17.12.1954
Neðri deild: 37. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

95. mál, almannatryggingar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Málið hefur nú breytzt nokkuð, síðan ég kvaddi mér hljóðs, því að það gerði ég áður en hv. þm. Borgf. bað um orðið nú í síðara skiptið, en þrátt fyrir það vil ég nú segja nokkur orð.

Það er rétt, sem hæstv. félmrh. tók fram, að hér komu engar þær till fram í dag í sambandi við frv., sem röskuðu grundvellí þess á nokkurn hátt. Þetta voru hóflegar till., sem fóru fram á sjálfsagðar smábreytingar í réttlætisátt, sem í raun og veru er vansi fyrir Alþingi að verða ekki við, þegar þær eru bornar fram. Og það er líka rétt, sem hann sagði, að það var ekki leitazt við að beita málþófi í sambandi við þessar till., heldur að ósk hæstv. forseta deildarinnar haldnar örstuttar ræður til þess að skýra aðeins efni þeirra með örfáum orðum. Þetta hélt ég að hefði frekar átt að verða til þess, að þingheimur vildi á síðustu stundum þingsins verða við sanngjörnum till., bornum fram af stillingu og hógværð og aðeins gerð grein fyrir efni þeirra, og ætti því síður en svo að verða til þess að verða þessum till. að falli núna á fundinum í kvöld.

Þessar till., sem hér liggja fyrir, voru þrjár, — ein þeirra er nú tekin til baka. Sú till., sem hv. þm. Borgf. bar fram, virtist mér auðsæilega eiga að rétta hlut fólks, nokkurra einstaklinga í landinu, sem ættu erfitt með að ná rétti sínum, en hins vegar væri betra að fela Tryggingastofnun ríkisins að gæta réttar þeirra, af því að hún hefði sterkari aðstöðu til þess, án þess að það kostaði tryggingarnar útgjöld. En þetta virtist hæstv. félmrh. taka þannig, að það gæti raskað þeim samkomulagsgrundvelli, sem fengizt hefði um málið, og yrði því að fara varlega um afgreiðslu og fresta fundi og fresta þingi fram yfir helgi. Ég fæ ekki skilið, að gild rök hafi verið til þessa, og ég held, að hæstv. ríkisstj., svo sterk sem hún er, mætti vera svolítið sveigjanlegri um afgreiðslu mála, þegar þm. fara eins hóflega í sakirnar og þeir hafa gert í þessu máli.

Önnur till. var um það, að bætur, sem tryggingunum ber að greiða, skuli ekki 100% fara til sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana í landinu, heldur skyldu 10% af þessum sjálfsögðu greiðslum renna til sjúklinganna sjálfra, til þess að þeir hefðu einhvern eyri milli handa. Þetta taldi ég líka að væri sjálfsagt að samþ. og að tryggingarnar þyrftu ekki að fara neitt flatt á samþykkt slíkrar tillögu.

Og 3. till., sem hér liggur fyrir, er um það að reyna að koma til leiðar, að smáupphæðir, sem veittar eru einstaklingum til viðurkenningar á 18. gr. fjárl., fari í hendur viðkomandi einstaklinga, en ekki til stofnunar, sem er enginn fátæklingur, þar sem er Tryggingastofnun ríkisins. Uppgjafakennari vestur á Ísafirði, sem átti að fá 4000 kr., fær ekki þessar 4000 kr., bara léttir því af Tryggingastofnun ríkisins að borga sama einstaklingi 4000 kr. Slíkt er ekkert annað en hringavitleysa, um leið og framið er hróplegt ranglæti á því fólki, sem búið er að þjóna þjóðfélaginu áratugum saman. Svo á að heita, að það fái viðurkenningu, en um leið og þessi viðurkenning er veitt, er hún tekin og sett í vasa sterkríkrar stofnunar í þjóðfélaginu.

Ég held, að ekkert af þessum till. sé þess eðlis, að það sé ástæða fyrir einn einasta þm. að kippast við, vegna þess að hann beri hagsmuni Tryggingastofnunar ríkisins svo fyrir brjósti, að það megi ekki ganga á hennar rétt.

Þessi seinasta till. var hér nokkuð rædd utan fundar í gærkvöld að viðstöddum hæstv. fjmrh., viðstöddum hæstv. forseta Ed. og fjölda þm. hér í þessari deild, og virtust allir vera á einu máli um, að það bæri að koma því til vegar, að heiðursviðurkenningarupphæðir á 18. gr. kæmust í hendur þess fólks, sem þær væru ákveðnar til. En þegar till. er borin fram um það hér í dag að breyta l. svo, að þetta náist, þá láta þm. sér sæma að rétta upp putana á móti því, þrátt fyrir það að það sé engum frjálsbornum manni sæmandi.