27.04.1955
Sameinað þing: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í D-deild Alþingistíðinda. (2947)

175. mál, óháðir alþýðuskólar

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Hv. þm. A-Sk. (PÞ) hefur nú að mestu tekið af mér ómakið um að svara aths., sem fram höfðu komið, þegar hann talaði, enda er hann meðflm. að þessari till„ sem fyrir liggur.

Ég get vel skilið það, sem hæstv. menntmrh. sagði, að hann væri ekki við því búinn að taka ákvörðun um það, hvort hann væri því meðmæltur að stofna til lýðháskólahalds í landinu, því að vitanlega þarf slíkt umhugsunar við. En í því sambandi vil ég benda á, að í till. er aðeins farið fram á, að þetta verði prófað næsta vetur, ef um það getur samizt við hlutaðeigandi skóla, í eins konar tilraunaskyni, og menn þurfa ekki mjög að binda sig fyrir framtíðina, þó að þeir gjarnan vildu fá slíka tilraun gerða, sem gæti þá verið til leiðbeiningar við framtíðarákvörðun um þetta mál.

Hæstv. ráðh. virtist frekar taka undir þau ummæli fræðslumálastjóra, að til þess að hægt væri að framkvæma till., mundi þurfa lagabreytingu, vegna þess að hún breytti töluvert frá löggjöfinni 1946, þar sem öllum skólum landsins er skipað í kerfi, þannig að hyer skóli tekur við af öðrum.

Ég álít, að það sé ekki svo mikið, sem till., þótt framkvæmd yrði, raskaði þessu kerfi, því að jafnvel þó að það semdist við einhvern skóla um að taka upp frjálsara fyrirkomulag næsta vetur, þá verða það flestir skólar gagnfræðastigsins, sem halda áfram óbreyttir eins og verið hefur, og röskunin verður aldrei mikil af þessari till. Og eins og hv. þm. A-Sk. vék að, þá mundi það án efa verða þannig, að skóla með nýja fyrirkomulaginu eða því fyrirkomulagi, sem hér er stungið upp á, sæktu ekki aðrir en þeir, sem ætluðu sér ekki lengri skólagöngu og kærðu sig ekki um að taka landspróf. Hinir, sem óskuðu að búa sig undir frekara nám og að taka landspróf með þeim réttindum, sem það veitir, mundu þá frekar sækja aðra skóla.

Hitt er svo annað mál, sem ég kannske vík síðar að nánar, að ég sé ekki, að það þurfi endilega að stofna nýjan og sérstakan skóla til þess að framkvæma þessa till., því að það er ekkert nýtt í því, að nemendur úr ýmsum hlutum landsins sæki hina ýmsu skóla, þá héraðsskóla, sem nú eru til. Þannig þekki ég marga unga menn í Eyjafirði, sem hafa verið í Laugaskólanum t. d. og sumir í Reykholtsskóla, þannig að þótt héruð hafi komið upp þessum skólum, þá eru þeir ekki lokaðir yfirleitt fyrir nemendum úr öðrum héruðum, a. m. k. ef rúm er fyrir þá. Og þótt ætlazt sé til, að námi í gagnfræðaskólunum, sem nú eru kallaðir, ljúki með prófi, þá leggur till. ekkert bann við því, að náminu ljúki með prófi. Hún leggur aðeins bann við því, að því ljúki með landsprófi, og eins og hér hefur verið vikið að, er alls engin skylda að taka landspróf, og ég sé ekki neinn reginmun á því, hvort 2/3 hlutar nemendanna eru leystir frá því að taka landspróf í tilteknum skóla eða þeir eru það allir. Þar af leiðandi og af ýmsum öðrum ástæðum hef ég ekki skilið þau rök, sem fram hafa komið, bæði hjá hæstv. ráðh. og eins hv. 3. landsk. þm., að það þurfi endilega að setja lög, til þess að hægt væri næsta vetur að prófa slíkan skóla sem till. fjallar um.

Hæstv. ráðh. talaði um það, að Alþ. gæti ekki með þál. stofnað skóla nýrrar tegundar, öðruvísi en þá, að mér skildist, að gera ráðstafanir til að kosta hann, og það væri ekki hægt að skylda neitt hérað til þess að breyta sínum skóla í þessa átt. Hvorki okkur flm. till.n., sem um málið fjallaði, hefur komið til hugar að skylda nokkurt hérað til þess að taka upp þetta fyrirkomulag. Það kom fram hjá mér, þegar ég flutti þetta mál hér, að við flm. ætluðumst til, að þetta yrði samningsatriði við eitthvert af þeim héruðum, sem reka héraðsskóla, og menntamálastjórnina, en ekki að skylda neinn í þessu efni. Þar af leiðandi getur vel verið, að þótt till. verði samþ., þá sitji við það, að ekki geti orðið neitt frekar gert f málinu að sinni, ef ekkert hérað vill í þetta leggja.

En ég fellst alveg á það. sem hæstv. ráðh. sagði að þessi skóli gæti ekki komið í stað skólaskyldunnar, sem á alla er lögð. Það verður auðvitað að fullnægja skólaskyldunni samkvæmt lögum, og það er ekki meiningin með till., að þetta komi í staðinn fyrir það framhaldsnám, sem skylt er að taka þátt í, heldur vitanlega að eftir að skólaskyldunni er lokið, geti menn átt kost á því að koma í slíkan skóla sem þennan, sem hér er talað um, og njóta þar frjálsrar kennslu og verða fyrir vekjandi áhrifum frekar en nú er í skólum. Þessu ákvæði um skólaskyldu er fullnægt þannig í sveitum t. d., að hún nær þar ekki enn nema til 14 ára aldurs og yfirleitt ekki nema til 15 ára aldurs. Ég held, að eftir allt barnaskólanámið með þessu framhaldsnámi og ef unglingarnir kannske hafa unnið í foreldrahúsum nokkur ár þar á eftir hefðu menn gott af því að komast í slíkan skóla sem hér er talað um án þess að þurfa að ganga þar undir ákveðnar reglur um nám, sem á að ljúka með prófi.

Ég er ekki lærður maður, sem kallað er, ég er ekki stúdent og hef aldrei verið í háskóla, en oft hef ég lesið um það og heyrt talað um það, hvað það væri mikil andleg hressing fyrir stúdentana, eftir allan próflesturinn og alla þvingunina í lærðu skólunum eða menntaskólunum, þegar þeir kæmu í háskólann og fengju hið akademiska frelsi og einkum heimspekinámið fyrsta árið. Það þótti vera svo a. m. k. um tíma í Hafnarháskóla, að það námsár væri nemendunum ákaflega mikill fengur. Ég þekki þetta ekki, en ég hef vitnisburði ýmissa þeirra, sem hafa haft um þetta reynslu. Ég hugsa mér, að þessi skóli, sem hér um ræðir, væri auðvitað ekki neitt heimspekinám eins og er fyrsta árið í háskólanum, en hann gæti haft svipaða þýðingu fyrir alþýðufólk og heimspekinámið fyrsta árið í háskóla, ef kennslan er þar eins og hún á að vera, hefur á þá lærðu menn.

Hv. 3. landsk. þm. sagði m. a., að það væri engin von, að neitt hérað tæki á sig kostnaðinn við að reka slíkan skóla eða skólabekk, eins og hér er farið fram á, vegna þess, að mér skildist, einkum og sérstaklega, að það yrði þá sennilega skóli fyrir allt landið. Ég skal ekki segja um það, hvort nokkurt hérað fengist til þess. Þá tæki það ekki lengra, þá yrði þessi tilraun ekki gerð, ef ekkert hérað fæst til þess. En hvað segir reynslan? Ekki voru héraðsskólarnir í fyrstunni stofnaðir með lögum frá Alþ. Það kom ekki ofan að, að þeir voru stofnaðir í fyrstunni; t. d. Laugaskólinn og fleiri héraðsskólar. Það voru héruðin, sem gengust fyrir því að koma þessum skólum upp, vitandi það, að skólana mundu sækja fleiri nemendur og víðar að en úr þeim héruðum, sem að skólunum stóðu.

Hefur landsfólkinu farið það aftur í þegnskap og eru hugsjónir orðnar þeim mun minni í landinu en þá var, að þetta sé óhugsandi? Það getur verið, að svo sé. Þá fellur þetta mál um sjálft sig. En ég vildi mega vona, að svo væri ekki, það fyndust héruð í landinu, sem vildu kosta sinn skóla á sama hátt og verið hefur, þó að þetta frjálsa nám færi þar fram.

Þetta er kannske of mikil bjartsýni um landsfólkið, eins og það er nú í dag, ég skal ekki segja um það. En það er illa farið, ef það er of mikil bjartsýni.

Hv. sami þm. sagði, að það væri ekkert brot á l., þó að nemandi gengi ekki undir landspróf.

Þetta er alveg rétt, enda er það fjöldi nemenda, sem gengur ekki undir landspróf. En það er bara annað, þó að ég þekki það ekki vei, að kennslan í skólunum mun vera ákaflega mikið miðuð við það, að nemendurnir geti gengið undir landspróf. Eru sérstakir bekkir fyrir landsprófsnemendur yfirleitt? Ja, það mun ekki vera nema á hinum fjölmennari stöðum. Ég veit það, að hinir fámennari staðir og fámennari gagnfræðaskólar hafa nemendurna í sama bekk, hvort sem þeir ætla að taka landspróf eða ekki, og vitanlega er þá kennslan miðuð við landsprófið.

Mér er því ómögulegt að sjá, og þarf ég ekki að rökstyðja það frekar og vísa um margt til hv. þm, A-Sk., að það þurfi neina lagabreytingu til þess að semja svo við einn eða jafnvel tvo héraðsskóla, sem nú eru til, að breyta kennslutilhögun á þann veg, sem till. mælir fyrir um.

Mér fyrir mitt leyti er það ekkert kappsmál, að brtt. n. verði samþ., ef menn sættu sig betur við till. án breytingar, a. m. k. fyrri till. Það er orðamunur auðvitað, en ég álít, að það hafi ekki neina verulega þýðingu, hvort till. er orðuð eins og hún var lögð fram eða með fyrri brtt. n., hvort tveggja þýðir ákaflega svipað. En seinni brtt. n. held ég að eigi að samþ., því að það hefur aldrei, eins og ég hef áður tekið fram og það tvisvar sinnum, verið ætlunin með þessari till., að út af henni yrði stofnaður nýr skóli eða nýr kostnaður lagður á ríkissjóð eða aðra.