16.12.1955
Efri deild: 31. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt, að ég segi fáein orð út af því, sem hv. frsm. minni hl. tók fram og nál. minni hl., vegna þess að hann víkur í nál. sínu og vék einnig í máli sínu allmjög að meðferð þessa máls eins og hún hefur verið af hendi ríkisstj.

Það er þá fyrst, að hv. þm. eða hv. minni hl. finnur mjög að undirbúningi málsins og nefndarskipun þeirri, sem átti sér stað í því sambandi.

Ég vil taka það fram, að ríkisstj. var sammála um að hafa n. einmitt á þá lund, sem hún varð, og að velja tvo skrifstofustjóra úr stjórnarráðinu í n., skrifstofustjóra fjmrn. og skrifstofustjóra atvmrn., en gefa Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja aðstöðu til þess að hafa áhrif á val hinna nm.

Það er álit mitt og vafalaust álit ríkisstj. einnig, að þessir tveir menn, sem skipaðir voru úr starfsliði stjórnarráðsins í nefndina, muni vera hæfari en flestir aðrir landsmenn til þess að taka að sér þetta starf. Það mun leitun á nokkrum mönnum, sem eru jafnkunnugir fjárhags- og atvinnulífinu og þeim þáttum þjóðfélagsbyggingarinnar, sem þekkja þarf til þess að gera skynsamlegar till. um launalög, og einmitt þessir tveir menn. Þeir hafa því allra manna bezt skilyrði til þess að vinna gott starf í n. og að líta á málin einmitt frá sjónarmiði þjóðfélagsheildarinnar, en ekki frá sjónarmiði opinberra starfsmanna sérstaklega, enda hygg ég, að engum þeim manni, sem kunnugur er störfum þessara manna og kunnugur þeim, mundi detta í hug, að það hafi haft nokkur minnstu áhrif á störf þeirra að þessu vandamáli, að þeir voru launþegar á vegum ríkisins. Þessir tveir menn eru svo þaulvanir því að starfa að ábyrgðarstörfum einmitt frá almennu sjónarmiði, að fáir aðrir hafa í því jafnmikla æfingu, og það er ekki fátítt, að einmitt þessir menn eigi þátt í hliðstæðum störfum og þeim, sem hér áttu sér stað, t. d. hafa þeir verið undanfarin ár mjög framarlega í rannsóknum á þeim vandamálum öðrum, sem borið hefur að garði ríkisstj.

Ég mótmæli því alveg þeirri skoðun, og ég veit, að ég geri það í nafni ríkisstj., að stjórnin hafi með þessari skipan n. gert nokkuð í þá átt að afhenda opinberum starfsmönnum sjálfdæmi í sínum málum eða hafi sett þannig upp n., að það sé ástæða til þess að kvarta yfir því, að aðrir hafi ekki getað komið neinum vörnum við, eins og það er orðað í nál. hv. minni hl. Gagnvart þessum tveimur fulltrúum, sem ég hef hér getið um, þarf engum sérstökum vörnum við að koma, því að þeir eru einmitt allra manna færastir til þess að líta á þessi mál frá því sjónarmiði, sem ég hef lýst, og frá því sjónarmiði, sem þarf að skoða þau.

Þá vil ég einnig geta þess, að frv. hefur verið rúmar 5 vikur í n., þar sem unnið hafa saman að málinu fjhn.-menn úr báðum deildum Alþ., og hefur því þar fullkomlega verið aðstaða til þess fyrir menn að gera aths. við málið, eins og raunar kom fram af því, sem hv. frsm. minni hl. sagði. Þótt sumt af því, sem hann tók fram, bæri ekki vott um réttan skilning á málinu frá mínu sjónarmiði, þá var þó augljóst af því, sem hann hafði hér fram að færa, að hann hefur haft mikinn tíma til þess að fjalla um málið og að sumu leyti notað hann allvel. Það sýndi hið langa og að sumu leyti ýtarlega mál, sem hann flutti um það frá sínu sjónarmiði.

Þá kem ég næst að því atriði hjá hv. minni hl., að launamálanefndin hafi ekki íhugað neitt, hvaða áhrif nýja launalagafrv. mundi hafa á fjárhagskerfi þjóðarinnar, ef það yrði lögfest. Launamálanefndinni var fengið það verkefni að semja frv. til nýrra launalaga fyrir ríkið með það fyrir augum að koma samræmi á launagreiðslur til opinberra starfsmanna, samanborið við launagreiðslur eða kaupgjaldsgreiðslur almennt í landinu. Þetta var það verkefni, sem nefndinni var fengið, og það hefur hún leyst af hendi.

Að sjálfsögðu var það íhugað af þeim, sem n. settu, hvaða áhrif ný launalög mundu hafa á efnahagskerfið, og það var fyrst og fremst frá því sjónarmiði, að það verður aldrei haldið jafnvægi í efnahagskerfinu með því að halda launum opinberra starfsmanna í ósamræmi við aðrar launagreiðslur eða aðrar kaupgreiðslur. Fjárlagskerfi Íslands verður aldrei bjargað á því að taka út úr einhverja eina stétt og sýna henni rangindi með því að halda niðri tekjum hennar í samanburði við aðrar stéttir. Þær ráðstafanir, sem gera verður í efnahagsmálunum, verða að vera þannig, að það sé sem fyllst samræmi í, hvernig þær snerta stéttir þjóðfélagsins, og það er ekki hægt að setja það fyrir sig, þó að launagreiðslur hjá opinberum starfsmönnum hækki, ef þær hækka vegna þess, að kaupgjald annarra hefur hækkað. Málið mundi horfa allt öðruvísi við, og hv. þm. mundi hafa í mörgum atriðum rétt fyrir sér, ef hér væri verið að reisa nýja kauphækkunaröldu með þessu frv., ef stjórnin væri að taka sig fram um að hækka laun opinberra starfsmanna, án þess að almennar hækkanir hefðu átt sér stað í landinu áður. En einmitt af því, að stjórnin er ekkert annað að gera en að beita sér fyrir því, að laun opinberra starfsmanna verði færð til samræmis við þær kauphækkanir, sem áður hafa átt sér stað hjá öðrum, er málflutningur minni hl. allur saman byggður á röngum forsendum og fellur þess vegna í raun og veru um sjálfan sig niður. Þetta er vitaskuld höfuðatriði málsins. Og til að sýna, að ég hafi rétt fyrir mér í þessu, er einfaldast að benda á launalögin frá 1945 annars vegar og launalagafrv. það, sem hér liggur fyrir, hins vegar og svo á einu leitinu þær kaupgjaldsbreytingar, sem orðið hafa í landinu síðan 1945. Þá kemur í ljós, að þótt þetta launalagafrv. verði samþ., er síður en svo því til að dreifa, að opinberir starfsmenn séu betur settir tiltölulega en þeir voru 1945, miðað við aðra. Þess vegna er líka alveg rangt af hv. minni hl. að vera að reyna að gefa skakka mynd af málinu, ásamt þeim mönnum, sem vitandi vits eru sífellt að grafa undan heilbrigðri þróun, með því að gefa í skyn, að þetta frv., ef að lögum yrði, gæfi tilefni til þess, að menn færu enn á stúfana almennt með nýjar kauphækkanir. Þetta mundi styðjast við rök, ef hér væri verið að ganga fram fyrir skjöldu í fararbroddi, en það er ekki verið að reyna að gera það, heldur aðeins taka afleiðingunum af því, sem gerzt hefur.

Það er svo annað mál, að hv. minni hl. lagði nokkra áherzlu á, að hann væri á móti frv. vegna þess, að laun opinberra starfsmanna nú væru of há og hefðu verið of há undanfarið og þess vegna gætu þeir tekið á sig þá lækkun, sem þeir í raun og veru tækju á sig, ef laun þeirra hækkuðu ekki, en þessu hélt hv. þm. fram öðrum þræði. Það er sem sé hans skoðun öðrum þræði, að laun opinberra starfsmanna séu of há, samanborið við laun annarra, tekjur annarra, og hafi verið það og þess vegna gætu þeir tekið á sig þá lækkun, sem af því stafaði, að laun þeirra væru ekki hreyfð upp á við, þótt önnur laun hefðu hækkað. En ég er ekki sammála hv. þm. um þetta. Þó að ég hafi ekki hér á borðinu hjá mér gögn til að hrekja þetta í einstökum atriðum, þá vil ég þó minna á nokkur atriði í þessu sambandi. Það er vitað, þó að hv. þm. vildi bera á móti því, að laun í stofnunum hér, t. d. í höfuðstaðnum, eru yfirleitt hærri en þau laun, sem ríkið greiðir sínum starfsmönnum. Þetta á áreiðanlega við um bankana og margar aðrar stærstu stofnanir í landinu. Og þó að hv. þm. læsi hér upp samanburð um einstök atriði, sem hann byggði á launasamningi við Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, þá legg ég ekki ákaflega mikið upp úr því, þar eð ég get ekki áttað mig á því án þess að skoða það mál betur, hvort sá samanburður átti nokkurn rétt á sér, hvort það eru hliðstæð störf, sem hann þar ber saman. Auk þess er vitað mál, að eftir þeim samningi er áreiðanlega ekki farið nema að mjög takmörkuðu leyti við ákvörðun launagreiðslna í viðskiptafyrirtækjum hér á landi, það fullyrði ég með öllu hiklaust. Ég held, að það sé í þessu tilliti mjög glöggur mælikvarði, að nú um sinn hefur ekki verið sótzt sérstaklega eftir því að komast í þjónustu ríkisins. Það var nokkuð öðruvísi fyrir nokkru, en nú um sinn hefur það ekki verið. Menn hafa ekki sótzt eftir því að komast í þjónustu ríkisins. Það mun vera vegna þess, að það hefur almennt verið betur boðið annars staðar. Eitt dæmi, sem alþjóð þekkir og gefur nokkuð auga leið um þetta, er launadeilan við verkfræðingana, sem hafa verið í þjónustu ríkisins. Hún fór fram þannig, að verkfræðingar í þjónustu ríkisins sögðust vera of lágt launaðir og þeir yrðu að fara úr þjónustu ríkisins, ef þeir fengju ekki stórfelldar breytingar á laununum og miklu hærri laun en nokkrum manni voru ætluð í launalögum, verkfræðingi eða öðrum. Ríkisstj. vildi alls ekki á þetta fallast, en niðurstaðan varð sú, að verkfræðingarnir streymdu úr þjónustu ríkisins og gátu allir fengið störf annars staðar í landinu með þeim launum, sem þeir höfðu krafizt og stjórnin vildi ekki borga. Stjórnin stóð svo frammi fyrir því, að annaðhvort féllu niður opinberar framkvæmdir um óákveðinn tíma eða hún gerði samning við verkfræðingana, ekki um hærri laun en atvinnurekendur og Reykjavíkurbær höfðu gert samninga um, heldur um að ganga inn í þá samninga, sem atvinnurekendur og Reykjavíkurbær höfðu þegar gert við þá. Þetta er ofur lítið sýnishorn af því, hvernig gengið hefur til varðandi verkfræðingana, og þó að það sé ekki alveg eins æpandi ósamræmi í þessum málum í öðrum greinum, þá er það þó sönnu næst, að nú um skeið hefur verið mun betur boðið hjá öðrum en ríkinu, þannig að stórhætta hefur verið á því nú á tímabili, að ríkið missti fjölda góðra manna úr sinni þjónustu og ætti kost á litlu einvalaliði til nýrra starfa. Það er alveg vitað mál, að lögfræðingar t. d. hafa undanfarið yfirleitt alls staðar getað fengið betur borgað fyrir sína vinnu en í þjónustu ríkisins. Þess vegna er, eins og nú standa sakir og hafa staðið um skeið, þessi skoðun hv. þm. alveg röng, sem sé að það ætti alls ekki að breyta laununum neitt, opinberir starfsmenn væru betur launaðir en almennt gerðist og gætu tekið á sig þann skakka, sem af því leiddi, ef þeirra laun stæðu í stað. Þessi skoðun byggist ekki á réttum skilningi á málinu að dómi þeirra, sem að þessu launalagafrv. standa.

Þá sagði hv. minni hl., að launamálanefnd mundi ekki hafa unnið vel, það sæist á því, að það hefðu svo mörg erindi borizt til hv. fjhn. um, að frv. skyldi breytt, erindi um, að einstakir starfsmenn væru færðir á milli flokka.

Þessi erindi eru enginn vitnisburður um, að launamálanefndinni hafi mistekizt. Ég hygg, að það hefði verið nokkuð sama, hversu henni hefði tekizt, það hefði alltaf komið sægur af slíkum erindum. Menn vilja yfirleitt líta þannig á þau störf, sem þeir gegna sjálfir, að þau eigi að vera virt sem hæst til móts við önnur störf, og ekki nema mannlegt, að menn reyni að ýta sínum launum upp í sambandi við setningu launalaga eins og við samninga. Þess vegna er það alveg úr lausu lofti gripið, að hægt sé að fella áfellisdóm á milliþn., byggðan á því, að svo margar kröfur hafi komið fram til Alþingis. Það er heldur enginn áfellisdómur á mþn., þótt hún hafi lagt til, að tekið yrði til greina svo og svo mikið af þessum erindum, af þeirri einföldu ástæðu, að þar kemur fram sama þróun og verður ætíð, þegar verið er að reyna að leysa launa- og kaupgjaldsmál. Að lokum taka menn til greina ýmis atriði, sem eru ekki tekin til greina á fyrsta stigi málsins. Þetta veit ég að jafnlífsreyndur maður og hv. frsm. minni hl. skilur. Hann vill bara ekki vera sanngjarn í þessu, af því að hann er á móti málinu. En mér finnst, að hann hefði vel getað verið sanngjarn í garð n., þó að hann væri á móti málinu.

Enn fremur sagði hv. þm., að það væri glöggur vottur um, að hér hefði ekki vel tekizt, að hann hefði orðið var við, að ýmsir væru óánægðir með það, hvernig þeim væri skipað í launaflokk. Ég er alveg handviss um, að þótt haldið væri áfram allt næsta ár og þar næsta ár og jafnvel lengur að vinna að málinu, þá yrði aldrei komizt fram hjá því, að það yrðu alltaf mjög margir óánægðir með það, hvernig þeim væri skipað í launaflokk, máske því fleiri, eftir því sem lengur yrði haldið áfram. Mér er alveg ljóst, að hversu lengi sem áfram væri haldið, þá væri alveg ómögulegt að fá alla til að fallast á, að þeir væru rétt settir í launaflokk. Þetta eru því engin rök fyrir því, að það eigi að falla frá því að afgreiða málið, og það er mín skoðun, og ég vil taka undir það, sem hv. frsm. meiri hl. sagði um það, að jafnframt því sem þetta er sanngirnismál, þá er ekki betra að bíða með að setja ný launalög frá sjónarmiði ríkisvaldsins.