02.03.1955
Sameinað þing: 40. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (3295)

Kosningar

Einar Olgeirsson:

Ég vil eindregið skjóta því til hæstv. forseta, að hann fresti þessari kosningu og athugi betur sitt mál, áður en hann kveður upp úrskurð í þessu efni.

Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því, að hann sagði hér áðan, þegar hann var, án þess að hafa getað grundað þetta mál, að reyna að rökstyðja, að nafn bankastjóra Landsbankans mætti vera á þessum lista, að hér væri um opinbert fyrirtæki að ræða. Ég vil benda hæstv. forseta á, að fyrir liggja yfirlýsingar frá ráðherrum í tveim ríkisstj., að Áburðarverksmiðjan h/f sé einkafyrirtæki, sé eign hlutafélags, sem stofnað er eftir venjulegum hlutafélagslögum. Samkvæmt yfirlýsingu þeirra ráðh. er hér ekki um opinbert fyrirtæki að ræða, heldur einkafyrirtæki. Og hverjir eiga hlutabréfin í því, skiptir ekki máli um löglega eign þess hlutafélags. Það er hægt að selja þau hlutabréf, og það hafa verið gerðar till. um að selja þau hlutabréf. Þess vegna er ekki hægt fyrir hæstv. forseta að grundvalla sinn úrskurð á því, að hér sé um opinbert fyrirtæki að ræða og að lögin að einhverju leyti ættu ekki við slíkt, auk þess sem í lögunum stendur „atvinnufyrirtæki“, án þess að það sé greint, hvort það sé eign þess opinbera eða einkafyrirtæki, þótt ég hins vegar skuli viðurkenna, að þarna sé allmikill munur á. En einmitt þessi rökstuðningur, sem hæstv. forseti nú reynir að nota við sína yfirlýsingu, stangast á við afstöðu núverandi ríkisstj. um eignarréttinn á áburðarverksmiðjunni, sem er deilumál, sem liggur fyrir Alþ. í lagabreytingu, sem hér liggur fyrir. Þess vegna vil ég eindregið skjóta því til hæstv. forseta, þar sem þetta er það vandasamt mál að úrskurða, að ég álít, að það væri rétt að taka annaðhvort fundarhlé eða þá að fresta kosningunni, þar sem forsetaúrskurðirnir hafa mikla þýðingu fyrir allar framkvæmdir í framtíðinni, til þess að hægt sé að ganga þannig frá þessu máli, að sá úrskurður sé ótvírætt réttur.