03.05.1955
Efri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

190. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. tók fram, er þetta frv. að efni til náskylt því frv., sem hér var til umræðu næst á undan.

Bæði byggingarsjóður sveitanna og byggingarsjóður verkamanna eru til þess stofnaðir fyrst og fremst að sjá þeim fyrir lánsfé, sem ekki geta búið við almenn lánskjör, bæði hvað snertir lánstíma og vaxtaupphæð. Til þess að gera þessum mönnum kleift að eignast sómasamlegt húsnæði, hefur það ráð verið tekið að ákveða vextina meiri og lánstímann lengri en fáanlegt er á þeim almenna lánamarkaði. Það liggur í augum uppi, að það er rétt, sem hv. frsm. tók fram, að ef þessi starfsemi verður víðtæk og sjóðirnir afla sér fjár til útlána með háum vöxtum, sem þeir svo aftur lána út með stórum mun lægri vöxtum, þá hlýtur að því að reka, að svo og svo mikið af tekjum sjóðanna rennur til þess að greiða vaxtamuninn. Enn þá er þessu ekki svo komið með byggingarsjóð sveitanna. Samkv. upplýsingum í grg., sem hæstv. ríkisstj. lætur fylgja þessu frv., er tekið fram, að eins og sakir stóðu um síðustu áramót, þá greiðir byggingarsjóðurinn í vexti af skuldum sínum 847 þús. kr. á ári, en vaxtatekjur sjóðsins námu sama ár 960 þús. kr., eða 113 þús. kr. meira en greiddir vextir. Það er því augljóst, að til þessa hefur vaxtamunargreiðslan ekki hamlað að ráði starfsemi sjóðsins. Nú stendur nokkuð öðruvísi á, þar sem gert er ráð fyrir því, að þessum sjóði verði lagt aukið starfsfé, 24 millj. kr., og að það fé verði veitt með vöxtum, sem eru nokkuð yfir 7%, ef lántökugjaldið er reiknað með. Vaxtamunur á þessum 24 millj., þ.e.a.s. útlánsvaxta og þeirra vaxta, sem sjóðurinn þarf að greiða, gleypir, eins og augljóst er, mjög verulega upphæð, sennilega yfir 1 millj. kr. Því verð ég að segja, að það er alveg eðillegt, það er í samræmi við það, sem ég sagði áðan í sambandi við umr. um byggingarsjóð verkamanna og vexti hans, að taka til athugunar, hvort ástæða er til þess að breyta vaxtakjörum sjóðsins, því að ef ekki eru gerðar aðrar ráðstafanir til þess að sjá fyrir fé til sjóðsins til þess að greiða vaxtamuninn, þá er augljóst, að það skerðir möguleikana til útlána. Ég mun þó ekki greiða atkv. með þessari vaxtahækkun nú, og ástæðan til þess er sú, að ég álít, að það sé nauðsynlegt, eðlilegt og sjálfsagt, að báðir þessir sjóðir, sem ég hef nefnt, sitji við nokkuð svipuð kjör af hálfu ríkisvaldsins. Ég vil ekki enn þá gefa upp von um það, að Alþ. sjái sóma sinn í því að leggja byggingarsjóði verkamanna a.m.k. tilsvarandi upphæð í auknu starfsfé við það, sem tryggt hefur verið að byggingarsjóður sveitanna fái. Ég tel því ekki rétt, meðan ekki er vonlaust um, að þetta verði leiðrétt, að gera breytingar á útlánareglum sjóðsins og vaxtakjörum, heldur tel ég eðlilegt, að það yrði gert samtímis fyrir sjóðina báða og þá miðað við, að báðir fengju sömu starfsskilyrði. Ég mun því að þessu sinni, þó að ég verði að játa, að það stendur nokkuð öðruvísi á um þennan sjóð en byggingarsjóð verkamanna vegna þess aukna starfsfjár, sem hann á að fá, vera andvígur því, að þessi vaxtahækkun verði samþykkt, og mun því greiða atkv. á móti frumvarpinu.