13.04.1955
Sameinað þing: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í D-deild Alþingistíðinda. (2631)

98. mál, Geysir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er nú ekki alls kostar rétt hjá hæstv. dómsmrh., að við þurfum að vera á öndverðum meiði, við Pétur Ottesen, þm. Borgf., hvað þetta snertir. Ég segi, og það er satt: Geysisnefndin hefur ekki haft nein fjárráð. Trausti Einarsson hefur viljað fá að hafa mann starfandi við Geysi tvo til þrjá mánuði og að ríkisstj. kosti hann til þess að framkvæma þær mælingar og athuganir, sem þarf, til þess að geta vitað, hvernig á að hegða sér við Geysi til þess að fá gos. Hann hefur ekki fengið það. Sama hefur Þorbjörn Sigurgeirsson viljað og af sjálfsdáðum verið þar um tíma, en hafði ekki tíma til að vera þar nógu lengi og varð þess vegna líka að gefa það upp.

Þess vegna er það rétt, að það hefur ekki fengizt nægjanlegt fé. Hitt er svo annað mál, að þegar Alþingi er búið að samþykkja að fela ríkisstj. að láta Geysisnefndina gera þetta og leggja fyrir hana að gera það, þá geri ég ráð fyrir því, að það geti vel verið, að hún geri það, þó að heimildin sé ekki fyrir því. Ég vona það, og ég samþykki till. ákveðið í því trausti, að ríkisstj. geri það. (Gripið fram í.) Ég var engan dóm að leggja á það. Ég taldi galla, að það væri felld aftan af till. heimildin til greiðslu kostnaðarins. En ég samþykki till. í því ákveðna trausti, að ríkisstj. heimili Geysisnefndinni að hafa fé til umráða, svo að hún geti haft mann þar nokkurn tíma til að fylgjast með þeim athugunum, sem gera þarf. (Gripið fram í.) Ég geri það. Því ráða náttúrlega hv. þingmenn, hvort þeir samþ. brtt. eða ekki, en ég treysti því, að ríkisstj. leggi fé til eins og þarf til þess að gera þetta. Þetta er ekki stórt fé eða mikið, sem þarna er um að ræða, en það er dálítil fjárupphæð, því að það þarf að vera þarna fastur maður nokkurn tíma.