21.10.1955
Neðri deild: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í C-deild Alþingistíðinda. (1810)

22. mál, landkynning og ferðamál

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ferðaskrifstofa ríkisins hefur alltaf verið fósturbarn og óskabarn Alþfl., enda barði sá flokkur frv. gegnum Alþingi 1936 með mikilli hörku og þrátt fyrir mikla andspyrnu úr ýmsum áttum. Þeir hafa ekki til þessa dags getað sýnt fram á, að þetta hafi verið farsæl ráðstöfun, en þó hafa þeir ekki til þessa dags viljað fallast á, að nokkuð rangt hefði verið gert af þeim, þegar þetta frv. var samþykkt. Þetta er nú kannske mannlegt og skiljanlegt frá þeirra sjónarmiði, en ég hygg, að ekki séu allir á sama máli og þeir um þetta efni og sérstaklega ekki þeir aðilar erlendis, sem hafa ferðamál með höndum. Ég man eftir því, að þegar ferðaskrifstofan var fyrst sett á stofn, litu erlend ferðafélög yfirleitt á skrifstofuna með afar mikilli tortryggni og það sérstaklega vegna þess, að þetta var nýskipan, sem hér var sett á stofn, er hvergi átti sér fordæmi annars staðar en í Rússlandi. Þessa andúð hefur að vísu smátt og smátt lægt, vegna þess að ekki var um annað að gera fyrir hin erlendu félög, ef þau vildu nokkurt samband hafa hér á landi, en að setja sig í samband við ferðaskrifstofuna. Menn skulu ekki skilja orð mín svo, að ég sé að hallmæla ferðaskrifstofunni út af fyrir sig í þessu efni, því að með þeirri aðstöðu, sem hún hefur, — ég álít, að hún hafi heldur slæma aðstöðu sem ríkisfyrirtæki, — hefur hún verið mjög sæmilega rekin og af samvizkusemi og reynzt að mörgu leyti til bóta. En það er ekki sama og segja, að þetta málefni væri ekki miklu betur komið, ef það hefði verið frjálst og hefði aldrei verið keyrt í þessa fjötra 1936. Síðasti ófriður hefur að vísu lægt mikið andúðina gegn skrifstofunni af þeirri einföldu ástæðu, að meðan ófriðurinn stóð yfir, var ekki um komur erlendra ferðamanna til landsins að ræða. Ég geri ráð fyrir því, að ferðamannastraumurinn sé fyrst að hefjast núna og aukist á næstu árum, ekki sízt ef eitthvað verður gert til þess að greiða fyrir erlendum ferðamönnum og útrýma þeirri andúð og tortryggni, sem erlendir ferðaaðilar hafa gegn ríkisrekstri í þessari atvinnugrein.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að ef sú skipun kæmist á, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., mundi það verða til stórmikilla bóta fyrir þennan atvinnuveg, ef atvinnuveg skyldi kalla hjá okkur eins og nú standa sakir. Ég hygg líka, að ef þessu fyrirkomulagi væri breytt, gæti orðið auðveldara fyrir okkur að leysa þann hnút, sem nú hindrar það, að hægt sé að reka hér atvinnuveg, sem við köllum ferðamannamóttöku. Ég er ekki frá því, að sá hnútur verði fyrr leystur, ef breytt verði um skipun á þessum málum.

Ferðaskrifstofan hefur nú ein alla forustu í því að koma upp þessum atvinnuvegi. En eins og ég sagði, eru ýmsir annmarkar fyrir hana á því hlutverki, enda hefur það sýnt sig á þessu nærfellt 20 ára tímabili, sem hún hefur starfað, að ákaflega lítil framför hefur orðið í þessum efnum.

Hv. 5. landsk. (EmJ) sagði, að ferðaskrifstofan hefði unnið mjög mikið að því að auglýsa landið, hún hefði verið ein um það um langan tíma að auglýsa landið. Það er rétt, hún hefur auglýst landið að víssu leyti, þó ekki mjög mikið, en eftir efnum og ástæðum. En hitt er eðlilegt, að aðrir hafi ekki gert það, því að enginn hefur haft heimild til þess að reka þessa starfsemi, og við því er ekki að búast, að menn leggi stórfé í að auglýsa landið sem ferðamannaland, þegar þeir mega hvergi koma þar nálægt. Ég er ekki frá því, ef menn hefðu haft heimíld til þess að reka þennan atvinnuveg, að þá hefðu ýmsir fleiri en ferðaskrifstofa ríkisins lagt í það að auglýsa landið sem ferðamannaland. Fyrir þann tíma, sem ferðaskrifstofan tók til starfa, voru gefnar hér út ferðalýsingar um Ísland, sem taka enn mjög fram þeim ferðalýsingum, sem ferðaskrifstofan hefur gefið út, og þessar ferðalýsingar voru gefnar út af einstökum mönnum.

Ég nefni þetta sem dæmi um það, að vafalaust mundu verða margir til þess að auglýsa landið, ef atvinnuvegurinn væri ekki í höndum ríkisstofnunar.

Hv. 5. landsk. gat þess líka, að hér væri önnur stofnun, sem keppti við ferðaskrifstofu ríkisins. Þetta er að vísu ekki nema hálfur sannleikur, vegna þess að þessi stofnun eða fyrirtæki, sem mun heita Orlof, má ekki taka á móti erlendum ferðamönnum. Þess vegna getur hún ekki keppt við ferðaskrifstofuna á hennar vettvangi. Hér er enginn aðili í landinu, sem getur gefið erlendum ferðaaðilum samkeppnistilboð við ferðaskrifstofuna í móttöku ferðamannahópa hér á landi. Ferðaskrifstofan Orlof hefur hins vegar það virðingarverða starf að koma Íslendingum til útlanda, því að það má hún samkvæmt lögunum. Hv. þm. Alþýðuflokksins hafa gleymt að setja undir þann leka, að nokkrir Íslendingar mættu gera sér að atvinnuvegi að koma löndum sínum út fyrir landsteinana, þeim til skemmtunar og andlegrar uppbyggingar.

En það, sem mér þykir leiðast í þessu máli öllu, er, að við í þessu lýðfrjálsa landi, eins og frsm. komst að orði, skulum vera einir vestrænna þjóða, sem hafa ríkiseinokun á móttöku ferðamanna.

Þetta er mikill blettur á því fagra landi, sem við byggjum, og það er mikill blettur í augum þeirra, sem við þurfum að skipta við í sambandi við móttöku ferðamanna. Þess vegna tel ég, að mesta nauðsynin til þess að koma þessum málum i rétt horf sé að afnema þessa ríkiseinokun á móttöku erlendra ferðamanna og gefa útlendingum frjálsræði til að semja við þá aðila hér, sem kynnu að verða löggiltir af íslenzkum yfirvöldum til þess að taka á móti þeim. Og ég sé ekki, að hv. Alþýðuflokkur, sem er höfundur þessara laga, þurfi að setja niður, þó að hann yrði því sammála, að þessari einokun yrði aflétt.