23.02.1956
Efri deild: 74. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (1529)

45. mál, skemmtanaskattur þjóðleikhús o. fl.

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég á nokkuð erfitt með að mæla gegn því, að þetta frv. verði samþykkt, þar sem ég er meðflm. þess. Þykist ég hafa gert mitt til þess að fá hv. meðnm. mína í fjhn. til þess að skilja þörf félagsheimilasjóðanna fyrir því að fá aukið fé, og ég get ekki fallizt á, að í nál., í rökstuddu dagskránni eða í þeim orðum, sem ég lét fylgja þessu máli, hafi nokkuð það komið fram, sem bendi til þess, að n. hafi ekki fullkomlega skilið þessa þörf. Ef það hefur ekki komið fram, þá er það af því, að mér hefur ekki tekizt að tala svo skýrt um málið, að það léki ekki neinn vafi á því, að n. sem slík hefur fullan skilning á því, að það þurfi að ráða fram úr þessum fjárhagslegu erfiðleikum heimilanna. En eins og ég tók fram, lítur n. einnig svo á, að það þurfi þó fyrst og fremst að skipa þessum málum þannig, að félagsheimilin séu ekki að draga á eftir sér sívaxandi skuldabyrði frá ári til árs, því að það er engum til góðs. Það ástand er að skapast nú, eins og ég gat um áðan, að ef allt yrði óbreytt, byggingarþróunin sú sama, eftirspurnin sú sama og gert er ráð fyrir að verði hér í næstu fjögur ár og tekjurnar ekki auknar, þá er sýnilegt, eftir því sem kemur fram hér í umsögnum frá fræðslumálastjóra, að skuldirnar eru brátt komnar upp í 6 millj. kr., og það er engum til hagsbóta. Það hefur því verið lögð á það megináherzla í n„ að áður en tekin er upp sterk barátta fyrir auknum tekjum í félagsheimílasjóð, sé málið undirbyggt þannig, að það sé í fyrsta lagi vitað raunverulega, hvað þarf árlega að byggja, hvort það sé eðlileg þróun félagsheimílamálanna að byggja fyrir jafnmargar milljónir á hverju ári og gert er, hvort hægt sé að láta einhverjar sérstakar aðkallandi þarfir ganga fyrir og aðrar bíða, því að það er nú ýmislegt í þessu þjóðfélagi, sem þarf að bíða, og ég fyrir mitt leyti hef fallizt alveg á þá skoðun hjá n., að þessi stefna sé rétt á þessu stigi málsins og þess vegna sé rétt að afgreiða málið á þann hátt, sem við leggjum til.

Mér þóttu ummæli hv. þm. V-Sk. um framlagið til þjóðleikhússins nokkuð einkennileg. Hann á sjálfur sæti í fjhn., og hann veit það vel, að þessi ákvörðun um að hækka heimildina upp í 450 þús. kr. er byggð annars vegar á þeirri þörf þjóðleikhússins, sem liggur fyrir í dag og hv. fjvn. og þá ekki heldur hann hefur getað sannað þingheimi að væri hægt að draga úr. Þetta er annars vegar byggt á því og hins vegar byggt á því, að ekki séu rýrðar tekjur þjóðleikhússins frá því, sem nú er, í sambandi í skemmtanaskattinn. Ef þær tekjur hefðu verið rýrðar, eins og lagt er til í frv. og ég vildi vonast til að hefði verið hægt að gera, þá hefði þessi upphæð ekki orðið að fara upp í 450 þús., heldur upp í 1100 þús., og það hefði náttúrlega verið miklu eðlilegri vettvangur fyrir hv. þm. að taka upp baráttu fyrir því í fjvn., að sú upphæð hefði verið hækkuð upp í 1100 þús., svo að við hefðum átt sameiginlega léttara um baráttuna hér í þessari hv. d. í sambandi við afgreiðslu þessa máls. En það er það, sem langmestur erfiðleikinn hefur verið hjá okkur í n., að meiri hl. n. hefur ekki séð sér fært að leggja til, að frv. yrði samþ., nema því aðeins að fyrir lægju öruggar fjárveltingar til þjóðleikhússins, svo að það gæti starfað á þeim grundvelli, sem forráðamenn þess þykjast þurfa geta starfað á samkv. sínum áætlunum.

Ég skal ekkert segja um það út af fyrir sig, hvað þjóðleikhúsið langar til að seilast yfir á skemmtanaskattinn. Það þykist nú eiga allmikinn og hafa upphaflega átt allmikinn rétt á þeim skatti, hann hafi verið settur á upphaflega til þess að tryggja bæði byggingu og rekstur þjóðleikhússins, eins og kemur fram í þeirra umsögn; en þó að það hafi verið gert á þeim tíma, 1927, þá er það og sú ákvörðun breytingum undirorpin eins og allt annað. Hitt get ég svo vel skilið, að það væri ekki heldur sársaukalaust fyrir félagsheimílin, ef það ætti að ganga þannig frá málunum nú að rýra þeirra hlut, og sé það ekki þeim sársaukalaust, þá er það náttúrlega ekki heldur sársaukalaust fyrir þjóðleikhússtjórnina að sjá þann hlut sinn rýrðan frá ári til árs, á meðan hún hefur ekki nægilegt fé af daglegum tekjum úr rekstrinum. Geri ég þetta ekki til þess að halda sérstaklega uppi vörn fyrir þjóðleikhúsið, því að ég tók fram í minni framsöguræðu, að það lægi engin viðurkenning fyrir því, að ekki væri hægt að gera þar betur en gert er. Það er alveg látið afskiptalaust. Mér þótti hins vegar rétt að láta þetta koma fram, úr því að hv. 1. flm. frv. benti á þetta hér áðan.

Ég tek undir það, að ég treysti því, að endurskoðunin, ef hún verður látin fara fram, rýri á engan hátt þann rétt, sem félagsheimilin hafa fengið, og ég sé ekki, að rökstudda dagskráin gefi nokkurt tilefni til þess, að svo verði gert. Hins vegar vil ég benda á, að þótt svo skyldi nú fara, að farið væri inn á þá braut í endurskoðuninni að rýra hlut félagsheimilanna, þá er eftir að fá samþykki Alþingis, og það Alþ., sem kynni að fá til meðferðar löggjöfina endurskoðaða og þær brtt., sem koma þar fram, tekur vitanlega á sig skylduna til að sjá fyrir nægilega miklu fé til þess að standa undir þeim útgjöldum, og þá svo, að skuldirnar þurfi ekki að aukast frá ári til árs.

Það munu vera boðaðir flokksfundir, svo að ég skal nú stytta mál mitt hér, enda getur þá hæstv. forseti frestað þessari umr. Það liggur ekkert á að afgreiða málið nú.

Ég vil aðeins að síðustu láta þau orð falla, að það er ekki eingöngu mælikvarðinn á framkvæmdum þessara mála, hvað íþróttafulltrúinn heldur fram í málinu, — það er hans sjónarmið, — því að ég þekki einnig, hverju hann heldur fram í sambandi við fjárkröfur til sundhalla, íþróttavalla og íþróttahúsa. En þau mál eru slík í dag, að þau eru öll að draga stóra skuldabagga á eftir sér frá ári til árs, sem ég tel mjög óheppilegt og að það verði að forðast slíkt ástand, bæði hvað snertir félagsheimilin og aðrar framkvæmdir.