22.10.1954
Sameinað þing: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1971 í B-deild Alþingistíðinda. (3191)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Fáein orð út af þessari fsp. frá hv. 8. þm. Reykv.

Eins og kunnugt er, á að fjalla um það á aukafundi þeim í Atlantshafsbandalaginu, sem nú er haldinn, hvort Þýzkaland verði þar fullgildur meðlimur eða ekki.

Áður en utanrrh. fór, ráðgaðist hann um afstöðuna í þessu máli við undirnefnd þá, sem kosin er af utanrmn., til þess að vera til ráðuneytis ríkisstj. um utanríkismál. Munu undirnefndarmenn hafa verið sammála um þá afstöðu, sem rétt væri að utanríkisráðherra tæki í þessu máli. (EOl: Hvaða undirnefnd er þarna til?) Það eru þrír nm. úr utanrmn., sem kosnir eru í undirnefnd til þess að vera stjórninni til ráðuneytis. (EOl: Utanrmn. er nýkosin, og hún hefur ekki heimild laga til að kjósa nokkra undirnefnd.) Þá eru það þeir þrír menn, sem síðast voru kosnir í þessu skyni, sem starfa þangað til aðrir eru kosnir. Það eru þeir, sem málið var undir borið. Það er einn maður úr flokki sjálfstæðismanna, einn úr flokki framsóknarmanna og einn Alþýðuflokksmaður.

Afstaða utanrrh. á fundinum mun verða sú að samþ. það, að Þýzkaland verði fullgildur aðili að Atlantshafsbandalaginn. Þetta mál mun svo síðar koma til meðferðar Alþingis til staðfestingar, eins og siður er um þess háttar ákvarðanir.

Það þótti ekki ástæða til þess að ræða þetta mál á hv. Alþingi, áður en utanrrh. fór, þar sem sú málsmeðferð var viðhöfð, sem ég nú lýsti.

Það kann að vera, að einhverjir hafi aðra skoðun á þessu máli en þá, sem kemur fram í afstöðunni, sem hæstv. utanrrh. mun taka. En tæpast held ég, að hægt sé að tala um það í alvöru, að Ísland notfæri sér neitunarvald sitt í NATO til þess að koma í veg fyrir, að Þýzkaland verði aðili að varnarsamtökum Vestur-Evrópu. Ég tel, að tæplega sé hægt að tala um slíkt í alvöru. En sem sagt, þetta mál kemur til meðferðar á Alþingi síðar, eins og venja er um slík málefni. En undirbúningur fararinnar af hendi hæstv. utanrrh. er eins og ég hef gert grein fyrir.