt vegna þeirrar lántöku. Hv. flm. þessarar till. hefur nú lýst yfir, að hann telji þessa afstöðu fjvn. eftir atvikum eðlilega. Það vitanlega veltur á því um framkvæmdir í þessu efni, að það fé, sem hér um ræðir, verði tiltækt til þessara ráðstafana, og hefur nú hv. flm. þessarar till. áréttað um það með ræðu sinni hér áðan.

Viðvíkjandi þeirri fsp., sem hv. þm. V-Húnv. beindi til n., vil ég taka fram, að það er vitanlega gert ráð fyrir því að afhenda húsið með áhvílandi skuldum þess, enda sér hv. þm., ef hann ber saman till. fjvn. um þetta efni og till. hv. flm., að sá munur er á, að í till. hv. flm. er talað um að afhenda hreppnum húsið kvaðalaust, en í till. fjvn. um þetta efni er aðeins talað um að heimila ríkisstj. að afhenda Flateyjarhreppi á Breiðafirði hraðfrystihúsið í Flatey, án þess þó að binda hendur ríkisstj. í þessu efni.