21.10.1955
Neðri deild: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í C-deild Alþingistíðinda. (1809)

22. mál, landkynning og ferðamál

Emil Jónsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur nú fyrir um landkynningu og ferðamál, virðist vera samhljóða, eða nokkuð samhljóða a.m.k., frv. um sama efni, sem lagt var hér fram á síðasta þingi, en fékk þá ekki afgreiðslu. Málinu var þá vísað til samgmn. þessarar d., en n. varð ekki sammála um afgreiðslu þess. Tveir nm. lögðu til, að málið yrði samþykkt, en þrír nm. lögðu til, að frv. yrði vísað til ríkisstj., og þess sérstaklega getið, að til þess væri ætlazt, að ríkisstj. undirbyggi ráðstafanir til þess að bæta úr hinum tilfinnanlega gistihúsaskorti. sem nú er í landinu. M.ö.o.: Nefndin taldi ekki þá nýskipan mála, sem í þessu frv. felst, skera úr um það, að betur væri hægt að vinna að framgangi þessa máls en áður, en taldi, að gistihúsavandræðin í þessu landi væru það, sem öllu máli skipti, og úr því bæri raunverulega fyrst að bæta, áður en hægt væri að gera nokkuð annað, því að sannleikurinn er sá, eftir því sem nefndin taldi, og var hún held ég öll á því máli, þó að hún væri skipt í afgreiðslu þessa sérstaka máls, að gistihúsaskorturinn væri það, sem hefði staðið fyrir þrifum allri aukningu ferðamannaflutnings til landsins.

Það eru allir, held ég, sem um þessi mál hafa fjallað, eða a.m.k. flestir, sammála um, að það væri æskilegt, að við gætum aukið ferðamannastrauminn til landsins.

Það væri atvinnuvegur, sem flestar þjóðir, sem á því eiga kost, nota sér, og getur gefið viðkomandi þjóð allmiklar tekjur, ef þar er rétt á haldið. Því var hér lýst áðan af 1. flm. þessa frv., hvernig Norðmenn hafa getað margfaldað sínar tekjur af ferðamönnum á undanförnum árum, og sömu sögu má áreiðanlega segja frá fjölmörgum öðrum löndum, sem hafa haft auknar tekjur ár frá ári af komu ferðamanna til síns lands. En það er ekki hægt að bjóða ferðamönnum upp á að koma hingað né annað, nema því aðeins að það sé hægt að veita þeim þá fyrirgreiðslu, sem þeir óska eftir, og þá náttúrlega fyrst og fremst þá fyrirgreiðslu, að þeir geti fengið eitthvert þak yfir höfuðið og að séð sé fyrir þeirra daglegu þörfum að öðru leyti. Á þetta hefur skort svo hjá okkur, að það hefur ekki verið hægt að fara út í það af þeim krafti, sem æskilegt hefði verið, að auglýsa ferðir til landsins og reyna á þann hátt að draga ferðamenn hingað.

Efni þessa frv., sem hér liggur fyrir, er aðallega það, að þar er lagt til, að ferðaskrifstofa ríkisins í sínu núverandi formi verði lögð niður og að sú starfsemi, sem hún hefur innt af höndum undanfarna tvo áratugi, verði gefin frjáls. Í öðru lagi er lagt til, að hér verði stofnað ferðamálaráð, skipað eins og í frv. segir, og framkvæmdastjóri, sem vinnur að daglegum störfum fyrir þetta ferðamálaráð. Auk þessa er svo, að því er mér sýnist, aðeins eitt atriði, sem máli skiptir umfram það, sem nú er í lögum, og það er, að ríkissjóður skuli leggja til ferðamálasjóðs um 500 þús. kr. á ári. — Þetta eru, að því er ég hef getað séð, þau nýmæli, sem í frv. felast. Ég skal nú fara um þau hvert um sig nokkrum orðum.

Í fyrsta lagi er þar lagt til, — ég tek það fyrst, þó að þess sé getið síðast í frv., það breytir engu, i hvaða röð það er tekið, en ég tek það fyrst vegna þess, að mér finnst það einna veigamesta atriðið, — að ferðaskrifstofa ríkisins sé lögð niður í því formi, sem hún hefur áður starfað. Að vísu er gert ráð fyrir þeim möguleika, að hún geti haldið áfram að starfa ásamt öðrum hliðstæðum stofnunum og undir stjórn ferðamálaráðs, en starfsemi hennar, eins og hún hefur verið að undanförnu, er felld niður. Ferðaskrifstofa ríkisins er stofnuð með lögum frá 1. febr. 1936, og hún hefur þess vegna starfað nærri 20 ár. Það vantar aðeins nokkra mánuði á, að hún sé 20 ára. Ég ætla, að það orki ekki tvímælis, að hún hefur á þessu tímabili innt af höndum mjög merkilegt starf á því sviði, sem henni var ætlað að vinna. Hún hefur haft með höndum þá landkynningu, sem gerð hefur veríð fyrir þjóð okkar. Að vísu eru náttúrlega starfandi líka hér bæði Eimskipafélag Íslands og önnur skipafélög og flugfélögin, sem hafa með höndum auglýsingar fyrir sínar ferðir, en almenna auglýsingastarfsemi og landkynningu erlendis hefur ferðaskrifstofa ríkisins verið svo að segja ein um, og hún hefur getað gert þetta ríkinu miklu kostnaðarminna en hægt er á annan hátt, vegna þess að hún hefur haft af sinni almennu starfsemi það miklar tekjur, að þær hafa getað borið uppi verulegan hluta af kostnaði við landkynningarstarfsemina. Ef aðstaða ferðaskrifstofunnar til þeirrar starfsemi, sem hún nú rekur og hefur rekið, væri skert, þá mundu um leið minnka hennar tekjumöguleikar og þar með um leið verða að aukast fjárframlög úr ríkissjóði til landkynningar, ef ekki ætti úr henni að vera dregið, enda kemur það hér greinilega fram, þar sem í frv. er gert ráð fyrir, að föst fjárveiting, 500 þús. kr. á ári, skuli veitt í þessu skyni, og er það, að ég ætla, drjúgum meiri fjárhæð en ferðaskrifstofunni hefur verið veitt á undanförnum árum.

Ferðaskrifstofan hefur auk þessarar landkynningarstarfsemi haft með höndum ýmiss konar aðra starfsemi, hún hefur tekið á móti erlendum ferðamönnum og veitt þeim fyrirgreiðslu og haft tekjur af. Hún hefur annazt minjagripasölu hér og haft tekjur af. Hún hefur séð um hópferðir innanlands, bæði erlendra manna og innlendra, og haft, að ég ætla, einnig af því nokkrar tekjur til þess að standa undir sínum kostnaði. Fyrir þessa starfsemi alla hefur skrifstofunni tekizt að inna af höndum þá landkynningarstarfsemi erlendis, sem ég áður minntist á, ríkissjóði kostnaðarminna en ella mundi verið hafa, ef þessarar starfsemi hefði ekki notið. Auk þess hefur ferðaskrifstofan séð um orlofsferðir innanlands fyrir það fólk íslenzkt, sem hefur viljað ferðast um landið og nota sitt orlof til ferða innanlands, og á þann hátt veitt mikilsverða þjónustu. Ég tel, að ferðaskrifstofa ríkisins hafi á þessum umliðnu árum ekki á neinn hátt í starfi sinu sýnt það, að það beri að leggja hana niður í því formi, sem hún hefur verið rekin. Ég álít þvert á móti, að hún hafi innt sitt starf svo vel af hendi, að það bæri frekar að styðja hana í því en að draga úr þeim möguleikum, sem hún hefur til starfa.

Annað atriði frv. og þriðja, sem ég minntist á, var um stofnun ferðamálaráðs og ráðningu framkvæmdastjóra til daglegra starfa. Það má vel vera, að það væri æskilegt að fá þessa aðila alla, sem nefndir eru, virka í því starfi að fá hingað ferðamenn og greiða fyrir þeim, en ég hygg, að það mætti vel gera á annan hátt en með því að fella niður starf ferðaskrifstofunnar.

Framlögin úr ríkissjóði, sem voru fjórða atriðið, sem mér finnst hér máli skipta, er náttúrlega góðra gjalda vert að hækka, en ef ríkissjóður vill breyta til og hækka þau frá því, sem nú er, þá er það víssulega hægt og fá þar með aukna landkynningu, þó að þeirri skipun þessara mála, sem verið hefur, yrði haldið.

Ég tel þess vegna, að það sé ekkert það unnið með þessu frv., sem skeri úr um að auka ferðamannastraum til landsins, og sumt af því, sem þar er fram sett, eins og að fella ferðaskrifstofuna niður, tel ég til hins verra. Ferðaskrifstofan hefur á þessu 20 ára tímabili, sem hún hefur starfað, aflað sér margra og þýðingarmikilla sambanda erlendis. Hún hefur fengið reynslu i starfi, og að hætta við þetta allt saman tel ég að verki heldur á annan veg en frv. gerir ráð fyrir. Það er nú einu sinni svona, að okkar land er ekki það stórt, að það þoli margskiptingu þessarar starfsemi. Við skulum segja, að hér kæmu fimm eða sex eða sjö skrifstofur, sem allar tækju að sér fyrirgreiðslu ferðamanna, þá er það gefið, að hver ein þeirra getur ekki haft þær tekjur, að hún geti haft um hönd neitt þvílíkt þá starfsemi sem ferðaskrifstofa ríkisins nú getur með þeirri aðstöðu, sem hún hefur. Það var hér minnzt á, að hún hefði einkaaðstöðu, og það hefur hún að verulegu leyti, en þó hefur hún það nú ekki til fulls, því að við hlið hennar starfar hér í landi önnur ferðaskrifstofa, sem einnig veitir þjónustu og fyrirgreiðslu á ýmsan hátt, svo að um einkaaðstöðu ferðaskrifstofunnar i þessu efni er ekki lengur að ræða, enda má vera, að það sé ekkert óeðlilegt, að þessi einkaaðstaða sé ekki fyrir hendi, ef aðeins þessi starfsemi er ekki bútuð niður í svo marga og svo smáa parta, að enginn geti starfað á þann hátt, sem æskilegast væri.

Ég skal ekki á þessu stigi málsins fara miklu lengra út í að ræða frv. Ég er alveg sama sinnis og ég var í fyrra, þegar ég hafði framsögu fyrir þeim hluta samgmn., sem var andvígur frv., en það var meiri hluti nefndarinnar. Ég tel, að það sé ekki með frv. stigið neitt það spor, sem úr skeri til þess að bæta neitt i þessum efnum. Það, sem vantar, og það, sem fyrst og fremst vantar, er aukning gistihúsa, til þess að hægt sé að bjóða ferðamönnum, sem til landsins koma, upp á þá aðbúð, sem þeir eru vanir við og þeir þurfa að hafa og eiga að hafa. Á meðan það er ekki hægt, tel ég það vera tómt mál að tala um þá aukningu ferðamannastraums til landsins, sem ýmsir hafa gert og talið að fært væri að gera.

Gistihúsaskorturinn er svo tilfinnanlegur, að hér er að sumarlagi oft og tíðum ekki hægt að sinna þörfum innlendra manna, hvað þá heldur að það sé hægt að bæta útlendum við. Það, sem þess vegna þarf að gera, er á einhvern hátt að bæta úr þeim skorti, annaðhvort með framtaki einstaklinga eða ríkisins eða bæði ríkis og einstaklinga, sem gætu unnið saman að lausn þess máls.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta frv. Ég mun ekki hafa neitt á móti því, eins og gefur að skilja, að frv. fari til nefndar og verði þar athugað. Ég teldi rétt, að þá yrði einnig prentuð sú umsögn ferðaskrifstofunnar, sem samgmn. barst í fyrra um þetta mál, en fim. frv. af einhverjum ástæðum hafa ekki prentað hér með sem fskj., þó að þeir hafi prentað með þrjú önnur, er bárust, því að í því bréfi ferðaskrifstofunnar, sem var mjög ýtarlegt, var gerð nákvæm og skýr grein fyrir ýmsum þáttum þessa máls, sem ég tel að hv. alþm. ættu allir að fá að kynnast. Þess vegna teldi ég það rétt, að með því nál., sem væntanlega um þetta kemur frá n., yrði annaðhvort prentuð sú umsögn ferðaskrifstofunnar, sem barst n. í fyrra, eða þá að önnur ný væri fengin, þar sem ferðaskrifstofan gerði grein fyrir starfsemi sinni og þeim rökum, sem hún hefði fram að flytja gegn frumvarpinu.