18.01.1956
Neðri deild: 43. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (1501)

73. mál, eftirlit með skipum

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 80, sem tekið er til meðferðar, um breyt. á l. nr. 68 frá 1947, um eftirlit með skipum, hefur verið rætt á fundum sjútvn. Einnig hefur n. rætt brtt. á þskj. 97 frá hv. 7. landsk. þm. Eins og segir í nál. sjútvn. á þskj. 242, hefur nefndin sent frv. og brtt. til umsagnar skipaskoðunarstjóra. Einnig hefur skipaskoðunarstjóri mætt á fundi með nefndinni til viðræðna um frv.

Nefndin er skipaskoðunarstjóra sammála um það, að ekki er tímabært að skylda báta allt niður í 6 rúmlestir að hafa gúmmíbjörgunarbáta. Eins og nú er ákveðið í reglugerð um eftirlit með skipum og öryggi þeirra frá 1953, nær þessi skylda um björgunarbáta eða fleka aðeins til báta eða skipa, sem eru 20 rúmlestir og stærri. Öll nefndin er sammála um það, að setja beri í reglugerð um eftirlit með skipum og öryggi þeirra ákvæði um, að öllum skipum, 12 rúmlestír og stærri, skuli skylt að hafa strigagúmmíbáta eða önnur björgunartæki af þeirri gerð, sem skipaeftirlitið viðurkennir. Skipaskoðunarstjóri er því hlynntur, að þetta ákvæði verði þundið í reglugerð, og heitir því stuðningi sínum. Þá hefur skipaskoðunarstjóri látið nefndinni í té þær upplýsingar, að hann vinni að því við skólastjóra stýrimannaskálans, að nemendum skólans verði kennd meðferð gúmmíbjörgunarbáta.

Þá hefur hv. 7. landsk. á þskj. 97, síðustu mgr., óskað eftir þeirri breytingu, að skipum undir 50 rúmlestum sé ekki gert að skyldu að hafa aðra björgunarbáta en gúmmíbáta. Skipaskoðunarstjóri getur ekki fallizt á þessa breytingu á reglugerðinni, a.m.k. ekki að svo stöddu. Hann hefur tjáð nefndinni, að hin svonefnda Kaupmannahafnarsamþykkt, sem Norðurlönd og Holland eru þátttakendur að, hafi boðað til fundar í Kaupmannahöfn í lok maí eða byrjun júní n.k. og verði þar meðal annars rætt um öryggi skipshafna á fiskiskipum og sérstaklega tekið til meðferðar um notkun gúmmíbáta. Hann tjáir sig ekki vilja taka afstöðu til þessa atriðis í brtt. hv. 7. landsk.. fyrr en hann sér, hvaða upplýsingar komi fram á fundi þessa sambands, enda telur hann vafasamt, að það sé heppilegt, að ekki fenginni meiri reynslu um notkun gúmmíbáta en við höfum, að láta þá gilda sem einu björgunartækin, sem höfð séu á skipum allt að 50 smálestum.

Nefndin hefur orðið sammála um að mæla með því, að málið verði afgreitt með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Í trausti þess. að ríkisstj. setji í reglugerð um eftirlit með skipum og öryggi þeirra ákvæði um, að skylt sé að hafa í öllum 12–20 rúmlesta skipum strigagúmmíbát eða önnur björgunartæki af þeirri gerð, sem skipaeftirlitið viðurkennir, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“