26.04.1955
Neðri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

190. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Frsm. 1. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu. er eitt af þeim fjórum frv., sem ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ. nú að undanförnu og öll miða að því að hækka vaxtagreiðslur af lánum í landinu til íbúðarbygginga í sveitum, kaupstöðum og sömuleiðis til annarra framkvæmda, sem áður hafa notið sæmilegra vaxtakjara, svo sem ræktunarframkvæmdanna.

Það hefur áður verið rakið hér, bæði af mér og öðrum, að sú stefna, sem í þessu felst, er ærið óheillavænleg fyrir framtíð byggingarmálanna á okkar landi og fyrir framtíð fjármálanna yfirleitt, þar sem ekki má lengur nokkur hlutur vera með þeim réttindum í þjóðfélaginu, að lán til framkvæmda séu fyrir hendi með skaplegum kjörum.

Það hefur verið á það bent hér af formælendum ríkisstj., að það hafi orðið almenn vaxtahækkun í landinu og það sé ekki nema eðlilegt, að þetta fylgi þeirri vaxtahækkun. Þetta er ákaflega hæpin röksemd. Sízt af öllu er það samboðið þeim, sem þykjast hafa háð mikla og harða baráttu gegn dýrtíðinni í landinu, þegar þeir nú gera það að aðalröksemdum sínum, að ekkert megi dragast aftur úr af þeim liðum, sem annars verka til aukinnar dýrtíðar.

Húsagerð í sveitum er að sumu leyti nokkru óarðvænlegra fyrirtæki en a.m.k. sumt af húsagerð í kaupstöðum, og er það fyrst og fremst vegna þess, að sveitir landsins hafa ekki tekið eðlilegri þróun hvað fólksfjölgun snertir með sama hætti og þjóðin í heild. Það hefur sífellt sigið í þá áttina á undanförnum árum, að fólk hefur flutt burt úr sveitunum, og þeir sömu menn sem hér eru forsvarsmenn þess, að vextir séu hækkaðir til íbúðarhúsabygginga í sveitum, stynja hér úr þessum ræðustól yfir þeim vandræðum, að hér sé víða að verða fólkslaust í sveitunum. Þeir tala um það, að það þurfi að vinda bráðan bug að því að laga þetta, það þurfi að flytja inn fólk o.s.frv., en þegar kemur að einu höfuðskilyrðinu fyrir því, að fólkið geti búið í sveitunum, þ.e.a.s., að það geti byggt sér þar sæmileg hús án þess að verða mjög sligað af vaxtabyrðum þeim, sem á húsbyggingarlánum verða, þá vantar þá ekki hendurnar til þess að rétta upp til samþykkis því áformi ríkisstj. að gera enn þá örðugra að byggja í sveitum en verið hefur. Ég geri ráð fyrir því, að það breyti ekki stóru um þeirra handaburð við afgreiðslu þessa máls, þótt þeim sé bent á þetta hrópandi ósamræmi, sem í framkomu þeirra er, þó að þeim sé bent á það, að ein af þjóðarnauðsynjum Íslendinga er í því fólgin, að fólk geti búið í sveitum og byggt sér þar hús. Samt vil ég leyfa mér að undirstrika það, að þeir, sem ljá svona máli lið, eru ekki að stuðla að því, að straumhvörf verði í því málí, sem nú er eitt af okkar alvarlegustu vandamálum, þ.e.a.s., að fólksstraumurinn liggur úr sveitum og til höfuðborgarinnar.

Ég hef lagt til í mínu nál. sem minni hl. fjhn., að þetta frv. verði fellt. Það eru raunar ýmsar aðrar leiðir, sem til greina geta komið, og hér liggur .fyrir brtt. frá hv. 11. landsk. .þm. (LJós) um það, að í staðinn fyrir vaxtahækkun í þessum sjóði komi aukið framlag ríkissjóðs til hans, þ.e.a.s., að hið fasta árlega ríkisframlag hækki úr 2.5 millj. í 3 millj. Þetta er ólíkt skynsamlegri leið, og mun ég þar af leiðandi styðja þá breytingu, en auk alls annars vil ég benda á það, að vaxtagreiðslur þessa sjóðs eru nú ekki óhagstæðari fyrir s.l. ár en svo, að hann hefur haft 113 þús. kr. ágóða af vöxtum, þ.e.a.s. vextir, sem til hans hafa verið greiddir af lánum, eru 113 þús. kr. hærri en þeir vextir, sem sjóðurinn hefur sjálfur greitt af sínum lánum.

Á þessu kann að vera breyting í aðsigi, með því að sjóðurinn á von á allstóru láni, að því er mér skilst, 12 millj. kr. láni úr þeim sjóði, sem á að veita lán úr til almennra búsbygginga samkv. því frv. ríkisstj., sem héðan var afgr. úr þessari d. áðan. Má þá búast við því, að vaxtagreiðslur sjóðsins verði óhagstæðar, því að af þeim lánum, sem ríkisstj. ætlar þannig að koma til sveitanna, eiga að vera 7% eða jafnvel 71/4% vextir og væri eðlilegast að mæta því með auknu ríkisframlagi, en svo fremi að brtt. 11. landsk. þm. fáist ekki samþykkt, þá held ég mig við þá afstöðu, að frv. beri að fella.