23.03.1955
Sameinað þing: 48. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í D-deild Alþingistíðinda. (3094)

174. mál, landshöfn í Rifi

Fyrirspyrjandi (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram fyrirspurn í þrennu lagi til hæstv. ríkisstj. um landshöfn í Rifi. Fyrirspurnin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

1. Hve miklu fé hefur verið varið samtals til byggingar landshafnar í Rifi til síðustu áramóta?

2. Hve mikið fé er talið að þurfi til að fullgera umrædda landshöfn?

3. Hafa nokkur mistök átt sér stað í sambandi við byggingu þessarar hafnar, þannig að um tvíverknað hafi verið að ræða, og ef svo er, hve miklum aukakostnaði hafa þá slík mistök valdið eða er áætlað að þau muni valda?

Ástæðurnar til þess, að ég ber þessa fyrirspurn fram, eru að sjálfsögðu margþættar og lítil von til, að takast megi að gera grein fyrir þeim á þeim 5 mín., sem ég fæ hér til umráða.

Fyrir nokkrum dögum var útbýtt hér á þingi frv. á þskj. 452 um landshöfn í Rifi, og er meginmál þess frv. og tilgangur þess að hækka fjárveitingu til þessarar hafnar úr 3 millj. kr. í 12 millj. Er í þessu frv. gerð grein fyrir þeim ástæðum, sem þar eru taldar liggja til þessarar hækkunar. Það hefur líka að undanförnu verið margt ritað og rætt um þessa landshöfn, sem full ástæða væri til að þm. gerðu sér grein fyrir, áður en Alþ. afgr. það frv., sem ég minntist hér á.

Ég get verið sammála þeim mönnum, sem hafa borið fram þetta frv., um það atriði, að landshöfn í Rifi geti verið ágætismál í sjálfu sér og mikið þarfaverk að byggja hana sem slíka. Þarna úti fyrir eru ágæt fiskimið, og er vafalaust, að mikill fiskur mundi berast upp á þennan stað í framtíðinni, væri þarna komin góð höfn. En hitt verða þm. líka að gera sér ljóst, hvort þjóðarbúið hefur jafnmikinn hag af því að byggja þessa höfn, miðað við tilkostnað, eins og það gæti haft af því að gera einhverjar aðrar ráðstafannir til þess, að sá fiskur gæti borizt á land, sem í þessa höfn mundi berast.

Af því, sem ég nefndi áðan úr frv., þar sem ráðgert er að hækka fjárveitinguna úr 3 millj. í 12 millj., virðist ljóst, að þær áætlanir, sem menn byggðu upphaflega á í sambandi við þessa höfn, þær upplýsingar, sem þá voru fyrir hendi og réðu því, að Alþ. ákvað, að þessa höfn skyldi byggja, hafa verið mjög hæpnar, svo að ekki sé meira sagt.

Það er líka full ástæða fyrir þm. að velta því fyrir sér, hvort þjóðarbúið, sem sagt er nú að stynji undan mjög mikilli og allt of mikilli fjárfestingu, hafi raunverulega efni á því að byggja höfn á þessum stað fyrir 12 millj. kr., höfnina eina. Allir hljóta að skilja það, að þegar komin er þarna höfn fyrir 12 millj., þá er eftir margfalt meiri fjárfesting, sem þarf til þess að nota þessa höfn. Það þarf að byggja á þessum stað verbúðir. Það þarf að byggja verzlanir fyrir fólk, sem þarna liggur við, það þarf að byggja fiskiðjuver, fiskvinnslustöðvar o. s. frv., o. s. frv., því að það er ekki nóg að hrúga aflanum upp á bryggju, eins og allir vita. Og spurningin er: Er þetta þjóðhagslega hagkvæmt? Var rétt að ráðast í þessa framkvæmd á sinum tíma? Og er rétt að halda áfram með þetta eins og það nú liggur fyrir?

Við vitum, að þarna rétt við þessa höfn er önnur höfn, einhver bezta verstöð landsins, Ólafsvík, sem sækir á sömu mið. Þar eru fyrir hendi ýmsar byggingar, sem höfn eru nauðsynlegar. Þar eru t. d. verzlanir, þar eru fiskiðjuver, þar eru bryggjur. Þar hefði með tiltölulega litlum tilkostnaði, miðað við það, sem hér er um að ræða, mátt búa þannig í haginn, að mun fleiri hefðu getað stundað þessi mið en nú er frá Ólafsvík. Og þess vegna finnst mér ástæða til, að hið háa Alþ. velti því fyrir sér, áður en það samþykkir þetta frv., sem hér um ræðir, hvort þjóðfélagið sem slíkt hafi efni á því, jafnvel þótt það væri æskilegt að byggja þessa höfn í Rifi, að setja í það jafnmikla peninga og hvort það sé þjóðfélaginu hagkvæmt eins og nú standa sakir.