02.03.1955
Sameinað þing: 40. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (3294)

Kosningar

Forseti (JörB):

Hv. 8. landsk. þm. hefur gert kröfu til þess, að eitt nafn, nafn Vilhjálms Þórs, verði strikað út af þeim lista, er lagður hefur verið fram til stjórnarkjörs í áburðarverksmiðjunni, sakir þess að óheimilt sé, að bankastjóri Landsbanka Íslands eigi sæti í eða stjórni atvinnufyrirtækjum.

Þetta atvinnufyrirtæki er að meiri hluta til ríkisfyrirtæki, og Alþingi skipar af sinni hálfu menn í stjórn þess fyrirtækis, sem er eign ríkisins. Það skal ég reyndar játa, að mér hefur ekki gefizt tóm til að íhuga það, en mér sýnist sem ákvæði lagagreinar þeirrar, er hv. þm. las upp, muni ekki taka til slíks umboðs, þar sem hér er um opinbert fyrirtæki að ræða og Alþingi skipar í stjórn þess, og það muni standa nokkuð öðruvísi á, ef um öðruvísi fyrirtæki væri að ræða.

Ég get því ekki að svo vöxnu máli orðið við óskum hv. þm. um að úrskurða, að þetta nafn skuli fellt af þessum lista við þetta stjórnarkjör.