07.02.1955
Sameinað þing: 33. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1991 í B-deild Alþingistíðinda. (3208)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég skal verða við þeim tilmælum að vera stuttorður. En í tilefni af þeim ummælum, sem hv. þm. Vestm. viðhafði hér áðan úr þessum ræðustól, vil ég leyfa mér að leiðrétta að nokkru þann misskilning, sem þar kemur fram.

Hv. þm. Vestm. hélt því fram, að ég hefði farið með rangt mál, er ég talaði hér utan dagskrár hinn 4. febr. s. l., þegar ég hélt því fram, að deila sú, sem nú hefur orsakað það, að ekki hefur hafizt vertíð í Vestmannaeyjum enn þá, væri deila um fiskverð, deila um það, hver ætti bátagjaldeyrinn, þ. e. a. s. hvort sjómenn ættu sinn hluta af bátagjaldeyrinum eða ekki. Ég vil leyfa mér að ítreka það, sem ég sagði þar, og hef ekki úr neinu að draga. En sökum þess að ég skil, hverjar orsakir liggja til þeirra mótmæla, sem hv. þm. Vestm. hefur fram flutt, vil ég taka það fram, að það er rétt, sem hann segir, að það eru einnig opnir samningar Útvegsbændafélags Vestmannaeyja og Sjómannafélagsins Jötuns að því er snertir kaup og kjör. En þar ber ekki meira en svo á milli, að það er ekki með neinum rétti hægt að halda því fram, að deilan snúist um það atriði. Þar er aðeins óleyst það mál, með hverjum hætti skuli borga tíunda skipverja, þegar hann er á skipum á netavertíð, en að öðru leyti hafa samninganefndir þeirra félaga komið sér saman um þetta. Og það er aðeins formsatriði. að ekki skuli hafa verið gengið frá þeim lið í kjarasamningi, og það byggist á því, að útvegsmenn hafa ekki áhuga fyrir því að ljúka því máli, á meðan það stóra mál um fiskverðið er óleyst. Það er þess vegna greinilegt, að hv. þm. Vestm., sem hefur nú takmarkaðan kunnugleika á því, hvernig málin ganga dagsdaglega til í hans kjördæmi, hefur lesið það í blaði Sjálfstfl., sem út er gefið í Vestmannaeyjum, að deilan standi aðallega um þetta, en þar er verið að þyrla upp moldroki um ákaflega lítið atriði til þess að breiða yfir þau hin stærri, sem deilan raunverulega snýst um.