27.10.1954
Sameinað þing: 7. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í D-deild Alþingistíðinda. (2989)

206. mál, mæðiveiki

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir svör þau, sem hann hefur gefið við fsp. minni, og þá fróðlegu skýrslu, sem hann hefur hér gefið um það, hvernig þetta mál horfir við nú í dag.

Ég hygg, að það sé öllum ljóst af þessari skýrslu, hafi þeim ekki verið það áður, að hér er um mikið og mjög alvarlegt vandamál að ræða og veruleg vá fyrir dyrum, ef mæðiveikin tekur nú að gjósa upp á hverjum stað á fætur öðrum, þar sem fjárskipti hafa farið fram, jafnvel fyrir mörgum árum. Það er að ýmsu leyti eðlilegt, að menn séu ekki á fyrstu vikum eftir svona atburði búnir að gera það fyllilega upp við sig, til hve róttækra ráðstafana sé nauðsynlegt eða skynsamlegt að grípa, og er ég því ekkert hissa á því, þótt ekki hafi fengizt fullnægjandi svör við síðari lið fsp. minnar. Það er þó öllum ljóst, að ráðstöfunum í þessu efni verður að flýta; málið er þannig vaxið, að það þolir ekki langa bið, og fróðlegt hefði vissulega verið að fá að heyra um helztu till. og álit hinna fróðustu manna um það, hvað gera beri.

Ég vil ekki hætta mér langt út í að fjalla um það, hvað eigi að gera í þessu máli. Þó virðist það augljóst hverjum leikmanni, að eitt hið allra brýnasta og nauðsynlegasta er að bæta og hressa við allar girðingar á milli sauðfjárhólfa og jafnvel taka til athugunar, hvort ekki háttar þannig til, að hægt sé án stórkostlegs kostnaðar að skipta stórum hólfum í tvö eða fleiri.

Það er án efa þýðingarlaust að tala um orðna hluti, ýmsar framkvæmdir þessara mála á liðnum árum, t. d. í sambandi við fjárskipti. Þó vil ég ekki ljúka þessum orðum án þess að láta í ljós þá skoðun, að ákaflega óvarlegt virðist leikmanni það, þegar fjárskipti fara fram, að taka féð inn sama haustið og niðurskurður hefur farið fram, en þetta hefur verið gert í ýmsum héruðum. Það er að vísu ákaflega eðlilegt, að bændur gætu illa sætt sig við það, sérstaklega í sauðfjárhéruðunum, að vera sauðlausir heilt ár, en þó hefði það vissulega verið betra en að fá mæðiveikina yfir sig aftur, ef hægt hefði verið að komast hjá því með því að hafa héruðin eitt ár sauðlaus. Hefði þá að sjálfsögðu verið skylda hins opinbera að gera sérstakar ráðstafanir í sambandi við þau héruð, þar sem svo var ástatt um, og má í því efni benda á það, að í öllum héruðum landsins og sveitum eru mjög mörg óleyst verkefni, sem hið opinbera hlýtur að láta leysa af höndum á nálægum tíma, vega- og brúargerðir o. s. frv., og hefði að sjálfsögðu verið eðlilegt, að sérstakar, verulegar fjárveitingar hefðu runnið til viðkomandi héraða til þess að auka atvinnu við slík störf. En það þýðir ekki að ræða mikið um þessa liðnu hluti. Hins vegar tel ég ekki nema gott, að fengizt hefur nú skýrsla um það, hvernig þessi mál standa, þó að ég hafi að vísu leyft mér að vænta þess, að frekari upplýsingar lægju nú fyrir um það, hvaða ráðstafanir talið er skynsamlegt og eðlilegt að gera.