09.03.1955
Sameinað þing: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í D-deild Alþingistíðinda. (3090)

215. mál, sparifjáruppbætur

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskmrh. fyrir svör hans við fyrirspurninni, sem ég tel alveg tæmandi. Að öðru leyti verð ég að segja, að hann var óvenjulega óheppinn í ræðu sinni. Hann byrjaði á því að furða sig á, að ég flytti mál mitt af nokkrum þunga, rosta, sem hann svo kallaði. En er hann virkilega svo laus við tengsl við almenning í þessum bæ og þessu landi, að hann viti það ekki, að það er ríkjandi almenn óánægja hér í Reykjavík og úti um allt land með framkvæmd þessara mála? Gerir hann sér virkilega ekki grein fyrir því, að þær þúsundir sparifjáreigenda, sem sviptar voru beinlínis sviptar — hluta eigna sinna með þeirri efnahagsmálastefnu, sem rekin var frá stríðsbyrjun og til gengislækkunarinnar og hefur verið haldið áfram síðan, una mjög illa hag sínum, töldu það litlar bætur, skammarlegar bætur, sem að þeim voru réttar 1950, og telja, að enn hafi verið farið mjög illa með sig með þeim óhæfilega drætti, sem orðið hefur á því, að þeim yrðu greiddar þessar bætur? Það er ríkjandi hér í Reykjavík og úti um allt land megn óánægja með þetta mál, og þess vegna þarf hæstv. ráðh. engan veginn að koma það á óvart, þó að það sé rætt hér í hinu háa Alþingi af nokkrum þunga. Ef hann undrast það í raun og veru, þá ber það vott um það eitt, að hann hefur lítil tengsl við fólkið í landinu, veit ekkert, hvað hrærist í huga þess.

Þó var þetta ekki aðaláfall hæstv. ráðh. í málinu, því að hann sagði, að ég hefði ekki þurft að spyrja um sumt, sem ég spurði um, því að það ætti ég að vita, og spurði í þessu sambandi, hvar ég hafi eiginlega verið, hvort ég hafi ekki verið hér á Alþ. undanfarið. En rétt á eftir talaði hann eins og hann hafi ekki verið hér á Alþ. undanfarið, því að hann spurði með nokkrum þjósti, hvaða till. ég hafi eiginlega gert um bætta eða auðveldari framkvæmd á greiðslu sparifjáruppbótanna, þegar málið var til afgreiðslu hér í Alþ. Það var eins og hann væri viss um, að ég hefði engar till. gert um það, en þar skjátlaðist hæstv. ráðh. því miður mjög illilega. Hann talaði nefnilega sjálfur eins og hann hafi alls ekki verið á Alþ., þegar gengislækkunarlögin voru til afgreiðslu, því að ég flutti einmitt sem 3. minni hl. í hv. fjhn. hv. Nd. till. um aðra tilhögun á greiðslu sparifjáruppbótanna en þá, sem lögtekin var. Þegar ég skaut þessu að hæstv. ráðh., þá ætlaði hann að reyna að bjarga sér á því, að það væri óvenjulegt, að ég legði fram till., sem gerðu mál einfaldari en þau annars væru, og það væri líklegt, að frá mér kæmu till., sem mundu hafa gert greiðslu sparifjáruppbótanna enn þá flóknari og torveldari en l. gerðu ráð fyrir. En hér kom hæstv. ráðh. algerlega upp um það, að hann man ekkert eftir þessum till., hafi hann nokkurn tíma kynnt sér þær, þegar þær voru lagðar fram. Svo vildi til, að till., sem ég lagði fram, voru þær till., sem hv. fjhn. bárust frá sjálfum þjóðbankanum. Það voru till. sjálfs þjóðbankans, sem ég lagði fram fyrir hv. Nd. sem minni hl. í hv. fjhn. Við ræddum í n. við þjóðbankann um tilhögun á greiðslu sparifjáruppbótanna, og fulltrúar hans tjáðu okkur, bæði bréflega og munnlega, að sú skipun, sem gert var ráð fyrir í frv., væri mjög illframkvæmanleg, og varaði eindregið við því að lögfesta hana. En meiri hl. í n. vildi engu sinna þessu. Það var eins og að tala við trjámenn í fjhn., þeir vildu ekkert á þetta hlusta, og niðurstaðan varð sú, að ég sem minni hl. í n. tók upp till. Landsbankans og flutti hana í brtt.-formi, því að meiri hl. vildi ekki sinna einni einustu þeirra, engu atriði þeirra. Þess vegna flutti ég þær í heilu lagi.

Hæstv. viðskmrh. verður að átta sig á því, að hann hefur því miður hlaupið illilega á sig. Mér er engin ánægja að þurfa að auglýsa það, þegar hæstv. viðskmrh. hleypur á sig, og það hlakkar ekkert í mér í því sambandi, því að ég get gjarnan unnt honum annars hlutskiptis en þess. En til þess að auðvelda honum að átta sig á því, hversu mikið hann hefur hlaupið á sig, skal ég nefna honum númerið á þskj., brtt., það er nr. 453 í Alþingistíðindum frá 1949. Um það held ég sem sagt að geti ekki orðið nokkur ágreiningur meðal þeirra manna, sem lesa þessar till., sem voru till. þjóðbankans, gerðar í því skyni að auðvelda framkvæmd málsins og gera hana einfaldari, að sú tilhögun var skynsamlegri, a. m. k. einfaldari í framkvæmd, heldur en það, sem varð ofan á hjá hæstv. ríkisstj. á þeim tíma.

Hæstv. forseti bendir mér á, að tíma mínum sé lokið. Ég vil að síðustu endurtaka þakklæti til hæstv. viðskmrh. fyrir þær tölulegu upplýsingar, sem hann veitti. En eitt atriði langar mig þó til að gera að umtalsefni á aðeins örfáum sekúndum, þ. e. að láta í ljós óánægju mína yfir því, að áfrýjunarrétturinn skuli vera eingöngu með þeim hætti, að þeir, sem eru óánægðir með úrskurð skattayfirvalda og Landsbankans í þessu máli, verði að leita til hinna almennu dómstóla. Menn vita það, að alþýðumenn, sem eiga lítið undir sér, hika mjög oft við að leita til dómstólanna til þess að ná rétti sínum, vegna þess að það er kostnaðarsamt, og þeir treysta því ekki, að þeir muni hafa upp úr því annað en kostnað. Það harma ég því mjög, að ekki skuli vera gert ráð fyrir við skipan þessara mála annarri leið fyrir þá menn, sem telja sig órétti beitta, en þeirri að verða að fara í mál, leita til hinna almennu dómstóla. Ég teldi mjög æskilegt, og það er hægt fyrir hæstv. ríkisstj. að gera enn, að setja upp eins konar yfirdómstól eða yfirnefnd, líkt og gert er í skattamálum, til þess að úrskurða kærur þeirra manna, sem telja sig vera órétti beitta. Ef hæstv. viðskmrh. vildi beita sér fyrir því, er ég viss um, að hann gerði gott og rétt verk.