10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í D-deild Alþingistíðinda. (2784)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv., sem er fyrsti flm. þeirrar till., sem hér liggur fyrir, lét þess getið í sinni framsöguræðu, að þegar flokkur hans, Sjálfstfl., hefði tekið sæti í ríkisstj. 1939, hefði hann átt þátt í því, að bifreiðaeinkasalan var afnumin, og hv. þm. vildi einnig láta á sér skilja, að alla tíð síðan hefði Sjálfstfl. stefnt að því að gera innflutning á bifreiðum og öðrum innfluttum varningi sem frjálsastan.

Það verður erfitt að skilja, eftir þessa yfirlýsingu hv. 5. þm. Reykv., hvernig á því stóð, að Sjálfstfl. gaf ekki frjálsan innflutning á bifreiðum á árunum 1944–45, þegar hann hafði forsæti í ríkisstj. og viðskmrh. var einnig úr þeim flokki. Framan af því tímabili mun þó gjaldeyriseign landsmanna hafa verið meiri en á nokkrum tíma öðrum. Hv. 5. þm. Reykv. segir að vísu, að þá hafi mátt heita. að innflutningurinn væri frjáls, en hann var það ekki. Það þurfti ætíð innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir bifreiðum á þeim árum til þess að geta keypt þær.

Hv. 5. þm. Reykv. segir, að það hafi verið mjög aukið viðskiptafrelsi þegar fjárhagsráð var lagt niður fyrir tæpu ári. Ég held, að það rétta í málinu sé, að sá frílisti, sem gilti síðast, áður en fjárhagsráð hætti störfum, var endurprentaður, þegar innflutningsskrifstofan tók til starfa, svo að segja óbreyttur.

Þá segir 5. þm. Reykv., að framsóknarmenn hafi ekki viljað fallast á till. sjálfstæðismanna á þessu ári um að gefa bifreiðainnflutning frjálsan. Hér þarf að koma að leiðréttingu. Sjálfstæðismenn lögðu aldrei fram neina till. um ráðstafanir til þess að gera innflutning bifreiða frjálsan, því að það eitt út af fyrir sig er ekki nóg að setja bifreiðar á frílista, ef engin trygging er fyrir því, að menn geti fengið gjaldeyri til þess að kaupa þær fyrir.

Nú segir hv. 5. þm. Reykv., að það sé ekki líklegt, að fleiri bifreiðar hefðu verið fluttar inn í ár, þó að innflutningurinn hefði verið gefinn frjáls, sem hann nefnir svo. En ef hann trúir þessu og ef bankastjórarnir yfirleitt trúa þessu, að óskum manna um yfirfærslur til kaupa á bifreiðum muni ekki fjölga, þó að allir, sem vilja, geti fengið bifreiðar, þá ætti ekki að standa á þeim að gefa yfirlýsingu um það, að þeir muni hindrunarlaust selja öllum erlendan gjaldeyri, sem óska að fá bifreiðar, og þá ætti að vera hægt að leysa málið á einfaldan hátt.

Hv. 5. þm. Reykv. segir að vísu, að sama regla ætti að gilda um bifreiðar og aðrar frílistavörur. Um þetta er nú það að segja, að ýmsir, sem við kaupsýslu fást, kvarta oft um það, að örðuglega gangi að fá gjaldeyri til greiðslu á vörum, sem eru á frílista.

Ég flyt brtt. á þskj. 139 við þá till., sem hér er til umr. Brtt. mín er um það, að um leið og bifreiðainnflutningur til landsins verður auglýstur frjáls, skuli tryggja, að bankarnir selji öllum, er þess óska, erlendan gjaldeyri til kaupa á bifreiðum.

Til þess að geta keypt varning frá öðrum löndum þurfa menn að eiga þess kost að fá erlendan gjaldeyri í skiptum fyrir íslenzka peninga, en hér á landi er ekki frjáls gjaldeyrisverzlun. Landsbankinn og Útvegsbankinn hafa einir rétt til að verzla með erlendan gjaldeyri. Hann fæst ekki keyptur með löglegu móti annars staðar en hjá þessum tveimur bönkum. Af því leiðir, að ekki er hægt að telja að innflutningur á vörum sé frjáls, nema menn geti fengið þann gjaldeyri, sem til kaupanna þarf, hindrunarlaust hjá bönkunum. Annars er innflutningurinn ekki frjáls. Það eitt er því ekki nóg til þess að gera bifreiðainnflutninginn frjálsan, að ríkisstj. gefi út tilskipun um, að bifreiðar skuli settar á svonefndan frílista. Slíkt kemur almenningi ekki að gagni, nema málunum sé um leið þannig skipað, að allir, sem vilja og hafa til þess íslenzka peninga, geti fengið keyptan þann erlenda gjaldeyri, sem til bifreiðakaupanna þarf. Þetta þarf að tryggja, til þess að innflutningurinn verði raunverulega frjáls, og að því lýtur brtt. mín.

Ég vænti þess, að sú hv. þingnefnd, sem væntanlega fær málið til meðferðar, taki brtt. mína til athugunar samhliða aðaltill.

Eins og ég sagði áður, er líklegt, að það takist að leysa málið, ef bankastjórarnir í þeim bönkum, sem einir hafa rétt til að verzla með erlendan gjaldeyri, trúa því, eins og sá þeirra, sem hér talaði áðan, virðist gera, að innflutningur á bifreiðum muni ekki verða meiri, þó að hann verði raunverulega frjáls, heldur en hann er nú, þegar þarf að fá innflutnings- og gjaldeyrisleyfi til innflutnings á bifreiðum. Ef þeir trúa þessu, þá ætti ekki að standa á þeim að gefa fullnægjandi yfirlýsingar í því efni, að þeir mundu viðstöðulaust selja öllum gjaldeyri til kaupa á bifreiðum, sem þess óskuðu, og þar með væri vandinn leystur.

En um leið og um það er rætt að gera innflutning á bifreiðum frjálsan, er ekki óeðlilegt, að tekið sé til umhugsunar, hvort ekki sé mögulegt að leysa innflutningshöft á fleiri vörum. Ég vil t. d. nefna skip. Íslendingar þurfa árlega að eignast ný skip af mismunandi stærðum, bæði fiskiskip og flutningaskip, í stað þeirra, sem ganga úr sér, og einnig til aukningar á skipastólnum. En innflutningur á skipum er ekki frjáls, og margir hafa orðið fyrir því, að þeim hefur verið neitað um innflutningsleyfi fyrir skip. Fleira má nefna, sem allir eru sammála um að telja til nauðsynja. T. d. er ekki heimilt að flytja inn ýmsar tegundir byggingarefna, svo sem timbur og sement o. fl., nema að fengnu innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. Mætti vel taka þetta til athugunar í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir, og vil ég beina því til þeirrar hv. n., sem till, fær.