27.10.1954
Sameinað þing: 7. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í D-deild Alþingistíðinda. (2988)

206. mál, mæðiveiki

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þessari fsp. varðandi mæðiveiki og útbreiðslu hennar frá hv. 8. þm. Reykv. á þskj. 68 vil ég nú svara nokkrum orðum, eftir því sem unnt er á þessu stigi málsins. En það liggur í hlutarins eðli að seinni liðnum í fsp. verður ekki svarað fullnægjandi nú. Það er meira mál en það, að hægt sé að gera það, meðan á rannsókn stendur um það, sem upp hefur komið í þessum málum nú síðustu vikurnar.

Ég tel, að það muni vera heppilegast til þess að gefa hv. alþingismönnum nokkurt yfirlit yfir það, sem gerzt hefur í þessum málum, að birta hér skýrslu frá sauðfjársjúkdómanefnd, sem er dags. 19. okt. og kom í mínar hendur 20. okt., eða fyrir örfáum dögum, um þetta mál. Annars skal ég geta þess, áður en ég kem inn á skýrsluna sjálfa, af því að þar er ekki getið um það, held ég, að það kom upp nokkur ótti um það, að vart hefði orðið við þurramæðitilfelli í sauðkind á einum bæ í Stafholtstungum í fyrrahaust eða s. l. vetur, — ég man nú ekki, hvort það var komið fram á vetur, — og varð þetta til þess, að féð var einangrað á þeim bæ og drepið svo allt niður í haust og rannsakað, og þá kom í ljós, að engin kind var með nein einkenni þessarar veiki þá, þannig að það virtist, ef þarna hefði verið um þurramæðitilfelli að ræða, að þetta hefði verið eina kindin á bænum, og varð það til þess, að menn sáu ekki ástæðu til að gera frekara í þeim efnum þar, enda hefur ekkert komið fram við rannsókn í sambandi við slátrun í þeirri sveit eða þar í nágrenni í haust, sem gaf nokkurt tilefni til, að um ótta væri að ræða hvað þetta snerti.

En að öðru leyti, hvað snertir fyrri lið fsp., vil ég hér leyfa mér að taka upp meginatriðin úr skýrslu sauðfjársjúkdómanefndar um þetta mál, sem er afhent, eins og ég sagði áðan, fyrir fáum dögum. Og þar stendur svo, — ég sleppi úr einstökum atriðum skýrslunnar til að stytta það, sem ekki er að mínum dómi neins verulegs virði í sambandi við upplýsingar hér:

„Samkv. ósk yðar, hæstv. landbrh., vill sauðfjársjúkdómanefnd hér á eftir gera grein fyrir þeirri sýkingu af þurramæði, sem komið hefur fram í sauðfé nú í haust, og þeim ráðstöfunum, sem hún hefur gert og hyggst gera í tilefni af því.

Þann 21. sept. voru send til rannsókna kindalungu frá Hólum í Hvammssveit í Dalasýslu. Tilraunastöðin á Keldum úrskurðaði þau sýkt af þurramæði. Var kindin, sem lungun voru úr, fjögurra vetra og var seld frá Valþúfu á Fellsströnd haustið 1952, en það haust var öllu fé bóndans þar fargað, allmörgu slátrað, en hitt selt, flest að Hólum og Skarfsstöðum í Hvammssveit, en auk þess nokkrar kindur á aðra bæi í nágrenni. Talið er af kunnugum, að allt féð á Valþúfu hafi verið vanhaldalaust allt frá fjárskiptunum 1947 og vel hraust þegar það var selt árið 1952.

Í tilefni af sýkingartilfellinu í Hólum fór Guðmundur Gíslason læknir, sem er fræðilegur ráðunautur sauðfjársjúkdómanefndar og hefur verið það um mörg ár og þekkir því meira til þessarar veiki, útbreiðslu hennar og rannsóknar á henni, heldur en nokkur maður annar, vestur í Hvammssveit og skoðaði féð í Skerðingsstaðarétt og víðar, og við þá athugun fundust tvær grunsamlegar kindur frá Skerðingsstöðum og Skarfsstöðum, sem var þá strax slátrað, og reyndust þær báðar sýktar. Önnur þeirra var keypt frá Valþúfu árið 1952. Þessi tilfelli bentu undireins til þess, að sýkingin stæði í sambandi við féð frá Valþúfu, og ákvað n. þá þegar að láta slátra öllu fé, sem til næðist og selt hafði verið frá þeim bæ fyrir tveimur árum. Fór sú slátrun fram laugardaginn 2. okt. og skoðaði Guðmundur Gíslason læknir öll lungu fjárins. Reyndist sýkingareinkenni í lungum um 20 kinda af þeim 100 fullorðnum, sem slátrað var, en ekki voru sýnileg veikindaeinkenni nema á örfáum kindum, áður en þeim var slátrað.

Að fengnum þessum upplýsingum, er í ljós komu við slátrun Valþúfufjárins, tók n. til athugunar, hverra úrræða væri helzt að leita, eins og komið væri. Kom þá fyrst til álita, hvort tiltækilegt væri að skera niður allt sauðfé í þessu fjárskiptahólfi nú í haust. Takmörk þess að sunnan eru við girðingu úr Hvammsfirði yfir Laxárdalsheiði og í Hrútafjörð, en að norðan úr Gilsfirði í Bitrufjörð. Fjártala mun nú vera í þessu hólfi 25–30 þúsund. Féð er yfirleitt vel hraust og afurðamikið og ekki líkur til, að stór vanhöld komi fram í því á næsta ári. Engin líflömb eru fáanleg í haust, og taka mun það a. m. k. tvö ár að fullnægja svæðinu með líflömb, miðað við það, sem fáanlegt er af lömbum í þeim hluta Vestfjarða, sem ráðlegt þykir að taka lömb frá.

Í þessu sambandi má og geta þess, að fjárskipti yrðu ekki framkvæmd nú nema með miklu hærri bótum en gilt hafa, þar sem féð gefur fullan arð. Má gera ráð fyrir, að fjárskipti í þessu hólfi mundu kosta ríkissjóð 12–15 millj. kr., og er þá gert ráð fyrir fjárleysi í eitt ár og að nokkru annað ár. Þó mundu fjáreigendur ekki fá tjón sitt bætt að fullu, miðað við affallalítinn fjárstofn. En þótt ekki væri horft í kostnaðinn, ber á það að líta, að eftir þetta sýkingartilfelli, svo og annað í Skagafirði, sem síðar verður getið í þessari skýrslu, ríkir meiri óvissa en áður um árangur fjárskipta yfirleitt eða á hvern hátt hægt er að framkvæma þau með fullkomnu öryggi. Nú eru liðin um sjö ár frá fjárskiptum í þessu hólfi, og nú fyrst kemur í ljós, að þau hafa ekki borið tilætlaðan árangur, hver sem orsökin er. Má því við öllu búast á næstu árum í þeim héruðum, þar sem skemmri tími er liðinn frá fjárskiptum. Er þessi langi tími, sem líður þar til veikin kemur í ljós, lítt skiljanlegur almenningi, þótt fræðilega kunni að vera mögulegt að skýra hann. En að öllu þessu athuguðu getur n. ekki mælt með allsherjar niðurskurði í hólfinu að svo stöddu. Hefur hún tekið þá afstöðu að láta slátra öllu sauðfé á bæjum, þar sem sýkingar verður vart, láta fylgjast vel með fénu í haust og vetur og tryggja enn betur einangrun hólfsins næsta vor og sumar og sjá, hverju fram vindur. Á þann hátt álítur n. að hægt sé að draga úr útbreiðslu veikinnar innan hólfsins og því nær útiloka smithættu fyrir aðliggjandi héruð. Þá hefur n. ákveðið að reyna að láta hafa uppi á þeim kindum, sem fluttar voru sem lömb frá Valþúfu haustið 1950 og 1951 í sambandi við fjárskipti í hólfið sunnan Laxárdalsgirðingar, láta slátra þeim og rannsaka lungun.

Niðurskurður hefur nú farið fram á fé frá þeim þrem bæjum í Hvammssveit, sem aðallega fengu Valþúfuféð 1952, það eru bæirnir Hólar, Skerðingsstaðir og Skarfsstaðir, alls um 340 kindur á þessum þremur bæjum, þ. e. a. s. fullorðnar, auk lamba, og er talið, að greinileg þurramæðieinkenni hafi fundizt í 15 þeirra og ógleggri í sextán. En auk þessara bæja hefur við slátrun Valþúfufjárins fundizt sýking á þrem öðrum bæjum, þ. e. Breiðabólstað á Fellsströnd, Víghólsstöðum og Fjósum í Laxárdal. Miklar líkur eru og taldar fyrir sýkingu í Rauðbarðaholti, þótt það sé ekki að fullu sannað. Þess má geta, að hreppsnefnd Fellsstrandarhrepps hefur mótmælt niðurskurði fjárins á Breiðabólstað á þeim forsendum, að féð þar virðist allt heilbrigt, svo og hinu, að þýðingarlaust muni vera að farga á einstökum bæjum, sökum þess að samgangur fjár milli margra bæja sé mikill á þessu svæði.“

Þá kemur hér annar kafli um tilfellið í Skagafirði í sömu skýrslu, og segir um það þannig:

„Þann 9. þ. m. komu til rannsókna lungu úr fjögurra vetra kind frá Hlíð í Hjaltadal í Skagafirði. Reyndust þau með greinilegum einkennum þurramæði. Það höfðu sézt vanþrif á kind þessari s.l. vetur, en skánað við aukið fóður og virtist alheilbrigð við rúning í vor. Ekkert hafði heldur séð á henni í haust, en við snöggan sprett hafði hún yfirbugazt og var þá slátrað. Sauðfjársjúkdómanefnd ákvað þegar að láta slátra fénu í Hlíð, og var það gert laugardaginn 16. þ. m. Guðmundur Gíslason læknir var við slátrunina og skoðaði öll lungun. Greinileg þurramæðieinkenni komu fram í einum lungum, og hann telur, að önnur hafi verið grunsöm. En að öðru leyti sáust engin einkenni á fénu eða lungunum. Niðurskurður á þessu svæði fór fram 1949 og lömb flutt þangað 1950 vestan úr Strandasýslu. Er sýkingartilfelli þetta helzt sett í samband við lambaflutning úr Hólmavíkurhreppi, en þar varð vart við þurramæði haustið eftir að flutningar þessir fóru fram.

Guðmundur Gíslason læknir leggur til, eftir að hafa kynnt sér samgang fjár og aðstöðu í Hjaltadal, að fargað verði fé á tveimur bæjum öðrum en Hlíð, þ. e. Kálfsstöðum og Kjarvalsstöðum. Nefndin hefur ekki enn tekið ákvörðun um, hvort það verði gert.“

Þetta er það, sem ég tel ástæðu til að lesa upp úr þessari skýrslu sauðfjársjúkdómanefndar frá 19. okt. Ég vil aðeins skjóta því hér inn í, — það er ekki víst, að öllum hv. alþm. sé það ljóst, — að þessi svonefnda mæðiveiki er tveir aðgreindir sjúkdómar, sem ekkert eiga skylt að því leyti, að þeir koma fram með sínum einkennum hvor um sig og eru að ýmsu leyti sérkennilegir. Önnur er hin svonefnda votamæði, sem ekki hefur orðið vart nokkurs staðar eftir fjárskiptin, og hin er þessi svonefnda þurramæði, sem hér hefur orðið vart við í þessum tveimur héruðum, sem ég nú hef lýst. En það, sem veldur mestum erfiðleikum með hana, er, að þetta er óþekktur sjúkdómur, sjálfsagt vírussjúkdómur, sem menn þekkja ekki og vita því í raun og veru ekki neitt, á hvern hátt hún getur borizt héraða á milli, og verður því raunverulega að vinna að nokkru leyti í þoku við þennan mikla vágest. Gerir það að sjálfsögðu allt erfiðara fyrir en ef sjúkdómsvaldurinn væri þekktur og hægt væri á þann hátt að kljást við hann.

Ég ætla aðeins að geta þess, að í tilraunastöðinni á Keldum hafa þeir nú um fleiri ár verið með rannsóknir varðandi þessa sýki og m. a. um það, hvort hægt væri að þræða það, á hvern hátt hún flyttist. Þeir telja þeim rannsóknum ekki komið það áleiðis enn, að rétt né hægt sé að gefa neitt út um það, sem gæti orðið að gagni á þessu stigi. Þess vegna er það ekki gert. En ýmislegt bendir til, að þar sé kannske verið á einhverju spori um það, að einhverju leyti a. m. k. hvernig sýki þessi getur flutzt frá einni kind til annarrar, með hverju hún getur flutzt og fleira í sambandi við þetta.

Ég skaut þessu aðeins inn hér, án þess að það sé í raun og veru ástæða til að fara um það fleiri orðum nú, því að það er ekki hægt að segja frekar um þetta.

Strax eftir að ég fékk þessa skýrslu, 20. okt., ákvað ég í samráði við ríkisstj. að hafa þann hátt á þessu máli, vegna þess hvað stórt það er, þ. e. a. s. tilfellið þarna í Dalahólfinu, að málið skyldi fyrst rætt með landbúnaðarnefndum Alþingis, sauðfjársjúkdómanefnd og aðalráðunaut hennar. Guðmundi Gíslasyni. áður en fullnaðartillögur kæmu fram frá sauðfjársjúkdómanefnd. En þessar till. sem felast í þeirri skýrslu, sem ég nefndi áðan, eru í raun og veru frekar bráðabirgðatillögur og urðu því vitanlega að breytast og verða ákveðnari. Það var síðan fundur hér fyrir fáum dögum eða strax eftir þetta, bæði sameiginlegur fundur landbúnaðarnefnda og sauðfjársjúkdómanefndar og svo síðar héldu landbúnaðarnefndirnar fund með sér um málið. Það var ekki full eining í landbúnaðarnefnd um niðurstöðurnar, þannig að það var skilað tveimur álitum frá nefndinni, meiri- og minnihlutaáliti, sem ég á þessu stigi ætla ekki að fara inn á, en ég lét strax ganga til sauðfjársjúkdómanefndar, um leið og það lá fyrir. Og á grundvelli þess, sem þar kom fram frá landbn., hefur svo sauðfjársjúkdómanefnd skilað nýrri skýrslu um málið, sem ég meðtók í gær, og er n. sammála um þær niðurstöður. sem þar eru. Þessi skýrsla eða skýrslur bæði frá landbúnaðarnefndum og sauðfjársjúkdómanefnd eru nú til meðferðar í ríkisstjórninni, en eins og gefur að skilja, er ekki búið að ganga frá neinni niðurstöðu þar enn, og þess vegna get ég ekki skýrt frá því nú og tel ekki rétt að gera það fyrr en ríkisstj. hefur kynnt sér málið betur og komið sér niður á till. í því, — eða ég, sem þetta mál náttúrlega heyrir nú undir í ríkisstj., — en ég tel málið það stórt, að það sé sjálfsagt, að ríkisstj. öll hafi um það að fjalla, áður en fullnaðarákvörðun verði tekin.

Ég skal aðeins geta þess, að í framhaldi af því, sem segir í skýrslunni frá 19. okt., hefur verið haldið áfram að slátra á þeim bæjum í Dalasýslu, sem vitað var að voru eitthvað sýktir. Nú mun vera búið að slátra þar á einum 8 eða 9 bæjum, og það er verið að slátra enn þá. Í gær og í dag er verið að slátra þessu fé. Þetta er jafnóðum rannsakað, eins og gefur að skilja, og á þann hátt leitað upplýsinga um það, á hvern hátt þessu skuli mætt að lokum.

Það er búið að slátra fénu í Hlíð í Hjaltadal, eins og fram kom í skýrslunni áðan. Auk þess hefur verið ákveðið að slátra á tveimur bæjum öðrum, sem Hlíðarféð sérstaklega gengur með, en þar hagar svo til, að það er einkennilega lítill samgangur af mörgum bæjum við Hlíðarféð, og ef engrar sýki gætir í fé frá þessum tveimur bæjum, sem þarna er um að ræða, þá eru a. m. k. afar miklar vonir til þess, að hér hafi verið um einstakt tilfelli að ræða, en ekki neitt almennt. En allt verður þetta náttúrlega að vera með spurningarmerkjum, eins og gefur að skilja.

Ég heid nú, að ég sjái mér ekki fært á þessu stigi málsins að gefa frekari upplýsingar um málið. Ég tel, að ég hafi hér að fullu, eftir því sem hægt er, svarað fyrri lið fsp. um það, hve viða mæðiveikin hafi komið upp eftir fjárskipti nú síðast. Ég er ekki að rekja það, sem hefur gerzt fyrir mörgum árum í þessu sambandi. Það, sem nú er stærsta atriðið í þessu máli, er að fylgjast sem bezt og ýtarlegast með gangi veikinnar og haga aðgerðum í samræmi við það.

Um síðari liðinn get ég ekki sagt að þessu sinni, hvaða ráðstafanir ríkisstj. og sauðfjársjúkdómanefnd munu gera til að stemma stigu við veikinni. Ég hef þegar lýst þeim ráðstöfunum, sem verið er að gera, en hvað langt verður gengið, eftir að ríkisstj. hefur kynnt sér þær till., sem nú liggja fyrir, kann ég ekki neitt um að segja á þessu stigi málsins. Það mun liggja fyrir innan fárra daga, og mun þá að sjálfsögðu vera hægt fyrir hv. alþm. að fá upplýsingar um það, annaðhvort beint frá því ráðuneyti, sem með þetta hefur að gera, eða þá með skýrslu hér í þinginu, ef þess skyldi verða óskað.