16.12.1955
Efri deild: 31. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra Forseti. Ég skal nú í upphafi ræðu minnar heita því að beita ekki hér neinu málþófi í þessu máli, þótt ég sé ósamþykkur framgangi þess. Þykir mér vænt um, að hæstv. fjmrh. hefur haft tækifæri til þess að vera hér við, því að sjálfsagt þarf ég að koma nokkuð inn á atriði, sem snerta meðferð málsins undir hans stjórn.

Ég hef ekki getað orðið meiri hl. n. sammála um að leggja til, að frv. það, sem hér er til umræðu, verði afgreitt sem lög á þessu þingi, og hef því gefið út sérstakt álit, eins og þskj. 221 ber með sér, og gert grein fyrir afstöðu minni til málsins þar. Vísa ég í öllum meginatriðum til þess, sem þar er tekið fram um málið, en skal þó gera hér nokkru fyllri grein fyrir afstöðu minni.

Það er vitað, að síðan núgildandi launalög voru sett, hafa orðið miklar breytingar á verðlagi í landinu og mikil röskun á launum manna yfirleitt, og er það meginástæðan fyrir kröfu starfsmanna ríkisins um setningu nýrra launalaga, er tryggi þeim eigi lakari kjör en öðrum þjóðfélagsþegnum í samanburði við störf þeirra og ábyrgð þá, sem þeim fylgir, svo og þann undirbúning, sem þeir þurfa til þess að geta verið færir um að gegna þeim störfum. Sú krafa af hálfu starfsmanna ríkisins, að þeir séu eigi verr settir að þessu leyti en aðrar stéttir þjóðfélagsins, er ekki einasta réttmæt, heldur mundi það koma sjálfu þjóðfélaginu í koll, ef henni yrði ekki mætt með fullri sanngirni. En reynsla undanfarinna ára sýnir berlega, svo að ekki verður á móti mælt, að þetta hefur jafnan verið gert, hvað svo sem beinum fyrirmælum launalaganna líður. Er þetta og fullkomlega viðurkennt af launalaganefndinni, þar sem hún á fjölmörgum stöðum í frv. leggur til, að lögfest verði þau frávik, sem gerð hafa verið á gildandi launalögum.

Nú þarf það ekki að vera, að slík frávik hafi ávallt verið nauðsynleg. Þar hefur komið til persónuleg samúð með viðtakanda, vinátta eða hann hafi sýnt sérstaka hæfileika í starfi sínu, sem ekki eru e. t. v. ávallt til staðar hjá næsta manni, sem kynni að verða falinn starfinu, en á þó kröfu á launaupphæð þeirri, sem lögfest hefur verið, þó að til þeirrar hækkunar hafi legið allt aðrar ástæður, eins og að framan er greint. Frv. það, sem hér um ræðir, fyrirbyggir því ekki, þótt að lögum verði, að haldið verði áfram að víkja frá ákvæðum laganna í mörgum tilfellum, og skapast þá innan stundar nákvæmlega sama ástand hér að lútandi og nú er búið við. Fyrir þessar ástæður einar er því ekki réttlætanlegt að samþykkja frv.

Allt þetta hefur þó orðið þess valdandi, að ríkisstj. hefur látið undan þessum kröfum starfsmanna ríkisins og hæstv. fjmrh. hefur skipað 5 manna n. til þess að endurskoða launalögin og undirbúa frv. til nýrra launalaga, sem tryggði starfsmönnum ríkisins réttlát laun og kjör, samanborið við aðrar launastéttir í landinu, og jafnframt skipaði hinum ýmsu starfsmannahópum í réttra launaflokka miðað við störf þeirra, undirbúning þeirra undir störfin og þá ábyrgð, sem þeim jafnan fylgir. Til þessa vandasama verks velur hæstv. fjmrh. eingöngu menn úr hópi starfsmanna ríkisins, gefur þeim einum þar með beinlínis sjálfdæmi um eigin kröfur, án þess að nokkrir aðrir komi þar vörnum við í sambandi við undirbúninginn. Almenningur hefur á undanförnum árum fengið augun opin fyrir því, hversu óheppilegt það er og skaðlegt fyrir þjóðfélagið í heild, að ýmsir starfshópar á hinum frjálsa vinnumarkaði geta án verulegrar íhlutunar annarra skammtað sér sjálfir hlutann af arði framleiðslunnar og knúið síðan fram þær ákvarðanir með lengri eða skemmri verkföllum. En jafnvel í þeirri ófullkomnu vinnulöggjöf, sem við búum við í dag og flestir viðurkenna að nauðsynlegt sé að endurskoða og breyta til þess að tryggja þjóðinni öruggari rekstur á þeim þætti atvinnulífsins, sem veldur ómetanlegu tjóni fyrir alla, ef hann stöðvast, eru þó nokkrar hömlur á því, að starfsflokkarnir geti tekið sér fyrirhafnarlaust sjálfdæmi í launum sínum og kjörum. Áður en kröfunum er að fullu náð, og það alveg eins þó að full sanngirni mæli með þeim, þurfa þær stéttir að yfirstíga marga örðugleika og oftast að færa þá fórn, sem er eiuna þyngst, að stöðva vinnu og vera launalausar um lengri eða skemmri tíma. Það þarf því ekki að spá neinu um það, hvaða áhrif það kemur til að hafa í framtíðinni, að Alþ. skapi það fordæmi að lögfesta dóma um laun og kjör starfshópa, sem þeir sjálfir hafa kveðið upp að réttlátir væru í allan máta, og leggja jafnframt byrðarnar af dómsniðurstöðunni á herðar þeirra aðila, sem enga aðstöðu fengu til að koma við vörnum við undirbúning málsins. Og því er það, að þótt ekkert annað kæmi til en það, hvernig málið er undirbúið, ætti ekki að samþykkja á þessu þingi það frv., sem hér er til umr.

Alþ. á engan málsvara í launalaganefndinni, hinn almenni skattgreiðandi engan, framleiðendur á sviði útgerðar, landbúnaðar og iðnaðar engan, launastéttirnar á hinum frjálsa vinnumarkaði engan, og þó eru kröfur starfsmanna ríkisins byggðar á því, að menn í öllum þessum stéttum hafi fengið kjör sín bætt meira en starfsmenn ríkisins og að af þeim ástæðum beri að hækka laun þeirra, svo sem lagt er til í frv. Hefur hv. frsm. meiri hl. tekið undir þessar fullyrðingar og byggt afstöðu sína og meiri hl. á þeim niðurstöðum.

Svo virðist sem launalaganefndin hafi talið verkefninu gerð full skil með því að taka aðeins til meðferðar tvo þætti þessa mikla vandamáls, þ. e. í fyrsta lagi að meta grunnlaunaupphæðir starfsmanna ríkisins með hliðsjón af launum annarra launþega á frjálsum vinnumarkaði samfara þeirri röskun, sem orðið hefur á öllu verðlagi í landinu, og í öðru lagi að flokka starfsmennina í ákveðna launaflokka eftir því mati, sem hún leggur á hin ýmsu störf í þágu ríkisins, og þó er hvorugu þessara verkefna gerð full skil, eins og ég skal koma að síðar. Hitt sýnist launanefndin hafa talið sér alveg óviðkomandi, sem er þó kjarni þessa máls, hvaða áhrif till. hennar, ef að lögum verða, kæmu til að hafa á fjárhagskerfi þjóðarinnar og hvort þær raunverulega, er fram líða stundir, bættu nokkuð kjör starfsmannanna. Verður ekki séð, að þetta höfuðatriði hafi verið rætt í launanefndinni eða brotið þar til mergjar, nema hvað skýrt er frá því, að frv., ef að lögum verður, muni koma til að auka rekstrargjöld ríkissjóðs um rúmlega 20 millj. kr. frá því, sem nú er greitt samkvæmt gildandi launalögum og venjum, sem skapazt hafa um frávik frá þeim. Þó á sæti í n. hagfræðingur, sem ríkisstj. leitar mjög til, hvenær sem leysa þarf aðsteðjandi vanda í sambandi við efnahagsmál landsins. Hitt þarf svo engan hagfræðing til að skilja, að nýir tugir milljóna, sem veit er inn í viðskiptalífið á þann hátt, sem hér er gert, og það aðeins frá einni stétt þjóðfélagsins, hljóta að marka varanleg spor í áttina til meiri erfiðleika í efnahagsmálum þjóðarinnar, og þýðir ekkert að bera það eitt fyrir sig, að það sé gert af illri nauðsyn, vegna þess að aðrar stéttir hafi þar gengið á undan með illu fordæmi. Svo einfaldlega leysir engin þjóð efnahagsvandamál sín, og svo gáleysislega mega ekki þeir menn hugsa og starfa, sem vegna menntunar sinnar og hæfileika gera kröfu um, að meira tillit sé tekið til sín en annarra, eins og hér hefur verið gert. Komi stefnubreytingin í efnahagsmálum þjóðarinnar ekki ofan frá, þá kemur hún ekki nema jafnframt að bera í sér þær fórnir, sem allur almenningur kiknar undir, en þau viti ber einmitt að varast.

Meiri hl. fjhn. deildanna, sem hafa unnið saman að breytingum á þessu frv., hefur ekki heldur fengizt til þess að athuga þessa hlið málsins. Á fyrsta fundi nefndanna var þessu máli hreyft af mér og hv. þm. A-Húnv., en við lýstum báðir afstöðu okkar til málsins þegar á fyrsta stigi þess hér í Alþ. En aðvaranir okkar fengu þar engan hljómgrunn, og nú hefur hv. Nd. fellt þær till. hv. þm. A-Húnv., sem hann bar þar fram og byggðar voru á þessari skoðun okkar, að óheppilegt væri að knýja fram með nýrri lagasetningu þá launahækkun, sem hér er ráð fyrir gert. Og rétt áður en allur þorri deildarmanna greiðir atkv. með frv., sendir meiri hl. hv. fjvn. frá sér nákvæmlega sömu aðvörun og við, sem höfum lýst afstöðu okkar gegn frv., en þar stendur orðrétt í nál., sem dagsett er 9. þ. m., með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárlagafrv. fyrir árið 1956 er útgjaldamegin 62.3 millj. kr. hærra en fjárl. þessa árs. Horfur eru á því, að í meðferð þingsins hækki útgjaldahlið frv. um 70–80 millj. kr. Er hér um geysimikla hækkun útgjalda að ræða, því að í núgildandi fjárl. nam hækkun útgjalda frá fjárl. ársins 1954 69 millj. kr. Orsaka þessarar óheillaþróunar er fyrst og fremst að leita í þeirri verðbólguöldu, er fylgir í kjölfar kauphækkananna, sem urðu á þessu ári. Kauphækkanirnar og verðhækkanirnar, sem orðið hafa undanfarna mánuði og munu þó koma fram með enn meiri þunga á næsta ári, valda annars vegar því, að útgjöld ríkisins til flestra eða allra þátta starfsemi þess vaxa stórlega, hins vegar minnkar mjög hlutur verklegra framkvæmda, nema hækkanir verði gerðar á þeim fjárveitingum til þess að mæta hækkun kostnaðar víð framkvæmdirnar. Er augljóst, að hefði verið hægt að halda kaupgjaldi og verðlagi í skefjum, svo sem verið hefur síðustu árin, hefði horft mun betur um hag ríkissjóðs á næsta ári.“

Þetta eru aðvörunarorð hv. fjvn. til Alþ. og rök hennar fyrir því, að hækka verði ríkisútgjöldin á næsta árs fjárlögum vegna þess, hversu kaupgjaldið hefur hækkað í landinu. Og sjálfur hv. frsm. meiri hl. í fjvn. birtir ræðu sína í einu stærsta blaði landsins, þar sem fyrirsögnin er letruð með mjög stóru, breyttu letri: „Afleiðingar verkfallanna í vor gera umflýjanlegar nýjar skattaálögur.“ Og hann segir í sinni framsöguræðu, með leyfi hæstv. forseta:

„Afleiðingar verkfallanna óheillavænlegar: Undanfarin tvö ár, eða fram á öndvert yfirstandandi ár, hafa tiltölulega litlar breytingar orðið á kaupgjaldi og verðlagi í landinu, og vísitalan hafði að mestu staðið í stað. Stefndi þessi þróun tvímælalaust í þá átt að skapa meira jafnvægi og festu í efnahagsmálum þjóðarinnar, er m. a. kom glöggt fram í aukinni trú manna á gildi peninganna. Þótt ekki hefði að vísu tekizt að koma útflutningsframleiðslunni á rekstrarhæfan grundvöll, var þó vaxandi trú manna á það, að takast mætti að stöðva verðbólguflóðið. Afleiðingar verkfallanna í byrjun þessa árs hafa orðið þær, að verðbólguhjólið snýst nú aftur af fullum krafti, og er ósýnt, hvernig auðið verður að stöðva það að nýju. Í kjölfar verkfallsins fylgdu miklar kaup- og verðhækkanir, og gætir þessara óheillavænlegu afleiðinga í æ ríkari mæli og ekki hvað sízt í sambandi við afgreiðslu fjárl. nú fyrir næsta ár.“

Þetta eru orð þessarar áhrifamestu nefndar í Alþ. Um afgreiðslu sjálfra fjárl. gildir almennt sú regla, að meiri hl. Alþ. fylgir till. meiri hl. fjvn., sem kemur til af því, að fyrir n. hafa legið öll gögn í hverju máli, sem hún hefur þrautrætt, en aðrir hv. þm. hafa ekki haft ástæður til þess að kynna sér á sama hátt. Fjvn. er hér því leiðtogi og forsvarsaðili þingsins samfara hæstv. fjmrh. um afgreiðslu fjárlaganna. Það hefði því mátt vænta þess, að slík aðvörun frá hendi n., sem ég las hér áðan, hefði haft einhver áhrif á afgreiðslu þessa máls. En það er síður en svo, að þess hafi gætt. Jafnvel nefndarmennirnir sjálfir, sem gefið hafa út og undirritað aðvörunina, greiða atkvæði með þeirri gífurlegu launahækkun, sem frv. hefur í för með sér, ef að lögum verður. Og einn nefndarmannanna, sem sæti á hér í þessari hv. d. og jafnframt í fjhn. deildarinnar, hv. þm. S-Þ., hefur skipað sér á bekk með meiri hl. n. og lagt til, að frv. yrði samþ. Á hitt er ekki reynt enn, hvort hv. þm. V-Sk., sem einnig á sæti í fjvn., fylgir frv. eða ekki.

Þegar borin eru saman orð og athafnir þessara hv. þm., getur maður ekki annað en undrazt stórum það ósamræmi, sem þar ríkir, Og almenningur, sem fylgist með þessum málum af áhuga, hlýtur að spyrja: Hverju á maður að trúa? Meiri hl. þeirrar þingn., sem þjóðin setur allt sitt traust á í sambandi við afgreiðslu fjármála, fullyrðir í opinberu þskj., að orsakanna til þeirrar óheillaþróunar í fjárhagsmálum þjóðarinnar, sem skapazt hafi á yfirstandandi ári, sé fyrst og fremst að leita í þeirri verðbólgu, er fylgir í kjölfar kauphækkananna, sem urðu snemma á þessu ári, og enn fremur, að augljóst sé að hefði verið hægt að halda kaupgjaldinu og verðlaginu í skefjum, svo sem verið hefur síðustu árin, hefði horft betur um hag ríkissjóðs á næsta ári. Og samt sem áður greiða þessir menn atkv. á sama tíma með því, að frv., sem hefur í för með sér stórkostlega kauphækkun, stórkostleg útgjöld úr ríkissjóði og valda mun stórkostlegri verðbólgu í landinu, verði gert að lögum á þessu þingi. Hinu þýðir ekki að treysta, að almenningur fái skilið þau rök, að launahækkun, sem knúin er fram með verkföllum á þessu ári til launþeganna á hinum frjálsa vinnumarkaði, sé einhvers annars eðlis og hafi einhver allt önnur áhrif á efnahagsmálin en tugmilljóna launahækkanir til starfsmanna ríkisins, þótt þær launahækkanir séu fengnar fyrirhafnarlaust með því að gefa stéttinni sjálfdæmi, eins og ég hef bent á. Áhrifin á efnahagsmálin og verðlagið í landinu verða nákvæmlega þau sömu, hvernig svo sem launahækkanirnar eru til komnar.

Af umr. þeim, sem farið hafa fram hér á Alþ. um þessi mál, svo og ummælum blaðanna verður ekki annað séð en að samþykkt þessa frv. sé svar hæstv. ríkisstj. og hv. Alþ. til þeirra launastétta, sem knúðu fram launahækkanir á þessu ári með langvarandi verkfalli með þeim afleiðingum, að nýrri verðbólgu var steypt yfir þjóðina. Hér drýpur úr hverjum penna, hér hljómar úr hverjum barka: Þetta var ykkur sagt fyrir fram, nú eruð þið að uppskera eins og þið hafið sáð. Sú byrði, sem hér er á ykkur lögð, er aðeins eðlileg afleiðing af ykkar eigin verkum, sem væntanlega kennir ykkur meiri varfærni framvegis. — En þannig á ekki að mæta vanda, vegna þess að þannig verður hann ekki leystur, og án þess að ræða nánar þau atriði, sem óneitanlega eru upphafið að þessu kapphlaupi, vil ég benda á, að með þessu frv. er þó stefnt miklu lengra inn á launahækkunarbrautina en launahækkunin síðasta gefur tilefni til, þótt launalaganefndin vilji halda fram hinu gagnstæða, og skulu hér færð fyrir því óyggjandi rök. Og einmitt þess vegna mun frv. þetta, ef að lögum verður, beinlínis kalla á nýjar launahækkanir frá öllum almenningi, sem tekur laun sín á hinum frjálsa vinnumarkaði, til þess að vega upp á móti því misræmi, sem þetta frv., ef að lögum verður, skapar í launagreiðslum almennt. Og það er engan veginn öruggt, að þær kröfur verði nokkuð mildari en þær, sem starfsmenn ríkisins eru að tryggja sér hér. En sé slíkum hefndarráðstöfunum beitt í kaupgjaldsmálum yfirleitt, þá er eitt alveg óhjákvæmilegt, og það er það, að allir tapa.

Launalaganefndin byggir 9.5% grunnlaunahækkun í öllum launaflokkum á eftirfarandi útreikningi, sbr. fskj. III með frv.: XIII. launaflokkur verði ákveðinn með hliðsjón af núgildandi töxtum í almennri verkamannavinnu, en laun í X. flokki með hliðsjón af kaupi faglærðra iðnaðarmanna á almennum vinnumarkaði. Samkv. XIII. flokki gildandi launal. að viðbættum 20% eru mánaðarlaunin 1800 kr. á mánuði, en sambærilegir Dagsbrúnarverkamenn, að áliti n., og það álit hefur hún frá Hagstofu Íslands, hafa 2015 kr. á mánuði, ef þeir eru fastráðnir fyrir mánaðarlaun, og þurfa þá laun starfsmanna ríkisins í þessum flokki að hækka um 11.9% til þess að vera sambærileg við laun Dagsbrúnarverkamannsins með föstu mánaðarkaupi. Sé hins vegar miðað við tímakaupsmenn, sem hafa stöðuga atvinnu, er mánaðarkaup þeirra 2091 kr., og þyrftu þá launin í þessum flokki að hækka um 16.2%, eftir því sem launalaganefndin sjálf upplýsir með aðstoð hagstofunnar. Með tilliti til þessa þykir launalagan. rétt að ákveða laun þessa flokks 9.5% hærri en þau eru, eða 23700 kr., sem svarar til 2.4% lægra en laun Dagsbrúnarverkamanns, sem ráðinn er fyrir mánaðarlaun, og 6.7% lægra en laun sömu manna samkv. tímavinnusamningi.

Mér sýnist, að það þurfi enga hagfræðikunnáttu til þess að sjá, hversu fráleitur þessi samanburður er og hversu gersamlega það er óverjandi að nota þær niðurstöður, sem þannig eru fundnar, sem grundvöll fyrir almennri hækkun launa til starfsmanna ríkisins. Í XIII. flokki launal. eru aðstoðardyraverðir, ritarar og símastúlkur, afgreiðslumenn, aðstoðarmenn við rannsóknir, umsjónarmenn, innheimtumenn og svo talsímakonur fyrstu starfsárin. Langsamlega stærsti fjöldi þeirra, sem þannig er settur í þennan launaflokk, vinnur 36–42 stundir á viku í stað 48 stunda vinnu, er Dagsbrúnarverkamaðurinn verður að inna af hendi fyrir sínu kaupi og oft lengur, ef um er að ræða mann með föstum mánaðarlaunum. Munar þá hér 18.7% á raunverulegum launum fyrir sama vinnutímafjölda, sem verkamönnum er greitt minna en starfsmönnum í XIII. flokki þeirra laga, sem hér er verið að ræða. En þar við bætast 6%, sem ríkissjóður greiðir fyrir starfsmenn ríkisins í lífeyrissjóð auk ýmissa annarra hlunninda, er ég mun síðar ræða. Og mér er spurn: Hvaða almennur verkamaður, hvar sem er á landinu, mundi ekki grípa það tækifæri fegins hendi að fá örugglega greidd laun samkv. XIII. flokki með fullri tryggingu í því að halda þeim til 70 ára aldurs og eiga síðan rétt á eftirlaunum? Mikið fádæma ófróðir mega nm. vera um hagi hins almenna verkamanns, baráttu hans fyrir brauði sínu og sinna og sífelldum áhyggjum út af því að hafa enga vinnu næsta dag eða næstu vikur eða jafnvel næstu mánuði, ef þeir láta sér koma til hugar, að þeir þættust ekki hólpnir og himininn höndum tekið hafa, ef þeir ættu kost á því að tryggja, þótt ekki væri nema með þeim kjörum, framtíð sína. Halda virkilega þessir menn, að hinn almenni verkamaður, hvaðanæva af landinu sem er, væri að yfirgefa heimili sitt, börn og konu og það oft undir hinum erfiðustu kringumstæðum til þess í fullkominni óvissu að snapa eftir vinnu á fjarlægum vinnumarkaði, sem greidd er samkv. Dagsbrúnarsamningum, ef bann ætti þess kost að hafa trygga atvinnu með þeim kjörum, sem fastsett eru samkv. XIII. flokki launalaga? Kannast þessir menn ekkert við atvinnuástandið á hinum frjálsa vinnumarkaði, eins og það var hér fram að árinu 1939 og eins og það er enn í dag í fjöldamörgum þorpum og kaupstöðum landsins? Hafa ópin, sem þaðan berast daglega til Alþingis og einnig í ráðuneytin, alveg farið fram hjá þeim, eða halda þeir, að þau séu send að nauðsynjalausu? Og þó verða þessir menn einnig að bera hluta af þeirri byrði, sem þessi lög leggja á herðar allra þegna í landinu, ef þau verða samþ. hér á þessu þingi.

Með ákvörðun launaupphæðar í X. flokki hefur launalaganefndin til hliðsjónar laun faglærðra iðnaðarmanna á hinum almenna vinnumarkaði. Meðalárskaup þessara manna er talið af hagstofunni, eftir því sem sjálft frv. upplýsir, 31536 kr. á móti 28080 kr. hjá starfsmönnum ríkisins. Þetta hvort tveggja er miðað við grunnlaun. Hér telur n. því, að hækka beri starfsmannalaunin um 12.4%. Er nú rétt að athuga, hvaða starfsmenn ríkisins það eru, sem n. skipar í X. flokk og metur á borð við faglærða iðnaðarmenn, en þeir eru sem hér segir: bókarar, skiptimyntarféhirðir, dóm- og skjalavörður eða réttara sagt húsvörður hæstaréttar, firmaskrásetjari, lögreglueftirlitsmenn, sýsluskrifarar og bókarar, ríkislögregluþjónar og fangaverðir, brytar, skoðunarmenn í ríkiseftirliti, þjóðgarðsvörður, toll- og skattritarar fyrsta stigs, tollverðir, héraðslæknar í tekjumestu héruðunum, aðstoðar- og rannsóknarhjúkrunarkonur, matráðskonur, teiknarar, verkstjórar, kennarar við matsveina- og veitingaþjónaskóla, aðstoðarmenn fyrsta stigs í atvinnudeild háskólans, ráðsmaður á Keldum, háloftaathugunarmenn og loftskeytamenn, aðstoðarmaður veiðimálastjóra, dýralæknar í þremur tekjuhæstu héruðum utan Reykjavíkur, rafvirkjar, póstafgreiðslumenn, yfirvarðstjórar við símann, iðnaðarmenn fyrsta stigs, efnisverðir, aðstoðarféhirðar, umsjónarmenn bifreiða, magnaraverðir, stöðvarverðir og vélstjórar, útvarpsvirkjar og sölumenn.

Þessum mönnum er öllum skipað í X. flokk samkv. frv., og hafa þó líklega nokkrir þeirra verið fluttir einum flokki hærra við 3. umr. frv. í hv. Nd. Eins og sjá má af þessari upptalningu, vinnur þorri þessara manna miklu skemmri tíma en 48 stundir á viku eða þann tíma, sem iðnaðarmenn verða að vinna til að ná þeirri tekjuupphæð, sem miðað er við. Það gildir því hér að því leyti sama ósamræmið í samanburði og bent var á að væri í XIII. flokki, auk þess sem námsferill og undirbúningur iðnaðarmannanna undir sitt lífsstarf er miklu meiri og lengri en flestra þeirra, sem flokkaðir eru í þennan flokk, að undanskildum hinum langskólagengnu mönnum, en laun þeirra eru þá og miðuð við mjög miklar aukatekjur, sem störfunum fylgja. Um atvinnuöryggið í þessum störfum svo og lífeyrisgreiðslur gilda sömu rök sem ég færði fram í sambandi við samanburð á XIII. flokki og verkamannalaunum.

Aðra launaflokka en þessa tvo, sem ég hef nefnt, treystir n. sér ekki að taka til samanburðar við nein laun á hinum frjálsa vinnumarkaði, en fullyrðir þó alveg út í bláinn, að launamismunur milli ríkisstarfsmanna og sambærilegra starfsstétta á almennum vinnumarkaði sé meiri en að ofan greinir, og undir það tók hv. frsm. meiri hlutans, og skal einnig komið nokkuð að því hér síðar. Og þó kastar nú fyrst tólfunum, er n. metur að jöfnu öll réttindi ríkisstarfsmannanna samkv. lögum, m. a. þau, að ógerlegt er að víkja manni úr stöðu, hversu mikill vesalingur sem hann kynni að verða í starfi, fyrr en hann fellur fyrir aldurstakmarki, og bæta verður honum að fullu það tjón, sem hann verður fyrir, er staða hans er orðin óþörf og verður því að leggjast niður, við þau réttindi, sem launþegi á frjálsum vinnumarkaði á von í samkvæmt loforði um setningu laga um atvinnuleysistryggingar, sem enginn velt, hvenær koma kunna, og því síður, hvaða fríðindi koma til að færa þessum mönnum almennt, en þó má fullyrða, að aldrei verði nema brot af þeim fríðindum, sem fólgin eru í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þessi fríðindi metur launalaganefndin að jöfnu.

Vegna þeirra fullyrðinga, að einkafyrirtæki greiði miklu hærri laun til sinna starfsmanna fyrir sambærileg störf, þykir rétt að gera hér nokkurn samanburð á launum þessara starfsmanna, og öruggasta heimildin til samanburðar er samningur um launakjör verzlunarfólks, sem gerður er 27. maí s. l.

Samkvæmt þeim samningi er hæsti launaflokkurinn fyrir skrifstofustjóra og I. flokks fulltrúa, en hámarkslaun þeirra eru eftir 4 ár 37250 kr. Samkv. frv. eru skrifstofustjórar flokkaðir fyrst í III. flokk með 51300 kr., í V. flokk með 43800, í VI. flokk með 40200 og í VII. flokk með 37800, allt eftir því, við hvaða stofnanir þeir vinna, og eru þá allir fyrir ofan laun sambærilegra skrifstofustjóra á almennum vinnumarkaði og flestir langt fyrir ofan. Ég vil taka það fram, að allar þessar tölur eru byggðar á grunnlaunum, bæði starfsmanna ríkisins og á frjálsum vinnumarkaði. Fyrsta stigs fulltrúar eru samkvæmt frv. settir í VI. flokk með 40200 kr. og eru þá einnig langt fyrir ofan verzlunarmannalaunin. Aðalbókarar, aðalgjaldkerar og annars flokks fulltrúar hafa laun samkvæmt verzlunarmannasamningnum 33780 kr., en samsvarandi starfsmenn ríkisins samkvæmt frv. 47400, 37800 og 35400 kr., eftir því í hvaða stofnun þeir starfa, og eru, eins og samanburðurinn ber með sér, allir hærri í launum en sams konar starfsmenn hjá einkafyrirtækjum samkvæmt samningi. Bókarar annars flokks, sölumenn og gjaldkerar annars flokks hafa laun samkvæmt samningi 28956 kr., en sambærilegir ríkisstarfsmenn samkvæmt frv. 35400 og 30900 kr. Deildarstjórar hafa samkvæmt samningnum 30120, en samkvæmt frv. 43800 og 40200 eftir því, hvar þeir eru staðsettir.

Þannig er samanburðurinn á launakjörum ríkisstarfsmanna samkv. frv. og launum sambærilegra manna á viðskiptasviðinu, og hafa hinir síðari þó engin sömu fríðindi og ríkisstarfsmennirnir, svo að fullyrðingar launalaganefndarinnar, hæstv. ráðh. og hv. frsm. um þetta efni, að hér séu greidd mun hærri laun á hinum frjálsa vinnumarkaði, hafa ekki við nein rök að styðjast.

Ég hef hér sýnt fram á og það með alveg óhrekjandi rökum, að samanburður sá, sem launalaganefndin gerir á launum starfsmanna ríkisins og annarra launamanna og byggir síðan hækkunartill. sínar á, er algerlega rangur. Og til þess að sýna enn ljósar, hversu lítil ástæða var fyrir ríkisstarfsmennina að knýja fram launahækkun þá, sem felst í frv., skal ég leyfa mér að benda hér á nokkur af þeim fríðindum, sem þeir hafa auk launa sinna, og meta þau jafnframt, eftir því sem við verður komið. Þessi fríðindi eru að sjálfsögðu mjög misjöfn eftir því, hver á í hlut, en svo er um allar launatekjur annarra stétta, og þar bera ekki allir það sama úr býtum, hvorki Dagsbrúnarverkamenn né aðrir starfsmenn á frjálsum markaði. Er því ekki meiri fjarstæða að reikna hér með ákveðnu meðaltali en að reikna ákveðnar meðalárstekjur verkamanna eða annarra, sem sækja á hinn frjálsa vinnumarkað. En fríðindi þau, sem fylgja ríkisstarfsmannalaununum auk hinna föstu tekna, eru sem hér segir:

1) Lífeyrissjóðsgjald, greitt af ríkissjóði, 6% af laununum.

2) Framlag samkvæmt 18. gr. fjárl. 15.9 millj. kr., sem samsvarar 10% launahækkun. Þó að þetta sé ekki greitt til starfsmannanna fyrr en eftir að þeir láta af störfum, þá er þetta greitt sem bein laun til þeirra.

3) Réttindi samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, mjög lágt metin á 10%.

4) Frítt eða lágt reiknað húsnæði, ljós, hiti, sem víða fylgir embættunum, eða lán til húsbygginga úr lífeyrissjóðunum, samfara ábyrgð ríkissjóðs fyrir lánum til húsbygginga, allt að 75% af byggingarkostnaði hæfilegra íbúða. Þykir ekki óeðlilegt að áætla þennan lið verða að meðaltali 5% af laununum.

5) Aðstöðumunur til tekjuöflunar samhliða störfunum. Þessi aðstöðumunur gefur mörgum starfsmönnum meiri tekjur en sjálf launin, fjölda hálfar tekjur og langflestum verulegar uppbætur. Þó skal ég ekki meta þessi fríðindi að meðaltali á meira en 15%, og er það auðvitað allt of lágt metið.

6) Ýmiss konar önnur fríðindi, risna, sem ekkert er látið í té fyrir, ferðakostnaður, sem aldrei er farið, bifreiðakostnaður, sími o. fl., er ég tel lágt metið á 5%.

Fríðindin eru þannig alls metin á 51% af laununum.

Mér er að sjálfsögðu ljóst, að ýmsir starfsmenn í lægri flokkunum hafa ekki svo stóra hlutdeild í þessum fríðindum, þótt ég hins vegar telji, að engir þeirra hafi undir 25% álagi þannig á laun sín, en hitt er þó og jafnvíst, að fjöldamargir í hærri flokkunum hafa langt fram yfir það meðaltal, sem hér er reiknað með.

Eins og 1. gr. frv. ber með sér, er gert ráð fyrir, að öll laun hækki um 9.5%, en auk þess hækkar tilfærsla á milli flokkanna launin að meðaltali um rúmlega 4%, svo að samanlögð launahækkun verður að meðaltali um 14%, og nær þessi hækkun, eins og ég hef þegar bent á, engri átt, og verður á engan hátt verjandi, að Alþ. samþ. hana, eins og efnahagsmálunum er nú varið hjá þjóðinni.

Ég hef hér fært full rök fyrir því, að launalaganefndin hefur ekki gert full skil þeim þætti málsins að leggja til réttilega launaupphæðir stéttarinnar almennt. En hvernig hefur henni þá tekizt með hinn þáttinn, að ákveða flokkun launanna og að staðsetja hina ákveðnu starfsmannahópa í rétta og eðlilega flokka eftir því, hver verk þeir eigi að vinna?

Þegar till. launalaganefndarinnar voru gerðar heyrinkunnar, hófst hinn megnasti áróður frá öllum starfsmannahópum innan stéttarinnar um að fá sig færða upp í hærri flokka. Út af fyrir sig er þetta aðeins mannlegt. En það, sem vakti meiri undrun, er, að rökin fyrir því að verða fluttur þannig til, voru ekki þau, að þeim væru greidd of lág laun í þeim flokki, sem þeir höfðu verið skipaðir í, heldur hitt fyrst og fremst, að þeim væri misboðið með því að vera settir í þann flokk, samanborið við aðra, sem ofar voru settir. Þetta voru meginrökin hjá hverri stétt um að fá sig flutta til, eins og þeir menn vita, sem fóru með þessi mál sameiginlega í fjhn. Voru fjhn. send um hundrað erindi um þessi atriði. Í fjöldamörgum tilfellum fellst launalaganefndin á þessi rök og leggur til, að umkvartanirnar séu teknar til greina og viðkomandi aðilar hækkaðir samkvæmt óskum þeirra, en það kostaði ríkissjóðinn á þriðju millj. kr. að leiðrétta þær misfellur, og það, sem verra er, að það skapaði aðrar misfellur og aðrar háværari kröfur um tilflutninga, því að nú hafði þessi fengið leiðréttingu mála sinna, en hinn ekki, svo að hin síðari villan var verri en hin fyrri. En allt þetta sýnir, að þótt málið hafi verið falið fulltrúum ríkisstarfsmannanna til afgreiðslu og úrskurðar og engir aðrir hafi haft þar afskipti af, er langt frá því, að þessum þætti hafi verið gerð þau skil, sem nauðsynlegt var, enda var það tæplega hægt nema sýna fyrst till., eins og þær voru fram settar í frv., og láta síðan líða heilt ár, þar til þær yrðu aftur teknar til umr. á Alþ., og nota þann tíma til þess að sætta alla aðila, flytja til, þar sem sanngjarnt var, og fá síðan stéttina alla til þess að standa að málinu.

Verði frv. hins vegar afgr. eins og það liggur fyrir nú, er fullur fjandskapur innbyrðis um málið á milli starfsmannahópanna og enginn friður um það, en það hlýtur aftur óhjákvæmilega að leiða til þess, að misræmið verður að laga, annaðhvort með lagabreyt. á næsta þingi eða — sem líklega verður heldur gert — með alls konar greiðslum til manna utan lagaheimilda til þess að mæta að einhverju leyti réttlætinu, og þá er allt komið í sama horf og áður var, nema hvað þetta kostar allt ríkissjóðinn margar milljónir. Svo stórt og alvarlegt mál sem hér um ræðir á því ekki að afgreiða á einu og sama þingi og þá sízt nema það hafi fengið frámunalega góðan undirbúning, en það hefur það ekki fengið, hvorki utan þings né innan.

Þegar litið er á, hvað þetta frv., ef að lögum verður, kemur til þess að kosta ríkissjóðinn í nýjum útgjöldum, þá er sú upphæð, sem nefnd er í frv., engan veginn tæmandi. Það er gert ráð fyrir, að 9.5% grunnlaunahækkunin kosti 15.6 millj. Eftir að fjvn. yfirfór þessa útreikninga, komst hún að þeirri niðurstöðu, að þessi upphæð þyrfti að hækka um 2 millj. kr. eða rúmlega það. Eru þá þessi hækkunarlög sem næst orðin 18 millj. kr. Samkvæmt frv., eins og það var upphaflega lagt fram, er áætlað, að aðrar breyt. á lögunum, svo sem tilfærslur á milli flokkanna og aukin fríðindi önnur, kosti um 4.8 millj. Þegar búið var að samþ. brtt. n. við 2. umr. í Nd., hafði þessi áætlun hækkað um rúmlega 2 millj. kr., og þó að eigi sé fullkomlega vitað um áætlaða hækkun vegna breyt. á frv. við 3. umr., þykir ekki ólíklegt, að reikna megi með 1 millj., svo að allar tilfærslur á milli flokka munu verða sem næst 8 millj. og hin beina launahækkun því sem næst 26 millj. kr. En auk þess eru fjöldamargir gjaldaliðir á fjárlfrv., sem óhjákvæmilega hljóta að hækka um sama hundraðshluta og laun starfsmanna ríkisins, svo sem öll útgjöld 18. gr., því að útgjöld á 18. gr. hafa jafnan fylgt launahækkunum í landinu. Framlög til Búnaðarfélagsins, Fiskifélagsins og annarra stofnana, sem fá fé úr ríkissjóði til greiðslu á launum sinna starfsmanna, verða að sjálfsögðu að hækka á sama hátt og laun ríkisstarfsmannanna, og margir aðrir liðir, er ekki skulu hér sundurliðaðir frekar. Hefur mér reiknazt til, að þessir liðir allir nemi um 40 millj. kr., og hækkun vegna þeirra mun þá nema rúmum 7 millj. Auk þess er upplýst, að útgjöld til Tryggingastofnunarinnar hækka um 7 millj. kr. miðað við frv. eins og það var lagt fram fyrst, og má sennilega hækka þá upphæð um 500 þús. eftir þær breyt., sem á hafa orðið. Og þó að aðeins 1/3 þessarar upphæðar sé beint til útgjalda úr ríkissjóði, er öll upphæðin útgjaldabyrði á þjóðinni.

Samþykkt þessa frv. mun því kosta nýjar álögur, sem samsvara 40 millj. kr., og er þá ekki reiknaður með sá útgjaldakostnaður, sem varð af frv. um að afnema skerðinguna á vísitöluuppbótinni, því að það kemur ekkert þessu máli við. Geta menn síðan gert sér í hugarlund, hvílík geysiáhrif það kemur til að hafa á allt fjárhagskerfið í landinu.

Þótt fjhn. beggja d. hafi haft samvinnu um athugun á frv. þann tíma, sem það hefur verið í Nd., þá er það raunverulega gersamlega óverjandi að ætla seinni deild engan tíma til að athuga og umbæta svo þýðingarmikið mál, því að um það eru allir hv. þm. sammála, að ógerningur er að ganga svo frá máli sem þessu í fyrri d., að ekki þurfi að laga á síðara stigi ýmsar misfellur, sem ómögulegt er að fyrirbyggja, og hefur það skýrt komið fram hér fyrr í umr. Og ég fullyrði, að svo mikil óánægja sem ríkti um frv., er það fyrst kom fram, þá hefur hún vaxið um allan helming undir meðferð málsins, einmitt vegna þeirra breyt., sem gerðar hafa verið á því og kostað hafa ríkissjóðinn milljónir. Þingnefndir og þm. hafa bókstaflega engan frið haft fyrir sífelldum áróðri þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli. Og eins og venjulega hafa þeir komizt lengst, sem beitt hafa mestri ásælni, en tilfærsla þeirra á milli flokka hefur sem oftar skapað algert ranglæti gagnvart hinum, sem fengu ekki sínum málum fram komið. Er þetta ein veigamikil ástæða til þess að vísa málinu frá á þessu þingi, og væri þá rétt að skipa nýja launalaganefnd, sem almenningur vissi ekki einu sinni, hverjir ættu sæti í, og sízt af öllu, hvar hún starfaði, til þess að útiloka allan persónulegan áróður. Hún fengi þá öll gögn, sem fram eru komin í málinu, og allar frekari upplýsingar kæmu til hennar um hendur ráðuneytanna. Hún skilaði til ríkisstj. fullbúnum, öruggum till. um ný launalög, er hún hefði bæði þrek og manndóm til að standa við, en léti ekki hrekja sig í fyrstu atrennu frá till. sínum, eins og nú hefur átt sér stað, til þess síðar að missa gersamlega tökin á málinu. Á sama tíma lýsti svo hæstv. ríkisstj. yfir, að þar til ný launalög yrðu sett, skyldi starfsmönnum ríkisins bætt eðlilega launin, eftir því sem réttlátt væri, miðað við þær breyt., sem orðið hafa á launum almennt í landinu. Öll önnur afgreiðsla á þessu máli á þessu þingi er Alþ. og hæstv. ríkisstj. til vansa.

Mér er fullkunnugt um, að mikill þorri hv. þm. er í raun og veru á þessari skoðun, sem kemur bezt í ljós í því, að það munu 10 hv. þm. hafa setið hjá í atkvgr. við afgreiðslu málsins í hv. Nd. Og ekki einungis þeir, heldur er og þorri starfsmanna ríkisins sáróánægður með endalok þessa máls, eins og þau virðast vera ráðin. En eina mótbáran er: Það mun valda enn meiri erfiðleikum að koma málinu í höfn síðar. Það mun kosta ríkissjóðinn enn meira fé þá en nú, og því verður að ljúka málinu á þessu þingi og það áður en því er frestað. — Þessi mótbára hefur ekki við nein rök að styðjast: Í fyrsta lagi vegna þess, að Alþ. á aldrei og má aldrei láta neina starfsmannahópa skipa sér fyrir verkum, þá er valdi þess og virðingu gersamlega glatað og þar með sjálfstæði og frelsi þjóðarinnar. Hinn 30. marz mun verða lifandi tákn þess í sögu Alþ., að frjálsbornir fulltrúar létu ekki kúga sig, en komu fram á þingi réttlátum málum, þótt úti fyrir væru hópar með hótanir um limlestingar og ofbeldi. Á þeirri stundu hélt Alþ. fullri virðingu og fullu valdi, og það á það jafnan að gera, á hverju sem veitur utan þessara múra. Í öðru lagi vegna þess, að fram undan er lausn efnahagsmálanna. Lausn þeirra kemur áreiðanlega til að hafa mikil áhrif á kjör almennings í landinu, annaðhvort til góðs eða ills, eftir því, hvernig tekst um lausn þeirra mála, og því er ekki rétt að ljúka þessu máli, fyrr en séð er, hvaða lausn verður á efnahags- og atvinnumálunum almennt. Gefi sú lausn tilefni til hækkunar launa ríkisstarfsmanna frekar en annarra launþega í landinu, þá verður ekki staðið á móti þeirri kröfu, sem þannig yrði flutt af sanngirni, þó að búið sé að ganga frá þessu máli.

Ég legg því til, að sá háttur verði hafður á, sem ég hef bent á, og að dagskrártill. mín á þskj. 221 verði samþ., en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að augljóst er, að frv. veldur, ef að lögum verður, vaxandi verðbólgu í landinu og framkallar jafnframt kröfur um hækkandi laun annarra launþega, sem ekki verður unnt að mæta nema með stórauknum nýjum framlögum úr ríkissjóði, svo og að frv. hefur ekki fengið þann undirbúning og þá meðferð, sem nauðsynlegt verður að telja, þegar um svo viðkvæmt og vandasamt mál er að ræða, þykir ekki rétt að samþ. málið á þessu þingi, og tekur d. því fyrir næsta mál á dagskrá.“