14.02.1956
Neðri deild: 70. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (1636)

152. mál, sjúkrahúsasjóður og talnahappdrætti

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég vildi segja hér aðeins nokkur orð út af þeim umræðum, sem orðið hafa út af þessu máli.

Hæstv. heilbrmrh., sem hafði orð fyrir frv., gat um tilgang þess og efni frv. og gerði að till. sinni, að því yrði vísað til heilbr.- og félmn. til athugunar. Þetta tel ég rétt og sjálfsagt, að þannig sé að farið, að mál séu íhuguð, þó að þau kunni að hafa fengið góðan undirbúning, áður en þau eru flutt inn í þingið, að þá eigi að síður gefist þingmönnum kostur á að íhuga þau vandlega.

Nú hafa tveir hv. þm. gert aths. við þetta frv., og ég hef ekkert að athuga við slíkt, hv. 2. þm. Reykv. og hv. 8. landsk. þm., og það hafa þeir gert reyndar á mjög mismunandi hátt. Hv. 2. þm. Reykv. telur, að það kunni að vera íhugunarvert að ganga mjög langt inn á þá braut að afla fjár til framkvæmda, þó að góð mál eigi í hlut, því að þessi háttur á fjáröfluninni hafi það í sér fólgið, að varhugavert kunni að vera. Og vissulega er það alveg rétt, það er ekki hægt að neita því, að þar sem menn leggja nokkra fjármuni í einhvers konar spilamennsku, hvort sem það er heldur venjulegt happdrætti, eins og það hefur tíðkazt hér hjá okkur, eins og t.d. happdrætti háskólans og önnur, sem starfa nú hér, eða það fyrirkomulag er haft á eins og þetta nýja frv. greinir, þá er vitaskuld rétt að gefa því gætur, að ekki sé það gert úr hófi fram. En ég hélt ekki, að þessi máti, sem við höfum enn á fyrirkomulaginu á happdrættunum, hvort það er nú heldur með happdrætti háskólans, eins og það er starfrækt, eða með því, sem felst í þessu frv., sem er að vísu með nokkru öðru móti, þó að vinningsmöguleiki og vinningar, sem kunna að fást, séu í raun og veru undir tilviljun komnir, en ekki öðru, hvor mátinn sem hafður er á, þá má segja, að það sé blind tilviljun, sem ræður.

Það kann að vera, ef farið er mjög langt út á þessa braut, að þá megi ganga of langt í því og það geti orðið til skaða. því dettur mér ekki í hug að mótmæla. En ég vil vona, að þótt þetta bætist við það, sem fyrir er hjá okkur, þá sé það samt sem áður innan þess ramma, að enn stafi okkur engin hætta af því. Og ég vil mega vona, að ef það sýndi sig í framkvæmdinni um þessi mál, þá ekki eingöngu þetta, því að það er ekki svo sérstætt, heldur yfirleitt þessi happdrættismál okkar, sem við höfum, að þá verði Alþingi þess umkomið að gera þar breytingu á og draga úr þessu.

Happdrætti háskólans, sem stofnað var til, var beinlínis til þess að koma til liðsinnis þeirri miklu og góðu menningarstofnun okkar, að hún gæti aflað sér þeirra húsakynna, sem henni eru nauðsynleg, til þess að hún nái þrifum og þroska og geti unnið sitt hlutverk hjá þjóðinni að manna og mennta ungmennin, sem eiga mörg að vera beinlínis starfsmenn þjóðfélagsins og önnur að nota sína menntun í þágu þjóðarinnar, þó að það sé á nokkuð annan hátt.

Ég hygg, að enginn, sem til þekkir, sjái eftir því, að stofnað var til happdrættis háskólans. Svo mikill ávinningur hefur orðið af því starfl. og ég vil mega vona, að sú stofnun kafni ekki undir nafni, hún ræki sitt hlutverk þannig, að við þurfum ekki að sjá eftir þeim fjármunum, sem gengið hafa til þess að efla hana og gera hana vel úr garði. Það hygg ég að sé ekki ágreiningsefni milli manna, hvort heldur hér er á Alþingi eða utan þings.

Um hin happdrættin, þau opinberu eða hálfopinberu, eins og dvalarheimili aldraðra sjómanna og heimilið á Reykjalundi, þá hafa þau vissulega gert mjög mikið gagn. En til alls þessa, sem ég hef nú nefnt, hefur verið stofnað af því, að okkur hefur sýnzt, að við gætum ekki af opinberri hálfu lagt það mikla fjármuni fram, að hægt væri að sinna þeim óskum, sem þeir menn, sem að þessum stofnunum standa, hafa haft fram að færa, og þess vegna hefur verið gripið til þessara ráða.

Hið sama er að segja um þetta mál, sem við erum að ræða nú. Ríkið skuldar margar milljónir, ég þori ekki almennilega að nefna töluna, mig minnir, að það muni vera eitthvað upp undir 10 millj., kannske er það ekki alveg rétt hjá mér, til þeirra stofnana, sem hafa lagt fjármuni í byggingar og útbúnað á sjúkrahúsum. Nú verjum við á fjárlögum milli 10 og 20 millj. kr. til þessara mála, og það er hvergi nærri nóg. Það skortir stórkostlega á, að byggð séu þau sjúkrahús, sem talið er af heilbrigðisyfirvöldunum bráðnauðsynlegt að koma upp, og þegar þau eru upp komin, þurfum við að starfrækja þau. En slíkar byggingar og útbúnaður þeirra kostar afar mikið fé og rekstur þeirra sömuleiðis.

Fólkið úti um landið, sem á oft erfitt uppdráttar með að leita til þeirra sjúkrahúsa, sem fyrir eru, og þráir að fá bætt úr þessu með byggingu nýrra sjúkrahúsa, þráir það mjög, að úr þessum málum verði bætt. En þó að svona standi á og þó að fjárlög séu þetta há, eins og hv. 2. þm. Reykv. hefur réttilega bent á, þá höfum við haft í það mörg horn að líta nú á Alþ., að öllu þessu fé er ráðstafað, og samt sem áður er svona lítið til þessara mála, til byggingar sjúkrahúsa og rekstrar þeirra.

Ég hygg, að það vanti alls ekki viljann til þess að fá úr þessu bætt hér á Alþ., og þar tala ég alveg eins til hv. stjórnarandstæðinga og þeirra, er nú styðja hæstv. ríkisstjórn. Áreiðanlega í öllum flokkum hafa menn vilja á því að bæta úr þessu, og menn eru að leita ráða til þess að fá úr þessu bætt sem allra fyrst.

Nú hefur hæstv. ríkisstj. hugkvæmzt að reyna að ráða bót á þessu eða flýta fyrir því, að það verði ráðin bót á þessu, með þessu móti. Og það vildi ég vona, að ekki væri hægt um það að segja, að það væri skemmdarstarfsemi framin með því.

Þó að hv. ræðumenn, sem töluðu hér, — ja, ég vil nú ekki segja um hv. 2. þm. Reykv., að hann talaði beinlínis á móti þessu máli, þannig tók ég eftir ræðu hans, og kannske ekki 8. landsk., en það verð ég að játa, að ég var meira í vafa um meiningu hans, — komi auga á ýmislegt, sem aflaga fer í þjóðfélagi okkar og á öðrum sviðum, þá má samt sem áður ekki þetta málefni gjalda þess, að ekki hefur verið lagfært á öðrum sviðum það, sem aflaga fer. Hitt þykir mér eðlilegt, að ef þeir koma auga á eitthvað þess konar, og ég efast ekki um, að hægt sé að tilgreina ýmislegt, sem þannig er ástatt um í okkar þjóðfélagi, að þá sé á það bent og að því fundið. En þá þarf að gera sérstakar ráðstafanir því máli til lagfæringa, en ekki blanda því saman við önnur mál, svo framarlega sem maður telur það óskylt mál. Og þannig vil ég mega taka ræðu hv. 2. þm. Reykv. sérstaklega, og ég vil vona líka, að hv. 8. landsk. hafi ekki meint það með sínum orðum, að hann teldi tilganginn með þessu máli óheilbrigðan eða þó að þessi leið væri farin, þá væri hún neitt háskaleg. Og því mega menn ekki blanda saman. — Ja, hv. 8. landsk. sagði nú eitthvað í sínu sæti, að ég mundi ekki hafa misskilið þetta, þ.e.a.s., það hefði ekki vakað fyrir honum, að hann teldi málefnið óheilbrigt, sem hér á að greiða fyrir. Ég vil alls ekki heldur ætla það. En hv. þm. verður að virða mér það til vorkunnar, að hann kvað svo fast að orði, að þessi leið, þetta frv., mundi stuðla að andlegri óheilbrigði meðal þjóðarinnar. Ég skal ekkert um þetta deila við hann, ef hann telur, að í kjölfar happdrættis, í hvaða mynd sem er, kunni þetta að koma. Ef hann er þeirrar skoðunar, þá er ekkert um slíkt að fást. Ég tel þetta ósköp yfirdrifið og öfgafullt, af þeim kynnum a.m.k., sem við höfum enn af okkar happdrættum, að það þurfi að leiða af því slík óhöpp fyrir þjóðfélagið sem hann hafði þarna á orði. Ég held, að það sé fjarri öllu lagi. En það er sitt hvað, þó að þannig sé ekki ástatt um það eða þess sé gætt að fara ekki út fyrir skynsamleg takmörk með slíka starfsemi.

Hæstv. ráðh. dró fram í ræðu sinni þann tilgang, sem frv. hefði, og gerði till. um, að því yrði vísað til n., og óskaði eftir, að n. athugaði málið gaumgæfilega. Ég vil einmitt taka undir hans ummæli í því efni, og koma þá vitaskuld til greina öll þau atriði, sem menn telja að málið áhræri.

Ég vil nú vona, að menn láti ekki þetta málefni gjalda þess, þó að menn komi auga á ýmislegt, sem aflaga fer nú í okkar þjóðfélagi og víssulega þyrfti að laga. Þar get ég verið um ýmis atriði hv. ræðumönnum eða hv. 2. þm. Reykv. sammála. En þó að slíkra umbóta sé þörf og ekki sé búið að framkvæma slíkt, þá mega menn samt sem áður ekki af gremju yfir slíku láta góð málefni gjalda, þannig að þau séu sett á hakann aðeins fyrir það, hvað í öðrum efnum er áfátt. Ég vil því einmitt mega vona, að hv. stjórnarandstæðingar taki málinu, eftir því sem efni standa til, með fullri vinsemd og greiði fyrir því, að það nái fram að ganga í einhverri mynd, þannig að tilganginum verði náð, sem vakir fyrir með flutningi þessa frv.