18.03.1955
Efri deild: 59. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

5. mál, bifreiðalög

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um viðbót við bifreiðalögin, er stjfrv. og er borið fram í hv. Nd. á þessu þingi öndverðu sem 5. mál, þskj. 5. Það var samþ. í d. með nokkrum breytingum, sem ekki eru þó neitt verulegar, og afgr. til þessarar hv. d. 10. þ.m. eins og það er prentað á þskj. 431.

Frv. er um það að bæta nýjum kafla við bifreiðalögin, og fjallar hann eingöngu um reiðhjól með hjálparvél, en svo nefnast í lögum þessum reiðbjól, sem hafa aflvél, sem er minni en 1 hestafl og þó ekki yfir 50 em3 strokkmál og ekki yfir 50 kg að þyngd, eins og segir í 1. gr. frv.

Þessi farartæki hafa ekki fallið undir ákvæði bifreiðalaganna, en það þykir ekki rétt að hafa það svo lengur, einkum vegna þess, að farartækjum þessum hefur mjög fjölgað undanfarin ár og eru mjög notuð af unglingum, svo að ekki sé sagt börnum, sem vitanlega má telja vafasamt að hafi þá æfingu í akstri eða meðferð hjólanna eða vitneskju um einföldustu umferðarreglur, sem nauðsynlegar eru til öryggis, bæði þeim, sem aka, og annarri umferð. Hefur því talizt nauðsynlegt að setja reglur um lágmarksaldur og að lögregluyfirvöld rannsaki, að þeir, sem óska eftir að aka farartækjum þessum, hafi ákveðna kunnáttu og þekkingu. Þá hefur og talizt nauðsynlegt vegna hagsmuna almennings, að farartækin séu tryggð fyrir tjóni, sem þau valda öðrum.

Það er vafalaust, að reiðhjól þau, sem frv. fjallar um, eru þægileg og hentug farartæki að ýmsu leyti, enda töluvert mikið notuð af vinnandi fólki, t. d, að og frá vinnu og í ýmsar smærri ferðir. Það væri því ekki rétt að setja nein þau ákvæði í lög þessi, sem drægju úr eðlilegri og heilbrigðri notkun farartækjanna, enda virðist það ekki gert með þessari lagasetningu, sem hér er um að ræða, heldur stefnt að því að koma í veg fyrir misnotkun þeirra og auka umferðaröryggi.

Ég vil þá leyfa mér að víkja örlítið með nokkrum orðum að frumvarpsgreinunum sjálfum. Eins og ég sagði áðan, þá er gert ráð fyrir, að þetta sé einn kafli, sem bætist við bifreiðalögin og verður VIII. kafli þeirra laga. Í b-lið 1. gr. frv., sem verður 42. gr. bifreiðalaganna, segir:

„Enginn má stýra reiðhjóli með hjálparvél nema hann sé orðinn 15 ára að aldri og hafi næga kunnáttu í akstri og umferðarreglum að dómi lögreglustjóra, svo og næga andlega og líkamlega hreysti. Lögreglustjórar veita mönnum heimild til að stýra reiðhjólum með hjálparvél, og skal heimildin rituð í innlend vegabréf heimildarhafa gegn gjaldi, sem dómsmálaráðherra ákveður. — Umsókn um leyfi til að stýra reiðhjóli með hjálparvél skal fylgja vottorð bifreiðaeftirlitsmanns um, að umsækjandi hafi næga hæfni til að stjórna slíku reiðhjóli og þekki umferðarreglur.“

Þá segir enn fremur, að sé erfitt að ná til bifreiðaeftirlitsmanns til þessara hluta, þá megi lögreglustjóri hverju sinni skipa hæfan mann til þess að prófa aksturskunnáttu umsækjanda, og kemur þá vottorð þess manns í stað vottorðs bifreiðaeftirlitsmanns.

Enn fremur segir í c-lið, sem verður 43. gr., að fyrir skrásetningu og skoðun reiðhjóla með hjálparvél skuli greiða gjald í ríkissjóð, en upphæð þess ákveður dómsmrh. með reglugerð. — Þá segir, að reiðhjól með hjálparvél skuli undanþegin bifreiðaskatti og ökumannstryggingu, en að öðru leyti gilda um þau, ökumenn þeirra, eigendur, tryggingar og akstur ákvæði laga þessara, þ.e. bifreiðalaganna, eftir því sem við á, svo og ákvæði laganna um refsingu og sviptingu réttinda.

Þá segir í d-lið gr., sem verður 44. gr., að dómsmrh. setji með reglugerð nánari ákvæði um gerð reiðhjólanna o.s.frv. í sambandi við það, sem þeim við kemur.

Allshn. hefur fjallað um þetta mál og leggur til, að það verði samþ. óbreytt eins og það liggur hér fyrir. Einn nm., hv. 10. landsk. þm., var ekki á fundi, þegar málið var tekið fyrir, og er hann því vitanlega óbundinn af áliti nefndarinnar.