30.03.1955
Sameinað þing: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í D-deild Alþingistíðinda. (2955)

177. mál, fiskveiðalandhelgi

Flm. (Einar Olgeirsson):

Hv. 1. þm. Eyf., sem um leið er form. allshn., kom nú hér fram með þá óvenjulegu hæversku að taka það fram, að sú nefnd, sem hann veitir ágæta forstöðu, eigi það nú til að afgreiða ekki heldur mál, og var að biðja n. undan því trausti, sem ég sýndi henni, og vill halda því fram, að fyrir fiskveiðimál geti hún líka orðið kirkjugarður. Ég er nú ekki búinn að sannfærast um það, að allshn., sem hefur afgreitt mörg mál hér, muni ekki að lokum afgreiða þessi mál, og ég hefði trúað því, að hún mundi fást til þess að afgreiða þetta mál, ef því væri til hennar vísað.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. hélt fram, að þessi mál ættu heima í utanrmn. En sú er saga utanrmn. nú á síðustu þingum, að hún er yfirleitt varla kvödd saman, stundum að vísu til þess að kjósa formann og þá venjulega mjög seint. Síðan, svo framarlega sem einhver veruleg stórmál berast fyrir þingið, þannig að allt ætli að fara í uppnám út af henni, þá hefur hún verið kölluð saman og þá stundum til einnar mínútu eða tveggja mínútna funda til þess að afgreiða stærstu mál í þinginu, stundum að nóttu til, eins og menn kannske minnast, af því að það er 30. marz í dag, þannig að það er ekki von, að menn hafi sérstaka trú á því að vísa málum, sem hafa stórkostlega þýðingu fyrir þjóðina, til þeirrar nefndar. (Gripið fram í.) Jú, en það vill bara svo til, að reynslan, sem þingið hefur, vegur í þessu efni meira en allar reglur þingskapanna, svo framarlega sem hægt er að komast fram hjá þeim, og þar sem fiskveiðimálum, um takmarkanir og annað slíkt, hefur hingað til verið vísað til allshn., eins og hv. form. allshn. sagði hér frá og staðfesti, þá er eins hægt að vísa þessu máli þangað. Því ræður þingið sem sé sjálft.

Það eru ekki nein brot á þingsköpum, af því að þetta er ekki einvörðungu mál, sem snertir okkar utanríkisviðskipti, heldur um leið snertir það, hvaða ráðstafanir við ætlum að gera til að tryggja okkur réttindi í þessum efnum og hvernig við viljum reyna að gangast fyrir ráðstefnu eða ráðgast við aðrar þjóðir, sem hafa samsvarandi hagsmuni.

Aðalatriðið í þessum efnum er hitt: Er Alþingi á því, að Íslendingar eigi að vinna að þessum málum? Það er talað meira um fiskveiðitakmarkanir og nauðsyn okkar Íslendinga á því að standa saman í þessum málum en jafnvel um nokkur önnur mál, og það virðist öllum vera ljóst, hvað þetta séu þýðingarmikil mál fyrir okkur.

Ég álit þess vegna, að till. eins og þessi eigi fyrst og fremst að ræðast frá því sjónarmiði, ef menn eru samþykkir innihaldi hennar, ef menn eru samþykkir stefnu hennar, hvernig þingið geti afgr. svona till.; og þar sem þingið hefur þá reynslu af að senda mál til utanrmn., að þau koma ekki aftur, öll sporin liggja inn og engin út, þá hræða sporin, þá óttast menn að senda mál þangað, svo framarlega sem menn ætla þeim líf. Þess vegna held ég, af því að þetta mál er það þýðingarmikið mál, að það þarf að fá afgreiðslu á þinginu, að svo framarlega sem a. m. k. engar yfirlýsingar koma fram í því efni, að utanrmn. muni bregða vana sínum og afgreiða mál, halda fundi, þá sé réttast fyrir þingið að senda þetta mál til allshn. Hitt er svo aftur aðalatriðið, og það hefði ég nú gjarnan viljað heyra skoðun hv. þm. um, hvaða afstöðu menn vilja taka til þessa máls, hvort menn álíta, að Ísland eigi að reyna að vinna á alþjóðavettvangi að framgangi svona máls. Og það vil ég vona að við getum náð samkomulagi um.