25.11.1955
Neðri deild: 24. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

14. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég var því miður ekki viðstaddur í d., þegar mál þetta kom til 2. umr. í gær og var vísað til 3. umr., en mér hafði verið falið að hafa framsögu í málinu af hálfu hv. fjhn., og vil ég biðja hæstv. forseta afsökunar á því.

Efni frv. þessa, sem þegar hefur verið afgr. samhljóða frá Ed., er það, að niður verði felld aðflutningsgjöld af fræðslukvikmyndum og skuggamyndum, sem fræðslumálastjórnin flytur inn og fær frá viðurkenndum erlendum vísinda- og menntastofnunum. Mál þetta á rót sína að rekja til þess, að á öðru þingi Norðurlandaráðsins, haustið 1954, var því beint til hlutaðeigandi ríkisstjórna að létta af tollum á innflutningi þeirra menningartækja, sem ég nefndi áðan. Til þess að það sé hægt hér, þarf að breyta ákvæðum í tollskrárlögum, og er það lagt til með þessu frv. Hin Norðurlöndin munu hafa gert hjá sér sams konar ráðstafanir og felast í þessu frv., og virðist fullkomlega eðlilegt og réttmætt, að slíkar ráðstafanir verði gerðar hér.

Viðstaddir nm., sem voru fjórir, mæltu með því, að frv. næði fram að ganga óbreytt. Einn nefndarmanna, hv. 9. landsk. þm. (KGuðj), var fjarverandi úr bænum, þegar málið var tekið fyrir í n., en hefur tjáð mér, að hann sé frv. einnig meðmæltur.