10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í D-deild Alþingistíðinda. (2657)

197. mál, niðursuða sjávarafurða til útflutnings

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Ég er sammála frsm. og þeim atriðum í grg. með till., sem benda á, að rétt sé að koma á eftirliti og mati á niðursuðuvörum eins og öðrum framleiðsluvörum okkar. Hinu get ég ekki látið ómótmælt, að allar þær tilraunir, sem gerðar hafa verið hér á landi til þess að flytja út niðursuðuvörur, hafi gefizt illa, því að mér er kunnugt um, að svo er ekki. Það hefur verið soðið niður og flutt út verulegt magn af niðursuðuvörum frá fleiri en einni niðursuðuverksmiðju á Ísafirði, og þær tilraunir hafa gefizt mjög vel, og meginhlutinn af því, sem soðið hefur verið niður af þessari vöru á Ísafirði, hefur verið soðið niður til útflutnings, flutt út og líkað þar vel. Það er bara þetta atriði, sem ég vildi láta koma fram. Ég hef raunar getið um það áður hér í vetur við umr. um svipað mál og þarf því ekki að teygja tímann lengur með því að ræða frekar um þetta nú.