17.11.1954
Sameinað þing: 15. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í D-deild Alþingistíðinda. (2792)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að þessari till. verði vísað til n., en vil nú segja nokkur orð, áður en umr. verður frestað, til ábendingar fyrir þá n., sem væntanlega fær málið til meðferðar.

Eins og kunnugt er, hafa innflytjendur vara þrjá löglega möguleika til að afla sér erlends gjaldeyris til vörukaupa: Í fyrsta lagi þann að flytja inn vörur, sem eru á svonefndum óskilorðsbundnum frílista, í öðru lagi að flytja inn vörur, sem eru á svonefndum skilorðsbundnum frílista, sem venjulega er nefndur bátagjaldeyrislisti, og í þriðja lagi fá innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir vörum, sem innflutningsskrifstofan hefur með höndum að úthluta. Það er allmargt af vörum, sem er ekki hægt að fá gjaldeyri fyrir nema með því aðeins að afla sér slíkra leyfa hjá innflutningsskrifstofunni. Ætla ég, að útgáfa slíkra leyfa hafi um síðustu mánaðamót verið rúmlega 300 millj. kr., líklega um 330 millj. kr., það sem af er þessu ári.

Nú liggur fyrir till. um að skora á ríkisstj. að auka frílistann og bæta á hann bifreiðum eða gefa innflutning bifreiða frjálsan, sem kallað er. Menn greinir nú að vísu á um það, — og hefur það komið fram í þessum umræðum, — hversu mikla breytingu hér sé um að ræða, hversu miklu það muni til að greiða fyrir innflutningnum, að varan sé sett á frílista í stað þess að vera háð innflutningsleyfum. En ég ætla ekki að ræða það atriði málsins. Það, sem ég vildi minnast á til sérstakrar ábendingar fyrir þá n., sem fær málið til meðferðar, er það, að þegar till. eru uppi um að setja bifreiðar á frílista, þá vaknar sú spurning óhjákvæmilega, hvort ástæða kunni að vera til þess að setja fleiri vörur á frílista, sem nú eru háðar leyfum, og hvort bifreiðar eigi þá að ganga fyrir öllum öðrum vörum, sem nú eru háðar leyfum. Þetta vildi ég sérstaklega biðja hv. n. að athuga.

Ég hef verið að kynna mér það nokkuð, hvaða vörur það séu, sem enn þá eru háðar innflutnings- og gjaldeyrisleyfum. Í því efni mun að vísu lítil breyting hafa orðið síðasta árið. Þær vörur eru nú allmargar, sem er ekki hægt að flytja inn, nema innflutningsskrifstofan veiti leyfi til þess, og skal ég ekki lesa upp þann lista, heldur nefna aðeins nokkrar, sem mér sérstaklega komu í hug í sambandi við þetta mál.

T. d. er innflutningur á ýmsum helztu byggingarefnum, svo sem timbri og sementi og steypustyrktarjárni, háður leyfum; þakjárn er aftur á móti á frílista. Innflutningur á skipum og bátum er háður leyfum og sömuleiðis innflutningur hvers konar mótorvéla, bæði mótorvéla í skip og annarra mótorvéla. Ég vil nefna beltisdráttarvélar og krana. Innflutningur þeirra vara er háður leyfum. Ég vil líka nefna vörutegund, sem maður heyrir nú ákaflega oft talað um og víða er mikill áhugi fyrir að flytja inn, saumavélar; innflutningur þeirra er háður leyfum. Þá skal ég nefna vöruflokka eins og vélar til vatnsvirkjana, lækningatæki ýmiss konar og þess háttar; þessar vörur eru allar háðar leyfum eða innflutningur þeirra.

Í sambandi við það, að þessari till. verður nú væntanlega vísað til nefndar, vildi ég mælast til þess við nefndina, að hún kynnti sér þetta mál á nokkuð víðari grundvelli, kynnti sér það, hvaða vörur eru nú undir leyfum, sem kallað er, aðrar en bifreiðar, og gerði það þá upp við sig, ef hún vill leggja til að setja bifreiðar á frílista, hvort ekki sé þá ástæða til þess að setja fleiri vörur á frílista, t. d. einhverjar af þeim, sem ég nú hef nefnt. Vildi ég mælast til, að hún afgreiddi ekki málið fyrr en hún hefði kynnt sér þessa hluti. Ég tel þess vera fulla þörf.