25.03.1955
Neðri deild: 65. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í D-deild Alþingistíðinda. (2721)

158. mál, aðbúnaður fanga í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. gat um, er ég ekki sammála meiri hl. n. Ég legg til með sérstöku nál. á þskj. 475, að till. verði samþykkt, en meiri hl. leggur til, að till. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Allshn. neðri deildar, sem hafði þetta mál til meðferðar, tók sig til og skoðaði aðbúð fanga hér í Reykjavík. Hv. 3. þm. Reykv., frsm. n., hefur nú gefið allglögga skýrslu um það ástand, sem ríkir í þessum málum, og er þar litlu við að bæta.

Fangageymslan í kjallara lögreglustöðvarinnar er, eins og hann tók fram, algerlega óviðunandi. Hún er óvistleg, þetta er í lágum kjallara, og það er margt, sem þar kemur til. T. d. þó að það hafi verið gerðar allmiklar aðgerðir, til þess að þar gæti verið sæmileg loftræsting, er langt frá því, að hún sé viðunandi. Allur aðbúnaður í sambandi við hreinlæti í klefum er á slíku stigi, að það er varla hægt að lýsa því. Og þegar maður athugar þessa fangageymslu, má segja, að það sé kannske ekkert undrunarefni, þó að þeir, sem um þessi mál hafa fjallað og hafa með að gera, vilji ekki leggja mikið fjármagn til þess að breyta þarna miklu, enda er það sjálfsagt ekki hægt, svo að neinu verulegu gagni komi.

Eitt af því, sem þarna er mjög athyglisvert og allir kunnugir vita, er það, hvílík óhæfa það er að þurfa að hafa fangageymslu í sjálfum miðbænum. Það má svo að orði komast, að þegar maður er tekinn úr umferð í miðbænum, er höfð nokkurs konar sýning á því, sem þar fer fram. Ég geri ráð fyrir því, að þeir menn, sem um þessi mál hafa fjallað, lögreglan og lögreglustjóri, geri það, sem í þeirra valdi stendur til þess að aðbúð þessara manna sé ekki verri en efni standa til. Í þessum klefum eru þó bara harðir bekkir til þess að liggja á. Þar er eitt teppi til þess að fleygja yfir sig, enda er hitinn víst sæmilegur, a. m. k. fannst mér það þessa stund, sem ég var þarna inni, að það þyrfti ekki að kvarta um hitann, heldur frekar hitt. Loftið fannst mér þarna alveg óþolandi, þannig að það væri varla hægt að hugsa sér það, að menn gætu verið þarna inni nema mjög takmarkaðan tíma.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um aðbúnaðinn þarna. Hann er sem sagt í alla staði langt fyrir neðan það, sem hægt er að hugsa sér að sé leyfilegt. Ég tel jafnvel, þó að það sé hér á dagskrá hjá þeim, sem um þessi mál fjalla, að byggja nýja fangageymslu, að þá sé þetta mál mjög aðkallandi. Við vitum, að það að byggja slíkt stórhýsi mun taka langan tíma, og það væri vel þess vert, að það væri athugað, hvort ekki ætti að leita eftir öðru húsnæði til bráðabirgða.

Við fórum upp í fangahúsið á Skólavörðustig 9. Það er orðið mjög gamalt hús, byggt eða tekið í notkun 1875. Fangaklefarnir þar eru fljótt á litið sæmilegir. Þeim hefur nú verið lýst af frsm. n., og þarf ég ekki að bæta þar miklu við. Þó er rétt að geta þess, eins og hann tók hér líka fram, að þetta fangahús er að sjálfsögðu orðið úrelt sem slíkt. Þarna er t. d. ekki nokkur staður eða nokkuð, sem heitir vinnusalur fyrir fangana, þó að þeir hefðu löngun til þess að hafa með einhver störf að gera, sem ég teldi að ætti að vera við hverja slíka stofnun, allt slíkt sem heitir vinna verður að fara fram í herbergjunum, sem eru mjög takmörkuð að rými.

Ég veit ekki, hvort það þykir henta að hafa útvarp á slíkum stöðum. Ég talaði við fangavörðinn í morgun og spurðist fyrir um það, hvort það væri. Hann sagði það ekki vera, það er ekkert útvarp. Manni gæti dottið í hug, að það væri ekki úr vegi, að það væri t. d. eitt útvarp í húsinu, og væru þá leiddir hátalarar inn í fangaklefana, og að það væri á valdi fangavarðarins, hvenær og hvaða efni fangarnir mættu hlusta á. Ég hef sem sagt ekki þekkingu á því, hvað er vanalegt undir slíkum tilfellum, en mér finnst fljótt á litið, að það mundi þó ekki geta spillt að neinu leyti fyrir, þó að föngunum væru veitt þau réttindi að fá að hlusta á útvarp. Blöð fá fangarnir daglega, eftir því sem upplýst var. Það má segja, að það sé þarna vísir að bókasafni, sem var í ákaflega mikilli óhirðu, lá sumt jafnvel á gólfinu, og sumt var þar í hillum.

Fangelsisgarðurinn er lítill, og það eru ýmsir vankantar þar á, m. a. það, að bærinn hefur byggt þar skúrræfla við eina hliðina á fangagarðinum, þannig að menn geta prýðilega farið upp á skúrana og farið niður í fangagarðinn og haft beint samband við fangana. Þetta hef ég beint frá fangaverðinum núna í morgun, enda sagði hann okkur það líka í þessu stutta viðtali, sem við áttum við hann. Það hljóta allir að sjá, að slík aðstaða er í alla staði óverjandi. Og ég skil ekki í því, að bæjaryfirvöld Reykjavíkur gætu ekki með góðu móti a. m. k. fjarlægt þessa skúra, þannig að það væri ekki hægt að hafa samband utan af götunni við fangana, eins og komið hefur fyrir.

Þá er það líka eitt, sem er þarna mjög athyglisvert, og það er það, að þegar farið er með fanga inn í húsið og frá húsinu, þá er þarna höfð opinber sýning á þessu. Við götuna á móti er stórt verzlunarhús, og fólk, sem er þar í gluggum, sér allt, sem fram fer á götunni fyrir framan fangahúsið. Þetta er stórt hús, margra hæða; þaðan sést vitanlega allt, sem fer fram, þegar verið er að flytja fangana frá og til. Það er náttúrlega aðbúnaður, sem er í alla staði óverjandi. Það á ekki að vera að halda neinar sýningar á þeim mönnum, sem verða brotlegir og þurfa að taka út sína hegningu. Það er alveg nóg, sem þeir hafa orðið að líða fyrir það og koma til með að líða, þó að ekki sé verið að hafa slíkar sýningar eins og þarna eru hafðar. Þetta kemur til af því, hvernig húsið er staðsett í bænum, og ekki hefur verið hægt úr því að bæta.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín fleiri um þetta, en ég gat ekki orðið sammála meiri hl. um að vísa þessu máli til ríkisstj. Ég legg til í mínu áliti, að till., sem hv. 6. þm. Reykv. (GMM) flutti, verði samþykkt.