22.10.1954
Sameinað þing: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í D-deild Alþingistíðinda. (2772)

53. mál, sementsverksmiðja o. fl.

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Fyrir síðustu kosningar virtist vera þó nokkur áhugi hjá hæstv. ríkisstj. fyrir því að koma upp sementsverksmiðju, framkvæma þau lög, sem Alþ. hefur sett um þau mál. Og það var einmitt rétt fyrir kosningarnar farið svo að segja að vígja sementsverksmiðjuna eða grunninn og hafizt aðgerða, miklum sandi dælt og annað slíkt gert, sem menn gátu ætlað að mundi verða skjótt framhald á, að á grunninum risi upp verksmiðjubygging. Svo rétt eftir kosningarnar kom í ljós, að það var eitthvert babb komið í bátinn eða hafði jafnvel verið komið áður hvað lánveitingar snerti hjá þeirri stofnun, sem ríkisstjórnin fyrst og fremst virðist snúa sér til um að fá lán hjá. Það var ekki annað að sjá eða annað að heyra á þeim upplýsingum, sem fram komu hér á Alþ. í fyrra, en að ríkisstj. hefði verið sett þau skilyrði frá hálfu Alþjóðabankans, að sementsverksmiðja ríkisins, sem ákveðið hafði verið að byggja með lögum, skyldi ekki verða sementsverksmiðja ríkisins, heldur sementsverksmiðja einkaaðila, og að Alþjóðabankinn mundi ekki veita lán til þessarar verksmiðju, nema því aðeins að hún væri í eign einstakra aðila. Þegar við heyrðum, að þessi skilyrði hefðu verið sett, bar ég strax fram hér á Alþingi fsp. um það, hvort þetta væri rétt og aldrei var því mótmælt af hálfu hæstv. ráðherra. Og okkur, sem könnumst við, hvernig farið var að viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni eða átti að fara með hana, er það alveg ljóst, að hér er um „prinsip“-mál að ræða frá hálfu ameríska auðvaldsins, sem beitir áhrifum sínum í Alþjóðabankanum í þá átt að tryggja, að hér á Íslandi skapist, hvað sem það kostar, voldugir auðdrottnar, sem eigi stærstu fyrirtækin í landinu og fái féð að láni frá ríkinu til þess að eignast þau. Hvað sem er um lög og vilja Alþingis og þjóðarinnar, þá á að sveigja íslenzkt þjóðskipulag undir einkaauðmagnið á þann hátt að gera fyrirtæki, sem Íslendinga hefur aldrei dreymt um að ætti að verða einstakra manna eign, að eign örfárra manna. Nú hins vegar, öfugt við það, sem var með áburðarverksmiðjuna, vill svo til, að ríkisstj. hefur ekki gefizt upp í þessu máli, hún hefur enn sem komið er ekki beygt sig fyrir þessum skilyrðum Bandaríkjanna, hún hefur ekki einu sinni almennilega þorað að viðurkenna, að slík skilyrði hafi verið sett, og hún virðist enn þá vera að reyna að fara samningaleiðina við Alþjóðabankann um að falla frá þessum skilyrðum.

Hins vegar virðist málið tefjast af þessum sökum, og það er engu líkara en hæstv. ríkisstj. vilji láta það í veðri vaka gagnvart þjóðinni, að það sé ekki hægt að byggja þessa sementsverksmiðju öðruvísi en að Alþjóðabankinn leyfi það, þ. e. a. s., rétt eins og okkar forfeður fyrir aldamótin urðu enn þá að biðja Danakonung um að undirskrifa leyfi um það, hvort við mættum byggja brú á Ölfusá fyrir okkar eigin peninga, eins virðist nú þurfa að biðja auðdrottnana í New York um leyfi, hvort við megum gera ráðstafanir til þess að koma upp sementsverksmiðju hér á Íslandi, ekki sé hægt að gera það, svo framarlega sem þeir leggjast á móti því.

Nú álít ég, að það sé ekki nóg, að hæstv. ríkisstj. þæfi þetta mál á þennan hátt. Ég álít réttara, að hún hætti að líta þannig á eins og hvergi séu möguleikar til að fá lán eða koma upp verksmiðju, nema því aðeins að Alþjóðabankinn leyfi slíkt og láni til slíks. Það er engum efa bundið, að það er hægt að fá lán víðar en í Ameríku, og það er hægt að fá lán annars staðar, svo framarlega sem það ekki fæst þar. Ég býst við, að í auðvaldslöndum Vestur-Evrópu sé meira að segja hægur vandi að fá lán til sementsverksmiðju, ef að því er unnið, og álít ég sjálfsagt meðal annarra möguleika að athuga þann kost. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, og við flm. þessarar till., að bezt sé fyrir þjóðarbúið, þegar það leggur í fyrirtæki eins og t. d. sementsverksmiðjuna, ef það hafi kost á því að vinna sér sjálft fyrir þeim útlenda gjaldeyri, sem þarf til þess að byggja slíka verksmiðju. Ég veit, að hvað viðskiptamöguleika snertir er hægt fyrir okkur Íslendinga að selja miklu meira af fiski en við höfum gert undanfarið til Austur-Þýzkalands. Það gekk að vísu mjög treglega að fá þá samninga í gang, og sú tregða stafaði af óvilja þeirrar ríkisstj., sem hér sat að völdum eftir 1950, á því að taka upp viðskipti við það land. Það hefur hins vegar sýnt sig, að þau viðskipti, sem að lokum hafa verið knúin í gegn hafa veríð mjög hagstæð fyrir Íslendinga, að við fáum ekki aðeins með því hæsta fiskverðið, sem við yfirleitt fáum í heiminum, heldur fáum við yfirleitt mjög góðar vörur á móti með mjög sæmilegu verði. Nú er það eitt einkenni á Austur-Þýzkalandi, að þess sérstaða sem framleiðendalands véla er alveg einstök í heiminum, þ. e. a. s. þetta land leggur alveg sérstaklega vinnuafl sitt í það að vinna úr járni og stáli hvers konar vélar, og það er vitanlegt, að það er hægt að fá vélar, svo sem í sementsverksmiðju, í Austur-Þýzkalandi í skiptum fyrir fisk. Okkur, sem störfuðum að því eftir styrjöldina að reyna að byggja okkar atvinnulíf upp þá, hefði þótt það stórkostlegur fengur á þeim tímum, þegar óhugsandi var að fá stál og vélar fyrir fisk, að geta sætt slíkum kostum, og ég álit, að það sé enn. Ég álít, að það væri hagkvæmara fyrir okkar þjóðarbúskap að kaupa inn fyrir okkar fisk vélar, svo sem í sementsverksmiðju, heldur en allt það glingur, sem núna er flutt í landið, þó að ég skuli hins vegar viðurkenna, að máttarstólpar Sjálfstfl. muni græða meira á þeim innflutningi, sem þannig fer fram, heldur en á því að kaupa vélar í sementsverksmiðju. Ég hef enn fremur orðið var við það í umr., sem ég hef átt í fyrir aðila hér heima — hraðfrystihús, að það er möguleiki á því að gera slíka viðskiptasamninga við Austur-Þýzkaland, að semja um kaup á vélum gegn 3–5 ára lánsfresti og gera um leið samning um að greiða í fiski á jafnlöngum tíma. Ég skal ekkert fullyrða viðvíkjandi lántöku í sementsverksmiðju, af því að slíkt hefur ekki verið athugað, en ég veit, að þessir möguleikar eru til með aðrar vélar, sem athugað hefur verið um.

Vélar í sementsverksmiðju mundu varla kosta meira en það, sem svarar andvirði 1000 tn. af hraðfrystum fiski á ári í 5 ár. Og þegar það er vitað, að við Íslendingar getum framleitt og selt ekki aðeins 10 þús. tn. meira en við höfum gert, heldur 20–30 þús. tn. meira en við höfum gert undanfarið af freðfiski á ári, þá er auðséð, að fyrir okkar þjóðarbúskap er það ekkert verulegt átak að kaupa inn og greiða á 4–5 árum í fiski t. d. vélar í sementsverksmiðju. Ég álít, að við eigum að setja okkur það, þegar við erum að byggja upp atvinnulífið í okkar landi, að gera það að eins miklu leyti og okkur er frekast fært með íslenzku fjármagni og greiða með íslenzkum afurðum, íslenzkum fiski þær vélar og þau útlend efni. sem við þurfum að kaupa. Við vitum ósköp vel, að það getur verið þægilegra, ef á því eru tök, að taka gífurleg lán, lán máske líka til þess að borga vinnuaflið hér innanlands, en við vitum líka, að slík lán kosta okkur 5, 6 upp í 7%, og þegar þau eru tekin á hinum svokallaða frjálsa markaði, þýða þau venjulega um leið, að við verðum á einn eða annan hátt að afla okkur dollara til þess að geta greitt í slíkri frjálsri mynt, og það er þess vegna undir hælinn lagt, eins og markaðshorfur eru í þeim löndum, hvort við getum aflað okkur slíks, og við munum enn þá, hvað útlendar skuldir voru okkur þungbærar á tímanum 1930–40. Við álítum a. m. k. fulla ástæðu til þess að ýta undir það, að þjóðin vinni sér sem mest fyrir þeim vélum, sem hún kaupir erlendis frá, ef það er hægt með sæmilegu móti. Hitt mundi hins vegar þýða, að spurningin um fjármagnsöflun hér innanlands yrði að takast miklu alvarlegar en gert hefur verið fram að þessu. Á þeim málum hefur nú á síðustu 7–8 árum yfirleitt varla verið tekið alvarlega. Það hefur alltaf verið hopað þar undan þeirri tregðu, sem verið hefur um verulega stórfelld lán hér innanlands í því sambandi.

Þessi þáltill. fer þess vegna fram á. að ríkisstj. sé falið að leita fyrir sér eða láta leita fyrir sér við stjórn Austur-Þýzkalands, Deutsche demokratische Republik, um slíka möguleika eins og ég nú hef getið um. Enn fremur er bætt þar við, að rétt sé að athuga um slíka möguleika á vélum til fyrirhugaðra raforkuvera. Ég veit, að það gildir að ýmsu leyti það sama um þetta. Og ég veit, að það er sagt við alla þá, sem áhuga hafa, hvort heldur fyrir sementsverksmiðjunni eða raforkuverunum, að framkvæmdastjóri Framkvæmdabankans sé í sífelldum ferðalögum. Hann er alltaf að fljúga út í hvert einasta skipti sem nefndirnar héðan úr Reykjavík eða utan af landi koma til þess að spyrja um, hvernig gangi um lán. Ýmist er hann nýkominn úr för og tilkynnir, að því miður hafi ekkert gengið enn þá, eða hann er rétt að fara út til þess að koma aftur með einhver svipuð svör. Ég held, að þegar þannig gengur, sé rétt fyrir okkur að athuga alla möguleika. Í þessari þáltill. er ekkert fullyrt um, hvað taka skuli, en ef þeir möguleikar væru fyrir hendi að fá lán til nokkurs tíma, að geta samið um greiðslu á slíkum vélum í fiski og að geta jafnvel fengið eins góða eða lægri vexti en við annars hefðum getað fengið, þá held ég, að það sé rétt að athuga slíkt. Ég vil þess vegna leyfa mér að óska þess, að þessari umr. verði nú frestað og þessu máli vísað til hv. fjvn. til skjótrar fyrirgreiðslu.