10.02.1956
Neðri deild: 66. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (1441)

10. mál, stýrimannaskólinn í Reykjavík

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er ekki með nokkru móti hægt að segja, að þetta sé stórmál, vegna þess að þvert á móti er hér eingöngu um fyrirkomulagsmál að ræða innan stjórnarráðsins, sem að vísu kann að vera eitthvert „prinsip“-mál, en a.m.k. hefur enga stjórnmálaþýðingu og varðar ekki að neinu leyti yfirstjórn skólanna, eins og nú háttar; mundi engu breyta til um það, hvaða ráðherrar færu með þetta.

Ástæðan til þess, að ég flyt frv., er eingöngu sú, að þegar ég tók við meðferð menntamálanna og lagt var undir mig sem ráðherra að fara einnig með þessa skóla, sannfærðist ég um, að allar afgreiðslur varðandi þá, sem undir mig eða ráðuneytið hafa komið mína stjórnartíð, eru þess eðlis, að sú sérþekking, sem á þarf að halda til afgreiðslunnar, er í menntmrn., en ekki í samgmrn. Þess vegna hef ég talið, að það væri tryggara fyrir undirbúning mála í hendur ráðherra, að það ráðuneyti. sem hefur hina nauðsynlegu sérþekkingu og æfingu í meðferð skólamála, hefði undirbúninginn í hendur ráðherra, en ekki þeir, sem fjalla um allsendis óskyld mál. Sérstaklega er það auðvitað auðséð varðandi matreiðslumannaskóla, að ákaflega er erfitt að heimfæra það undir sérþekkingu samgmrn., að það eigi að hafa mikið færi á því að dæma um þau efni. Ég játa að vísu, að starfsmenn í menntmrn. — ráðherra er fyrir utan þetta hafa kannske ekki öllu meira vit á matreiðslu en þeir hinir, en varðandi útvegun kennara og dóm um það, hvernig eigi að ráðstafa tímum og öðru þess háttar, sem undir ráðuneytið kemur, sem er nú ekki nema mjög lítið, þá er það þó menntmrn., sem hefur æfinguna, en ekki samgmrn.

Ég skýri frá þessu eingöngu sem upplýsingu. Sjálfur legg ég ekkert upp úr því, hvort málið verður samþykkt eða ekki. Þetta er fyrirkomulagsatriði og nánast verkstjórn, en pólitískt mál getur það ekki verið, og „prinsip“-mál held ég að það geti ekki kallazt heldur, sérstaklega þegar það er haft í huga, að í fyrra voru iðnskólarnir teknir undan iðnmrn. og lagðir undir menntmrn. Ég hefði ekki borið fram þetta frv. nú eða þessi tvö frv., sem hér eru í raun og veru til umr., ef þessi breyting hefði ekki verið gerð í fyrra varðandi iðnskólana, og það var ekki gert eftir minni till., heldur, að ég hygg, nefndartill. í Ed. Mér sýnist vera beint ósamræmi í því að taka iðnskólana undan iðnmrn., en vilja ekki gera hliðstæða breytingu varðandi þá skóla, sem hér um ræðir. Ég játa aftur á móti, að ég hef enga þekkingu á því, hvort rétt er að taka skóla varðandi heilbrigðismál undan heilbrmrn. eða búnaðarskólana undan landbrn. Ég er alveg ókunnugur þeim málum, mér hefur aldrei dottið í hug að gera neina till. um það og tel það vera þessu máli með öllu óskylt.

Hitt er misskilningur, að allir heilbrigðismála skólar heyri undir heilbrmrn. Mikilvægasti heilbrigðisskólinn í landinu er auðvitað læknadeild háskólans, og hann heyrir undir menntmrn. Að hefja þetta mál á það stig að gera það að einhverri „prinsip“-deilu um það, hvernig eigi að koma fyrir yfirstjórn allra skóla, svo að það hljóti að leiða til allsherjarbreytingar, ef þetta litla frv. verði samþykkt, tel ég vera misskilning, alveg eins og ég tel það ekki ná neinni átt, þó að þetta frv. yrði fellt, að það yrði tekið upp að flytja læknadeild háskólans undir heilbrmrn. eða lögfræðideildina undir dómsmrn., guðfræðideildina undir kirkjumrn., sem þó að sumu leyti gæti verið full ástæða til, — ég játa það að sumu leyti, — en miklu meiri ástæða til að gera slíka breytingu um þessar deildir háskólans, sem í raun og veru eru sérskólar, heldur en að láta skóla eins og matsveinaskólann og jafnvel stýrimannaskólann heyra undir samgmrn. Ef þm. hafa svo fastar skoðanir í þessu og telja, eins og mátti heyra á frsm. meiri hlutans, að það væri farið að brigða gerðum sjálfs Alþingis með því að breyta þessu, þá þeir um það. En ég held, að ef þeir hafa þessa skoðun, sé það eingöngu vegna þess, að þeir hafi ekki þurft í ráðuneyti að afgreiða málin á þann sama veg sem hefur lent á mér nú nokkuð á þriðja ár og hefur sannfært mig um, að þetta væri hagkvæmari vinnuaðferð. En þetta er naumast svo mikils virði, að það taki því að vera að þræta um það hér.