24.02.1956
Neðri deild: 76. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (1458)

4. mál, fræðsla barna

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar mál þetta var til umræðu s.l. föstudag, sýndi hv. 1. landsk. þm. mér þann sóma að veita mér nokkrar vinsamlegar leiðbeiningar um það, hvernig ósvikinn vinstri maður á að haga sér, hvað hann má gera og hvað hann á ógert að láta. Nú er ég ekki stórlátari en svo, að ég fyrtist á engan hátt við það, þótt mér sé sagt eitthvað til siðanna, sízt af öllu ef ætlunin er sú að leiða mig í allan sannleika um vinstri manna dyggðir. Mun ég gefa fullan gaum að leiðbeiningarstarfi hv. 1. landsk. í þessu efni, bæði nú og framvegis. Vil ég og fúslega taka það til athugunar að reyna eftir minni getu að leiðbeina hv. þm., ef einhvern tíma skyldi vilja svo ólíklega til, að honum ætti eftir að skrika fótur eða verða hrösult á braut vinstrimennskunnar.

Hv. 1. landsk. taldi að mál það, sem hér um ræðir, væri stórt mál og næsta hættulegt góðum siðum og reglu í landinu. Ég get ekki verið honum sammála í þessu. Mér virðist hér vera um fremur lítið mál að ræða, sízt af öllu svo stórt, að ég ætli að gera það að neinu kappsmáli. Ég held, að ekkert alvarlegt gerist og engin hætta sé á ferðum, hvort sem þetta frv. verður fellt eða samþykkt.

Hv. 1. landsk. vitnaði til annarra landa, Frakklands og fleiri kaþólskra landa, þar sem deilur hafa staðið um það, hvort ríkið eða kaþólska kirkjan eigi að hafa barnafræðsluna í sínum höndum. Ég er þess fullviss, að engin minnsta hætta er á því, þó að þetta frv. verði samþykkt, að slíkt vanda- og deilumál rísi upp hér á landi, og ég þori að fullyrða, að hv. þm. gerir ekki ráð fyrir því heldur, þótt hann gæti ekki stillt sig um að varpa þessu. fram. Mér virðist þess konar röksemdafærsla leikur að sápukúlum og ekkert annað.

Ég þóttist hafa tekið það fram í þeim orðum, sem ég mælti hér við 2. umr. þessa máls, að ég liti á það sem alveg sjálfsagða stefnu, að hið opinbera, ríkið og bæjar- og sveitarfélög, hefði barnafræðsluna fyrst og fremst í sínum höndum. Þannig hefur þetta verið lengi að nær öllu leyti og verður vafalaust framvegis. Ég hef ekki dregið dul á, að ég tel þá skipan eðlilega og raunar sjálfsagða. En hér á landi er evangelísk-lúthersk þjóðkirkja, og mótar það að sjálfsögðu kristindómsfræðslu þá, sem fram fer í hinum almennu barnaskólum, enda játar meginþorri þjóðarinnar þá trú. Hins vegar ríkir hér trúarbragðafrelsi, og veit ég ekki betur en að frjálslyndir menn, vinstri menn, hafi fyrir því barizt og telji hvarvetna sjálfsagt, að það eigi að haldast.

Tveir hinir stærstu sértrúarflokkar hér á landi, sem hvorugur er þó ýkja fjölmennur, kaþólskir menn og aðventistar, hafa um alllangt skeið rekið hér samtals fjóra fremur litla barnaskóla, kaþólskir menn einn barnaskóla í Reykjavík og annan í Hafnarfirði, aðventistar einn barnaskóla í Reykjavík og annan í Vestmannaeyjum.

Mér skildist á ræðu hv. 1. landsk., að hann stæði í þeirri meiningu, að þessir barnaskólar í einkaeign hefðu starfað og störfuðu án allrar lagaheimildar, en það er mikill misskilningur. Í fræðslulögum allt frá árinu 1926 a.m.k. hafa verið ákvæði, er heimiluðu fræðslumálastjórninni að löggilda slíka barnaskóla, slíka einkaskóla, að því tilskildu, að þeir lytu sömu reglum og sama eftirliti og hinir almennu barnaskólar. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er því ekkert nýtt að því er þetta varðar. Einkaskólarnir fjórir, sem ég hef þegar nefnt, svo og t.d. barnaskóli Ísaks Jónssonar, starfa samkvæmt fullkominni lagaheimild.

Í frv. því, sem hér um ræðir, eru aðeins tvær breytingar frá núgildandi lögum. Hin fyrri er þess eðlis, að þar eru settar enn ríkari skorður en nú gilda við því, að stofnaðir verði og löggiltir einkaskólar án rækilegrar athugunar. Auk þess ákvæðis, að slíkir skólar verði að hlíta sömu reglum og eftirliti og aðrir barnaskólar, og auk samþykkis fræðslumálastjórnarinnar er svo til ætlazt samkvæmt þessu frv., að einkaskólar verði ekki löggiltir, nema meðmæli hlutaðeigandi fræðsluráða koma til. Það er þess vegna svo fjarri því, að þetta frv. opni allar gáttir fyrir stofnun einkaskóla, að það gerir stofnun þeirra og löggildingu að þessu leyti enn þá meiri vandkvæðum bundna en verið hefur. Hitt er rétt, að frv. felur það í sér, að ríkisstj. eða fræðslumálastjórninni sé veitt heimild — aðeins þó heimild, það er ekki einu sinni skylt — að greiða úr ríkissjóði laun fastra kennara við löggilta einkaskóla og þó þá fyrst, er slíkir skólar hafa starfað a.m.k. í fimm ár.

Hv. 1. landsk. lét í ljós þann ótta, að frv. þetta, ef að lögum yrði, mundi ýta stórlega undir stofnun einkaskóla. Ég er honum fyllilega sammála um það, að ég teldi það ekki heppilega þróun, ef slíkum skólum fjölgaði að ráði. En á þá ekki að banna þess háttar skóla með öllu? Ég held ekki. Ég hygg, að þeir fáu skólar, sem til eru, geri engan skaða og séu ekki á nokkurn hátt ógnun við íslenzka menningu eða góða siði. Hv. þm. tók það og fram sjálfur, að hann vildi ekki láta banna þá einkaskóla, sem fyrir eru. Þarna ber okkur því ekki mikið á milli. Við teljum væntanlega báðir, að strangar reglur eigi að gilda um slíka skóla og gott eftirlit beri að hafa með þeim, en hvorugur er svo ófrjálslyndur að vilja banna þá algerlega. Þeir verða að sjálfsögðu hér eftir eins og hingað til sóttir af þeim börnum einum, þar sem foreldrarnir treysta slíkum skólum eins vel eða betur en opinberum skólum fyrir börnum sínum. Enginn lætur barn í slíka einkaskóla nema af fúsum og frjálsum vilja.

En eru nú líkur til þess, að samþykkt þessa frv. hafi það í för með sér, að einkaskólar spretti upp eins og gorkúlur? Fræðslumálastjóri, sem ég tel að taka eigi fullt tillit til í slíkum málum sem þessum, telur enga hættu á því. Hann kom á fund menntmn., þá er þetta mál var rætt þar, og mælti eindregið með frv. Ég skal fúslega játa, að meðmæli hans réðu nokkru um afstöðu mína til málsins. Hv. 1. landsk. kom þar orðum sínum, þegar hann ræddi um þessa ímynduðu hættu á fjölgun einkaskóla, að ekki mundi líða á löngu, unz stjórnmálaflokkar færu að stofna slíka skóla og krefjast þess, að laun kennara yrðu greidd úr ríkissjóði. Svona heilaspuni er raunar of barnalegur til þess, að það taki því að elta við hann ólar. Eru þá engar hömlur á í þessum efnum? Er fram á það farið, að hver sem vera skal geti stofnað barnaskóla og umsvifalaust fengið kennaralaun greidd úr ríkissjóði? Nei, það er síður en svo. Hömlurnar eru margar: 1) Skólinn verður að hlíta sömu reglum um námsefni og annað sem aðrir barnaskólar. 2) Fræðsluráð viðkomandi héraðs verður að mæla með því, að skólinn fái að starfa. 3) Kennarar skólans verða að fullnægja öllum settum skilyrðum um rétt til kennslu í almennum barnaskólum. 4) Skólinn verður að fá löggildingu fræðslumálastjórnar. Að öllum þessum skilyrðum fullnægðum þarf skóli loks að hafa starfað í fimm ár full, áður en heimilt er að greiða kennurum við hann laun úr ríkissjóði. Er nú leyfilegt að gera ráð fyrir því, — er það bókstaflega sæmandi að reikna með því, — að þeir aðilar, sem hér um ræðir, mæli með og löggildi aðra einkaskóla en þá, sem þeir. telja viðhlítandi frá félagslegu og siðferðislegu sjónarmiði? Mér finnst þar varla. En telji menn samt sem áður þörf á að búa enn betur um hnútana, svo að engin hætta geti á því orðið, að frv. þetta ýti undir stofnun nýrra einkaskóla, þá virðist hægur vandi að færa frv. í það horf. Má gera það einfaldlega t.d. með því að láta ákvæði um heimild til að greiða úr ríkissjóði kennaralaun við einkaskóla aðeins ná til þeirra skóla, sem þegar eru löggiltir og starfað hafa í fimm ár eða lengur, þegar lögin eru sett. Ég sé ekki betur en að frv. næði tilgangi sínum, þó að slík brtt. yrði samþykkt, en með samþykkt hennar ætti jafnframt að vera fyrir það girt, að löggjöf þessi ýti undir stofnun nýrra einkaskóla. Ég er þó ekki svo hræddur um það, að einkaskólum fjölgi um skör fram, þó að frv. verði samþ. í núverandi mynd, að ég sjái ástæðu til að flytja brtt. um þetta efni.

Þá vil ég víkja að því með örfáum orðum, hvaða rök mér þykja hníga að því, að kennaralaun við löggilta einkaskóla, sem sannað hafa hæfni sína með a.m.k. fimm ára starfi, megi greiða úr ríkissjóði. Ýmsir menn hafa tamið sér að tala um sértrúarflokka almennt í lítilsvirðingartón, og mér fannst ekki laust við, að þess gætti nokkuð í ræðu hv. 1. landsk. þm. um þetta mál. Það er engin ástæða til og ber ekki vott um sérstakt frjálslyndi út af fyrir sig að viðurkenna ekki það, sem gott er í fari og framkvæmdum þjóðfélagsborgara, sem hafa aðrar trúarskoðanir en kenndar eru í þjóðkirkjunni. Það er staðreynd, að hér eru dálitlir hópar góðra íslenzkra borgara, sem sumir játa kaþólska trú, aðrir aðhyllast kenningar aðventista. Þessir borgarar greiða skatta sína og skyldur eins og aðrir menn, og þeir eiga svo sem allir aðrir borgarar lagalega heimtingu á því, að hið opinbera sjái börnum þeirra fyrir ókeypis skólavist og kennslu. Nú hafa þeir hins vegar kosið að fara þá leið að stofna og reka sjálfir skóla sína. Þessir skólar lúta öllum sömu reglum og eftirliti og aðrir barnaskólar, kennarar við þá eru með prófi frá Kennaraskóla Íslands, og yfirleitt falla skólar þessir algerlega inn í fræðslukerfið. Á það vil ég leggja áherzlu. Mér finnst það meginatriði í þessu sambandi. M.ö.o., kaþólskir menn og aðventistar hafa með stofnun og rekstri slíkra skóla sparað hinu opinbera útgjöld við skólahúsnæði og kennslu barna sinna, útgjöld, sem ríki og bæir voru ella skyldug til að leggja fram.

Þessir skólar hlíta í öllu sömu reglum um nám og kennslukrafta sem almennir barnaskólar, og ég hef aldrei heyrt því haldið fram, að þeir stofnuðu sálarheill nokkurs barns í voða. Þvert á móti hafa margir talið, að t.d. skólinn í Landakoti væri meðal hinna betri barnaskóla. Nú má að vísu segja, eins og hv. 1. landsk. lagði áherzlu á, að þeir, sem heldur vilja hafa börn sín í þessum einkaskólum en í hinum opinberu skólum, séu ekki of góðir til að bera af því allan kostnað hér eftir eins og hingað til. Þar til er því að svara, sem ég áðan sagði, að hér eiga í hlut borgarar, sem greiða skatta og skyldur til hins opinbera eftir sömu reglum og aðrir menn, en létta hins vegar með skólahaldi sínu allmiklum kostnaði af ríki og bæjum, kostnaði, sem þessir aðilar yrðu ella að greiða að fullu. Ég fæ því ekki séð, að það sé nein fjarstæða, þótt ríkið taki að einhverju leyti þátt í þessum kostnaði. Mér er það kunnugt, að eins og sakir standa eiga þessir skólar mjög örðugt með að fá kennara með almenna kennaramenntun, þar sem kennarar við þessa skóla njóta nú í engu þeirra hlunninda og þeirrar réttarstöðu, sem kennarar við opinbera barnaskóla njóta. Hætt er því við, að á það verði sótt, ef þessi breyting varðandi réttarstöðu kennaranna við þessa einkaskóla verður ekki samþykkt, að sérskólarnir fái undanþágur frá því að hafa kennara með almenna kennaramenntun, og ég teldi það mjög óheppilegt, ef farið yrði eitthvað að ráði inn á þá braut. Leggist skólar þessir hins vegar alveg niður, þá er hið opinbera skyldugt til að kosta að öllu leyti skólahúsnæði og fræðslu allra barna kaþólskra manna og aðventista, og ekki hefur ríkið a.m.k. staðið sig svo vel varðandi framlög til byggingar barnaskóla, að hér í Reykjavík, Hafnarfirði og víðar sé yfirfljótandi húsnæði yfir börn á skólaskyldualdri. Lokun þessara einkaskóla mundi valda því, að enn þrengdist í stofum hinna opinberu barnaskóla, stofum, sem þegar eru yfirfullar og víða langt fram yfir það, sem hóflegt er. Enn er þess að geta, að þrátt fyrir samþykkt þessa frv. mundu eigendur einkaskóla bera af þeim mikinn kostnað, stofnkostnað allan, viðhald allt og rekstrarkostnað annan en laun fastra kennara. Mér virðist því að öllu athuguðu nokkur sanngirni mæla með því, að ríkið taki þátt í kostnaði við kennslu þeirra barna, sem þessa skóla sækja. Eins og ég þykist þegar hafa fært að full rök, er þannig um hnútana búið, að engin hætta sé á því, að einkaskólum fjölgi óhóflega, þótt þetta frv. verði samþ. í þeirri mynd, sem það nú hefur. Fulltrúar hins opinbera á sviði fræðslumála hafa það algerlega í hendi sinni, hvaða skóla þeir löggilda, og fræðslumálastjórnin hefur það auk þess á sínu valdi, hverjir af slíkum skólum skuli fá laun fastra kennara greidd úr ríkissjóði. Hlýtur að mega ætlast til þess, að það verði áður rannsakað hverju sinni, hvort ástæða þykir til að nota þá heimild.

Hv. 1. landsk. lagði áherzlu á það í ræðu sinni um málið, að hér væri um „prinsip“-mál að ræða. Það teldi ég „prinsip“-mál, hvort ætti að banna algerlega alla einkaskóla eða leyfa þá og setja þeim strangar skorður. Nú hefur enginn kveðið upp úr um það, að banna ætti algerlega alla þá einkaskóla, sem fyrir eru. Hv. 1. landsk. tók það einmitt fram, eins og ég sagði áðan, að hann væri andvígur slíku banni, og athygli vil ég vekja á því, að minni hl. hv. menntmn. vildi síður en svo banna þessa skóla, heldur lagði hann til, að þeir yrðu styrktir af opinberu fé, ríkið greiddi við þá hálf kennaralaun. Á þessu þrennu, afstöðu hv. 1. landsk., afstöðu minni hl. hv. menntmn. og meiri hl. n., er því aðeins stigsmunur, en ekki eðlismunur. Hv. 1. landsk. vill leyfa þessum einkaskólum að starfa, en ekki kosta þá að neinu leyti úr ríkissjóði. Minni hl. menntmn. vill láta ríkið greiða hálf kennaralaun við slíka skóla. Loks telur meiri hl. réttmætt, að greiða megi úr ríkissjóði föst kennaralaun við löggilta einkaskóla, en engan annan kostnað, og jafnframt vill meiri hl. menntmn. tryggja það enn betur en nú er gert, að slíkir skólar verði ekki leyfðir og löggiltir, nema rík ástæða þyki til. Er það gert með því, að framvegis mundi þurfa meðmæli viðkomandi fræðsluráðs til löggildingar einkaskóla, en fræðsluráð á að hafa umsjón með skólum og skólaþörf í hverju fræðsluhéraði.

Að síðustu vil ég svo aðeins segja þetta: Ég fæ með engu móti séð, að hér sé um stórt mál að ræða, og þótt ég hafi að gefnu tilefni orðið nokkuð fjölorður um frv., vil ég leggja áherzlu á það, að málið er mér ekkert sérstakt kappsmál. Mér finnst hins vegar sanngirni mæla með því, að það nái fram að ganga. Hins vegar tel ég engan stórskaða skeðan, þó að það félli. En það tel ég meiri fjarstæðu en tali taki, að samþykkt þessa litla frv. hafi í för með sér einhverjar ógnir og skelfingar og sprengi grundvöll gildandi fræðslulöggjafar, eins og hv. 1. landsk. gaf ótvírætt í skyn. Vil ég svo í allri vinsemd óska hv. 1. landsk. þess, að honum verði aldrei alvarlegri fótaskortur á vinstri línunni en mér hefur orðið í þessu máli.