25.10.1955
Neðri deild: 10. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í C-deild Alþingistíðinda. (1840)

31. mál, jafnvægislánadeild við framkvæmdabanka Íslands

Flm. (Eiríkur Þorsteinsson):

Herra forseti. Á þskj. 31 flytjum við hv. þm. A-Sk. frv. til laga um jafnvægislánadeild við Framkvæmdabanka Íslands. Ástæðan fyrir því, að við flm. teljum nauðsyn bera til að flytja frv. slíkt og þetta, er, eins og segir í grg. fyrir því, hinn stöðugi straumur fólks og fjármagns til vaxandi bæja við Faxaflóa úr bæjum og þorpum við sjávarsíðuna á Vestfjörðum, Norðurlandi, Austfjörðum svo og úr sveitum. Nokkur viðleitni af hálfu Alþ. og ríkisstjórnar hefur nú undanfarið átt sér stað til að ráða hér bót á. En þéttbýlið syðra með fjármagni sínu og öðru því, sem það hefur upp á að bjóða, dregur fólkið til sin eins og segull. Jafnvægisleysi færist í aukana, en í víðáttumiklum, frjósömum og fögrum byggðum landsins á sér víðast stað fólksfækkun eða er yfirvofandi.

Í lagafrv. þessu er gert ráð fyrir, að stofna skuli við Framkvæmdabanka Íslands sérstaka lánadeild, er nefnist jafnvægislánadeild. Hlutverk deildarinnar er að veita lán til að auka atvinnurekstur í þeim landshlutum, sem erfiðasta aðstöðu hafa sakir skorts á atvinnutækjum. Gert er ráð fyrir, að jafnvægislánadeild sé undir sérstakri umsjón þriggja manna stjórnar, sem annist lánveitingar úr deildinni. Stjórnina skipa samkv. frv. skrifstofustjórarnir í félmrn., atvmrn. og fjmrn., og er skrifstofustjóri félmrn. formaður stjórnarinnar. Fjár í jafnvægislánadeild er gert ráð fyrir að afla þannig, að ríkissjóður greiði með jöfnum framlögum á næstu fimm árum eftir gildistöku laga þessara 50 millj. kr. sem stofnfé deildarinnar. Til viðbótar því ábyrgist ríkissjóður allt að 100 millj. kr. lán, sem jafnvægislánadeild tekur til starfsemi sinnar. Skulu ríkisstjórnin og Framkvæmdabankinn hafa forgöngu um útvegun lánsfjárins. Gert er ráð fyrir, að jafnvægislánadeild veiti tvenns konar lán: A-lán af lánsfé deildarinnar gegn 1. veðrétti í botnvörpuskipum og iðnaðarfyrirtækjum, sem geta ekki fengið lán úr Fiskveiðasjóði Íslands eða Ræktunarsjóði Íslands, B-lán af stofnfé deildarinnar gegn siðari veðrétti í fiskibátum og skipum, iðnaðarfyrirtækjum og félagsmannvirkjum. Ætlazt er til, að þau lán, sem veitt verða úr jafnvægislánadeild, verði fyrst og fremst miðuð við að bæta úr skorti á atvinnutækjum á þeim stöðum, sem verst eru settir. Verja má 1/10 stofnframlags deildarinnar til að greiða til bráðabirgða rekstrarskuldir atvinnutækja, sem lán er veitt úr henni, þar sem um byrjunarörðugleika er að ræða.

Eins og alþjóð er kunnugt og ég hef áður minnzt á, hafa aðgerðir Alþ. og ríkisstjórnar ekki hrokkið til að halda uppi jöfnu öryggi í atvinnulífi hinna ýmsu byggða landsins. Fjármagnið og notkun þess er um of bundið við höfuðborgina og nágrenni hennar. Árstíðabundið atvinnuleysi veldur brottflutningi fólks úr kauptúnum og sveitum landsins. Unga fólkið, sem leitar þar burt frá heimahögum einu sinni, hverfur ekki heim aftur að jafnaði. Víðs vegar kringum landið hefur mjög dregið úr fiskveiði á bátamiðum fyrir ágang togara eða af öðrum ástæðum. Enn þá hefur ekki verið gerð nein alhliða ráðstöfun, sem vegur hér upp á móti. Í mörgum sjávarþorpum vantar því tilfinnanlega fisk til verkunar í fiskiðjuver, sem komið hefur verið upp með ærnum kostnaði, en eru m.a. af þessum ástæðum rekin með tapi. Samtímis verða heimamenn að leita sér atvinnu í öðrum landshlutum. Hér þarf nýrra aðgerða við. Í mörgum tilfellum verður að skipta um atvinnutæki. Nýjar iðngreinar þurfa að rísa og vera opnar fólkinu og geta tekið við fólksfjölguninni, hver á sínum stað. Blómlegt atvinnulíf skapar öryggi og eykur þrótt einstaklinganna til alhliða framkvæmda og dáða.

Það frv., sem hér liggur fyrir, á að gefa þeim stöðum, sem erfiða aðstöðu hafa, möguleika til að fá fjármagn til uppbyggingar atvinnutækja. Það á að vera virkur þáttur í að skapa nauðsynlegt jafnvægi í byggð landsins og lífi þjóðarinnar, en það á ekki að vera neitt lokaátak, heldur vakning fyrir nýjum aðgerðum, sem hver fram af annarri á að auka viðnámsþrótt þjóðfélagsins til menningarlegrar og efnahagslegrar uppbyggingar. Í trausti þess vona ég, að hv. Alþ. sé mér sammála um, að afgreiða þurfi málið á þessu þingi. — Að lokinni þessari umr. óska ég svo málinu vísað til fjhn.