22.10.1954
Sameinað þing: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í D-deild Alþingistíðinda. (2842)

40. mál, vegaframkvæmdir í afskekktum landshlutum

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Við fjórir þm. höfum leyft oss að bera fram hér þáltill. á þskj. 42 um, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að hinum afskekktari héruðum landsins verði framvegis séð fyrir meiri og hentugri vegavinnuvélum en verið hefur til samræmis við vinnuvélakost í hinum fjölhyggðu héruðum svo og að vegagerðir og vegaviðhald megi verða sem örast og ódýrast; enn fremur að opnun vega í héruðunum til almennrar umferðar og vega- og brúaframkvæmdir almennt verði hafnar svo snemma á ári hverju sem frekast er kostur á, þannig að samgöngurnar megi koma að sem beztum notum fyrir íbúana. Skal ég gera hér allýtarlega grein fyrir því, hvers vegna við teljum nauðsynlegt, að slík ályktun verði samþ. hér á Alþingi.

Um fjöldamörg undanfarin ár hefur jafnan verið sett inn á 13. gr. fjárlagafrv., undir H, ein ákveðin upphæð til nýrra akvega í landinu. Þessi upphæð mun hafa verið á síðustu fjárlögum um 10 millj. kr. Hefur margoft verið um það rætt, hvort ekki mundi eðlilegra og betra í alla staði að láta þá, sem fara með stjórn vegamálanna í landinu, ákveða það, hvernig þessu fé yrði í framkvæmdinni varið til hinna einstöku vega, heldur en að láta Alþ. ákveða þetta. Þeir, sem hallazt hafa að því, að slíkt mundi í alla staði heppilegra, byggja þá skoðun sína einkum á því, að með því fyrirkomulagi sýnist vera mögulegt að fá meiri og betri árangur í sambandi við nýbyggingu veganna, þar sem þá væri unnt að taka fyrir stærri verkefni á einu svæði í stað þess að dreifa framkvæmdunum árlega út um byggðir landsins, eins og nú er gert, og ná með þessu betri árangri í vegaframkvæmdum. Þrátt fyrir þessi rök hefur niðurstaðan jafnan orðið sú, að þessu fé hefur verið skipt á Alþ. á hverju ári niður á hina ýmsu vegi í landinu og oft sáralitlum upphæðum á hvern veg.

Það má geta nærri, hvort rökin með og móti þessu skipulagi hafi ekki verið þráfaldlega vegin og metin, svo oft sem það hefur borið hér á góma á Alþ., eða hvort það sé nokkur hending, að hv. þingmenn hafa ávallt komizt að einni og sömu niðurstöðu um þetta atriði. Hitt er sönnu nær, að vegakerfið er meginskilyrði fyrir lífvænlegri afkomu í byggðum landsins, og því verður að tryggja það með alveg ófrávíkjanlegum ákvæðum í sjálfum fjárlögunum, hvar og á hvern hátt þessu fé sé varið. Sú harða barátta, sem á hverju þingi er háð um framlagið til veganna og skiptingu þess, undirstrikar enn betur en nokkuð annað þessi sannindi. Eftir að búið var að byggja upp samgöngukerfi í ákveðnum héruðum landsins þannig, að bifreiðar af öllum tegundum, smáar sem stórar, gátu farið um þau hindrunarlaust allt árið, og hægt var að treysta þeim svo, að leggja mátti niður að fullu og öllu önnur úreltari og óheppilegri og dýrari flutningatæki, fóru íbúarnir að sjálfsögðu að laga sig eftir hinum nýja og betri tíma, tóku véltæknina meira og meira í sína þjónustu og juku þannig afköstin þrátt fyrir sílækkandi fólkstölu við framleiðslustörfin. Héruðin, sem ekki fengu þessar framfarir jafnört og aðrir, urðu raunverulega eins og ósamstætt hjól, sem á engan hátt féll inn í hina margþættu og þaulhugsuðu véltækni, og voru því dæmd úr leik í kapphlaupinu um betri lífskjör. Hefur hv. fjvn. jafnan haft á þessu fullan skilning og því reynt að jafna hér metin, eftir því sem ástæður hafa leyft á hverjum tíma. Þegar svo hv. fjvn. hefur lokið þessu sínu hlutverki á Alþ. og Alþ. samþykkt till. hennar, breyttar eða óbreyttar, eftir því sem efni hafa staðið til á hverjum tíma, eru framkvæmdirnar faldar þeim mönnum, sem fara með vegamálin og hafa á þeim alla stjórn, þ. e. þeim aðilum, sem hvað eftir annað hefur verið rætt um að fela að fullu og öllu valdið til þess að ákveða gang þessara mála án íhlutunar Alþingis, að því er snertir skiptingu vegafjárins.

Samfara þeim framlögum, sem ég hef þegar minnzt á og nema á þessu ári um 10½ millj. kr. og skipt hefur verið á Alþ. í 184 vegi, mismunandi upphæðir á hvern veg, eru á sömu gr. fjárlaganna ákveðnar 20.5 millj. kr. til viðhalds þjóðvegum og þessu fé ekki skipt af Alþ. til ákveðinna vega. Væri þó á engan hátt óeðlilegt, að svo væri til tryggingar því, að nokkurt hlutfall héldist á milli nýrra vega og viðhalds, en út í það skal ekki farið hér að þessu sinni.

Þá er einnig ákveðið á sömu gr. fjárlaganna að verja á þessu ári 600 þús. kr. til áhalda- og vinnuvélakaupa án þess að taka nokkuð til um það, hvaða vegir skuli njóta þeirra.

Nú er það ljóst, að eftir því sem betri og hentugri áhöld og vinnuvélar eru notaðar við vegaframkvæmdir, hvort heldur um er að ræða við nýbyggingu vega eða viðhald þeirra, eftir því er hægt að afkasta meira verki fyrir sömu fjárhæðir. Er því ljóst, að þeir vegir, sem njóta þeirra hlunninda hjá vegamálastjórninni að hafa jafnan afkastamesta, nýjasta og bezta vegavinnuvélakostinn og fá þannig margfalt meiri og betri afköst fyrir sama fjárframlag, hafa á þennan hátt raunverulega farið langt fram úr hinum, sem verða að búa við hin lélegustu tæki, þó að báðum hafi verið gert jafnhátt undir höfði af fjárveitingavaldinu, sem gerði sér far um að skilja ástæðurnar, meta þær og vega, og felldi síðan dóm sinn beinlínis byggðan á þeirri athugun og þeim rökum, sem fyrir lágu. Hér tekur framkvæmdaraðilinn sér vald, sem gengur í allt aðra átt en Alþ. ætlast til, og það er einmitt fyrir þessa rás viðburðanna, að þáltill. sú, sem hér er til umræðu, er fram komin.

Oss flm. er fullkomlega ljóst, að vegamálastjórnin telur meginorsökina fyrir því, að svona er farið að, liggja í því, að ekki hafi verið lagt fram nægilegt fé til þess að fullnægja allri þörf um vélakost, og það sé því neyðin ein, sem knýr inn á þessa braut. En bæði er það, að það má á engan hátt mismuna hér í skiptingu vegavinnuvélanna af þessum ástæðum einum, svo sem verið hefur, auk þess sem það verður þá að takast til alvarlegrar athugunar að hækka framlag til kaupa á vinnuvélum og binda þá hækkun því skilyrði að láta hana jafna metin, en senda ekki sí og æ hin úreltu tæki til afskekktra staða, á sama tíma sem hin nýju og betri eru staðsett í fjölbýlinu.

Ég þykist vita, að hv. þingmenn vildu gjarnan fá nokkru nánari upplýsingar um þessi mál en ég hef enn gefið eða gefin eru í grg. fyrir þessari þáltill., og er það ekki nema rétt og sanngjarnt. Er það og rétt, að n. sú, sem væntanlega fær þáltill. til athugunar, leiti sér þeirra upplýsinga hjá vegamálastjórninni, áður en hún afgreiðir till. frá sér, og fái þar jafnframt till. um það, hvernig bæta skuli úr þessu misræmi. En n. til leiðbeiningar þykir mér þó rétt að taka þetta fram:

Þeim vegavinnuvélum, sem hér um ræðir, má skipta í eftirfarandi flokka: 1) jarðýtur, 2) veghefla, 3) ámokstursvélar, 4) bifreiðar og 5) skurðgröfur. Skal nú gera nokkru nánari grein fyrir því, hvernig þessi vélakostur hefur verið að undanförnu í þeim héruðum, sem ég þekki bezt til í, og ég hygg, að það megi líta á það sem meðalástand í þessum málum í flestum hinum afskekktari héruðum landsins, einmitt þeim héruðunum, sem langmesta þörfina hafa fyrir bezta vélakostinn og mesta hagnýtingu á því framlagi, sem þeim er ætlað. Skal þá fyrst athugað um jarðýturnar.

Í Vestur-Barðastrandarsýslu hefur vegagerðin aðeins átt eina jarðýtu. Hefur ýta þessi verið af hinni ágætustu tegund, 18 smálestir að stærð og hið stórvirkasta áhald þar um slóðir. Þegar frá eru talin þau mistök, sem hafa stafað af því, að viðhaldið hefur ekki verið sem skyldi, má fullyrða, að einmitt þetta góða áhald hefur mjög létt undir hinni erfiðu vegagerð í þessu héraði. En það er sýnilegt hverjum manni, að eitt slíkt áhald gat ekki komizt yfir þau verkefni, sem þar lágu fyrir á hverju ári. Því er það, að vegagerðin hefur orðið að leigja tvær aðrar ýtur á þessu svæði, eina 14 smálesta, sem sýslan hefur lánað, þegar hún hefur getað misst hana frá öðrum störfum. Hefur þá oft orðið að senda þetta verkfæri alla leið austur í Austur-Barðastrandarsýslu, og eru þetta þó engin heimatök, því að þá þarf að fara yfir marga erfiða og langa fjallvegi. Hina aðra ýtu, sem er miklu minni og er eign Rauðasandshrepps, hefur vegagerðin einnig orðið að taka á leigu, þegar hún er ekki notuð af hreppnum sjálfum til jarðræktar og til sýsluvegagerðar heima í héraði. Allt hefur þetta þó baslazt, þótt mikil nauðsyn hefði verið á betri ýtukosti. Hins vegar bættust við í sumar á þessum leiðum tvær ágætar ýtur, sem vegagerðin hefur einnig leigt til starfa þar, svo að úr þessu var mjög verulega bætt á þessu ári. Er þó jafnframt nauðsynlegt, að ekki verði dregið úr þessum vélakosti í framtíðinni, hver svo sem er eigandi áhaldanna. En í Austur-Barðastrandarsýslu hefur hins vegar verið allmiklu lakara um ýtukost. Þar hefur vegagerðin aldrei átt neina ýtu, en haft á leigu ýtu, sem aðrir hafa átt, og verið að öllu leyti upp á þá menn komin með þetta áhald. Ég held, að ég megi alveg fullyrða, að það er einungis fyrir alveg óvenjulega samúð og skilning á þörf héraðsins fyrir samgöngubætur, að ekki hafa orðið hér mikil vandræði af ýtuleysi á þessum slóðum. Og það er engan veginn áhættulaust að tefla þannig á tæpasta vað í framtíðinni.

Þá skal ég nokkuð ræða um vegheflana. Þótt nokkuð mætti gagnrýna ýtukostinn, svo sem ég hef hér gert og þá jafnframt reynt að bera í bætifláka, þá verður þetta ekki eins auðvelt, þegar ræða skal um þá tegund vegavinnuvéla, sem nefnd er vegheflar. Um langan tíma hafa þetta þótt alveg ómissandi verkfæri, bæði í sambandi við viðhald og jafnvel einnig í sambandi við vegagerð, þar sem sætta verður sig við ruðningsvegi, svo sem gert er í hinum afskekktari héruðum landsins til þess að komast yfir sem stærst svæði. Sést það líka bezt hér á Suðurlandi, þar sem varla er unnt að fara svo marga tugi kílómetra að sumri til og oft einnig að vetrinum, að maður verði ekki var við tvo hefla á veginum, sem elta hvor annan, og báðir af nýjustu og beztu gerð. Þegar svo er litið yfir Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, Dalasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu, þá kemur í ljós, að á öllu þessu svæði er bókstaflega enginn veghefill staðsettur, heldur verða þessi héruð að sækja þessi veraldargæði alla leið til Borgarness, þar sem vegamálastjórninni hefur af náð sinni þóknazt að staðsetja þá, þrátt fyrir sífelldar umkvartanir frá fyrrnefndum héruðum. Mér er ekki heldur kunnugt um, að Norður-Ísafjarðarsýsla hafi yfir að ráða slíkri vél, heldur verði hún einnig að sækja til Borgarness veghefil fyrir vegi þá, um Þorskafjarðarheiði og Inndjúpið, sem liggja beint í sambandi við þær sýslur, sem ég þegar hef rætt um.

Lágmarkskrafa þessara héraða hlýtur að verða, að hver sýsla fái minnst 1–2 veghefla af beztu gerð, sem staðsettir séu í héraðinu, þ. e. í Stykkishólmi, Búðardal og Króksfjarðarnesi, en hefill í Króksfjarðarnesi gæti þá jafnframt verið notaður fyrir vegagerð um Þorskafjarðarheiði og Ísafjarðardjúp að innanverðu, eða þá vegi, sem standa í beinu sambandi við Barðastrandarsýsluna.

Þrátt fyrir þetta ástand, sem ég hef hér lýst í sambandi við vegheflana í þessum sveitum og ég hygg að enginn geti haldið fram með nokkurri sanngirni að sé viðunandi, þá kastar þó alveg tólfunum, þegar kemur vestur í Vestur-Barðastrandarsýslu. Í þeirri sýslu hefur í 2–3 s.l. ár verið staðsettur einn veghefill á Patreksfirði. Það svæði, sem honum er ætlað að vinna á, er frá Trostansfirði um Suðurfirði, Bíldudal og að Selárdal í Ketildölum, eða um 45 km; frá Bíldudal um Hálfdan og Mikladal til Patreksfjarðar, eða um 30 km, og hér er yfir tvö fjöll að fara í allt að 500 m hæð; frá Bíldudalsvegi að Sellátrum í Tálknafirði, um 25 km; frá Patreksfirði til Breiðuvíkur, um 50 km, hér einnig yfir fjall að fara; frá Hvalskeri á Rauðasandi, um 25 km, hér einnig yfir fjall að fara; frá Patreksfjarðarósum um Barðaströnd, yfir Þingmannaheiði og Klettháls að Kollafirði, um 140 km, hér er einnig yfir þrjá mjög erfiða fjallgarða að fara, í allt að 450 m hæð. Er svæðið, sem þessum hefli er ætlað að fara yfir, alls rúmlega 300 km að lengd. En þessi saga er þó ekki öll sögð enn, því að áhald þetta mun hafa verið flutt hingað til landsins skömmu eftir aldamótin síðustu og nálgast þá að vera hálfrar aldar gamalt, auk þess sem það hefur að sjálfsögðu aldrei verið gert fyrir fjallaferðir. Má það furðulegt heita, að það skuli geta komið fyrir, að slíkt áhald sé sent til að vinna með í afskekktum sveitum, eftir að engum manni kæmi til hugar að nota það lengur í fjölbýlinu, þótt þar fyrirfyndist ekkert fjall og engar hæðir. Slíkir gripir eiga nú orðið einungis heima í byggðasöfnum, en ekki á erfiðum fjallvegum í dreifbýli landsins.

Í þriðja lagi eru ámokstursvélar. Það mun sjálfsagt fáum láta sér koma til hugar nú orðið að komast af með að moka ofaníburði á bifreiðar með handskóflum. ef um nokkurt magn er að ræða. Í Vestur-Barðastrandarsýslu er ástandið þannig, að hjá vegagerðinni eru fyrir hendi aðeins tvær slíkar vélar og önnur af lélegustu gerð. Hin skárri á að fullnægja vegagerð og viðhaldi í 5 vestustu hreppum sýslunnar og fara þannig yfir 5 fjallgarða. Á s.l. sumri var á þessu svæði unnið fyrir um 600 þús. kr. auk vegaviðhalds. Má nærri geta, hversu hefur torveldað framkvæmdirnar að hafa ekki nema eina ámokstursvél við þetta verk, enda er það svo, að annaðhvort verður að moka á bifreiðarnar með höndunum, þegar um er að ræða viðhald og smærri framkvæmdir. eða láta þessi verk bíða, þar til komið er langt fram á sumar, en við það eru verkin gerð margfalt dýrari og vegirnir viðhaldslausir fram á haust. Má öllum vera ljóst, hversu þetta er gersamlega óþolandi. Hinni ámokstursvélinni, sem er, eins og ég sagði áðan, af lélegustu gerð, er ætlað að moka allan ofaníburð á veginn frá Kleifaheiði að vestan í Kollafjörð að austan, eða á svæði, sem nær yfir um 130 km.

Í Austur-Barðastrandarsýslu er aðeins ein ámokstursvél, sem ætluð er fyrir svæði, er nær yfir nokkuð á annað hundrað km. Hefur þessi skortur ámokstursvéla í þessum landshlutum bæði tafið framkvæmdir stórkostlega og gert þær auk þess margfalt dýrari en ella.

Þá ætla ég að ræða nokkuð um bifreiðarnar. Vegagerðin mun að jafnaði ekki eiga þær bifreiðar, sem notaðar eru til vegagerðar, heldur leigja þær af öðrum, eða svo mun a. m. k. vera í því héraði, er ég þekki til. Út af fyrir sig er heldur ekkert við því að segja, sé það tryggt, að einhver jöfnuður sé hér á hafður um gæði þeirra bifreiða, sem til þess verks eru leigðar, en á því mun vera mikill misbrestur. Hefur fjölbýlið haft hér sem víðar öll forréttindi og því jafnan fengið bezta bifreiðakostinn. Á þessu á þó vegagerðin síður en svo alla sök, heldur liggur hún miklu frekar hjá innflutningsyfirvöldunum, sem um mörg undanfarin ár hafa harðneitað hinum afskekktu héruðum um nauðsynlegan innflutning á bifreiðum til vegavinnu þar í sveitum, á meðan þau hafa hrúgað bifreiðum inn í fjölbýlið með þeim árangri, að afskekktu sveitirnar hafa orðið að sætta sig við að kaupa gamlar bifreiðar af þeim, sem fengið hafa nýju bifreiðarnar, og það oft með uppsprengdu verði, og orðið síðan að notast við þá garma til flutninga, bæði við vegagerð og í annað. Og meira að segja nú, þegar mikið hefur rýmkazt um innflutning þessara tækja, sýnist þetta sama sjónarmið vera ríkjandi, og þegar kvartað er, er því borið við, ef annars er verið nokkuð að ómaka sig með því að bera fram nokkrar afsakanir, að þessi afskekktu héruð hafi ekki áður fengið stærri skerf í bifreiðainnflutningnum og því sé sjálfsagt að halda enn við því réttlæti, sem þessir valdamiklu menn tileinkuðu sér á sínum tíma í sambandi við úthlutun bifreiða fyrir dreifbýlið.

Þá skal ég að síðustu ræða hér nokkuð um skurðgröfurnar.

Þar sem nýja vegi þarf að leggja um mýrar eða annað votlendi, þykir sjálfsagt að nota skurðgröfur. Þykja það lítil verkhyggindi að grafa skurði í stórum stíl með höndum einum. Í Barðastrandarsýslu hefur vegagerðin aldrei átt neinar skurðgröfur. Í einum einasta vegi í austursýslunni hefur hún samið við Búnaðarfélagið um skurðgröft í gegnum votlendi, sökum þess að svo vildi til, að þar féllu saman áætlanir um skurðgröft vegna ræktunar og vegna vegagerðar, og sama var í öðrum vegarkafla í vestursýslunni. En alls staðar annars staðar hefur vegagerðin orðið að láta framkvæma skurðgröft um votlendi með höndunum einum og skóflum, nema þar sem hefur verið að basla við að nota ýtur, sem þá eru heldur engin vinnubrögð, ef landið er mjög vott. Má geta nærri, hversu þetta torveldar allar framkvæmdir.

Ég hef aðeins tekið þessi dæmi frá þeim landshlutum, er ég hef haft kynni af. Ég geri ráð fyrir, að þetta séu ekki einu sveitirnar í hinum afskekktu héruðum, þar sem svo er ástatt um vegavinnuvélar, heldur sé þetta því miður allt of víða. Hitt er svo ljóst, að á þessu verður að gera breytingar til batnaðar og það nú þegar. Sú krafa verður ekki látin falla niður, að einstök héruð, þótt afskekktari séu, verði látin njóta sömu réttinda um vegaframkvæmdir og önnur, sem þéttbýlli eru, enda hefur Alþ. margsinnis ákveðið, að slíkt réttlæti skyldi haldast í vegamálum landsins, að þar væru allir jafnir fyrir lögunum. Vér flm. þáltill. væntum þess því, að hæstv. ríkisstj. hlutist til um það, að þessi margyfirlýsti vilji Alþ. verði ekki að engu hafður, svo sem of mikið hefur verið gert að á undanförnum árum.

Þá kveður þáltill. einnig svo á, að hæstv. ríkisstj. skuli hlutast til um, að opnaðir skuli vegir í þessum héruðum fyrr en gert hefur verið og viðhald þeirra og brúarframkvæmdir skuli hafnar svo snemma á ári hverju sem frekast er kostur á, þannig að þetta megi koma að sem beztum notum fyrir íbúana. Þykir mér rétt að fara nokkrum orðum einnig um þennan þátt þáltill.

Eins og ég drap á hér áðan, er samgöngum um einstök héruð haldið uppi allt árið svo að segja hindrunarlaust, og íbúarnir byggja afkomu sína á því, að svo verði gert. Á þessum leiðum er því haldið uppi snjómokstursvélum og öðrum áhöldum, oft mikinn hluta vetrarins, til tryggingar truflunarlausri umferð. Þetta þykir nú orðið svo sjálfsagður hlutur, að menn mundu dolfalla af undrun, ef þetta yrði lagt niður. Á sama tíma er öðrum íbúum landsins neitað um opnun vega, fyrr en komið er langt fram á vor, og það þótt aðeins sé um lítilræði að ræða, svo sem að höggva lítillega í skafl, svo að sólin geti fyrr unnið á honum, eða gera við ræsi, sem stöðvar alla umferð, þótt skotvegur sé beggja vegna við ræsið á margra km vegalengd, og þetta skeður í sveitum, þar sem varið hefur verið milljónum til þess að koma á vegasambandi og með því breytt búnaðarháttum og flutningatækjum með tilliti til breyttra samgangna og í trausti þess, að á vegina mætti treysta, svo sem gert er á öðrum stöðum í landinu. Má m. a. benda á, að það er ömurlegt hlutskipti bænda að verða enn að reiða allan áburð að vori til heim til sín eða bera hann á bakinu eftir upphleyptum, ágætum akvegum, sem þó eru ófærir bifreiðum stundum allt fram í júnímánuð, beinlínis og eingöngu vegna þess, að það er ekki gert við lítilfjörlegar skemmdir eða smásnjóskaflar mokaðir niður. Og ástæðurnar fyrir því, að þetta er þannig, eru oftast þær, að beðið er eftir vinnuflokkum og verkstjórum sunnan úr Reykjavík og vegagerðin hefur engin tæki staðsett á staðnum til þess að vinna með, í stað þess að semja um þessi verk við menn heima fyrir í hverri sveit og láta þeim í té hentugar vélar til þess að vinna með. Mætti á þann hátt halda vegunum opnum miklu lengri tíma á ári hverju og gera vegaviðhaldið bæði ódýrara og betra.

Um brúargerðir sýnist það vera höfuðregla að hefjast ekki handa um byggingu þeirra í afskekktari sveitum, fyrr en sumri hallar, dagur styttist og nóttin kemur, þegar enginn getur unnið, í stað þess að taka vorið snemma, njóta góðs af sól nætur sem daga og góðu veðri. Verður einnig á þessu að verða mikil breyting í framtíðinni.

Ég hef hér að framan fært fram rök fyrir nauðsyn þess að gera umbætur á þessum málum. Ég sé, að hæstv. forseti hefur ákveðið eina umr. um þáltill. Hef ég að sjálfsögðu ekkert við það að athuga, en vegna þess að vel má svo fara, að hún baki ríkissjóði óbeinlínis útgjöld í bili, ef samþ. verður, þótt hins vegar ljóst sé, að þær upphæðir koma fljótt aftur í meiri og betri afköstum, þykir mér rétt að fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann fresti nú þessari umr. og vísi þáltill. til hv. fjvn.

Ég vil síðan mega vænta þess, að n. taki málið til rækilegrar yfirvegunar, eins og hennar er venja um öll slík mál, ræði það við vegamálastjórnina og leggi síðan til, að þáltill. verði samþykkt.