26.04.1955
Neðri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

188. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það voru nokkur atriði í ræðu hv. 3. þm. Reykv. (BÓ), sem ég þarf að svara. Annars var málflutningur hans hófsamur, eins og hann er raunar mjög oft og ég vil segja venjulega, og hann gerði enga tilraun til þess að verja það, sem er mjög ámælisvert, að ekki skuli enn hafa verið komið fullu lagi á skattgreiðslumál félaganna, þó að hann tilheyri stjórnarliðinu og ætti af þeim sökum að hafa nokkra tilhneigingu til þess að bera af því blak.

Hins vegar var hann mér ekki sammála um það, að skattabyrðin hvíldi tiltölulega of létt á félögunum, miðað við einstaklingana, og nefndi um það ein fjögur dæmi, þar sem meginhluti framtalinna tekna hefði farið í greiðslu skatta og útsvars, í tveimur tilfellum hefðu meira að segja skattar og útsvar samtals numið meiru en framtöldum tekjum, þannig að þessir skattgreiðendur hefðu orðið að gefa með sér til ríkissjóðs.

Ég fæ ekki skilið, að þessi dæmi geti verið öðruvísi til komin en þannig, að viðkomandi skattayfirvöld hafi gert mjög víðtækar leiðréttingar á framtölum þessara aðila. (Gripið fram í.) Með útsvörin líka, já. Dæmin geta ekki verið öðruvísi til komin en þannig, en þá er náttúrlega ekki mikið upp úr þeim að leggja, ef framtölin hafa verið svo vafasöm, að skattayfirvöldin, annaðhvort skattstjórarnir eða niðurjöfnunarnefndirnar, hafi ekki getað tekið þau gild og breytt tekjutölunum, og þá koma auðvitað út skattar og útsvör, sem standa í allt öðru hlutfalli við þær tekjur, sem yfirvöldin telja aðilana hafa haft, heldur en þeim, sem hv. þm. nefndi.

Hv. þm. sagði eina mjög athyglisverða setningu, sem ég tel rétt að vekja athygli á og halda á lofti. Hann sagðist líta á 20% afsláttinn á skatti félaga, sem þetta frv. fjallar um, sem viðurkenningu Alþ. eða ríkisvaldsins á því, að skattheimta bæjarfélaganna sé í raun og veru alveg óviðunandi. Þetta finnst mér satt að segja vera nokkuð þungur biti fyrir hæstv. fjmrh. að kingja, að láta segja þetta við sig, rétt áður en hann kemur í ræðustólinn, og svara þessu engu. Hvaða sveitarfélag er það, sem fyrst og fremst hlýtur að teljast eiga hlut að máli? Það er Reykjavík, þar sem flokksbræður hv. 3. þm. Reykv. ráða lögum og lofum, hafa hreinan meiri hluta. Það, sem felst í þessari setningu hv. 3. þm. Reykv., er það fyrst og fremst, að skattheimta Reykjavíkurbæjar sé svo dæmalaust ósvífin, að ríkisvaldið þurfi að grípa þar fram í og létta skatta á fórnardýrum Reykjavíkurbæjar til þess að gera þeim kleift að stunda sinn atvinnurekstur áfram. Öðruvísi verða ummæli hans ekki skilin, og mér finnst satt að segja þolinmæði hæstv. fjmrh. við sinn samstarfsflokk orðin fullmikil. Mér finnst langlundargeð hans vera orðið fullmikið, ef það er rétt, að þessa skattalækkun beri að skilja sem eins konar uppbót á það, sem bæjarsjóður Reykjavíkur seilist of langt niður í vasa atvinnurekstrar í bænum.

Annars má um veltuútsvörin þetta segja: Hvað eru þau eiginlega? Hvers vegna hafa bæjarfélögin gripið til þessa — ég vil segja — óyndisúrræðis, sem veltuútsvörin eru? Um það er ég hv. þm. fullkomlega sammála, að álagning veltuútsvara er sannkallað óyndisúrræði. Ástæðan til þeirra er engin önnur en sú, að framtölin, sem sveitarfélögin fá í sínar hendur til að leggja á þessi útsvör eftir, eru svo vafasöm, að þau verða ekki viðráðanleg með venjulegum tekjuskattstigum. Í raun og veru er það, hversu veltuútsvörum er beitt í ríkum mæli hér og í ríkari mæli en ég held í nokkru öðru nágrannalandanna, bein viðurkenning þess, að skattframtöl eru hér á landi óáreiðanlegri en í nokkru öðru nágrannalandanna, að skattsvik atvinnurekenda eru hér meiri en tíðkast í veröldinni, og veltuútsvörin eru í raun og veru ekkert annað en eins konar mótleikur niðurjöfnunarnefndanna gegn skattsvikum hinna tekjuháu skattgreiðenda. Ég mæli þessu tafli enga bót. Ég þarf ekki að taka fram, að ég mæli því ekki bót, að verulegur hluti skattgreiðendanna og þá fyrst og fremst atvinnurekendurnir svíki verulegan hluta tekna sinna undan skatti, og ég mæli því heldur enga bót, að niðurjöfnunarnefndir skuli telja sig þurfa að grípa til þess ráðs sem mótleiks að leggja á jafnósanngjarnan skatt og veltuútsvör hljóta að teljast. Það, sem hér á auðvitað að gerast, er það, að gerð sé alvarleg tilraun til þess að koma þessum málum á hreint, til þess að gera hér hreint borð, þ.e.a.s. að gera skeleggar ráðstafanir til þess að knýja alla skattgreiðendur til að telja rétt fram, ef við þá á annað borð höldum fast við tekjuskattinn, og þegar það hefur verið gert, að koma þá á skynsamlegum skattstigum og skynsamlegum álagningarreglum. Það er mjög fjarri mér að hafa sérstakan áhuga á nokkru, sem kalla mætti skattpíningu, hvorki á atvinnurekstri né heldur einstaklingum. Mér er ákaflega vel ljós sú hætta, sem felst í mjög háum skattstigum fyrir sparnaðinn og fjármagnsmyndunina í landinu, sem auðvitað hlýtur að teljast höfuðundirstaða undir varanlegum framförum. En meðan það líðst, að framtölum sé jafnóheyrilega ábótavant og nú er, þá dugir ekki að dæma háa skattstiga og jafnvel ekki veltuútsvör með sama hætti og mundi verða gert, ef maður víssi, að framtölin væru sómasamleg.

Kjarni þess máls, sem hér er um að ræða, þ.e.a.s. þessarar fimmtungs skattívilnunar til félaganna, er auðvitað sá, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að þeir aðilar, sem eiga að njóta þessarar skattívilnunar, eru flestir stórríkir. Ég gat þess áðan, að raunveruleg meðaleign 81 ríkasta félagsins hér í Reykjavík væri 5–6 millj. kr. Mér hafði ekki unnizt tími til þess að ganga frá þeim upplýsingum, sem ég aflaði mér um þetta, svo að ég gat ekki um þá tölu, að skattskyld meðaleign þessara sömu félaga var ekki nema 28698 kr., m.ö.o., að skattskyld eign 81 ríkasta félagsins í Reykjavík nær ekki eins árs nettótekjum þessara sömu félaga. Þetta er enn þá skýrara dæmi um ófremdarástandið í skattamálunum en ég nefndi áðan, þegar ég ræddi um félögin í Reykjavík öll. Er hægt að hugsa sér gleggra dæmi um ófremdarástand félagaskattanna en það, að sú eign, sem 81 ríkasta félagið í reykjavík greiðir eignarskatt af, skuli ekki ná eins árs tekjum? Þá spyrja menn auðvitað: Hvað hefur orðið um tekjur allra hinna áranna? Hvar hafa þær lent? Hvert hafa þær sokkið? Í hvaða hít hafa þær horfið?

Það ber allt að sama brunni með þetta. Eins og skattakerfið allt saman er, þá er félögunum ívilnað stórkostlega, miðað við einstaklingana. Þá skatta, sem ríkisvaldið innheimtir, heimtir það fyrst og fremst af einstaklingunum og þá fyrst og fremst af launamönnunum. Þegar ég nefndi launamenn í ræðu minni áðan, átti ég ekki einvörðungu við láglaunamenn, við Dagsbrúnarmenn, heldur átti ég almennt við þá menn, sem vinna fyrir launum, og þau geta auðvitað verið mishá. Hjá atvinnurekstrinum eru þau ekki mjög há. Framtalin laun atvinnurekendanna sjálfra eru ekki mjög há, að því er mér hefur skilizt, því að hvorki er það, að forstjórar þessara félaga telji fram mjög verulega háa launagreiðslu hjá þessum félögum, né heldur, að þeir fái arð útborgaðan, því að það er afar sjaldgæft í t.d. hlutafélögum, að þau greiði hærri arð en 5%, sem er leyfilegt til skattfrádráttar. Tekjur sínar hafa því þessir menn með einhverjum öðrum hætti en þeim, að þeir fái útborgaðan arð af sínum hlutafélögum eða séu þar á sérstaklega háum launum samkvæmt skattskrám. Þetta er auðvitað eitt af því, sem nauðsynlega þarf að breyta.

Ég skal svo endurtaka það að síðustu varðandi endurskoðun félagaskattalöggjafarinnar yfirleitt, að ég hef engan sérstakan áhuga á því, að skattstigarnir séu sérstaklega háir, þannig að heilbrigð aukning sé útilokuð í atvinnurekstri landsmanna. Meðan við á annað borð byggjum á einstaklingsrekstri og samvinnurekstri í landinu að langsamlega mestu leyti, er ekki nema eðlilegt, að skattakerfið verði ekki til þess að hindra eðlilegan vöxt þessa atvinnurekstrar. Það, sem ég hef sérstakan áhuga á, er, að óheiðarleiki eða sukk sé ekki látið viðgangast á þessu sviði, að menn viti, að hverju þeir ganga, og að það sé tryggt, að raunverulegar tekjur allra manna, bæði einstaklinga og fyrirtækja, komi fram og síðan greiði allir hæfilega og sanngjarna skatta af þessum tekjum, félög jafnt og einstaklingar, atvinnurekendur jafnt og launþegar.