10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í D-deild Alþingistíðinda. (3023)

209. mál, verkfræðingar í þjónustu ríkisins

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hæstv. fjmrh. sagði, að þetta verkfræðingaverkfall, sem svo er kallað, hjá ríkinu hefur orðið að verulegu tjóni. Mér hefur lengi verið það ráðgáta, hvers vegna ekki væri reynt alvarlega að binda endi á það verkfall, ef það á að kalla það svo, með samningum, eins og flest verkföll eru leyst, því að það verulega tjón, sem hæstv. ráðh. minntist á og ég trúi vel að til sé, enda búinn að heyra nóg um það, hlýtur að verða enn þá alvarlegra að mjög stuttum tíma liðnum, og ekki gott að vita, hvað mörg ár fram í tímann sveitarfélög, bæir, kauptún og til sveitanna, sæta boðaföllum af þessum stanzi á verkfræðilegri vinnu hjá ríkisstofnunum. Það gefur auga leið, að það er ekki komið í ljós tjónið núna á þessu ári, það á eftir að sýna sig enn þá betur. Sérstaklega hefur mér þótt það furðulegt, að hæstv. ríkisstj. — og ég leyfi mér að segja það, þó að ég sé ekki stjórnarandstæðingur — skyldi ekki taka sér dæmi Reykjavíkur til fyrirmyndar. Bæjarfélagið hér hefur leyst þetta mál að sínu leyti, og það var engin verðung fyrir hæstv. ríkisstj. að fara að dæmi Reykjavíkurbæjar og leysa þetta mjög svo skaðlega verkfall, sem allir viðurkenna að sé til tjóns, eins og hæstv. ráðh. sagði, og enginn er eiginlega farinn að skilja í, hvernig ríkið getur staðið sig við að láta vera óleyst lengur.