14.12.1955
Neðri deild: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

11. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er um framlengingu á söluskattinum, og er það margrætt hér í deildinni, eins og hv. frsm. meiri hl. fjhn. tók hér fram, og skal ég því ekki fjölyrða um það. Það er samt vert að rifja það upp, að þegar þessi lög voru sett árið 1948, var það gert í því skyni að greiða útflutningsuppbætur á sjávarafurðir til þess að komast hjá gengisfellingu. Síðan gerðist það, að gengið var samt sem áður fellt, og þar að auki var komið á sérstöku fyrirkomulagi um sölu gjaldeyris að verulegum hluta þess, sem fæst fyrir sjávarafurðir, þ. e. a. s. bátagjaldeyriskerfinu, og hefði þá ástæðan fyrir söluskattinum átt að vera fallin niður, enda hefur það verið svo nú um mörg undanfarin ár, að umframtekjur ríkissjóðs hafa numið nokkuð svipaðri upphæð og þeirri, sem söluskatturinn hefur gefið.

Nú má það vel rétt vera, að ríkið hafi fulla þörf fyrir þær tekjur, sem söluskatturinn gefur, en við, minni hl. fjhn. þessarar deildar, lítum svo á, að það væri réttlátara að taka þann skatt, sem ríkið kynni að þurfa til þess að ná saman endum á sínum fjárreiðum, með öðrum hætti en hér er gert, enda viðurkennt, að þessi skattur kemur mjög hart niður á láglaunamenn, hann er alger neyzluskattur, sem leggst með nokkuð svipuðum þunga á allar vörur og verkar þannig á heimilin, að sá, sem á flest börnin, hefur fyrir flestum að sjá í sinni framfærslu, verður að gjalda mest af þessum skatti, vegna þess að hann kemst ekki hjá því, að hans þarfir eru meiri en þeirra, sem fyrir litlum heimilum hafa að sjá.

Nú er það hins vegar sýnt, að meiri hl. fjhn. leggur til, að skatturinn verði framlengdur, og má þá gera ráð fyrir því, að svo verði, þótt við í minni hl. n. leggjum til, að frv. verði fellt. Við leggjum því fram nokkrar brtt. við frv. og áskiljum okkur auk þess rétt til þess að fylgja öðrum brtt., sem fram eru komnar eða fram kunna að koma um þetta mál. Brtt. okkar liggja að vísu ekki fyrir þd. frekar en nál., en það mun vera rétt ókomið, er sem sagt í prentun. Till. okkar til breytinga á lögunum eru um það, að ríkissjóður skuli fá til ráðstöfunar þrjá fjórðunga af þessum skatti, en ¼ hluti hans skuli renna til jöfnunarsjóðs og ganga þaðan til sveitarfélaga landsins,enda eru þau mjög aðþrengd um tekjustofna.

Ef svo skyldi fara, að nál. okkar, sem við hv. 1. landsk. stöndum að, yrði ekki komið áður en þessari umr. lýkur né okkar brtt., sem þar eru prentaðar, vil ég biðja hæstv. forseta um að taka hér við okkar brtt. og afgreiða þær þá sem skriflegar brtt.