10.03.1955
Neðri deild: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

137. mál, lífeyrissjóður barnakennara

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Við 1. landsk. þm. (GÞG) höfum leyft okkur að flytja tvær brtt. við þetta frv., og eru þær að nokkru leyti hliðstæðar þeim till., sem við einnig bárum fram við frv. um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en þó er þar á nokkur munur.

Í fyrsta lagi leggjum við til, að 7. gr. þessa frv. verði felld niður. Það er gr., sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Orðin „annaðhvort“ og „eða samanlagður aldur hans og þjónustutími er orðinn 95 ár“ í 1. málsgr. 10. gr. laganna falli niður.“

Það er sem sagt, að gr., sem ákveður það, að samanlagður aldur og starfsaldur, þegar hann hefur náð 95 árum, gefi rétt til fulls lífeyris úr sjóðnum, verði felld niður.

Nú hefur verið gerð grein fyrir því, og það er réttilega fram tekið af hv. form. fjhn. þessarar d., að það var ekki ágreiningur um það í n., að sanngjarnt væri að taka þetta ákvæði út úr l. um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og rökin, sem til þess liggja, eru þau, að nú tíðkast það, að menn hefji störf, sem gefa þeim rétt til þess að gerast sjóðfélagar í þeim lífeyrissjóði, fyrr en áður var og allt niður í 18 ára aldur. Þessu er hins vegar alls ekki til að dreifa um lífeyrissjóð barnakennara. Það hefur engin breyting orðið á lögum í langan aldur um það, hvenær menn geta hafið störf sem kennarar, og þar af leiðandi er heldur engin breyting á því, hve snemma menn yfirleitt byrja störf við kennslu, og það er þess vegna ekkert annað en rangsleitni að ætla að láta þetta ákvæði einnig ganga út yfir þá sjóði, þar sem rökin fyrir því eru ekki fyrir hendi. Þessi breyting er að vísu af formælendum þessa máls kölluð samræming, og það er hún, það er rétt, — en það er samræming, sem stingur í stúf við alla réttindasamræmingu, sem fram hefur farið í þessu landi um mörg undanfarin ár. Það hefur ekki verið farið þannig að að samræma kjör því lakasta, sem þekkzt hefur, heldur hefur verið farið öfugt að. Þeir, sem hafa borið skarðan hlut frá borði, hafa yfirleitt fengið sín kjör samræmd þeim, sem betri höfðu kjörin. En hér er gengið aftur á bak í þessum efnum og réttindi sjóðfélaga í lífeyrissjóði barnakennara eru nokkuð rýrð til samræmis við annað, sem önnur rök liggja fyrir.

Þess vegna er það aðaltillaga okkar, að þessi gr. verði felld niður úr frv. um lífeyrissjóð barnakennara, en með því að það virðist nú ekki ýkja líklegt, að þessi brtt. okkar, svo sjálfsögð og sanngjörn sem hún er, nái hér samþykki, þá höfum við til vara lagt til, að inn í frv. yrði hætt ákvæði svo hljóðandi:

„Sá, sem við gildistöku þessara laga er sjóðfélagi, skal njóta fullra lífeyrisréttinda, þegar samanlagður aldur hans og þjónustutími er orðinn 95 ár.“

Það var upplýst hér í umr. um frv. um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, að þetta sé í rauninni ekki annað en það, sem til er ætlazt. En ég sé það, að hv. fylgismenn ríkisstj. hér í þessari deild telja það fráleitt að hafa ákvæðin eins og á að framkvæma þau inni í lögum, og hefur hv. form. fjhn. vitnað í það, að stjórn lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins telji það öruggt, að þessi réttur verði ekki niður felldur. Því er þar fyrst til að svara, að það skiptir kannske ekki öllu máli, hvað stjórn lífeyrissjóðs segir um svona atriði, hitt skiptir meginmáli, að sá maður, sem á rétt í þessum sjóði, geti ósköp einfaldlega flett því upp í lagasafni ríkisins, hvern rétt hann á og hvern rétt hann hefur ekki. Og með því að hafa þetta ákvæði einungis í grg., sem alls ekki verður prentuð inn í lagasafn, þá er það ekki á valdi annarra, þegar fram líða stundir, heldur en lögfræðinga og þá þeirra, sem hafa nefbroddinn yfirleitt ofan í gömlum blöðum, að vita það eða ganga úr skugga um það með litilli fyrirhöfn, hvort þessi réttur er fyrir hendi eða ekki. Ég tel það þess vegna alveg sjálfsagða kröfu, sem sjóðfélagar þessara sjóða eiga, að réttur þeirra sé skráður í lög, en ekki einhvers staðar geymdur á kistubotnum sjóðsstjórna eða lögfræðinga.

Enn fremur er því til að svara við ræðu hv. form. fjhn. (SkG), að þó að ræðan kunni að hafa átt við að því er tekur til lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, af því að hann hefur ráðfært sig við stjórn þess sjóðs, þá er mér ekki kunnugt um, að hann hafi nokkru sinni ráðfært sig við stjórn lífeyrissjóðs barnakennara, og er raunar nærri viss um, að svo hefur ekki verið, þess vegna eru þau rök, sem hann færði fyrir sínu máli hér áðan um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, ekki frambærileg í þessu máli.

Önnur brtt., sem við hv. 1. landsk. flytjum á þskj. 443, er við 17. gr. frv., en þar er ákvæði svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Bætur, sem eftirlifandi börn sjóðfélaga fá greiddar samkvæmt lögum um almannatryggingar, skulu koma til frádráttar lífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum þessum.“

Þetta ákvæði leggjum við til að fellt verði niður. Rök okkar fyrir því eru þau, að gr. öll, Il. gr., er líka í frv. um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, þó að hún beri þar aðra tölusetningu. Þar horfir hún fram á við. Í þeim sjóði voru það áður lög, — eða eru l. nú, því að þetta frv. er ekki orðið að l. enn, — að bætur, sem greiddar eru maka og eftirlifandi börnum sjóðfélaga, skuli allar dregnar frá lífeyri þeim, sem lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins gefur rétt til. Í þessari gr. er gert ráð fyrir, að slíkar makabætur skuli ekki frádráttarhæfar, heldur einungis bætur til eftirlifandi barna. Greinin, eins og hún liggur fyrir, er þess vegna spor fram á við fyrir sjóðfélaga í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Hins vegar er hún spor aftur á bak fyrir sjóðfélaga í lífeyrissjóði barnakennara, þar sem hvorugt var áður frádráttarhæft frá lífeyrisrétti sjóðfélaga í þeim sjóði. Breytingarnar á lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sem horfa fram á við, hafa þess vegna verið notaðar sem yfirvarp til þess að rýra rétt sjóðfélaga í lífeyrissjóði íslenzkra barnakennara, og það er þetta, sem við hv. 1. landsk. erum að mótmæla í till. þeirri, sem við flytjum á þskj. 443, þar sem lagt er til, að síðari málsgr. 17. gr. frv. verði felld niður. Við væntum þess, að hv. alþm. þessarar d. sýni skilning á því, að það er engin sanngirni, sem hér er á ferðinni, með því að ætla að stíga aftur á bak í einum lífeyrissjóð, um leið og stigið er áfram í öðrum, og nota sömu rökin fyrir báðum atriðunum.