10.12.1955
Neðri deild: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Jón Pálmason:

Herra forseti. Hv. frsm. fjhn., þm. V-Húnv. (SkG), hefur gert allrækilega grein fyrir starfsemi n. í sambandi við þetta stóra frv., og skal ég ekki fara langt út í að rekja það atriði. Mér er það ljóst, að ævinlega, þegar launal. eru til afgreiðslu, verður ekki hjá því komizt, að einhverjar meiri eða minni breytingar verði og tilfærslur milli launaflokka. Og þegar svo er í pottinn búið, að það frv., sem hér liggur fyrir frá hálfu hæstv. ríkisstj., er þannig, að þar hefur verið breytt mjög mikið flokkaskipuninni frá eldri launal., þá er eðlilegt, að margar af þeim breytingum, sem allar eru til hækkunar, hljóti að leiða af sér sanngirniskröfu um að færa meira til innan launafl., og sú er orsökin fyrir öllum þeim mörgu kröfubréfum, sem fjhn. hafa borizt og hv. frsm. lýsti.

Ég verð að segja það, að deila út af því máli er það mikið persónuleg, að ég tel það ekki hæfa, að við séum að fara út í hana hér opinberlega á þingi, og ég sætti mig við það, þó að ég sé óánægður með þetta frv. á margan hátt, að fylgja þeim brtt. að þessu leyti, sem samkomulag hefur orðið um í fjhn. og við mþn., sem undirbjó þetta frv.

Ég get þó ekki látið hjá líða að geta þess, að það hefur komið í ljós í þessu starfi og kemur greinilega fram í grg. fyrir frv., að á undanförnum árum hafa gildandi launalög mjög mikið verið brotin að því leyti til, að mörgum starfsmönnum ríkisins í hinum og þessum stofnunum hafa verið greidd laun samkv. hærri launaflokki en launal. ákveða. Kemur mjög víða fram, að þannig hafi þetta verið í framkvæmdinni; það hafi verið búið að gera þetta, án þess að l. væri breytt. Allar þessar breytingar eru teknar upp í frv. til hækkunar, og ég verð að segja, að það er að sínu leyti skárra að gera þetta löglegt heldur en að það sé eins og það hefur gengið að undanförnu samkvæmt þeirri lýsingu, sem fram kemur í grg. frv. beint og óbeint frá hv. mþn.

Það, að ég get ekki fylgt þessu máli, eins og það liggur fyrir, og hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 177 við 1. gr. frv. um lækkun á launaflokkunum, er sprottið af því, sem ég skal nánar fara út í síðar, að ég get ekki fallizt á, að það sé eðlilegt eða heilbrigt, eins og nú er ástandið í okkar þjóðfélagi, að ganga eins langt og gengið hefur verið á þessu ári í þessum efnum. Ég skal byrja á því að útskýra, hvað mín brtt. þýðir.

Samkv. því, sem frv. ákveður, eru þau laun í hverjum launafl., sem nú eru ákveðin í gildandi launal., þrefölduð og þar við bætt 20% grunnlaunahækkun, eins og ákveðið var hér á þingi í fyrra og er nú í framkvæmdinni. Ofan á þetta er svo bætt 9.5% hækkun yfir alla línuna, og sú brtt., sem ég flyt hér, þýðir það að afnema þessa 9.5% almennu launahækkun, sem hér er um að ræða. Samkv. áætlun mþn. þýðir þetta eftir hennar útreikningi 15.6 millj. Nú má gera ráð fyrir, að þær breytingar, sem verða á þessu máli í meðferð Alþ., muni þýða aldrei minna en 2 millj. kr. hækkun og getur orðið talsvert meira, og þá þýðir sú hækkun raunverulega, sem á þennan hátt er ákveðin með þessu frv., rúmlega 16 millj., eða við skulum segja 16–17 millj.; það er ekki hægt að ákveða það eða reikna það út nákvæmlega eins og sakir standa. Mín lækkunartillaga þýðir því 16–17 millj. kr.

Nú er það svo, að það er búið að lögfesta það á þessu þingi, að öll skerðing á verðlagsuppbót samkv. vísitölu skuli hér eftir falla niður, og það þýðir auðvitað, að hverri grunnlaunahækkun fylgir tilsvarandi verðlagsuppbót, og það hefur verið reiknað með því, að verðlagsuppbótin næsta ár mundi verða 73 stig, sem er 73%, en samkv. síðustu upplýsingum frá hagstofunni er gert ráð fyrir 76 stiga vísitölu. Og mér er sagt, að í fjárhagsáætlun hjá bæjarstjórn Reykjavíkur, sem nú er til meðferðar, sé reiknað með 76 stiga vísitölu fyrir næsta ár. Þá er aðstaðan þannig, að ef við reiknum með 76 stiga vísitölu, er breytingin sú frá frv. og til minnar till., að samkv. frv. að viðbættri verðlagsuppbót mundu árslaunin í 1. launaflokki verða 104016 kr., en samkv. minni till. mundu þau verða 95040 kr. Ef við tökum svo aftur t. d. hámarkslaun í 7. launaflokki, sem mun vera nálægt því að vera meðallaun samkv. þessu frv. og a. m. k. ekki hærra en meðallaun, vegna þess að það er sama og ekkert af fólki eftir í þessu frv., sem ætluð eru laun samkv. XIV. og XV. launaflokki, þá yrðu að viðbættri verðlagsuppbót árslaunin samkv. þessu frv. 66506 kr., en samkv. minni till. 60825 kr. Þetta vildi ég taka fram, til þess að hv. þm. geti séð, hvaða atriði það er, sem ég fer fram á að breyta í þessu sambandi.

Og þá kem ég að því, hvaða orsakir liggja fyrir því, að ég flyt þessa lækkunartill., sem gildir um allar þær stéttir, sem þetta frv. fjallar um. Orsakirnar eru þær, að mér ofbýður sá hamagangur, sem í því hefur verið á þessu yfirstandandi ári að hækka laun. Mér ofbýður það vegna þess, að undirstaða allra okkar fjármála, framleiðslan, er þannig komin, að það er ekki hægt að reka hana að kalla má á neinu sviði nema með mjög mikilli aðstoð frá því opinbera. Og ég lít svo á, að þar sem um er að ræða laun hjá starfsmönnum ríkisins, þá sé það sá eini flokkur í raun og veru, sem Alþ. ræður yfir að ákveða laun hjá, og að það sé og það eigi að vera mælikvarði á það, hvað sé eðlilegt og réttmætt að borga öðrum stéttum, enda þótt Alþ. ráði ekki yfir því, hvernig því er varið.

Nú skal ég fara lauslega yfir það, hver er saga þessa máls frá því um þetta leyti í fyrra. Ég hygg, að það hafi verið í nóvember 1954, að þá eru gerðir nýir samningar við verkfræðinga landsins, sem þýddu mjög mikla launahækkun. Þar með var flóðgáttin opnuð. Svo kemur það, að daginn sem fjárlög fyrir yfirstandandi ár, árið 1955, voru afgreidd, var samþ. með einni till. á 22. gr. að hækka laun embættis- og starfsmanna um 12 millj. kr., og það fólst í því að hækka grunnlaunaviðbótina úr 10, 15 og 17%, eins og hún áður var, upp í 20% yfir alla línuna, og þetta var látið ná yfir bæði árin, árið 1954 og 1955. Síðan hefur það gerzt, að sú vísitöluskerðing eða verðlagsuppbótarskerðing, sem verið hefur í gildi á undanförnum árum varðandi opinbera starfsmenn, hefur verið felld algerlega niður, og um leið hefur það gerzt vegna ýmissa orsaka, að vísitala hefur á þessu ári hækkað mjög mikið. Samkv. þeim útreikningi á þessu atriði, sem fram kom í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. fjárl., reiknaði hann með, að á árinu 1956 mundi þetta þýða hækkun um 29 millj. á launum embættis- og starfsmanna ríkisins. Þá er hækkunin komin í 41 millj. Við þetta er þó það að athuga, að í þessum útreikningi miðaði hæstv. fjmrh. við 14 stiga vísitöluhækkun, en nú er nokkurn veginn víst, að hækkunin verður meiri, og við vitum ekki, hvað vísitalan muni hækka mikið, áður en árið 1956 er liðið til loka. Í þriðja lagi kemur svo það frv., sem hér liggur fyrir. Samkv. áætlunum mþn. þýðir það 20 millj. kr. hækkun á embættislaunum, en hv. fjvn. hefur reiknað þetta út eða látið reikna út, og samkv. hennar útreikningi þýðir þetta 22 millj. kr. hækkun. Þar við bætist sú hækkun, sem gera má ráð fyrir víð meðferð þessa máls hér í þinginu varðandi flokkabreytingar, sem allt er til hækkunar og ég lauslega reikna með að þýði 2 millj. kr. Þá er kostnaðurinn við samþykkt þessa frv. 24 millj., og hækkunin öll á einu ári, frá því 16. des. í fyrra og þangað til þetta mál verður afgreitt, orðin 65 millj. kr.

Ég verð að segja það, að þetta ofbýður mér, og ég hygg, að landsfólkinu geri það yfirleitt. Nú er auðsætt, að það er það mikið kapp á það lagt af þeim, sem fastast sækja að koma þessu máli fram, að það verði afgreitt nú, að það er ætlunin, að það verði sjálfsagt afgreitt fyrir 17. þ. m., sem er á laugardaginn kemur. Og ef það verður samþ. eftir því sem horfir og mín brtt. felld, þá geta þeir, sem hlut eiga að máli, haldið eins konar árshátíð launahækkunarinnar, þannig að þá er búið að hækka launin á einu ári um 65 millj. kr. Ef við reiknum þetta út prósentvís, sem er tiltölulega létt að gera, ef farið er eftir þeim áætlunum, sem fyrir liggja hjá mþn., þá skal ég taka það fram, að frá þessum 65 millj. verður raunverulega að draga 6 millj., sem fært var inn á árið 1954 og byggist á sama grundvelli og aðrar 6 millj., sem samþ. voru 17. des. í fyrra og gilda fyrir yfirstandandi ár. Þá eru eftir 59 millj. kr., en samkv. áætlun mþn. gildir 9.5% hækkunin, sem ég fer fram á að fella niður, 15.6 millj. 10% hækkun mundi þá þýða eftir sama útreikningi 16.4 millj., og öll þessi 59 millj. kr. hækkun á launum embættismanna ríkisins þýddi þá rúmlega 36% hækkun samtals að meðaltali. Nú væri það fyrir sig að láta þetta ganga í kring, ef þetta hefði ekki í för með sér margvíslegar, víðtækar og stórkostlegar afleiðingar á öllum sviðum okkar þjóðlífs. Ef þetta verður ákveðið nú, þá verður fyrsta afleiðingin sú, að margir aðrir aðilar í þjóðfélaginu eru neyddir til að hækka öll laun hjá sér um 9.5%, hvað sem flokkabreytingum líður; ég skal sleppa því. Og mér er sagt, að bæjarstjórn Reykjavíkur, sem nú er að fást við sín fjárlög, sína fjárhagsáætlun fyrir árið 1956, hafi reiknað með því, að þetta yrði samþ. Og sé reiknað með því, að hún verði líka að taka þetta upp, sem ekki er óeðlilegt eins og sakir standa, mundi það þýða það, að öll bæjarfélög í þessu landi og sveitarfélög, sem hafa einhverja fasta starfsmenn á sínum snærum, verða að taka upp sömu hækkun og Alþ. og ríkisstj. ákveða hjá starfsmönnum ríkisins. Næst koma bankarnir, sparisjóðirnir og aðrar þær stofnanir, sem eru utan launalaga, svo sem Tryggingastofnunin, Búnaðarfélagið, Fiskifélagið og fleiri stofnanir, sem hlut eiga að máli og hlytu að fara í þetta kjölfar, undireins og búið er að lögfesta þessa hækkun hér á Alþ. Þá er víst, að hjá pósti og síma verður að taka þetta einnig 1neð, því að það er ekki nema lítill hluti af starfsmönnum pósts og síma, sem er inni á launalögum. Allir hinir starfsmennirnir á fyrsta flokks B-stöðvum, annars flokks stöðvum og þriðja flokks stöðvum alls staðar um landið hlytu og yrðu að fá þessa hækkunarprósentu undireins nú um áramótin, ef þetta er samþykkt hér á Alþingi.

Þá er enn fremur þess að geta, að ein afleiðingin yrði sú, að allt fastlaunað verzlunarfólk mundi heimta sömu uppbæturnar, en með verzlunarfólki á ég við alla starfsmenn að forstjórum meðtöldum hjá samvinnufélögum landsins og allt annað verzlunarfólk, sem starfar í landinu, — ja, menn kalla það nú í daglegu tali kaupmannaverzlanir, en sannleikurinn er sá, að með örfáum undantekningum er það allt orðið verzlunarhlutafélög, sem hafa verzlunina á sínum höndum, að undanteknum samvinnufélögunum, það eru verzlunarhlutafélög, og hjá þeim hafa laun ekki einasta starfsfólkið, heldur og forstjórarnir og eigendurnir sjálfir, og allt þetta fólk mundi fá sína hækkun, ef ríkið gengur þarna á undan með að ákveða þessa prósentuhækkun hjá sér. Enn fremur mundi koma fastlaunafólk hjá skipafélögunum og einnig í iðnaðinum. Hvað svo yrði um verkamannastéttina, skal ég ekkert fara út í að þessu sinni. En ég vil segja, að sú aðferð, sem hér er stofnað til, er þannig, að hún hlýtur að hafa mjög alvarlegar afleiðingar í öllu okkar fjármálakerfi, og það er þó þannig á vegi statt, að mér fyrir mitt leyti finnst ekki, að það sé á það bætandi að auka þungann, sem hvílir nú á okkar framleiðslu til sjávar og sveita, og aðstaðan er slík, að það er alveg víst, að Alþ. og ríkisstj. verða að gera einhverjar nýjar og róttækar ráðstafanir nú um áramótin, til þess að atvinnuvegir landsins haldi áfram óhindrað.

Ég er fastur á því, að verði þessi brtt. mín felld, þá greiði ég hiklaust atkv. á móti þessu frv., og hvort sem ég stend einn uppi um það hér á hv. Alþ. eða ekki, þá verður að hafa það.

Á hvaða vettvangi okkar þjóðlífs sem vera skal, hvort það er í blöðum, á mannfundum, hér á Alþingi eða hvar annars staðar, skal ég ekki vera neitt hikandi við að verja mína afstöðu í þessu efni. En ég hef verið að hugsa um það: ja, hvað er annað hægt að gera, sem getur komið embættismannastétt landsins að jafnmiklu gagni og að hækka launin, eins og hér er farið fram á, án þess að hafa í för með sér þær háskasemdir í okkar þjóðlífi, sem ég hef hér verið að lýsa? Það er fjarri því, að mér detti í hug, eins og einstaka maður hefur leyft sér að bera mér á brýn, að ég sé einhver óvildarmaður fastlaunamanna ríkisins. Því fer ákaflega fjarri, því að það er svo margt ágætra manna í þeim stéttum, að ég er ekki svo heimskur maður, að mér detti í hug að vera nokkur andstöðu- eða óvildarmaður þessara manna. En ég vil bara haga okkar fjármálaafstöðu þannig, að það sé ekki hlaðið meira undir þessa menn, þessar stéttir, sem öll þjóðin vill helzt komast í, heldur en svo, að það sé forsvaranlegt gagnvart þjóðlífinu í heild. En það, sem er hægt að gera og væri að mínu áliti miklu skynsamlegra að gera en að taka þessa launahækkunarskrúfu upp, eins og með þessu frv. er stefnt að, er að lækka tekjuskattinn og lækka hann til mikilla muna. Tekju- og eignarskattur fyrir árið 1955 var álagður 98 millj., og hann er áætlaður á fjárlagafrv. eitthvað rúmar 90 millj. Ég held, að það væri miklu hyggilegri aðferð að breyta til og samþykkja hér þá till., sem ég hef hér lagt fram á þskj. 177, en taka um leið þá ákvörðun að lækka tekjuskattinn yfir alla línuna, svo að verulega munaði um, og það kæmi launamönnum ríkisins öllum að gagni, eins og það kæmi líka öllum öðrum að gagni, sem tekjuskatt greiða, og hann er ekki sízt greiddur nú orðið af launum yfirleitt, vegna þess að framleiðslufyrirtæki, sem flest eru rekin með halla, eru ekki verulega tekjuskattshá, eins og nú er komið málum. Ég vil því segja það að lokum, að ef mín till. verður samþykkt, mundi ég vilja beita mér fyrir því eða vera með í því, að þessu væri breytt á þá leið, að tekjuskatturinn væri lækkaður stórlega, í stað þess að þessi 9.5% hækkun, þessar 16 millj. kr., yrði lögfest sem árleg greiðsla. Að öðru leyti skal ég svo ekki á þessu stigi fjölyrða meira um þetta mál, en vænti þess, að mér gefist tækifæri til að svara þeim andmælum gegn till. minni, sem hér kunna fram að koma.