16.12.1955
Efri deild: 31. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Varðandi ummæli síðasta hv. ræðumanns, þá skýtur það mjög skökku við þær meginkenningar, sem hann annars yfirleitt fylgir. Það tjáir t. d. ekki fyrir hann að bera á móti því, að vísitöluskerðingin var afnumin á s. l. vori eftir beinni kröfu verkalýðsfélaganna. Það má vel vera, að þau hafi á einhverju stigi gegn einhverjum öðrum fríðindum verið reiðubúin til þess að slaka eitthvað til á þeirri kröfu, — það er mér með öllu ókunnugt, ég efa ekki, að hv. þm. fari út af fyrir sig rétt með það, — en krafan var fram borin af þeim og samningarnir gerðir við verkalýðsfélögin um það, að þessi skerðing skyldi niður falla. Það er þess vegna bein afleiðin, af þeirri samningsgerð og því ástandi, sem þá skapaðist í launamálunum, að ómögulegt var með öllu að halda slíkri skerðingu á launum embættismanna. Slíkt hefði verið fullkomið ranglæti og ekki fengið staðizt á nokkurn veg.

Þá er það einnig mjög eftirtektarvert, að þessi hv. þm. býsnast mjög yfir því, að hin hærri laun hafi verið hækkuð hlutfallslega mikið í því frv., sem nú liggur fyrir, og öðrum kauphækkunum frá þessu ári. Þessu er fyrst til að svara því, að meginhækkunin liggur í afnámi vísitöluskerðingarinnar og er þess vegna bein afleiðing af samningunum, sem í vor voru gerðir, eins og ég áðan rakti. Til viðbótar kemur það, að það er fyrir löngu kunnugt, að í kommúnístísku þjóðfélagi, — sem hv. þm. vill koma á hér á landi og við vitum allir að hann trúir á af heilum hug, að sé hið bezta, sem mannlegur andi hafi fundið, og meira en það, það sé nánast náttúrunauðsyn, að slíkt skipulag verði, — að í þeim kommúnistísku þjóðfélögum, sem nú eru, er launamismunur miklu meiri en tíðkast í okkar þjóðfélagi, og sérstaklega eru kjör embættismanna og þá ekki sízt kjör æðri embættismanna miklu betri en eru á Íslandi, ekki aðeins varðandi sjálf launin, heldur einnig varðandi skatta og önnur hlunnindi, sem embættismennirnir njóta. Það er ákaflega einkennilegt, að hv. þm. skuli vilja láta okkur búa í þessu að öllu leyti við aðrar reglur en gilda í því þjóðfélagi, þar sem því skipulagi hefur verið komið á, sem hann trúir að sé hið eina rétta.

En látum það vera, og ég skal ekki þræta meira við hv. þm. Ég vík einungis að þessu vegna þess, að hann var að ljúka máli sínu. Ég hefði ekki staðið upp til að svara honum einum, heldur er erindi mitt hingað almennt það að lýsa fylgi mínu við frv. og tjá mig ósammála flokksbróður mínum, hv. þm. Barð., um þetta málefni. Það er kunnugt, að hv. þm. hefur sínar sérskoðanir á launamálum embættismanna og hefur lengi haft. Það er með þær skoðanir eins og hinar almennu stjórnmálaskoðanir hv. 2. landsk. þm., að þó að okkur finnist þær harla einkennilegar, þá efumst við ekki um, að þær séu af góðum hug og að þar fylgi hugur máli og þeir mæli báðir af heilindum fyrir sínum sérkreddum, sem eru nú almennt miklar hjá hv. 2. landsk., en tiltölulega takmarkaðar hjá hv. þm. Barð., þó að þær séu því miður í þessu máli.

Hv. þm. Barð. gerði ýtarlega grein fyrir sínu máli, og skal ég ekki fara að rekja það, heldur lýsa mig honum að flestu leyti ósammála, bæði varðandi rökstuðning og niðurstöðu. Ég tel, að því fari fjarri, að þetta frv. muni hleypa nokkurri nýrri verðbólguöldu af stað. Ég tel þvert á móti, að frv. sé óhjákvæmileg afleiðing þess, sem þegar er orðið, það sé fullkomin réttlætiskrafa af hálfu starfsmanna ríkisins að fá þær réttarbætur og kauphækkanir, sem í frv. greinir, en það sé ekki aðeins réttlætiskrafa, heldur sé ríkinu sjálfu fullkomið hagsmunamál, að þær kauphækkanir verði, sem í frv. greinir, að meginstefnu til, vegna þess að nú þegar er komið á daginn, að ef ekki fæst leiðrétting í þessum efnum, er mikil og raunveruleg hætta á því, að ríkið missi marga starfsmenn og ekki sízt marga af sínum beztu starfsmönnum til annarra verka, og með því væri ríkinu búið varanlegt tjón og öll starfræksla í þágu borgaranna sett í mikla hættu. Það er t. d. kunnugt, að skortur er á kennurum, og er það að vísu engin nýlunda. Ég hef raunar lesið í hinu ágæta málgagni hv. 2. landsk. þm., að þetta væri ekki fyrst og fremst launakjörunum að kenna, þó að þau ættu nokkurn þátt í, heldur hinum illa menntmrh. ekki síður og hans rangindum, að æskulýðurinn forðaðist að leggja stund á kennaramennt. Sannleikurinn er sá, að ég hygg, að í þessu sé mjög svipað ástand nú og var áður en launalögin 1945 voru sett, en þá var einmitt hv. 2. landsk. þm. menntmrh. eins og ég er nú, og heyrðist þá ekki, að þetta málgagn hans kenndi honum um þá tregðu, sem virtist vera á því, að menn legðu stund á þessa fræðigrein og sæktust eftir kennarastöðum. En hverjar sem orsakirnar eru, þá er enginn vafi á því, að sérstaklega er skortur á barnakennurum víðs vegar úti um land og ekki sízt í sveitunum, þar sem strjálbýli er mest, og öruggasta ráðið til þess að bæta úr því er samkvæmt allri mannlegri reynslu að láta kennarana fá skapleg launakjör. Eins er það mjög eftirtektarvert, að eftirsókn í ýmsar hinar vandasamari stöður, eins og t. d. skólastjórastöður, fer mjög minnkandi, og er jafnvel á köflum mjög erfitt að fá hæfa menn til þess að gegna slíkum störfum. Ástæðan til þess er sú, að launamismunurinn á þeim, sem veruleg ábyrgð er lögð á herðar og umfram það, sem almennt gerist, og hinum, sem ekki hafa slíka sérstaka ábyrgð og óþægindi henni samfara, hefur verið svo lítill, að menn telja það ekki ómaksins vert að taka á sig aukna fyrirhöfn og ábyrgð, vilja heldur vera þar, sem minna næðir um þá.og þeir hafa allt að því eins góð launakjör og þegar allt kemur til alls í framkvæmd oft betri, vegna þess að þeim gefst meira færi til aukavinnu og að vinna sér inn fé fyrir utan aðalstarf sitt.

Þá er mér einnig kunnugt, að mikill órói er í hópi sérstaklega yngri lögfræðinga og fulltrúa við dómaraembættin hér í bænum. Þeir telja kjör sín, miðað við aðra sambærilega menn, svo léleg, að þeir geti trauðlega til lengdar við unað. Þeim var veitt nokkur bót ekki alls fyrir löngu, og hún er staðfest með þessum lögum, auk þess sem þeir njóta hinnar almennu hækkunar. Ég veit að vísu, að þessir menn telja, að hlutfallslega hafi þeir orðið verr úti við þessa frumvarpssmíð en áður var, en þó að ég játi sumt í rökfærslum þeirra og nauðsyn starfs þeirra og mikilvægi þess að halda þeim ungu, ágætu mönnum, sem í starfinu eru, sæmilega ánægðum, þá treysti ég mér ekki til þess að flytja eða verða með sérstakri till., þótt hún kæmi fram, um að hækka þá í flokki, eins og nú er komið, vegna þess að ég tel, að skipun manna í flokka samkvæmt þessu frv. hljóti að langmestu leyti að verða á ábyrgð mþn., þar sem voru bæði fulltrúar ríkisvaldsins og starfsmannanna, og síðan þingnefndanna, sem búnar eru að starfa að þessu vikum saman og samkvæmt því, sem upplýst var hér í dag, halda a. m. k. 16 sameiginlega fundi. Ég tel það ekki á færi okkar einstakra þingmanna, jafnvel þótt í ríkisstj. séum, að ætla að bæta um verk þessara manna, vegna þess að allt frv. hlýtur að byggjast á svo nánum samanburði og mörgum óvissum matsatriðum, að fyrir menn, sem ekki eru nákunnugir því, hvernig þetta er byggt upp, hlýtur að skapast sú mikla hætta, að þeir með breytingum sínum kollvarpi meira og komi af stað frekara ósamræmi en þeir upphaflega höfðu ætlað sér og þess vegna verði oft úr þeirri umbót, sem gera átti, tjón og glundroði. Slíkt verk hlýtur eðli málsins samkv. langsamlega mest að vera trúnaðarverk unnið af tiltölulega fáum mönnum, sem setja sig sérstaklega inn í það, og þar sem ég hef ágætt traust bæði á mþn. og eins meiri hluta fjhn., þá held ég, að hvorki ég né aðrir bætum okkur á því að byrja að breyta þar til.

Ég verð þó að játa, að ýmiss konar ósamræmi á sér þarna stað. Ég tel t. d., að biskup landsins hefði átt að vera í hærri launaflokki en hann er. Helzt hefði ég kosið, að hann væri í fyrsta launaflokki ásamt ráðherrum og hæstaréttardómurum. Hann skipar elzta og eitt virðulegasta og mikilvægasta embætti landsins, og hefði því farið mjög vel á að hafa hann í hinum efsta flokki. Eins tel ég mjög hæpið að hafa t. d. rektora menntaskólanna fyrir neðan suma þá embættismenn, sem nú hafa verið færðir ofar í flokki. Á sama veg er það skoðun mín, að það sé beint hættulegt að hafa forstjóra stórra verzlunarfyrirtækja ríkisins svo neðarlega í flokki sem þeir eru. Það er vitanlegt, að með þeirri skipun í flokk eru þeir miklu lægri en sambærilegir starfsmenn mundu vera, ef þeir væru ekki hjá ríkinu, og þó að ég efist ekki um heiðarleik þeirra ágætu starfsmanna ríkisins, sem hér eiga hlut að máli, þá er ætíð hættulegt að ætla að gera svo mjög upp á milli manna og viðbúið, að það hefni sín í einni eða annarri mynd.

Þannig mætti lengi telja, að sitt sýnist hverjum um það, hvernig eigi að skipa mönnum í flokka. En þar sem ég veit, að úr því að þeir sérfræðingar, sem unnið hafa að þessu máli, — því að þá verður að kalla sérfræðinga, sem setið hafa yfir því, fyrst marga mánuði og síðan margar vikur og sökkt sér ofan í hagkvæmustu lausn málsins, — hafa talið, að ekki væri hægt samræmisins vegna að gera þær breytingar, sem ég nú hef talið, og nokkrar fleiri, þá held ég, að of hættusamt væri að fara nú að gera einstakar breytingar á frv. hér, og mun því greiða atkv. á móti þeim öllum og verða fylgjandi frv. óbreyttu, um leið og ég viðurkenni, að það að sjálfsögðu eins og öll önnur mannanna verk og kannske frekar en mörg önnur stendur til bóta og mjög eðlilegt, að þeir, sem hafa sérstaka þekkingu og bera hag sérstakra stofnana fyrir brjósti, telji frekar á þær hallað og vilji ota þeirra tota. Það væri beint óeðlilegt, ef svo væri ekki.

Hv. þm. Barð. fann að því, að af hálfu ríkisvaldsins hefðu verið tveir skrifstofustjórar í milliþn., og taldi, að þar hefði mátt betur velja. Ég tek undir það, sem hæstv. fjmrh. sagði um ágæti þessara tveggja nefndarmanna. Það má auðvitað segja, að af 160 þús. Íslendingum hefðu margir fleiri en þessir tveir góðu menn komið þarna til álita. En sannleikurinn var sá, að til þess takmarkaða verkefnis, sem þessum mönnum var fengið, held ég, að þeir hafi verið sérstaklega vel valdir. Þeim var ætlað að vinna að því að koma embættislaununum í samræmi við önnur laun í landinu, þannig að tekið væri tillit til kauphækkana frá því að síðustu launalög voru sett. Það var sameiginleg skoðun ríkisstj., að að þessu ætti að vinna, og það má segja, að þótt það hafi ekki verið berum orðum fram tekið skriflega, þá var þetta það veganesti, sem þessir umboðsmenn ríkisstj. fengu. Þeir höfðu þessa leiðbeiningu, og þeir hafa algerlega fylgt henni og unnið innan þeirra marka, sem ríkisstj. hafði fyrir fram sett. Auk þess áttu þeir að vinna að hæfilegri umflokkun og niðurskipan embættanna, og ég tek undir það með hæstv. fjmrh., að ég veit enga tvo menn betur færa vegna kunnugleika á embættaskipuninni og almennt þjóðháttum hér á landi til þess að vinna það verk en þessa tvo heiðursmenn. Ég get þess vegna ekki verið sammála hv. þm. Barð.

Ég tel annars ástæðulaust að fara að eltast frekar við einstakar röksemdir hans, við þekkjum skoðanir hvor annars í þessum efnum og vitum, að við erum ósammála um bæði rökin og lausn málsins. En ég taldi rétt, að skoðun mín og þeirra flokksmanna okkar, sem eru sömu skoðunar og ég, kæmi hér alveg berum orðum fram, þannig að hann mæltist ekki einn við af okkar hálfu, ef svo mætti segja.

Varðandi aths. hv. 1. þm. N-M. út af tilraunastöðinni á Keldum er rétt að taka fram, að sú stofnun heyrir undir mig, og ég vil hér lýsa yfir því, sem hv. þm. raunar er kunnugt af fyrri samtölum okkar og annars staðar frá, að ég tel það engan veginn hættulaust, ef dýralæknir sá, sem hann talaði um og honum er nokkuð nákominn, hverfur frá störfum á Keldum og tekur við öðru umfangsmiklu embætti. Ég hef því talið nauðsynlegt að reyna að finna lausn á hans máli með öðrum hætti og er reiðubúinn af minni hálfa til þess að vinna að því, þannig að hann geti haldizt við stofnunina, þangað til búið er að útvega annan hæfan mann til að taka við stofnuninni af honum. En hv. 1. þm. N-M., sem þessu máli er allra manna kunnugastur, hefur talið, að slíkt mundi taka eitthvað í kringum þrjú ár. Ég taldi rétt, að þetta kæmi fram hér, úr því að þessu máli var hreyft á annað borð. En vitanlega kemst ríkið aldrei hjá því, ef sérstakir embættismenn hafa aflað sér sérstakrar fræðslu og eru orðnir ómissandi í sínu starfi, að þá verður a. m. k. um stundarsakir öðru hverju að gera við þá sérsamninga, til þess að ekki lendi í fullkomnum vandræðum. Slíkt hefur ætíð verið gert, og samkv. þeirri reynslu, sem ég hef fengið af stjórnarstörfum, kemst engin ríkisstj. hjá því að gera slíkt öðru hverju, þó að ég sé allra manna fúsastur til að viðurkenna þau miklu vandkvæði, sem slíkum samningum eru ætíð samfara.