16.12.1955
Efri deild: 31. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það er nú sýnilegt, að úrslit þessa máls eru ráðin, eins og ég raunverulega kom nokkuð að í minni framsöguræðu, og að þau ummæli, sem ég hef haft um þetta mál eða kem til með að hafa um það, muni ekki raska í neinu þeirri niðurstöðu, sem hv. meiri hl. hefur komizt að í sambandi við afgreiðslu þess. En ég get þó ekki látið vera að nota hér nokkurn tíma til þess enn að ræða málið og skal þó reyna að stytta mitt mál eins mikið og unnt er. Ég verð þó að svara nokkru þeim rökum, ef rök skyldi kalla, sem fram hafa komið gegn minni framsöguræðu í málinu og þá fyrst og fremst frá hæstv. fjmrh.

Mér virtist hæstv. fjmrh. leggja megináherzlu á það í sinni ræðu að mótmæla, eins og hann sagði, þeirri skoðun minni, að illa hefði verið skipað í n. með því að skipa í hana þá tvo ágætu skrifstofustjóra, sem skipaðir voru til þess af hæstv. ríkisstj., og það sama kom fram hjá hæstv. dómsmrh., en hann lagði megináherzlu á að telja hv. d. trú um, að ég hefði verið í nál. og í ræðu minni að sneiða eitthvað að þessum tveim ágætu mönnum og að það hefði engan veginn verið sanngjarnt, enda ekki hægt að finna betri menn en þessa tvo menn til þess að taka sæti í nefndinni.

Ég hef aldrei haft nein orð um þessa menn, sem gáfu nokkurt tilefni til mótmæla, hvorki frá hæstv. fjmrh. né hæstv. dómsmrh., hvorki í ræðu minni né í nál. Hvað nál. snertir þykir mér rétt að benda á, að ég tek þar fram eftirfarandi: „Má öllum vera ljóst, hversu óhöndulega hefur tekizt til með skipun n., hversu prýðilegir menn sem annars hafa verið í hana valdir.“ Þykir rétt að láta þetta koma fram, vegna þess að ég álít sjálfur persónulega, að þessir tveir menn, sem eru valdir úr skrifstofum ráðuneytanna, hafi verið mjög prýðilegir menn. Hitt getur svo hæstv. fjmrh. alveg eins gert, að mótmæla mannlegu eðli, eins og að mótmæla því, að hann hafi óheppilega valið, þegar hann valdi alla mennina úr flokki þeirra manna, sem hér áttu hlut að máli. Það var engin ástæða fyrir rn. að velja alla mennina fimm úr flokki ríkisstarfsmannanna, þó að það veldi tvo menn úr rn. með sérþekkingu á málinu til þess í senn að gæta hagsmuna ríkisins og starfsmannanna. En hitt stendur alveg óhaggað, sem ég hef haldið fram, að n. er skipuð eingöngu fulltrúum úr starfsmannastétt ríkisins og stéttinni þar með gefið sjálfdæmi, en það setur leiðinlegan blæ á málið og gefur fordæmi um, að aðrar stéttir krefjist þess sama um sín laun. Það er höfuðatriðið í málinu, og það verður ekkert mildað með því að ætla sér að reyna að vekja hér upp einhverja andúð, sem ég hef aldrei látið í ljós um þessa tvo ágætu menn.

Hæstv. ráðh. sagði, að málið hefði verið vikur í n. og að þar hefði verið unnt að koma fram öllum vörnum. Þetta er ákaflega mikill misskilningur hjá hæstv. ráðh., að það hefði raunverulega verið hægt að koma þar fram nokkrum vörnum. Það er rétt, að málið var 5 vikur í nefnd. Var allur bunkinn, sem kom fram af erindum frá hinum ýmsu starfsmönnum, að sjálfsögðu sendur mþn., því að hún átti fyrst og fremst að bera ábyrgð á tillögunum, enda sýndi það sig, að erfitt var að taka út úr nokkra menn, því að það hlaut að raska þeirri byggingu, sem launalaganefndin hafði byggt upp í sambandi við frv. En hvað skeður, þegar þessir sömu menn taka að sér að athuga þessi gögn, sem fram voru komin? Þá skeður það, að á mjög skömmum tíma leggja þeir sjálfir til, að allri byggingunni sé raskað. Þeir treysta sér ekki til þess undir neinum kringumstæðum að standa fast á sínum till., sem ég fullyrði að sköpuðu þó miklu minni óánægju hjá starfsmönnum ríkisins en frv. gerir nú, eftir að búið er að taka til greina þessar till. En þeir treystu sér ekki til þess að standa á móti því, vegna þess að þeim hefur annaðhvort ekki gefizt tími til að vinna verkið nógu vel eða það hefur ekki verið lagt í verkið það starf, sem þurfti að gera í launalaganefndinni. Hér eru mennirnir sjálfir að dæma sitt verk, en ekki ég, því að ef þeir hefðu þótzt vera búnir að ganga svo frá þessu máli, að það væri rangt að raska þar nokkru, þá hefðu þeir vitanlega sagt við fjhn. sameiginlega: Ef þið ætlið að raska hér nokkru, þá skuluð þið bera ábyrgð á því, en ekki við. — En þegar þeir sjálfir eru búnir að raska svo miklu, að það kostar ríkissjóðinn á þriðju milljón, þá var óvandur eftirleikurinn hjá okkur hinum, sem reyndum að koma fram einhverju réttlæti í einstökum atriðum.

Hæstv. ráðh. sagði enn fremur, að n. hefði aðeins verið falið að sameina launin, en ekki verið falið að athuga neitt um hið þriðja atriði, hvaða áhrif þetta kynni að hafa á efnahagsmál þjóðarinnar. Ég skal viðurkenna, að með þessari yfirlýsingu hæstv. ráðh. tekur hann allmikinn vanda af n., því að hér lýsir hann yfir, að þeim beinlínis bar ekki að athuga neitt. hvaða áhrif þetta kynni að hafa á fjárhagsmál eða efnahagsmál þjóðarinnar. En þeim bar þó annað sem starfsmönnum ríkisins, hvað sem líður fyrirmælum hæstv. ráðh. Það var að athuga, hvort þetta hefði þau áhrif, að það bætti nokkuð hag stéttarinnar í heild. Þó að þeim bæri ekki að gera það sem skrifstofustjórum eða umboðsmönnum hæstv. ríkisstj., þá bar þeim a. m. k. að athuga það sem starfsmönnum ríkisins, hvort þessi launahækkun mundi raunverulega færa embættismannastéttinni nokkrar kjarabætur. Og ég hygg, að það séu ekki aðrir, sem hafa flutt fleiri ræður hér á Alþ. og skrifað meira um það í blöð en hæstv. fjmrh., að launahækkanirnar, sem voru knúðar fram mjög óheppilega á þessu ári af verkalýðsfélögunum, hafi sannfært bæði hann og fjöldamarga aðra menn um það, að það hafi engar kjarabætur haft í för með sér fyrir þá stétt. Og ef sú staðreynd lá fyrir, þá er alveg sýnilegt, að þessi launahækkun, sem nú er sett af stað, getur ekki heldur fært neinar kjarabætur að lokum til embættismannanna, og það bar að sjálfsögðu skrifstofustjórunum og öðrum meðnm. þeirra að athuga sem fulltrúum sinnar eigin stéttar, hvað sem öðru líður. Og það er eins og ég hef tekið fram hér áður, að ef þetta kapphlaup á að verða í þessum málun, og það er ekki sýnilegt annað en að það verði, þá tapa allir í þjóðfélaginu. Það er ekki til neitt annað í því máli.

Þá sagði hæstv. ráðh., að aldrei yrði bjargað efnahagsmálunum með því að ganga á rétt einnar stéttar. Það er alveg rétt. Það verður ekki gert með því að ganga á rétt einnar stéttar. En ég hef sannað hér, að það var ekki verið að ganga á rétt embættismannastéttarinnar, þó að frv. væri vísað frá. Ég lagði m. a. til í minni ræðu, að hæstv. fjmrh. lýsti því yfir, að þar til búið væri að semja launal., sem ekki einungis efnahagskerfi þjóðarinnar þyldi, heldur og embættismennirnir sjálfir væru ánægðir með og hægt væri að koma samkomulagi á um innbyrðis, yrði þessari stétt greitt sanngjarnlega eftir verðlagi í landinu, svo að ég er síður en svo að gera kröfu um, að það sé verið að beita þessa stétt nokkrum rangindum í launagreiðslum.

Hæstv. ráðh. sagði enn fremur, að allur málaflutningur minn félli um sjálfan sig, vegna þess að hann væri byggður upp á röngum forsendum, og að laun starfsmanna ríkisins væru ekki meiri nú, eftir að þetta frv. væri samþ., en þau hefðu verið 1345. En þessar fullyrðingar hæstv. ráðh. eru algerlega rangar, og hann gerði ekki minnstu tilraun til að hrekja gögnin, sem ég tók beint út úr sjálfu frv. launalaganefndar og sýndi fram á, að grundvöllur undir launahækkunum er gersamlega rangur. Hann gerði ekki minnstu tilraun til þess að reyna að hrekja það. Hann fullyrðir bara, að þetta sé rangt, þvert ofan í staðreyndir.

Nú get ég sagt hæstv. ráðh., sem hann raunverulega veit ákaflega vel, að öll sú röskun, sem hefur verið gerð á flokkunum síðan 1945, hefur bætt kjör þeirra starfsmanna ríkisins, sem launabætur hafa fengið. Þar að auki hefur hún raskað grundvellinum frá þeim tíma, og þessa röskun á einmitt að lögfesta með þessu frv. Það er því alveg sýnilegt, að það er algerlega röng skoðun hjá hæstv. ráðh., að hlutföllunum frá 1945 sé ekki raskað.

Svo sagði hæstv. ráðh. og hálfvítti mig fyrir það, að ég væri að skipa mér hér í flokk með þeim mönnum, sem væru að grafa undan þjóðfélaginu, með því að kalla með minni ræðu á nýjar launakröfur. Ég veit, að hæstv. ráðh. er svo glöggur fjármálamaður, að honum er fullkomlega ljóst, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, getur ekki gert neitt annað en að kalla á nýjar launakröfur, svo að í hvaða flokk sem ég kynni að skipa mér, kemur það ekki til að hafa áhrif á það mál. En út af þessu vildi ég mega segja hæstv. ráðh.: Er ekki hans ágæti form. að skipa sér nú í flokk með þessum sömu mönnum til þess að reyna að mynda nýja ríkisstjórn? Situr hann ekki hér öllum dögum úti í horni og í herbergjum til þess að reyna að komast að samkomulagi við þessa menn, sem hæstv. fjmrh. er nú að gefa þetta nafn eða gefur hér lýsingu af, hvernig vinni, þ. e., að þeir séu að grafa undan þjóðfélaginu? Mér hefur skilizt af öllu, sem hér hefur farið fram, að það sé einmitt Framsfl. undir stjórn hans ágæta formanns, sem sé að reyna að komast í mjög mikið náið bæði andlegt og veraldlegt samband við þessa ágætu menn.

Hæstv. ráðh. sagði einnig, að það væri allt annað atriði í málinu, hvort mér þættu laun opinberra starfsmanna of há eða ekki, heldur en hitt, hvort launin hefðu raskazt frá 1945. Ég hef sýnt fram á, að launin hafa stórkostlega raskazt frá 1945, og þau hafa ekki eingöngu raskazt af þeim ástæðum, sem ég hef hér tekið fram, heldur miklu frekar af öðrum ástæðum, sem eru miklu þyngri á vogarskálunum, og það er, hvernig þau hlunnindi og fríðindi, sem veitt eru þessum sömu mönnum, hafa stórkostlega aukizt frá því 1945, það gerir svo mikinn mun, að þeir þyldu meira að segja, að vísitölunni væri haldið áfram skertri, eins og var, án þess að missa nokkurn hlut í launatekjum miðað við árið 1945, og skal ég nokkuð koma að því síðar.

Hæstv. ráðh. sagði, að vitað væri, að í öðrum stofnunum væru hærri laun almennt en greidd væru til ríkisstarfsmanna, — og hæstv. dómsmrh. kom nokkuð að þessu sama, — en viðurkenndi þó, að hann gæti ekki borið saman hér samninginn við verzlunarmennina, því að hann væri ekki kunnugur honum. En hæstv. ráðh. hefði einmitt átt að kynna sér hann, því að það er eini öruggi samanburðurinn, sem hægt er að gera. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh., hvert allur þessi fjöldi hefði farið, sem bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. dómsrh. voru að tala um að mundi fara í hópum, eins og Framsfl. ætlar að láta Alþýðuflokksmennina fljúga til sín við næstu kosningar. Á hvaða vinnumarkað ætla þeir að fara? Ætla þeir að fara til útgerðarmannanna, sem verða að koma til hæstv. fjmrh. til þess að biðja um enn meiri styrk til þess að geta keypt undan honum alla starfsmennina? Ég hygg, að það verði lokaður kassi hjá hæstv. fjmrh., áður en hann lætur mikið af peningum til útgerðarmanna til þess að kaupa frá sér fólkið. Hann væri þá ekki jafnslyngur fjmrh. og ég veit að hann er, ef hann lokar ekki kassanum áður en það kæmist í gang. Ætla þeir að fara til bændanna? Heldur virkilega hæstv. ráðh., að allur hópurinn úr embættismannastéttinni, sem nú þarf að greiða um 200 millj. kr. í laun, hlaupi til bændanna til þess að slá túnin þar eða raka þar? Ég er hræddur um, að það yrði ákaflega erfitt fyrir þá á þeim vinnumarkaði. Ekki færu þeir að líkindum á mótorbátana 3 Keflavík, þeir yrðu varla gjaldgengir þar sem hásetar, auk þess sem ég hygg, að hæstv. ráðh. mundi kippa að sér hendinni við að styðja áfram bátaútveginn, ef allur hópurinn færi þangað. Ja, hvert eiga þeir þá að fara? Sannleikurinn er, að það er engin hætta á, að neinn þeirra fari, af þeim ástæðum fyrst og fremst, að það er enginn markaður fyrir þessa menn alla og að þeir hafa hvergi eins góð laun og einmitt hjá ríkinu. Í sambandi við þetta minntist hæstv. ráðh. á verkfræðingana. Nú veit hæstv. ráðh., hvernig það mál allt saman er til komið. Þeir höfðu einn stað að hlaupa í fyrir aðgerðir Framsfl. Framsfl. hafði komið upp á Keflavíkurflugvelli starfi, sem gat tekið á móti svo og svo stórum hóp af verkfræðingum, og þangað gátu þeir flúið, og þangað ætluðu þeir sér að fara. En það var auðvitað alveg á valdi hæstv. utanrrh. að stöðva það, ef hann hefði viljað, en það vildi hann bara ekki gera. Þeir höfðu engan annan vinnumarkað að fara á.

Nú vildi ég gjarnan spyrja hæstv. ráðh., hvernig stóð á því, að núverandi forstjóri tóbakseinkasölunnar fór til ríkisins aftur. Var þetta eini maðurinn, sem vildi þiggja þá stöðu? Hann var búinn að fara út í viðskiptalífið, til olíufélaganna, einhvers mesta stórgróðahrings, sem til er í þessu landi og hefði átt að vera fær um að borga honum sæmileg laun. En hvernig stóð á því, að hann hljóp undir væng hæstv. fjmrh. og vildi nú komast í hreiðrið hjá ríkissjóði fyrir þessi smánarlegu laun? Var það af því, að hann hafði miklu lakari kjör hjá ríkinu en hann gat haft á hinum frjálsa markaði? Miklu fórnar sá maður fyrir Framsfl., ef hann hefur gert það bara til þess að geta unnið í þágu ríkisins. Nei, það er alveg áreiðanlegt, að forstjóri fyrir tóbakseinkasölunni fór ekki nauðugur í þetta starf, nema síður sé. Og svo mun vera um flesta aðra. Ég hygg því, að þær fullyrðingar, sem hæstv. ráðh. hefur um það, hafi ekki við rök að styðjast og falli alveg um sjálfar sig. Það var innan handar fyrir hæstv. ráðh. að sameina þessi tvö embætti, tóbakseinkasöluna og víneinkasöluna, og þá að geta hækkað laun þess manns, svo að hann hefði þá getað fengið enn betri menn frá hinum almenna vinnumarkaði, en það var ekki reynt að gera það, sjálfsagt vegna þess, að það hafa ekki verið nein vandkvæði á að fá menn í þessar stöður fyrir hin lögákveðnu laun.

Hæstv. ráðh. sagði, að erindin rúmlega 100, sem komu til fjhn., væru enginn vitnisburður um það, hvernig launalagan. hefði tekizt um verk sitt. Ég held, að það sé ekki hægt að finna öruggara dæmi um það, að nefndin var ekki búin að leysa málið, þegar það kom til þingsins, heldur en það, að úr hópi sjálfra launamannanna koma hvorki meira né minna en á annað hundrað erindi. Það sýnir, að nefndin hefur annaðhvort ekki getað haft fullkomna samvinnu við embættismannastéttina, og þá er málið ekki heldur leyst, eða ekki viljað hafa hana. En það er engin önnur betri sönnun fyrir því, að málið var ekki undirbúið og var ekki leyst, heldur en það, að yfir 100 erindi koma til fjhn. og að hér hafa staðið daglega hópar manna til þess að fá leiðréttingu mála sinna.

Ég hef nú svarað hér flestu, sem hæstv. ráðh. sagði um þetta atriði, en ég vildi þó að síðustu mega spyrja hæstv. ráðh. í fullri vinsemd, hvort hann teldi ekki rétt, ef hann situr í þessu starfi til næsta þings, og jafnvel þó að hann geri það ekki, að láta útbúa fullkominn lista yfir laun allra þeirra manna, sem eru á launalögum og starfa hjá ríkinu, svo og lista yfir öll aukalaunin þeirra og láta birta samhliða launalistunum með fjárlagafrv. Á meðan ég var í fjvn., var margbeðið um þessar upplýsingar, en þær fengust aldrei. Það var aldrei hægt að fá frá neinum hæstv. fjmrh., hvorki núverandi né fyrrverandi, upplýsingar um þetta atriði. Fjvn. varð að tína þessar upplýsingar saman úr ýmsum plöggum, af því að þessir menn tóku ekki laun á einum stað, heldur á mörgum stöðum, og það er þaðan, sem ég hef þessar upplýsingar. Þaðan veit ég að þessi fríðindi eru sums staðar frá 25% og upp í 150% eða jafnvel 200% virði á móts við launin. Nú skora ég á hæstv. ráðherra að nota vel jólafríið og láta gera lista yfir þessi aukalaun og birta hér á Alþingi, og þá skulum við sjá, hvor okkar hefur á réttara að standa um matið á þeim lið fríðinda. Ég skal koma nokkru nánar inn á þetta, áður en ég lýk máli mínu, í sambandi við aðrar athugasemdir.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það væri fullkomlega ofmælt, að starfsmenn ríkisins hefðu betri laun en menn hefðu almennt á frjálsum vinnumarkaði, en gat þó ekki undir neinum kringumstæðum komið með nokkurn annan samanburð en á langlægst launuðu mönnunum og fór niður fyrir samanburðinn, sem sjálf launalaganefndin hafði gert. Honum datt ekki í hug að reyna að hrekja nokkuð af þeim tölum, sem ég setti fram í minni ræðu til samanburðar, og án þess að fara mjög langt út í það mál, skal ég samt sem áður benda hér á, að það getur ekki verið um neitt annað að villast í þessum samanburði en það, hvort ég hafi ofmetið fríðindin. Það er það eina, sem við getum deilt um, því að allt hitt er skjalfest og ekki hægt að hrekja það. Það eru engin vandræði að láta reikna út, hvað mikið laun embættismanna hafa hækkað, samanborið við laun annarra manna. Það verður að sjálfsögðu að taka þar með þær 12 millj., sem greiddar voru í laun til embættismannanna um þetta leyti í fyrra, svo og þær 29 millj., sem hæstv. ráðh. minntist á í fjárlagaræðu sinni að þyrfti vegna afnáms skerðingarinnar, o. s. frv., sem ég hef þó ekkert blandað inn í þetta mál. En hvorki hv. 4. þm. Reykv. né neinn annar getur mótmælt því, að 6% greiðslan í lífeyrissjóð sé hluti launa. Það eru fríðindi, sem ekki verður deilt um, hvernig meta skuli, þessi 6% á laun fá ekki neinir á hinum frjálsa vinnumarkaði. Slíkt er að vísu greitt hjá bönkum, en bankarnir eru, eins og vitað er, ríkisfyrirtæki, og starfsmenn þeirra er ekki hægt að telja á hinum frjálsa vinnumarkaði. Réttindin, sem við erum að tala um, þ. e. atvinnuöryggið, sem ég sagði að væri 10% virði, hefur enginn reynt að hrekja. Í því sambandi vil ég leyfa mér að spyrja: Hversu mikils virði hafa þessi réttindi verið t. d. Ingólfi Gíslasyni lækni, sem búinn er að vera núna sjúklingur í öll þau ár, sem ég hef verið á þingi, og alltaf eðlilega og sanngjarnlega fengið sín laun úr ríkissjóði? Hversu mikils virði er þetta? Ja, það er áreiðanlega þessum manni miklu meira en 10% virði. Svona er um fjöldamarga aðra starfsmenn ríkisins.

Þá er um að ræða framlagið á 18. gr. Þar eru tölur, sem tala sínu máli. Það eru nærri 16 millj. kr., sem greiddar eru þar embættismönnum, og ef það er rétt reiknað, að 16 millj. kr. aukin gjöld í frv. stafi af 9.5–10% launahækkun, þá hljóta þessar 16 millj. kr., sem greiddar eru til sömu manna, einnig að vera 10% launahækkun. Þetta er ekki hægt að hrekja, enda hefur ekki verið reynt að hrekja það.

Þá skulum við athuga liðinn frítt eða of lágt reiknað húsnæði. Nú sagði hv. frsm. m. a., að þetta bæri að meta samkvæmt lögum. Það er alveg rétt. En hvernig er það metið? Telur t. d. hv. frsm. eða hæstv. ráðh., að það sé eðlilegt mat og það sé það sama og hver verkamaður hér getur komizt af með að meta ágætt prestsseturshús með einum 6–7 herbergjum, bílskúr og öðru, sem því fylgir, nýbyggt, með hita, á einar 150 kr. á mánuði, en ég veit, að þetta er gert? Ég hygg, að hver og einn einasti verkamaður hér í þessum bæ mundi gleypa við því, ef ríkisstj. vildi taka að sér að greiða fyrir hann húsaleigu fyrir 6–7 herbergja íbúð í nýju sérstöku húsi auk hita og leigu á bílskúr, allt án launaskerðingar umfram 150 kr. á mánuði, en þetta veit ég að er gert fyrir ákveðna starfsmenn ríkisins. Þetta er bara eitt dæmi, og ég tel, að þessi liður minn sé ákaflega lágt metinn á 5%. Víða mætti reikna þetta a. m. k. 25% álag ofan á launin, og væri þó ekki ofmetið.

Þá skulum við athuga það, sem er erfiðast að meta í þessu máli, en það er aðstöðumunurinn til tekjuöflunar. Eins og ég lýsti hér fyrr, hef ég aðeins metið þetta á 15%. Get ég ekki látið hjá líða að benda hér á eitt skýrt dæmi, sumpart vegna ræðu hæstv. menntmrh. og sumpart vegna þess ágreinings, sem hefur orðið um þetta í fjhn.

Eins og kunnugt er, var sótt mjög fast af mörgum aðilum að færa upp um einn flokk alla menntaskólakennarana, þ. e. úr VII. flokki og upp í VI. flokk. Nú hafa menn í VII. flokki 37800 kr. í grunnlaun. Út af þessu ræddu tveir kennarar menntaskólans við mig, og þegar við vorum búnir að ræða málið, viðurkenndu þeir þau rök, sem ég færði fyrir því, að það ætti ekki að hækka þetta, og þau voru þessi m. a., að þegar reiknað var út, hvað þessir menn yrðu að vinna fyrir þessi laun, kom í ljós, að það var aðeins 121 dagur á ári, miðað við 8 stunda vinnu, allt samkvæmt reglugerð hér að lútandi, og það er hámarksvinna þeirra, 121 dagur. Fyrir það fá þeir 37800 kr. í grunnlaun, eða fyrir að vinna þriðja partinn af árinu. En þar með er ekki öll sagan sögð. Þessir menn hafa nú um 50% viðbót fyrir kennslu í sama skóla. Öll laun við menntaskólann í Reykjavík eru nú um 1300 þús. kr. með uppbót. Fyrir stundakennslu eru greiddar í menntaskólanum 653 þús., og svo að segja hver einasta króna af þessari stundakennslu fer til þessara sömu manna, af því að kennslustundir þeirra eru samkv. reglugerð ákveðnar sem að framan greinir. Þeir bæta þessu á sig. Aðstöðumunurinn er þessi, að þeir geta fengið 50% álag í þessum eina skóla að meðaltali á sín laun og þurfa þó ekki að vinna nema í hæsta lagi 200 daga á ári að meðtalinni aukakennslu. Hér hef ég a. m. k. ekki metið fríðindin of hátt. Nú er það vitað, að sumir af þessum kennurum kenna einnig í öðrum skólum og hafa þá líka tíma til þess. Nákvæmlega sama er með aðra menntaskóla í landinu og marga aðra skóla í landinu, að allri stundakennslunni er dreift á kennarana, þegar búið er að ganga frá reglugerðinni þannig, að kennararnir skuli hafa svo stuttan vinnutíma, að það sé raunverulega ekki nema 1/3 á móti almennum vinnutíma í landinu. Ég skora nú á hæstv. fjmrh. að hrekja þessi rök. Ég held því, að það sé síður en svo ofmetið að reikna þessi fríðindi 15%. Ýmiss konar önnur fríðindi met ég svo á 5%, og skal ég ekki vera að eyða tíma í það, en ég held því fast fram, að þessi fríðindi hafi verið aukin svo gífurlega, frá því að launalögin voru sett 1945, að þó að þeir hefðu ekki fengið neinar aðrar uppbætur en að halda þessum fríðindum, þá voru þeir mjög vel settir, samanborið við aðra launþega í landinu, en þessu gekk hv. 4. þm. Reykv. alveg fram hjá.

Hæstv. dómsmrh. er nú ekki viðstaddur. Ég hef heldur enga ástæðu til þess að haga mínum orðum út af hans ræðu þannig, að þörf væri fyrir hann að taka til máls aftur, skal ekki heldur gera það. En ég vil aðeins taka það fram, að ég ásaka síður en svo hæstv. ráðh. né aðra, þó að þeir séu á annarri skoðun í þessu máli en ég, síður en svo. Ég hef fært rök að því, að þetta frv. muni hleypa af stað nýrri verðbólgu. Hann segir aftur á móti: Það hleypir engri verðbólgu af stað. — Það er hans skoðun, og ég er ekkert að fárast um það, hann hefur sína skoðun, reynslan mun verða dómarinn í þessu máli. Hann segir, að að sínu áliti telji hann hér aðeins um fullkomið réttlætismál að ræða. En réttlætismál getur sannarlega hleypt af stað nýrri verðbólgu. Það verður víst ákaflega erfitt að fá nokkurn tíma nokkurn verkamann, sem stóð í verkfallinu á þessu ári, til að viðurkenna, að þar hafi ekki verið um réttlætismál að ræða, það er bara allt önnur hlið á málinu. Þetta mál getur sannarlega hleypt af stað mikilli verðbólgu í landinu, þó að það sé fullkomið réttlætismál. Hitt er svo allt annað atriði, að ég er ekki sammála mínum ágæta vini og hæstv. ráðh. um það, að hér sé um réttlætismál að ræða. Ég er alls ekki sammála honum um það. En það minnir mig á mjög skemmtilegan bréfkafla, sem ég fékk frá ágætum vini mínum, bónda utan af landi, nýlega, því að sannleikurinn er, að þegar á að fara að fara að leita að kjarnanum í þessum málum, þá sækir maður það stundum beint til alþýðunnar. Hann skrifar: „Ég var að horfa á sex ára gamlan son minn við að byggja turn úr kubbum, og þegar turninn fór að verða of hár, þá fór allt að hallast og af sínu barnahyggjuviti datt honum þó í hug að taka ofan af turninum, og þá var allt lagað.“ Ég er sömu skoðunar, eins og ég gat um í minni framsöguræðu. Þessi mál verða aldrei löguð með því að taka neðan frá. Það verður að taka á málinu ofan frá, hvort sem mönnum finnst það réttlætismál eða ekki, og sé það ekki gert, þá hlýtur byggingin að falla, þegar það hefur verið tildrað of miklu ofan á hana. Það er hart, að hér skuli vera margir prýðilegir menn í þessari stofnun, sem skilja ekki þetta, sem 6 ára barn getur skilið.

Hæstv. ráðh. sagði enn fremur, að ef þetta frv. yrði ekki samþykkt, væru borgararnir settir í mikla hættu, vegna þess að hópur embættismanna mundi þá fara úr störfum ríkisins til einkafyrirtækjanna. Ég hef minnzt á það áður, hvert þeir eiga að fara. Hér er ekkert annað en um hreinar hugargrillur að ræða, og þar að auki hef ég bent á, að það sé alveg sjálfsagður hlutur að reyna að taka upp fullt samstarf við þessa menn og reyna allar sanngjarnar leiðir, áður en frv. er gert að lögum, sem hlýtur að framkalla það, sem ég hef hér bent á, þ. e. nýja verðbólguöldu. Ja, ég veit nú ekki, hvert allir þessir kennarar ættu að fara, sem hann segir að mundu hópast frá ríkinu. Máske færu þeir allir út í atvinnulífið, færu allir að framleiða, svo að við fengjum meiri gjaldeyri. Þá skil ég ekki annað en að það væri þá kannske hægt af þeim ágóða að launa eitthvað betur þá, sem eftir yrðu. En er nú ekki ástæðan fyrir því, að kennaraþurrð er í landinu, allt önnur en launakjörin? Er það ekki afleiðingin af fræðslulöggjöfinni, sem sett var hér 1945 og ég var þá algerlega andvígur? Er það ekki meginástæðan fyrir því, að svo og svo marga kennara vantar í landinu? Það er ekkert lítið alvörumál, þegar komið er svo, að 1/3 hluti af þjóðinni er 9 mánuði á skólabekk. Þetta er ekki svo lítið atriði, en svo margir eru í dag ýmist kennarar eða nemendur eða eitthvað í kringum fræðslumálin, og þessi fræðslumál kosta hvorki meira né minna en upp undir 80 millj. kr. og munu stórhækka við þetta frv. Sama er að segja um lögfræðingana. Ég skil ekki í því, að þjóðin hafi neitt voðalegt tjón af því, þó að einhver órói væri hjá lögfræðingunum. Ef þeir sjá sér fært að vera í einhverju öðru starfi betra, þá er það þeirra mál. Og ég er alveg viss um, að efnahagsmálin í landinu fengju minna áfall við það, að við misstum helminginn af lögfræðingunum út úr dómarasætunum, heldur en við samþykkt þess frv., sem hér er á ferðinni. Það verður miklu erfiðara og stærra áfall að samþykkja þetta frv. en þó að við ættum að missa helminginn af lögfræðingunum í landinu, auk þess sem ég er viss um, að við mundum aldrei missa neitt svipað því af lögfræðingum úr embættum. Við misstum kannske einn eða tvo menn, það er allt og sumt.

Hæstv. ráðh. sagði, að hann játaði mikið ósamræmi í frv., og minntist m. a. á laun biskups. Það er alveg rétt, að ég, sem annars er á móti þessari almennu launahækkun, tel, að biskupsembættinu sé ranglega skipað í flokk í frv. Þetta er eitt af allra virðulegustu embættum, og sá maður, sem það skipar, á að bera ábyrgð á allri prestastéttinni og öllum kirkjumálum í landinu, og ég er sannarlega ekki svo þröngsýnn, að ég vilji ekki launa slíkan mann, svo að hann geti innt það starf af höndum, svo að vel fari. Ég teldi það ákaflega mikils virði, ef hægt yrði að byggja hér upp raunhæft starf hinnar íslenzku kirkju með öllum þeim rúmlega hundrað prestum, sem hún hefur yfir að ráða og hafa allt of lítið að gera flestir hverjir, það sé ákaflega mikils virði að byggja upp skipulega það starf, svo að það geti gert miklu meira gagn í þjóðfélaginu en nú, og til þess þurfum við ekki einungis góðan biskup, heldur og að hann geti fórnað öllum sínum kröftum fyrir það mál og þurfi ekki jafnframt að hafa fjárhagsáhyggjur. Það var þess vegna, að ég bar það fram og fylgdi því að setja biskup í hæsta flokk. Þetta þurfti ekki að hafa neinar afleiðingar í för með sér. Ég var alveg eins sammála um það, að það væri rétt að selja prófessorana við háskólann upp í hæsta flokk. Hefur það ekkert að gera með skoðun mína á málinu almennt. Hér er um það sama að ræða, að þeir eru yfirmenn yfir allri menntastéttinni í landinu. Þessir menn eiga að bera ábyrgð á því, að við fáum góða embættismenn út úr háskólanum. Þess vegna er ég samþykkur því, að menn, sem taka að sér slíka ábyrgð, séu vel launaðir. Ég þekki mjög vel, hvers virði það er að hafa góða kennara. Kennari er einskis virði og kannske verra en einskis virði, ræki hann ekki vel starf sitt, annar er svo mikils virði, að það er ekki hægt að greiða fyrir hans starf svo sem það er vert. En engin stétt í landinu á eins hægt með að svíkja sín störf og kennarar, því að það verður aldrei hægt að meta, hvort það verður viðtakandinn, sem brást, eða hinn, sem átti að láta inn í kollinn á honum, sem brást að gera sína skyldu.

Ég er alveg sammála hæstv. dómsmrh., að það sé full nauðsyn og hefði raunverulega átt að vera ákvæði um það í frv. að hafa heimild til þess að gera sérsamning undir sérstökum kringumstæðum, og það mun reynast svo í framtíðinni, að þegar búið er að samþykkja þetta frv., mun verða tekið upp í mjög stórum stíl að gera sérsamninga við einstaka menn, vegna þess, að einstakir menn eru alltaf til, sem gera verkin miklu betur en almenningur. En það ákvæði er nú ekki í frv. Hins vegar hefur verið farið alveg öfugt að hér. Það hefur verið farið þannig að að semja við þessa sérstöku menn og svo lögfesta þessa launaviðbót einnig hvað snertir meðalmennina og skussana, og það er rangt frá mínu sjónarmiði.

Aðeins nokkur orð til hv. frsm. meiri hl. n. Hann hélt því fram, að það hefði kannske verið rétt að hafa fulltrúa atvinnuveganna í n. Ég met nú, að sú viðurkenning komi hér fram. Það var alveg jafnsjálfsagt að hafa einhvern mann frá atvinnuvegunum í n. eins og það var sjálfsagt að hafa einhvern embættismann. En mælikvarðinn, sem hann leggur á afgreiðslu málsins í fjhn., er algerlega rangur. Hann segir, að fjhn.-menn hafi ekki verið embættismenn, m. a. sé hv. þm. Barð. enginn embættismaður. Það er alveg rétt. En hv. frsm. er fullkunnugt um það, að það var búið að binda þessi mál þannig, að það var útilokað fyrir nokkra þingnefnd að raska í höfuðatriðum frv., frá því að það kom frá launalagan., nema til þess að gera það verra, eins og raun ber vitni um. Það er stórum skaðlegra, stórum ranglátara og stórum verra nú, þegar það er komið hingað til Ed., en það var, þegar það var lagt fram. Þess vegna beitti ég mér sjálfsagt ekki neitt, eins og hv. frsm. er kunnugt um, fyrir raunverulegum breytingum í n., öðrum en þeim, sem ég hef þegar lýst. Hann sagði, að ég hefði getað haft áhrif á lækkunartill. í n. Það var útilokað að hafa nein áhrif á lækkunartill. í nefndinni. Hv. þm. veit, að það var búið að semja um þetta frv., áður en það kom inn í þingið. Það var búið að lofa því, að það skyldi verða samþykkt á þessu þingi, og það hefur ekki verið tekið tillit til tillagna, hvorki eitt né annað, nema þar sem einstökum stéttarhópum tókst að ota sínum tota og þá helzt með fulltingi launalaganefndar.

Ég þarf ekki að eyða neinum tíma í að svara því, hvað forstjóri Eimskipafélagsins hefur í laun eða skipstjórar eða lögfræðingar. Það er enginn mælikvarði á hinum almenna vinnumarkaði. Þessum mönnum eru ekki borgaðar neinar upphæðir úr ríkissjóði. Þeirra laun verða aldrei neinn mælikvarði á það, hvað greiða skuli starfsmönnum ríkisins, auk þess sem mér er alveg ókunnugt um, hvað þessir menn hafa. Og laun skipstjóra er náttúrlega aldrei hægt að bera saman við laun manna í landi. Meðal annars er það með skipstjóra, að þeir eru undir þá sökina seldir að koma kannske ekki að landi, eins og aðrir sjómenn. Og nokkuð er það víst, að mjög erfitt sýnist orðið nú að halda nokkrum sjómönnum í skiprúmum. Er það ekki af því, að raskazt hafi launahlutföllin á milli skipstjóra og annarra sjómanna annars vegar og manna við landstörfin hins vegar, að erfitt mun nú að fá nokkra sjómenn til að vera á flotanum? Ef hlutföllin eru þannig, áður en þetta frv. er samþykkt, hvernig verða þau þá, eftir að það hefur verið gert að lögum.

Svo sagði hv. frsm., að ég hefði spurt: Hvað segir almenningur um þetta? Þar hefur hv. frsm. misskilið mig, því að ég spurði aldrei, hvað almenningur segði um frv. í heild. Ég sagði: Hvað segir almenningur um afstöðu hv. nm. í fjvn., sem hafa undirskrifað nefndarálitið frá n., þar sem þeir vara við því á nákvæmlega sama hátt og ég að mynda verðbólgu í landinu með hækkun launa, en greiða svo atkv. annaðhvort gagnstætt þessari yfirlýsingu, sem þeir hafa sent út til þjóðarinnar, sitja hjá eða fara út? Það var þetta, sem ég spurði um. (Gripið fram í.) Nú spyr hv. þm.: Hvað segja bændurnir? — Ja, ég get sagt hv. þm., hvað bændurnir segja. Þeir segja, að það sé miklu betra fyrir þá að fá ekki hækkað afurðaverðið, ef það sé hægt að halda dýrtíðinni niðri í landinu, og nákvæmlega sama segja útgerðarmennirnir og nákvæmlega sama segja láglaunastéttirnar. En þetta er ekki leið til að halda niðri verðlaginu í landinu.

Að síðustu var ég alveg undrandi, þegar hv. frsm. leyfði sér að halda hér fram tölum, sem hann veit að eru bókstaflega rangar í sambandi við kostnaðinn. Hann veit, að 20 millj. krónurnar, sem reiknað var fyrst með að frv. mundi kosta ríkissjóð, voru hækkaðar um 2 millj. kr. af fjhn., og ef hann ekki veit það, þá hefði hann átt að spara sér að fullyrða þetta, fyrr en hann var búinn að fá þessa vitneskju, úr því að hann var búinn að heyra það hjá mér, og fullvissa sig þá um, hvort það væri rétt eða rangt. Hann fer alveg rétt með 2½ millj. gjaldaaukningu, sem verður við breytingarnar síðar, sem er nokkurn veginn sama upphæð og ég gat um, en hann gengur alveg fram hjá hinum upplýsingunum, sem ómögulegt er að hrekja, að það eru á öðrum liðum fjárlaganna bein launaútgjöld, sem er ekki hægt að komast hjá að hækka líka.

Hvernig hugsar hv. frsm. sér í alvöru talað t. d., að þær 1400 þús., sem eru greiddar beinlínis í laun til Búnaðarfélagsins, þurfi ekki að hækka hlutfallslega, eftir að búið er að gera þessa breyt. á launalögunum? Það verður vitanlega að hækka laun allra þeirra manna á sama hátt og hefur verið gert, nákvæmlega sama með Fiskifélagið, nákvæmlega sama með Iðnaðarmálastofnun og fleiri stofnanir í landinu, sem þannig er ástatt um. Og hvað heldur hann um stundakennsluna? Heldur hv. frsm. raunverulega um þessar nærri 600 þús. kr., sem í dag eru greiddar fyrir stundakennslu í menntaskólunum, að sú upphæð verði ekki hækkuð um sömu prósentur og launin sjálf? Við vitum þetta af reynslunni, og ég veit, að hv. þm. S-Þ., sem þekkir þessi mál frá fjvn., veit eins og við allir, að það er engin önnur leið. Þar að auki vissi hv. 4. þm. Reykv., að það var rétt, sem ég fór með, að tryggingarnar þurfa rúmlega 7 millj. kr. viðbót vegna launahækkana samkv. frv. Þær upphæðir, sem ég reikna með, eru teknar beint upp úr fjárlagafrv., og það eru 40 millj. kr., sem verða að hækka með sömu prósentu og sama álagi og launin sjálf. Þar hef ég ekki tekið einn einasta lið, sem heyrir undir þessar 20 millj., sem fyrst var reiknað með, eða 2½ millj., sem síðar var reiknað með, svo að þetta er fullkomlega rétt hjá mér, að kostnaðurinn verði sá, sem ég hef haldið fram.

Hv. þm. sagði síðast hér, að hann hefði ekki orðið var við neina kúgun og að ekki hefði þá Sjálfstfl. tekizt að kúga mig. Nei, það er nú ekki í fyrsta skipti, sem Sjálfstfl. hefur ekki tekizt að kúga mig, vegna þess að hann hefur aldrei reynt það, aldrei gert neina tilraun til þess. Og ég get sagt hv. þm. það, að það mundi ekki heldur þýða neitt. Það var nefnilega sá mismunur á milli mín og frambjóðanda Framsfl. 1942, hins ágæta manns Steingríms Steinþórssonar, núverandi hæstv. landbrh., að hann lýsti því yfir á öllum fundunum, að hann byði sig fyrst og fremst fram sem fulltrúi Framsfl. og þar næst sem fulltrúi sýslunnar. Ég lýsti því þá yfir og ávallt síðan, að ég byði mig fyrst og fremst fram sem fulltrúi Barðstrendinga og þjóðarinnar. Og ef afstaða mín er slík á þingi, að ég á að velja á milli flokkshagsmuna annars vegar og þjóðarhagsmuna hins vegar, þá fylgi ég þeirri stefnu að gæta hagsmuna kjósendanna og þjóðarinnar. En því er kannske hv. frsm. ákaflega óvanur í sínum flokki.

Að rökstudda dagskráin sé firra, mótmæli ég harðlega. Hv. þm. veit eins vel og ég, að það er óhjákvæmilegt, að þessar 40 millj., sem kastað er út í viðskiptalífið beint úr ríkissjóði, eftir að frv. þetta er samþykkt, hljóta að skapa nýja verðbólgu. Það er engin getgáta. Það eru beinharðar staðreyndir. Og hann segir, að mín rök hafi verið hrakin hér. Það hefur ekki verið reynt að hrekja þau. Það hafa verið notaðar fullyrðingar án þess að reyna að hrekja nokkurn hlut af því, sem ég hef tekið beint upp úr gögnunum, sem fyrir lágu. Og svo segir hv. þm., að það sé rangt, að þetta frv. kalli sanngjarnlega á aðrar launahækkanir. Ég hef ekkert um það sagt, hvort það kallar á þær sanngjarnlega, við skulum láta það liggja á milli hluta, en það kallar áreiðanlega á aðrar launahækkanir. Og þó að hv. frsm. og allir þeir, sem standa að þessu frv., álíti, að hér sé bara um leiðréttingu að ræða, þá breytir það ekki nokkrum sköpuðum hlut. Þetta frv. getur ekki annað en kallað á nýja verðbólgu og nýjar launahækkanir á öllum sviðum.

Ég vil svo biðja hæstv. forseta að afsaka, að ég hef orðið að tala þetta langan tíma, en mun ekki taka aftur til máls, nema beint verði til mín einhverju, sem ekki verður komizt hjá að svara.