31.03.1955
Neðri deild: 68. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2048 í B-deild Alþingistíðinda. (3252)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. flugmrh. fyrir að hafa svarað þeirri fyrirspurn, sem ég bar fram í fundarbyrjun, og jafnframt fyrir að hafa tekið vel þeim tilmælum mínum að eiga sinn hlut að því, að þessi viðkvæma deila megi leysast á farsælan hátt. Ég vil enn fremur lýsa sérstakri ánægju minni yfir því, að allir ræðumenn, sem talað hafa, hafa tekið undir þá skoðun, sem ég setti fram í upphaflegri fyrirspurn minni, að brýna þjóðhagslega nauðsyn beri til, að þessi deila, að því er Loftleiðir snertir, verði leyst með einhverjum hætti.

Í þessum umræðum hafa tekið þátt forseti Alþýðusambandsins, formaður þingflokks Sósfl., formaður þingflokks Þjóðvfl. og hv. 7. landsk. þm. (EggÞ), sem á sæti í samninganefnd verkalýðsfélaganna. Í ræðum allra þessara manna og enn fremur í ræðu hæstv. flugmrh. hefur komið fram sú eindregna skoðun, að það sé sérstök og óvenjuleg ástæða til þess, að þetta mál verði að fá einhverja lausn, og ég trúi ekki öðru, þegar allir þessir aðilar eru á einu máli um, að hér sé sérstakt vandamál á ferðinni, en að þá hljóti lausn á því að finnast.

Hv. 2. þm. Reykv. tók þannig til orða, að hér væri um vandamál að ræða, sem nauðsynlegt væri að við sameinuðumst um að leysa. Undir þetta vil ég taka alveg sérstaklega.

Ég hygg, að nú sé ekki tími til þess að deila um, hver beri ábyrgð á því, að hnúturinn hefur ekki enn verið leystur, heldur sé nú tími kominn til þess að setjast að samningaborði með því hugarfari, sem hefur einkennt þessar umræður, og leysa vandann. Það er áreiðanlega ósk þjóðarinnar allrar, að þannig verði að farið.

Núna mun standa yfir samningafundur milli þeirra undirnefnda, sem settar hafa verið í málið. Ef þeir menn, sem látið hafa skoðun sína í ljós hér á þessum stað, vilja beita áhrifum sínum á þann hátt, er einkennt hefur þessar umræður, þá efa ég ekki, að jafnvel þessum degi getur lokið þannig, að lausn finnist á málinu. Ég treysti því, að hæstv. flugmrh. fylgist með því, sem fram fer á þessu sviði, og ef nauðsyn ber til, grípi inn í samningaviðræðurnar þannig, að báðir aðilar hliðri til að einhverju leyti, því að á því verður væntanlega sanngjörn og skynsamleg lausn að byggjast.