13.04.1955
Sameinað þing: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (2633)

98. mál, Geysir

Gísli Jónsson:

Herra forseti Ég sé, að á fjárlögum fyrir árið 1955 eru teknar upp í 13. gr. IV til umbóta við Geysi 80 þús. kr. Þessi liður mun hafa verið um 50 þús. kr. nokkur undanfarin ár á fjárlögum, að ég held. Nú vildi ég gjarnan spyrja þann hæstv. ráðherra, sem hefur með þessi mál að gera, til hvers þessu fé er varið. Er ekki hér fé til þess að uppfylla þær óskir, sem koma fram í sambandi við þessa þáltill., og er ástæða til þess að taka málið út af dagskrá vegna þess, að hér skorti fé? Áður en farið er að bera fram brtt. um að setja nýja fjárveitingu til þessara mála, er rétt, að fyrir liggi upplýsingar frá viðkomandi hæstv. ráðherra, til hvers þetta fé hefur verið notað. Liggur þetta fé í sjóði, eða hefur það verið notað til þess að gera einhverjar sérstakar umbætur, svo að Geysir gæti haldið þeim svip, sem ætlazt er til með þáltill. að hann haldi? Það væri mjög fróðlegt að fá að vita eitthvað um þau atriði.