09.02.1956
Neðri deild: 65. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að taka til máls um þetta frv., en mér hefur fundizt, að gangur þess hér á Alþ. væri með þeim hætti, að það væri ekki óeðlilegt, að umr. um það yrðu nokkuð langar og kynnu að koma allvíða við. því er ekki að neita, að það vekur strax athygli manna, þegar flutningsmenn og hvatamenn eins máls forðast að mæta í umræðum; þeir hverfa sem lengst þeir geta frá þingsalnum, þegar málið er á dagskrá, en hins vegar virðist aftur vera rekið á eftir gangi málsins í umræðum hér með óvenjulegum krafti. Þetta hlýtur strax að vekja athygli manna, hvað raunverulega sé hér á seyði. Svo kemur vitanlega í ljós við nánari athugun á málinu, að það er allmargt, sem hér liggur á bak við. Það er ekki í raun og veru einvörðungu um þá litlu breytingu að ræða, sem frv. sjálft felur beinlínis í sér.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því sem meginbreytingu, að ein af stofnunum ríkisins, grænmetisverzlun ríkisins, verði lögð niður og sú starfsemi, sem hún hefur haft, verði færð yfir til annars aðila, sem er á vegum Stéttarsambands bænda eða framleiðsluráðs landbúnaðarins, en framleiðsluráð landbúnaðarins er, eins og kunnugt er, kosið og skipað af Stéttarsambandi bænda.

Ef maður fyrst athugar nokkuð þessa breytingu, sem hér er stefnt að, þá hlýtur að vakna sú spurning, hvort hér sé um að ræða almennt áhugamál bænda í landinu, hvort þeir hafi barizt fyrir þessu máli á undanförnum árum, gert samþykktir um það og beint óskum sínum um það til Alþingis. Mér er ekki kunnugt um það, og það hefur ekki komið hér fram í þessum umr. Ég hef hvergi orðið var við það, að samtök bænda svona almennt séð úti á landsbyggðinni létu þetta mál til sín taka eða þau hefðu nokkurn sérstakan áhuga í þessu efni. Hitt er aftur rétt, að það hefur komið fram nokkrum sinnum á fundum Stéttarsambands bænda, að þar virðist hafa verið nokkur áhugi fyrir því að koma þessari breytingu fram. En það hefur líka verið okkur kunnugt ýmsum, að Stéttarsamband bænda hefur verið sett saman á nokkuð sérstakan hátt. Þar hefur verið mjög gætt jafnvægis á milli Framsfl. og Sjálfstfl. Þar hefur helmingaskiptareglan verið mjög höfð í heiðri. Og það er alveg vitanlegt mál, að sjálfstæðismenn í þeim samtökum hafa litið svo á, að ekki væri óeðillegt, að t.d. þeim þætti í afurðasölumálum bænda, sem hefur snúið að grænmetisverzlun ríkisins, yrði skipt upp á milli þessara tveggja stóru aðila, að Framsfl. yrði þar ekki látinn fara einn með völd, eins og hann hefur gert óneitanlega í grænmetisverzlun ríkisins á undanförnum árum, en réttara væri, að helmingafyrirkomulagið fengi að komast þarna að, og hefði þá hvor aðill sinn réttláta hlut. En þó að Stéttarsamband bænda undir þessum kringumstæðum hafi gert nokkrar samþykktir um það til stjórnarflokkanna að óska eftir þessum breytingum, þá er það ekki hið sama og að bændastéttin almennt í landinu óskaði eftir breytingunum. Það á á engan hátt við það, að félagssamtök bænda og venjulegir bændafundir hefðu áhuga fyrir málinu og hefðu látið það koma fram t.d. í almennum fundarsamþykktum.

En þá vaknar eðlilega sú spurning, hvort það sé eðlilegt eða rétt, að pólitísk kaupsýsla eigi að komast inn í þetta mál, vegna þess að þessir tveir stóru flokkar, sem hafa skipt með sér völdum í Stéttarsambandi bænda, gera nú kröfur hvor til annars í hverju einstöku tilfelli um það, að jafnvægi þeirra á milli sé haldið, –hvort það sé í rauninni eðlilegt, að það sjónarmið fái að komast að í sambandi t.d. við sölu á grænmeti eða kartöflum.

Eins og hér hefur margsinnis verið bent á, er sala á garðávöxtum vitanlega stórfellt hagsmunamál neytenda í landinu, og sjónarmið neytenda hljóta því að verða mjög ofarlega, þegar þessum málum er ráðið til lykta. Og verði hagsmunir neytenda bornir fyrir borð í skipulagsmálum eins og þessum, þá er ákaflega hætt við því, að afleiðingar kunni að verða tilfinnanlegar á eftir og geti komið fram í ýmsum myndum: Ég held því, að allt pólitískt brask í þessum efnum sé í mesta máta varhugavert og óheppilegt. Svo er hitt að athuga, hvort hér er raunverulega um að ræða svo mikið eða á slíkan hátt eðlilegt mál framleiðenda eða bænda, að þessi samtök, stéttarsamtök bænda og framleiðsluráð landbúnaðarins, séu sjálfkjörinn aðill til þess að fara hér með þessi mál.

Ég hef veitt því athygli í þessum umræðum, að á það hefur verið bent og því hefur ekki veríð mótmælt, að samkv. síðustu framleiðsluskýrslum sýnir sig, að meiri hlutinn af framleiðslu á kartöflum í landinu er framleiddur í kaupstöðum og kauptúnum landsins, en minni hlutinn í sveitum. Og samkv. þessum skýrslum sýnir það sig einnig, að þáttur kaupstaða og kauptúna hefur farið vaxandi, en hundraðshluti af framleiðslunni frá hálfu sveitanna hefur heldur farið minnkandi. Það er því í mesta máta óeðlilegt að halda því fram, að hér sé sérstaklega nm málefni bænda að ræða óg að þeir eigi einir að fara með þessi mál og ráða yfir þeim í öllum greinum.

Ég sé ekki annað betur eftir þessum upplýsingum, sem hér liggja fyrir, en að hér sé í raun og veru af Stéttarsambandi bænda og framleiðsluráði landbúnaðarins verið að gera kröfu um það, að að því leyti til sem þessir aðilar fara með umboð bænda fái þeir einir allan rétt um sölumál garðávaxta í umboði fyrir minni hluta framleiðenda.

Svo kemur aftur hinn þáttur málsins, sem snýr að því, þó að svo stæði á, að þessir aðilar, Stéttarsamband bænda og framleiðsluráð landbúnaðarins, færu með allt umboð þessara framleiðenda, sem hér eiga hlut að máli, hversu eðlilegt það sé í sjálfu sér, að framleiðendurnir fái einir allt vald um fyrirkomulag þessara mála. Er það t.d. eðlilegt, að kartöfluframleiðendur í landinu ráði einir yfir því, hvort kartöflur eru fluttar inn til landsins eða ekki og hvort slíkt er gert að meira eða minna leyti? Mundi slíkt ekki fela í sér verulegar hættur fyrir hagsmuni neytenda í landinu? Ég hygg, að það muni allir viðurkenna, að það sé veruleg hætta á því, jafnvel þó að nm væri að ræða þá umboðsmenn framleiðenda, sem væru tiltölulega réttsýnir. Eru þá líka einhver fordæmi um, að hliðstætt skipulag sé tekið upp fyrir aðra framleiðendur í landinu? Hafa t.d. framleiðsluráð landbúnaðarins og Stéttarsamband hænda með sölu á öðrum framleiðsluvörum landbúnaðarins að gera? Hefur framleiðsluráð landbúnaðarins með sölu á kjötvörum að gera? Nei. Hefur það með sölu á mjólkurvörum að gera? Nei. Því er ekki þannig háttað. En nú óskar það eftir að fá vald til þess að hafa með alla sölu á garðávöxtum að gera og taka þannig að sér bein verzlunarstörf. Þetta skýtur því í fyrsta lagi skökku við, þegar þetta er borið saman við önnur hliðstæð efni. E.t.v. er það meiningin hjá Stéttarsambandi bænda og framleiðsluráði landbúnaðarins, að þetta verði fyrsta skrefið í þessa átt, að þessar stofnanir taki í sínar hendur alla afurðasöln landbúnaðarins, en ekki hefur komið fram í sambandi við þetta mál, að það væri ætlunin.

Og hvernig færi nú, ef þetta skipulag væri svo útfært á aðrar greinar í landinu? Ef framleiðendur að garðávöxtum eiga að hafa rétt til þess að verzla einir með alla garðávexti og hafa einkarétt til slíks, væri þá ekki t.d. á sama hátt alveg jafnréttlátt, að t.d. útgerðarmenn fengju þá einkarétt til þess að verzla einir allra með allar fiskafurðir í landinu? Væri ekki nákvæmlega jafnmikill réttur t.d. fyrir landssamband útgerðarmanna, sem er stéttarsamband þeirra, eins og fyrir stéttarsamband bænda, sem er stéttarsamtök bændanna í landinu, að krefjast þess, að landssamband útgerðarmanna yrði löggilt frá Alþ. sem hinn eini rétti aðill til að mega verzla í landinu með allar sjávarafurðir? Þá ætti að leggja niður alla venjulega fisksala, bæði sem reka það í heildsölu og smásölu, og útgerðarmennirnir ættu sjálfir að stjórna þessu og að sjálfsögðu, eins og framleiðsluráð landbúnaðarins, að ákveða um verðlag á þessu í hverju einstöku tilfelli og vitanlega taka að sér innflutning á sjávarafurðum, sem nokkur er, þótt einkennilegt megi virðast. Ég get ekki séð, hvaða frambærileg rök ættu að vera fyrir því að neita þessum samtökum um þessa séraðstöðu þeim til handa, ef landbúnaðurinn á að fá þetta í þessum tilfellum í sambandi við garðávextina.

Tökum enn fleiri aðila. Það eru til líka stéttarsamtök iðnaðarmanna í þessu landi, Landssamband iðnaðarmanna. Iðnaðarmenn hafa líka með að gera alls konar framleiðsluvörur sínar, söluvörur sínar. Er þá ekki nákvæmlega jafnsjálfsagt að veita þessum stéttarsamtökum einkarétt með lögum frá Alþ. til þess að selja alla framleiðslu iðnaðarins í landinu og ákveða verð á hverja einstaka grein, eins og Stéttarsamband bænda hefur nú á óbeinan hátt í gegnum framleiðsluráð landbúnaðarins?

Ég er alveg viss um það, að forgöngumenn þessa máls, a.m.k. ef þeir stæðu frammi fyrir því, að orð þeirra gætu orðið að gildandi lögum, mundu segja: Þetta kemur vitanlega ekki til nokkurra mála. Það er alveg útilokað, að við förum að leyfa stéttarsambandi iðnaðarmanna í landinu slíkt gífurlegt vald, sem fælist í þessu. — Og ég er líka alveg sannfærður um það, að forgöngumenn þessa máls mundu á sama hátt segja: Það kemur ekki heldur til mála að veita útgerðarmönnum þessa aðstöðu í sambandi við sölu á öllum fiski í landinu. — Þeim mundi ekki lítast á þetta fyrirkomulag. En þeir verða þó að játa, að það er nákvæmlega hliðstætt þessu, sem þeir eru að fara fram á sínu stéttarsambandi til handa, að það fái einkaaðstöðu til þeirrar verzlunar, sem ríkið hefur haft með höndum að undanförnu og hefur vitanlega átt að reka með hagsmuni neytenda í landinu fyrir augum. En þó vildi ég segja það, að þetta er að því leyti til verra í þessu tilfelli frá hálfu Stéttarsambands bænda og framleiðsluráðs landbúnaðarins, að þeir fara raunverulega ekki með umboð nema þá í mesta lagi minni hlutans af framleiðendum garðávaxta í landinu.

Nei, fordæmi fyrir söluskipulagi á þeim grundvelli, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, er ekki að finna. Og það er ábyggilegt, að það er almannarómur, að það mundi vera óæskilegt að skapa slíkt fordæmi og það mundi mjög kippa úr eðlilegu lagi því litla öryggi, sem þó er til í okkar landi í sambandi við afurðasölu eða vörusölu og hagsmuni neytenda í landinu.

Þá er hitt atriðið í þessu efni, að með þessu frv. er lagt til, að ríkisfyrirtæki, sem starfað hefur um margra ára skeið, verði lagt niður. Það er engin launung á því, að einn flokkur hér á Alþingi hefur það sem beint stefnumál, að hann vill leggja sem mest niður af þessum ríkisfyrirtækjum. Það er Sjálfstfl. Hann telur, að einstaklingsframtakið eigi að annast þau verk, sem ríkisfyrirtækin nú annast. Hann telur, að hin frjálsa samkeppni sé hollust og bezt í þessum efnum, en að afskipti ríkisins séu til óþurftar fyrir landsmenn. Þetta er skoðun Sjálfstfl. Framsfl. hefur hins vegar ekki haft þessa skoðun. Hann hefur talið, að þó að hann væri ekki almennt ríkisrekstrarflokkur, þannig að hann vildi mæla með ríkisrekstri almennt og yfirleitt, þá hefur hann þó mjög greinilega látið í ljós, að hann vildi standa að ríkisreknum fyrirtækjum í ýmsum tilfellum, þar sem almannaheill skipti og þar sem málum væri þannig komið, að það væri á ýmsan hátt hættulegt að láta einstaklingssjónarmiðið fá að ráða öllum úrslitum. Þetta hefur verið yfirlýst sjónarmið Framsfl., m.a. í sambandi við grænmetisverzlun ríkisins. Hann hefur talið, að þessi verzlun ætti að starfa áfram, hann hefur talið sér það til gildis að koma þessari verzlun á, og hann hefur líka haft með stjórn hennar að gera á undanförnum árum. Hlutverk þessarar stofnunar var og er að annast það, að neytendur í landinu eigi jafnan kost á því að fá garðávexti eftir þörfum og við sem sanngjörnustu verði, þó þannig, að þess sé jafnan gætt, að innlend framleiðsla sé notuð til hins ýtrasta, það sé greitt fyrir henni og henni komið á sölumarkað, þannig að hagsmunir framleiðenda í þessum efnum séu sem bezt tryggðir, en jafnframt hagsmunir neytenda þó metnir á eðlilegan hátt. Þessi verzlun hefur svo verið rekin þannig, að það hefur átt að tryggja það, að framleiðendur yrðu ekki í gegnum þessa verzlun skattlagðir á neinn hátt að óþörfu, og svo á hinn hátt gagnvart neytendum þannig, að verzlað væri sem mest á sannvirðisgrundvelli og garðávextir ekki hafðir dýrari en beinlínis væri óhjákvæmilegt.

Ef einkasjónarmiðið hefði fengið að ráða í þessum efnum, þá er alveg víst, að þá hefði gróðasjónarmiðið verið sett efst. Þá hefði verið flutt inn mikið af garðávöxtum, meira og minna án tillits til innlendrar framleiðslu, ef slíkt hefði gefið hagnað fyrir þann, sem hafði með söluna að gera. Og það er ósköp hætt við því, að þá hefðu jöfnum höndum borizt miklar umkvartanir, bæði frá inniendum framleiðendum og eins frá neytendum í landinu. En nú bregður svo við, að Framsfl. virðist fallast á að leggja niður þessa ríkisstofnun, sem hann kom á fót og hann hefur stjórnað og ekki hefur orðið vart við að væri kvartað neitt sérstaklega undan, a.m.k. ekki meira en ýmsum öðrum ríkisfyrirtækjum eða opinberum stofnunum, sem alltaf vitanlega liggja undir meiri og minni gagnrýni. Nú bregður svo við, að hann allt í einu þýtur til og vill leggja þessa stofnun niður án þess að færa fram fyrir því nein rök, sem maður getur komið auga á og gætu stuðlað að því, að hið nýja skipulag gæti tekið hinu eldra fram á nokkurn hátt. Það er ákaflega eðlilegt, að hugur manna í þessu efni beinist að því, hvort hér sé um almenn skoðanaskipti hjá Framsfl. að ræða eða ekki, hvort hann sé t.d. að hneigjast að því, að rétt sé um öll ríkisreknu fyrirtækin, sem Sjálfstfl. hefur á undanförnum árum iðulega minnzt á að leggja niður, að þau skuli lögð niður. Nú liggur t.d. hér fyrir Alþ. till. um að leggja niður skipaútgerð ríkisins. Og það væri í þessum umræðum ákaflega fróðlegt að heyra það frá hendi framsóknarmanna, hvort þeir hafi eitthvað skipt um skoðun í þeim efnum, hvort þeir álita nú, að rétt sé að hætta við ríkisreksturinn í þessum efnum, sem átti að tryggja eins góða þjónustu við fólkið og tök væru á, en t.d. að hverfa að því ráði að afhenda öðrum skipafélögum í landinu, sem fyrir eru, eins og Sjálfstfl. hefur lagt til, rekstur skipaútgerðarinnar og skipin og ætlast til þess, að þau önnuðust þá þessa þjónustu áfram. Við, sem getum ekki fallizt á, að rétt sé að leggja niður grænmetisverzlun ríkisins, lítum einmitt svo á, að það sé á ýmsan hátt mjög sambærilegt með skipaútgerð ríkisins, mjög sambærilegt á ýmsa lund. Og það eru til mörg önnur ríkisrekin fyrirtæki, sem falla undir þetta sama. Ég vildi t.d. spyrja um ríkisfyrirtæki, sem einu sinni var mikið talað um að leggja niður af sjálfstæðismönnum, en það er landssmiðjan. Þar hefur ríkið rekið stórt og myndarlegt fyrirtæki, en það er mjög sams konar stofnun og einkareksturinn hér í bænum hefur með höndum. En landssmiðjan hefur átt að halda uppi mjög margvíslegri þjónustu, sem hefur skipt miklu máli fyrir ríkið og þegnana í landinu að vita um að eðlileg verðlagning væri hjá, enda er ég ákaflega hræddur um, að ef landssmiðjan væri ekki, þá mundu stór viðskipti ríkisins við hliðstæðar smiðjur hér, þegar til dæmis um stórverk er að ræða eins og brúarbyggingar og margt annað, og þá mundi verðiag á slíku frá hálfu einkarekstrarins vera talsvert annað en það er nú í dag, meðan landssmiðjan er til þess að standa á verði um verðlagið og opinbert eftirlit getur verið í öllum greinum á rekstrinum þar frá hálfu Alþingis. — Það sama er að segja um fiskiðjuver ríkisins. Það eru uppi háværar raddir um að taka það úr eign ríkisins og afhenda það einkarekstri. Er það kannske að verða skoðun Framsfl., að það eigi þarna að fallast á sjónarmið Sjálfstfl.? Á yfirleitt að ganga á þessar ríkisstofnanir og leggja þær niður eina af annarri, en þær eru ýmsar fleiri en ég hef hér nefnt?

Þá kemur enn eitt í þessu máli, sem innt hefur verið eftir af fleirum en mér, að það er ekki hægt að sjá á þessu frv., eins og það liggur hér fyrir, hvaða aðili það er í raun og veru, sem á að taka við grænmetisverzlun ríkisins eða þeirri starfsemi, sem hún hefur haft með höndum. Það er að vísu sagt, að þessi starfsemi skuli vera framvegis í umboði framleiðsluráðs. Það þýðir sem sé, að framleiðsluráð landbúnaðarins getur falið einhverjum aðila eða einhverjum aðilum að annast þennan rekstur. Og í 4. gr. frv. er beinlínis sagt, að leyfi í þessu efni til rekstrarins skuli veita til eins árs í senn. Það virðist því vera, að um leið og á að leggja niður grænmetisverzlun ríkisins og ríkið á að afhenda þar verulega miklar eignir, þá liggur ekki einu sinni ljóst fyrir, hvaða aðill það er, sem á að hafa með reksturinn að gera framvegis. Hitt liggur fyrir, að framleiðsluráð fær vald til þess að framselja þennan rekstur í hendurnar ýmist á þessum eða hinum, ettir því sem meiri hluti kann þar að standa til í framleiðsluráði hverju sinni. Þetta þykir mér alveg furðulegt ákvæði í frv. Skárra hefði þó verið, að það hefði verið hér bindandi ákvæði um það, að sett skyldi á stofn sérstök grænmetisverzlun, sem þá væri eign einhverra tiltekinna aðila, og að sú verzlun skyldi starfrækt samkvæmt þar til settum reglum af Alþingi, sem sé samkvæmt lögum. En því er nú ekki að heilsa. Framleiðsluráð fer fram á að fá þetta vald í sínar hendur og hafa rétt til þess að framselja það, ýmist í pörtum og einnig frá ári til árs.

Í þessu sambandi vaknar sú spurning, hvort um einhvern verulegan árekstur hafi verið að ræða á undanförnum árum á milli framleiðsluráðs landbúnaðarins og grænmetisverzlunar ríkisins. Það væri þá fróðlegt, að frá því yrði skýrt hér í þessum umr. um málið, hvort samtök bænda hafa átt í einhverjum verulegum útistöðum við þessa ríkisstofnun, hvort hún hefur ekki fengizt til að haga stjórn sinni á þessum málum eins og umboðsmenn landbúnaðarins hafa áskað eftir á hverjum tíma eða hvort þarna hefur verið um einhverjar meiri háttar deilur að ræða eða ekki. Hafi ekki verið um neinar deilur á milli þessara aðila að ræða, sem ég vil nú helzt hallast að, þá er næst að spyrja um það, hvort ekki hefði verið eðlilegt fyrir framleiðsluráð landbúnaðarins að snúa sér til grænmetisverzlunar ríkisins með sínar óskir, ef einhverjar væru, til breytinga á öllu fyrirkomulaginu.

Ekkert af þessu hefur komið fram hér í umr. um þetta mál eða grg., sem með málinu fylgdi. Það er því engu líkara en hér hafi ekki verið um neinar deilur að ræða, um engan ágreining að ræða, en hins vegar sé verulegt kapp á það lagt að fá málið tekið úr höndum ríkisins og afhent framleiðsluráði og þar með Stéttarsambandi bænda, til þess að þeir tveir flokkar, sem þar hafa í bróðerni skipt á milli sín valdinu, gætu komið hvor við sínu helmingavaldi. Í umr. um þetta mál hefur verið á það bent, að einhliða ráðstöfun framleiðenda eða fulltrúa bænda í þessu efni gæti leitt til þess, að óæskilegar deilur yrðu á milli neytenda annars vegar og framleiðenda hins vegar, og ég trúi því varla, að forustumenn bænda óski eftir því í sjálfu sér að leiða yfir sig slíka hættu, því að vitanlega fer miklu betur á því, að það megi takast eðlilegt samstarf á milli neytenda og framleiðenda, því að það er auðvitað mjög auðvelt, ef ekki getur verið um nokkuð gagnkvæmt samstarf að ræða á milli þessara aðila, að koma þar upp tortryggni og beinum fjandskap, sem vitanlega gæti lent í ógöngum.

Ég vil þá benda á það, að samkvæmt þeim gögnum, sem hér liggja fyrir með þessu máli, liggja nú fyrir yfirlýsingar fjöldamargra kaupfélagsstjóra víðs vegar að af landinu, þar sem þeir lýsa því yfir, að þeir séu andvígir frv. eins og það liggur fyrir, og þeir lýsa því jafnframt yfir, að þeir telji, að það skipulag, sem verið hefur á sölu garðávaxta, hafi verið að þeirra dómi eðlilegt í öllum aðalatriðum og hafi þjónað vel hagsmunum framleiðenda, og þeir telji því, að varla væri von á betri aðstöðu framleiðendum til handa, þó að skipt yrði um skipulag. Það hlýtur líka að vekja verulega athygli í þessu máli, að Framsfl. skuli vilja gera ummæli þessara þekktu kaupfélagsstjóra, kaupfélagsstjóra t.d. eins og Jakobs Frímannssonar á Akureyri, algerlega að engu, að hann skuli ekki vilja meta umsagnir þessara manna, sem þó hafa haft með höndum umboðsstörf fyrir framleiðendur garðávaxta í sínum héruðum í stórum stíl.

Hvað getur raunverulega komið til, að ofurkapp skuli vera lagt á það að koma þessari skipulagsbreytingu fram, þegar málið er þannig í pottinn búið, sem ég hef hér lýst í nokkrum orðum? Hvað er það, sem getur ýtt á eftir? Það er greinilegt, að það eru ekki bændur sjálfir, sem ýta á eftir. Það er líka greinilegt, að umboðsmenn bænda heima í héruðum, kaupfélagsstjórarnir, sem eru þeirra nánustu samstarfsmenn í þessum efnum, það eru ekki þeir, sem óska eftir breytingu. Þeir jafnvel mótmæla breytingum. Hvað er það þá, sem ýtir á eftir? Ég hygg, að það muni fara svo, þó að ég sé þessum málum ekki verulega kunnugur, að þá muni nú samt tilgáta mín reynast nokkuð rétt, að böndin berist þangað, að það séu hin beinu pólitísku samskipti Framsfl. og Sjálfstfl. í Stéttarsambandi bænda, þar sem hvor um sig átti að hafa jafna aðstöðu við hinn, og síðan í framleiðsluráði landbúnaðarins, — að það sé þangað að rekja orsakirnar til þess, að nú á að fara að gera þessa skipulagsbreytingu. Sjálfstfl. vill fá sína hlutdeild í þeirri verzlun og þeirri verzlunarþjónustu, sem hér er rekin með garðávexti í landinu, telur sig ekki koma sínum málum nægilega vel fram við það skipulag, sem nú ríkir, þar sem er um ríkisverzlun að ræða, en vill hafa skipulagið sem allra lausast í formi, þannig að framleiðsluráð geti leyst þessi sölumál upp í jafnvel margar einingar, við skulum segja t.d. tíu eða svo, þannig að það væri auðvelt að deila því með tveimur, þannig að Sjálfstfl. fengi þá svona margar stofnanir til þess að ráða yfir í sambandi við sölumál á garðávöxtum og Framsfl. jafnmargar á öðrum stöðum, og þannig væri hægt að halda þessari gullvægu reglu um helmingastaðafyrirkomulagið.

Á meðan hvatamenn þessa máls hér á Alþingi geta ekki komið fram með sennilegri rök en þeir hafa komið hér með fram í þessu máli fyrir því, að eitthvað sérstakt kalli á þessa skipulagsbreytingu, þá mun ég trúa, að þetta séu orsakirnar til þess, að málið er flutt, og að þetta séu orsakirnar til þess, að reynt er að reka málið hér í gegn á Alþingi, og kemur þetta ekki líka einkar vel heim við það, að Framsfl. vill sem allra minnst láta sjá sig hér í umr. um málið? Yfirleitt hverfa framsóknarmenn út úr þingsölunum, þegar málið er rætt hér. Ég held það sé vegna þess, að þeir vita eiginlega upp á sig skömmina í þessu efni, vilja sem minnst um málið tala, forðast það. Þeir hafa að vísu á sérstökum stað og við sérstakt tækifæri gert kaupskap við Sjálfstfl. um málið, sá kaupskapur verður að standa, og því verður nú málið að ganga fyrir sig. Þeir verða því að taka við skömmum og við hörðum umr. um þetta mál, og þeir verða að bera það eins og hvern annan kross. Þeir hafa selt sig í málinu, og við það situr.

Sjálfstfl. þarf sig hins vegar lítið að hræra í þessu efni. Hann hefur þegar gert kaupsamninginn. Málið er orðið blokkfast. Það skal í gegn, ella er hér um samningssvik að ræða. Sjálfstfl. getur því tekið hvorn kostinn, sem hann vill, setið hér á þingfundum og hlustað á og brosað í kampinn eða þá að hann gengur af þingfundi, því að þetta mál kemur í raun og veru ekki lengur við hann. Það er búið að læsa því og loka. Hann hefur þegar fengið sinn hluta af þessu, og því verður ekki breytt.

Framleiðendur í landinu eiga svo eflaust eftir að segja sitt seinasta orð í þessum efnum og þá ekki síður neytendur, hvort þeir vilja virða þennan gang málsins á þann veg, sem flutningsmenn málsins ætlast til, eða hvort þeir þakka fyrir sig á viðeigandi hátt. En það er nú spá mín, að það verði sameiginleg niðurstaða framleiðenda og neytenda, þegar til framkvæmdarinnar kemur undir hinu nýja skipulagi, að þeir muni hvorugum þakka fyrir sig, Sjálfstæðisflokknum né Framsóknarflokknum, fyrir hið breytta skipulag.