08.12.1955
Efri deild: 27. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (1666)

85. mál, mannanöfn

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það er dálítið leiðinlegt fyrir mig að vera að þræta um ættarnöfn við hv. þm. Barð., því að það er misskilningur, að ég sé neinn málsvari ættarnafna út af fyrir sig, heldur er hitt rétt, sem hann tók fram sem ástæðu fyrir því, að hæstv. dómsmrh. hafði lagt þetta fram, og þar vísa ég til fenginnar reynslu, að það hefur ekki reynzt hægt að koma í veg fyrir það, að menn tækju upp ættarnöfn. En það vildi nú svo undarlega til, og vík ég síðar að því, að hv. þm. Barð. viðurkenndi þessa afstöðu aftur í öðru máli, að það væri stundum ekki hægt að komast hjá því að taka tillit til þess í löggjöf, hvað framkvæmanlegt væri og hvað ekki væri framkvæmanlegt.

Ég er hræddur um, að það sé ekki alveg eins auðvelt að vita það alltaf, hvort menn ganga undir því, sem kalla má löglega fengið nafn, eins og hv. þm. vildi vera láta. Hann vísaði til skírnarvottorðanna. Það væri ekki annað en heimta skírnarvottorð. Menn vita það, að þegar þeir ætla að taka fasteignaveðslán, þá verða þeir að fá veðbókarvottorð. Lánsstofnanirnar eru venjulega á þeim stað, þar sem auðvelt er að fá sér veðbókarvottorð, en það er ekki alltaf víst, að presturinn, sem hefur skírt manninn eða hefur þá kirkjubók undir hendi, sem við á, sé svo nærri, að það sé auðvelt að ná í hann í skyndi. En fáir munu nú, a.m.k. fyrst í stað, bera á sér skírnarvottorðið sýknt og heilagt, t.d. menn, sem fást við viðskipti og þurfa oft bæði að gefa út víxla og skrifa undir ýmsar aðrar skuldbindingar, að þeir muni eftir því að hafa alltaf skírnarvottorð. En segjum nú, að menn vendust þessu, að hafa hjá sér skírnarvottorð. En er þá vissa fyrir því, að skírnarvottorðið sé rétt? Ég er hræddur um ekki. án þess að presturinn hafi haft nokkra löngun til þess að falsa skírnarvottorðið. Maður, sem hefur tekið sér ættarnafn eftir 1925, ólöglegt, og gengur undir því nafni, flytur kannske í aðra sókn. Svo eignast hann og kona hans þar barn í öðru prestakalli. Presturinn veit ekki annað en að þau heiti þetta og hefur gefið börnum þeirra skírnarvottorð með ólöglegu ættarnafni. Svo koma þau í banka með þetta skírnarvottorð. Nei, skírnarvottorðin verða ekki fullnægjandi sönnun fyrir því, að nafn mannsins sé algerlega löglegt. Og ég held, að það stappi töluvert nærri því a.m.k. að koma í bága við stjórnarskrána, að menn eigi að tapa kröfurétti sínum fyrir það, að sá, sem skuldbindingarnar hefur gefið, hefur skrifað nafn, sem hann í góðri trú álítur sitt rétta nafn, en er það ekki samkv. einhverjum tilteknum lagabókstaf.

Hv. þm. gerði lítið úr því, þó að ýmsir ágætir menn, bæði á sviði bókmennta og stjórnmála, hér á Íslandi hefðu borið ættarnöfn. Ég benti á, að það hefði ekki spillt tungunni mikið, og í því sambandi benti hann mér á, að Norðmenn ættu enga eiginlega tungu. Það er alveg rétt, Norðmenn skrifa mál sitt a.m.k. með tvennu móti, en ég hygg, að það sé alls ekki ættarnöfnunum að kenna, að svo er komið fyrir Norðmönnum, og yfirleitt að þeir glötuðu sinni gömlu tungu, því að meðan áhrif Dana voru mest í Noregi, gengu Norðmenn ákaflega lítið undir ættarnöfnum. Þeir höfðu svipaðan síð og við Íslendingar og þó höfðu þeir enn fastari sið en það, sem þekktist nú hér líka, að kenna menn við þann bæ eða þann stað, sem þeir áttu heima á. Og staðarnöfnin, bæjarnöfnin, urðu svo gjarnan ættarnöfn í Noregi í staðinn fyrir alls konar þýzk nöfn og afbakanir, sem urðu ættarnöfn í Danmörku. Þannig hygg ég að þetta sé. Ég efast um, að þetta, þó að Norðmenn kenndu sig við fæðingarstað sinn, heimili sitt, og það yrðu svo smám saman ættarnöfn, hafi á nokkurn hátt orðið þess valdandi, að það er ekki ein tunga í Noregi. Það eru önnur áhrif Dana, meðan þeir réðu þar ríkjum, sem því valda, en ekki þetta.

Það má lengi deila um það, hvað sé einkamál og hvað sé mál, sem alþjóð varðar. Það er vitanlega mál alþjóðar að viðhalda tungunni og að nöfn manna séu yfirleitt með íslenzkum hætti. Samt sem áður er nafn hvers manns töluverð einkaeign hans, og það er ákaflega skiljanlegt, að slíkt geti verið viðkvæmt. Ég get játað það, að jafnvel þjóðfélaginu komi það við, að stúlka heiti Laxfossminni, en mest kemur henni það við sjálfri. Og í þessu frv. er ákvæði um það, að ef nafn er hneykslanlegt eða þeim til ama, sem það ber, þá er leið til þess að fá því breytt samkvæmt frv.

Það var óþarfi hjá hv. þm. Barð. að fara að tala um bannlögin í þessu sambandi, því að ég hafði ekki gert það, ekki svo að ég muni. Ég nefndi víst eitthvað héraðabönnin í þessu sambandi, en ekki bannlögin gömlu, en það var það einkennilega, að þá gekk hv. þm. alveg inn á mína skoðun, að það yrði að taka tillit til þess, hvað framkvæmanlegt væri, þegar um löggjöf væri að ræða, því að hann sagði hreint og beint, að ein af ástæðunum til þess, að bannlögin hefðu verið afnumin, væri sú, að ekki hefði verið hægt að útiloka vín úr landinu. Þetta er rétt, ein af ástæðunum var sú, að alls konar áfengi var drukkið í landinu, nokkurn veginn eins og ekkert bann væri, ekki sízt eftir að menn komust upp á að brugga íslenzkt brennivin.

Út af vegabréfunum sagði ég það, að það mundi vera a.m.k. ærið miklu þægilegra fyrir hjón, sem ferðast í útlöndum, að vegabréf konunnar bæri það með sér, að hún væri kona þessa manns. Ég tók jafnframt fram, að þessu væri hægt að koma við án þess að brjóta á nokkurn hátt í bág við íslenzka tungu, vegabréfið er skrifað á útlendu máli, og það er ekki annað en að geta þess á vegabréfinu, á því máli, sem það er gefið út á, að konan sé eiginkona þessa manns. Hann sagðist aldrei hafa orðið var við nein óþægindi af því, þó að kona hans gengi undir sínu rétta nafni í útlöndum; það kann vel að vera. En ég hef heyrt marga menn kvarta um það og jafnvel segja frá því, að þeir hafi ekki átt að fá að sofa hjá konum sínum á hótelum, vegna þess að þær hétu annað en maðurinn og voru álitnar fylgikonur. Ég hef ekki séð vegabréf konu hv. þm., en hitt hef ég séð, þar sem við höfum verið samferðamenn, að t.d. þar sem fólki er raðað við borð stendur ekki hennar rétta nafn, heldur frú Gísli Jónsson.

Það er satt, sem hv. þm. sagði, að útlendingar taka ekki upp íslenzk nöfn yfirleitt, þó að þeir komi hér, en við munum líka vera eina þjóðin, a.m.k. á mjög stóru svæði í heiminum, sem heldur þessum gamla sið að kenna sig til föður. Þeir kannast ekki við þetta, dettur yfirleitt ekki slíkt í hug. Nei, ég held, að íslenzkri tungu stafi engin hætta af því, þó að kona íslenzks manns, sem ferðast til útlanda, taki upp nafn hans, það þarf ekki að vera, heldur að vegabréfið gefi það til kynna, að hún sé kona þessa. manns, og annað þarf ekki, og það þarf ekki að koma neitt í bága við íslenzka tungu.

Hv. þm. sagðist einmitt hafa gert tillögu um að afnema öll ættarnöfn. Það kann að vera, að þessa till. hans megi skilja á þann veg, en mín orð voru um það, að hér væru menn, sem óátalið gengju undir ættarnöfnum, og enginn gerði till. um að afnema þau; ég mun hafa komizt að orði á þá leið, og till. hv. þm. er ekki neitt um það. Hér á Alþ. er einn af þm. t.d., sem heitir Ottesen, Pétur Ottesen, hann er mikill andstæðingur ættarnafna. Svo er hér annar, sem heitir Thoroddsen, og fleiri eru nú ættarnöfnin að vísu. Það er engin till. um að banna þessum mönnum að ganga undir sínum nöfnum, ekki nokkur.

Ég mun ekki hafa rétt til að halda hér eiginlega ræðu, heldur aðeins gera athugasemd, og skal því láta þetta mál niður falla, en vona bara, að frv. verði samþ. með brtt. n., því að ég er alveg sannfærður um, að það er í þágu íslenzkrar tungu, en ekki til þess að spilla henni.