14.10.1954
Efri deild: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

4. mál, hegningarlög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég veit ekki, hversu margir hv. þm. hafa lagt í það tíma að kynna sér það frv., sem hér liggur fyrir og hæstv. dómsmrh. hefur nú mælt fyrir hér við 1. umr. Þetta er að sjálfsögðu mál sérfræðinga, sem að mörgu leyti er torskilið fyrir almenna leikmenn að skilja að fullu og öllu. En þó er það svo, að þetta mál greip mig svo, að ég hef marglesið þetta frv., sem hér var útbýtt, ekki einungis frv. sjálft, heldur og þá miklu og merkilegu grg., sem því fylgir. Mér fannst rétt strax við þessa umr. að láta í ljós skoðun mína á þessu máli, þakklæti til hæstv. dómsmrh. fyrir þá vinnu, sem hann hefur lagt í þetta merka mál. og til þeirra manna, sem hafa unnið að því.

Ég tel engum vafa bundið, að þetta sé eitt af þeim merkustu málum, sem Alþ. fjallar um fyrr og síðar. Það, sem er einna merkast, að mér finnst í þessu frv., er heimildin samkv. 3. gr. til þess að fresta um tiltekinn tíma ákæru til refsingar út af því, sem þar er fram tekið, enn fremur heimild til þess að fresta ákvörðun um refsingu samkv. 4. gr., sem er ákaflega merkilegt atriði og nýmæli í okkar refsilöggjöf, að mér skilst, í þriðja lagi ákvæðið í 4. gr. um að fresta fullnustu refsingar og svo enn ákvæði í 4. gr. um eftirlit og umsjá með afbrotamönnum, sem getur haft alveg stórkostlega þýðingu fyrir þjóðfélagið. Öll þessi ákvæði þessa frv., sem þó er ekki nema í 9 greinum, eru svo merkileg, að ég tel, að þeir menn, sem þar hafa unnið að, eigi mjög miklar þakkir skilið fyrir þeirra verk.

Það verk, sem hér hefur verið unnið, ásamt þeim fjöldamörgu náðunum, sem hafa verið framkvæmdar á undanförnum árum, er bein viðurkenning á því frá mínu sjónarmiði, að rétt sé að milda viðurlög frá því, sem nú er í hegningarlöggjöfinni. Og það er einmitt þess vegna, auk þess sem ég vildi skýra afstöðu mína til málsins, að ég tók hér til máls við þessa 1. umr.

Samkv. athugasemdunum og því, sem hæstv. dómsmrh. lýsti hér, hafa verið skipaðir þrír ágætir menn til þess að endurskoða öll hegningarlögin. Ég er hæstv. ráðherra alveg sammála um, að rétt sé sú aðferð, sem hér er beitt, að láta fara frá sér hvern kafla, jafnóðum og endurskoðun hans var lokið. Og ég sé ekki annað en að það sé gengið þannig frá þessum kafla, að það sé engin ástæða til þess að fresta framkvæmd hans og að þjóðfélagið megi þegar njóta þeirra umbóta, sem þar koma fram. En með því að hvorki í ræðu hæstv. ráðh. né í athugasemdum um frv. hefur komið fram, á hvaða braut eða eftir hvaða reglum endurskoðunin skuli fara fram eða hvaða stefna skuli þar vera mörkuð, önnur en það, sem hæstv. ráðh. þó minntist á, að samrýma þetta við umbætur annarra landa, þá vildi ég beina því til þeirrar hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, hvort ekki sé rétt og eðlilegt að láta það koma fram í nál., hvaða stefnu Alþ. vill marka í þessum málum í þeim köflum, sem eru enn óendurskoðaðir. Það gæti m.a. hjálpað bæði hæstv. ráðh. og þeim ágætu mönnum, sem fara með þetta mál, til að komast að þeirri niðurstöðu, sem Alþ. síðar gæti fallizt á óbreytta. Ég tel, að í höfuðatriðum ætti að fara inn á þær brautir að forðast sem mest fangelsisdómana, en dæma heldur til varðhalds, sem eru miklu mildari dómar, þegar um er að ræða aðila, sem þjóðinni eru hættulegir, en annars til vistar á vinnuheimilum, sem þannig væri fyrir komið, að þau eyðilegðu ekki viðkomandi aðila, gerðu þá ekki að lakari mönnum, eins og vitanlegt er að fangelsin hafa raunverulega gert, og helzt að dómunum yrði hagað þannig, að aðili finni, að hann sé að bæta fyrir brot sitt og að hann sé ekki gerður að lakari þegni en hann var, áður en hann tók dóminn út.

Ég vildi hafa látið þetta koma fram á fyrsta stigi málsins og heyra, hvort það þætti ekki æskilegt, að einmitt kæmi fram í nál. einhver slík stefnuyfirlýsing hjá Alþ. í sambandi við þetta merkilega mál.

Ég vil svo að endingu endurtaka þakklæti mitt til hæstv. ráðh. og þeirra manna, sem hafa unnið að þessu máli, fyrir það merkilega frv., sem hér hefur verið lagt fram, og vænta þess, að það nái samþykki Alþingis.