25.10.1955
Neðri deild: 10. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í C-deild Alþingistíðinda. (1844)

31. mál, jafnvægislánadeild við framkvæmdabanka Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég býst við, að það sé alveg rétt hjá hv. þm. V-Ísf. (EirÞ), að þetta frv. Framsfl. sé ekkert meira sjónarspil en margt annað, sem stjórnarflokkarnir koma með. Hins vegar kemst maður ekki hjá því, þegar litið er á fyrirsögnina á þessu frv., að brosa. Þetta jafnvægi, sem þessir blessaðir stjórnarflokkar eru alltaf að tala um, virðist nefnilega aðeins hafa, þegar öllu er á botninn hvolft, þá einu meiningu hjá þeim, að það verði að vera eitthvert jafnvægi á milli þeirra sjálfra.

Hv. 1. landsk. (GÞG) benti hér á, að sjálft frv. mundi vera flutt til þess að skapa jafnvægi á milli stjórnarflokkanna, og það er eins og mér finnist, þegar ég sé þetta frv., að einmitt till. um að koma nú upp einni nýrri deild og það við Framkvæmdabanka Íslands eigi frá hálfu Framsfl. að vera tilraun til þess að skapa ofur lítið jafnvægi í sambandi við stjórnina á bönkunum i landinu núna, að þeir vonuðust e.t.v. eftir því, að það yrðu eitthvað meiri ítök, sem þeir ættu kannske í svona lánadeild, heldur en orðið er nú í stjórnum sumra bankanna. Þeim finnst víst jafnvægið hafa eitthvað raskazt þar upp á síðkastið, og kannske ekki alveg að ástæðulausu.

Mér finnst satt að segja þetta orð: jafnvægislán, orðið, sem þarna er notað, vera ákaflega leiðinlegt orð fyrir stjórnarflokkana sjálfa. Það minnir mann alltaf á, að það eigi nú að sjá um einn hlut, þegar lánað sé út úr bönkum, og það sé, að það haldist jafnvægi á milli stjórnarflokkanna eða það, sem við stjórnarandstæðingar höfum stundum kallað helmingastaðaskipti. Ég gæti bezt trúað, að miklu sannara yrði þetta frv., ef stjórnarflokkarnir gætu yfirleitt komið sér saman um að flytja svona frv., ef þar stæði, að stofna skyldi sérstakan jafnvægislánabanka, sem allt fé úr öðrum bönkum skyldi síðan renna í, fyrir þeim banka skyldu vera tveir bankastjórar, annar útnefndur af Framsfl. og hinn af Sjálfstfl., lán í hvert kjördæmi landsins skyldu annast tveir aðilar, annar máske þingmaður annars þess flokks og hinn frambjóðandi hins flokksins. Ég gæti trúað, að ef maður fengi eitthvað slíkt frv. frá stjórnarflokkunum í sameiningu, mundi það máske helzt nálgast eitthvað það, sem virðist liggja þeirra hjarta næst, a.m.k. þegar að framkvæmdum kemur, og það þyrfti ekki annað en að líta á eða birta þm. listann yfir, hvernig atvinnubótasjóðunum svokölluðu hefur verið úthlutað á síðustu árum, til þess að sjá, út frá hvaða sjónarmiðum það er gert.

Ég held þess vegna, að það væri bezt fyrir hv. stjórnarflokka að fara að hætta öllu þessu tali um jafnvægi. Það minnir of mikið á þeirra eigin jafnvægistilraunir og jafnvægisæfingar í sambandi við fjárlán og fjárútveganir, alla þeirra helmingaskiptapólitík, því að á sama tíma sem mest hefur verið talað um nauðsynina á því að skapa jafnvægi í þróun atvinnulífsins á Íslandi, hefur það jafnvægi, sem var, raskazt meira en nokkru sinni fyrr. Það er alveg auðséð, að allt þetta tal um að bæta að einhverju leyti úr neyðarástandinu, sem ríkir í þrem landsfjórðungum núna, er ekkert nema einber hræsni hjá þessum stjórnarflokkum. Og það heldur áfram að vera hræsni hjá þeim, á meðan þeir skiptast á um að flytja frv. hver um sig þing eftir þing og koma sér síðan saman um að svæfa hvert einasta frv. í n., einmitt sín eigin frv., og fást ekki til þess sjálfir, þó að stjórnarandstaðan bjóði þeim allt fylgi til þess að afgreiða frv. úr nefnd.

Ég held, að það sé nær fyrir menn en að halda áfram þessu sjónarspili, eins og hv. 1. landsk. þm. nefndi það réttilega, að taka til alvarlegrar umr., hvers konar þróun það er, sem er að gerast í þjóðfélaginu, reyna að athuga orsakir hennar, grafast fyrir rætur hennar og ráða þannig við þá hreyfingu, sem er á fjármagninu, vinnuaflinu og þar af leiðandi byggðinni í þjóðfélaginu. Auðvitað er á okkar valdi að ráða við þetta, og það er á valdi þeirra aðila, sem hafa meiri hluta hér á Alþ. og stjórna ríkinu.

Við skulum athuga, hvað það er, sem þarna kemur til, hvernig stendur á því, að fjármagni skuli svo að segja vera einbeitt að atvinnuframkvæmdum í suðvesturhluta landsins, að þess vegna skuli það litla fjármagn, sem kann að hafa verið í hinum þrem landsfjórðungunum, streyma hingað, að vinnuaflið skuli streyma á eftir og byggðin þannig færast með mannfólkinu hingað á suðvesturkjálka landsins.

Orsökin til þessa er sú, að hreyfingar fjármagnsins eru eftirlitslausar og stjórnlausar af hálfu ríkisins. Þeir menn, sem finnst gróði að því að setja fjármagn fyrst og fremst í atvinnutæki, ráðstafa sínu fjármagni þangað, sem líklegast er að það gefi gróða. Þetta er lögmál kapítalismans, lögmál auðvaldsskipulagsins, og ef þetta lögmál er látið óhindrað, þá þýðir það, að fjármagn þjóðarinnar og þar af leiðandi vinnuafl þjóðarinnar og eftir það byggðin í landinu dregst þangað, sem eigendum fjármagnsins á hverjum tíma þykir hentugast gróðasjónarmiðsins vegna að stofna atvinnutæki.

Nú er það samt svo, að ríkið á alla bankana á Íslandi, og ríkið gæti ráðið yfir þessum hreyfingum fjármagnsins, svo framarlega sem ríkinu væri stjórnað með það fyrir augum að ráða því, hvers konar hreyfing er hjá mannfólkinu í landinu með byggðina.

Bönkum þjóðarinnar er hins vegar stjórnað frá því sjónarmiði, hvernig þeir bankar geti grætt bezt, frá því sjónarmiði, að gróðasjónarmiðið verði að vera þar ráðandi við ráðstöfun fjármagnsins. Ef það kemur til banka maður, sem segir: Ég get ávaxtað fjármagn vel með því að setja það í atvinnutæki á suðvesturhorni landsins, — og svo kemur til hans annar maður, sem segir: Ég er hér með dugandi sjómenn í Vestur-Ísafjarðarsýslu, Strandasýslu eða annars staðar, sem vilja fá togara til þess að gera út, en ég veit ekki, hvernig það borgar sig, en það er lífsnauðsyn fyrir þetta fólk, — þá segja bankarnir: Það er gróði að því að láta fjármagnið í atvinnutæki eða verzlun eða eitthvað slíkt, sem sett er upp á Suðvesturlandi, en það er ekki gróði að því að láta það til Vestur-Ísafjarðarsýslu eða Strandasýslu — eða eitthvað slíkt.

M.ö.o.: Ef þetta gróðasjónarmið er látið vera það ráðandi sjónarmið við ráðstöfun atvinnutækjanna, ráðstöfun lánsfjárins, þá þýðir þetta, að þessi þróun verður blind og við ráðum ekkert við hana, og það er ekki til neins að koma hér þing eftir þing og segja við okkur i stjórnarandstöðunni hér á Alþ.: Við viljum endilega fá jafnvægi í þróun byggðarinnar á landinu, og það eru hreinustu vandræði, hvernig þetta gengur, — og þora svo ekki að grípa inn í þessa þróun og stjórna henni. Við getum stjórnað þessari þróun. Við getum ráðið þessu. Meiri hluti Alþ. og ríkisstj. getur ráðið þessari þróun. Ríkisstj. getur ráðstafað fjármagninu í landinu þangað, sem hún álitur vera rétt að setja það af þjóðarnauðsyn, en þá verður hún fyrst og fremst að ráðstafa því út frá þjóðarnauðsyninni, en ekki frá gróðasjónarmiðum, m.ö.o., hún verður að brjóta á móti þeim lögmálum kapítalismans, þeim lögmálum auðvaldsskipulagsins að láta fjármagnið sækja í blindni þangað, sem mestur gróði er að því, og veita fjármagninu þangað, sem það er mönnunum, en ekki peningunum nauðsynlegt að það fari.

Það þýðir með öðrum orðum, að þegar við horfum á það ægilega ástand, sem er að skapast og fer sífellt versnandi í þessum þrem landsfjórðungum, þá verðum við að gera okkur ljóst, að það er ríkið sjálft, sem verður að grípa þarna inn í þróunina af fullum krafti og breyta til. Það þýðir um leið, að við verðum að breyta um alla þá atvinnupólitík, sem rekin hefur verið á undanförnum árum. Við verðum að setja strik yfir allt þetta svokallaða frelsi í viðskiptunum, frjálsa hreyfingu fjármagnsins. Við verðum að taka upp skipulagðan þjóðarbúskap um þessa hluti a.m.k. að meira eða minna leyti, gera ráðstafanir af hálfu ríkisins til þess að tryggja, að fé sé varið til þeirra hluta, sem í þessu sambandi þarf að gera, og gera um leið ráðstafanir til þess að sjá svo um, að bönkum þjóðarinnar sé þannig stjórnað, að þeir hafi ekki gróðasjónarmiðið, heldur þjóðarþarfirnar fyrir augum. Þetta hefur verið gert áður hér á Íslandi. Við höfum áður gripið svona inn i þessa þróun. Þetta er ekkert nýtt í hreyfingu fjármagnsins á Íslandi, að það einbeitist að Suðvesturlandi. Frá því að togaraútgerð myndaðist hér á Íslandi, var öll sú togaraútgerð fyrstu 40 árin í Reykjavík og Hafnarfirði, að undanteknum einum eða tveim togurum á Patreksfirði. Öll stórútgerð, öll togaraútgerðin, einbeittist að Suðvesturlandinu og að einum einustu tveim stöðum, því að þar var kapítalið, þar var fjármagnið, og þar voru bankarnir. Það er ekki fyrr en nýsköpunarstjórnin tekur ákvörðun út frá því að skipuleggja þjóðarbúskapinn um það að kaupa allmarga togara til landsins, — og eins og menn muna, var Framsfl. frekar smeykur við slíka ráðstöfun, — og ráðstafa þannig, að svo og svo mikið af þessum togurum skyldi geta lent úti á landi til ákveðinna bæjarfélaga þar og samtaka, sem bæjarfélög og einstaklingar mynduðu. Það þurfti að gera allmiklar ráðstafanir til þess að tryggja þetta. Það þurfti að gera ráðstafanir til þess að láta ekki fjármagnið blint ráða þessu. Það hefði enginn, ekki einn einasti togari af nýsköpunartogurunum farið á þá staði, þar sem nú er risinn upp blómlegur atvinnuvegur, blómleg togaraútgerð eins og á Akureyri og annars staðar, svo framarlega sem það hefði ekki verið gerð sérstök ráðstöfun af ríkinu, af meiri hluta Alþ., til þess að tryggja þetta, og það kostaði enga smáræðis baráttu á móti þeim, sem vilja láta fjármagnið fá að ráða sér sjálft og í blindni. Það kostaði okkur heilt þing hér að berjast fyrir að fá í gegn stofnlánadeild sjávarútvegsins, ákvörðunina um það að verja 100 millj. kr. til þess að lána þeim, sem vildu kaupa togara, m.a. bæjarfélögum, og lána þeim allt upp í 85% af kostnaðarverði togaranna og það með 21/2 % vöxtum til 20 ára. Það þurfti m.ö.o. að brjóta algerlega í bága við alla þá bankapólitík, sem rekin hafði verið fram að þessu, og það varð að keyra þetta fram hér í þinginu, m.a. gegn harðri andstöðu núverandi hæstv. fjmrh. Framsfl. og Landsbankans, sem þá stóð á bak við hann.

M.ö.o.: Alþingi getur grípið inn í þessi mál og getur stjórnað þessum málum, og eins og Alþ. á þeim tíma, fyrir 10 árum, tók þá ákvörðun að koma upp togaraútgerð á fjölmörgum stöðum á Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi, eins getur Alþ. nú tekið þá ákvörðun að tvöfalda togaraútgerðina, sem þar er. Það er hægt á þessu þingi að taka þá ákvörðun að kaupa 15–20 togara og lána þá til þessara staða, sem þurfa á þessu að halda. Og það er alveg vitanlegt, að togarar, sem kæmu til þessara staða, mundu beinlínis snúa atvinnuþróuninni við. Það mundi ekki þurfa að kvarta sérstaklega yfir atvinnuleysinu á Vestfjörðum, eftir að það væru komnir 5–6 togarar þangað. Það mundi ekki þurfa að horfa upp á þá blómlegu byggð við Húnaflóann, í Strandasýslunni og Austur-Húnavatnssýslunni eyðast meir og meir, þó að það væri ekki kominn nema einn togari í Húnaflóann, sem legði til skiptis upp í Hólmavík og Höfðakaupstað. Það er hægt að snúa þessum vitlausa straumi við, sem nú er í þjóðfélaginu, svo framarlega sem við vitandi vits stjórnum þessari þróun. Við getum virkjað þennan straum á sama hátt og við virkjum okkar fallvötn. En við verðum að setja stíflur til þess, við verðum að stjórna því, hvernig hreyfing vatnanna verður, þegar við virkjum þau, og eins verðum við að stjórna því, hvernig fjármagnið hreyfist, með þeim ákvæðum eða lögum, sem við samþykkjum hér á Alþingi.

Þetta þurfa þeir góðu menn, sem tala mikið um jafnvægið á milli landsfjórðunga, að reyna að gera sér ljóst. Þeir þurfa að grafast fyrir orsakir hlutanna. Og þegar þeir eru búnir að sjá orsakir þessarar hreyfingar, þá þurfa þeir að brottnema þær orsakir, sem núna valda þessum mannflutningum, og það er auðvelt. Fólk mun sannarlega ekki síður una vel í þeim byggðum, sem lengi hafa verið blómlegar, þeim þrem landsfjórðungum, sem nú stríða við svona harða baráttu, þegar þeir landsfjórðungar væru búnir að fá meira af atvinnutækjum, heldur en það unir sér nú við að flytjast í fjölmennið hingað til suðvesturhluta landsins.

Það, sem þess vegna þarf að gerast, ef við ætlum að ráða bót á þessum málum, er ekki að stofna bara einhverja litla deild í einhverjum litlum banka. Við þurfum að breyta sjálfri fjármálapólitíkinni, sjálfri pólitíkinni, sem ræður efnahagsþróuninni í þjóðfélaginu. Það er auðvelt verk fyrir okkur, ekki sízt í þjóðfélagi, þar sem allir bankarnir eru ríkisbankar.

En því er nú verið að leggja til að skapa nýja deild í þessu efni? Það eru deildir fyrir, sem geta framkvæmt þetta. Það eru bankar fyrir, sem geta framkvæmt þetta. Það er t.d. til banki, sem heitir Landsbanki Íslands, og Landsbanki Íslands hefur meira að segja seðlaútgáfuna léða frá Alþingi, frá ríkinu. Hann hefur allra banka þægilegasta aðstöðu, hann er engin smádeild í nýsköpuðum banka, hann er sá gamli þjóðbanki. Hann hefur meira að segja deild, sem heitir stofnlánadeild sjávarútvegsins og samkv. l. frá Alþingi ber að lána út fé til togarakaupa, til fiskibátakaupa, til fiskiðjuvera, til 15–20 ára með 21/2 % vöxtum, og það þarf ekki annað af hálfu Alþingis en að taka ákvarðanir um það að sjá um, að þessi l. séu almennilega framkvæmd og þessi stofnlánadeild, sem upphaflega var 100 millj., sé ekki alltaf minnkuð, heldur aukin. Það er enginn vandi að finna nú þegar stofnanir, sem eiga að anna þessu hlutverki og hafa á sínum tíma unnið að þessu hlutverki, þó að þær hafi verið drepnar niður af því fjármálaafturhaldi, sem ástandið hér á Íslandi síðustu 7–8 árin hefur einkennzt af. Ég held þess vegna, að ef einhver alvara fylgir slíkum málum sem þessum, ætti að athuga alvarlega, hvort sú n., t.d. fjhn., sem fær þetta til meðferðar, geri ekki sínar ráðstafanir til þess að breyta þannig um í bankapólitíkinni, að þetta væri hægt.

Þá er eitt atriði, sem rétt er að minnast á. Það er í sambandi við, að Framsfl. leggur til í þessu frv., að það sé tekið 100 millj. kr. lán, og ég vil vonast til þess, að hv. flm. þessa máls geti lýst því yfir, og þarf kannske alls ekki einu sinni að lýsa því yfir, heldur megum við máske ganga út frá því sem sjálfsögðu máli fyrir hans hönd, að auðvitað sé hæstv. fjmrh., sem jafnframt er einn af stjórnendum Framkvæmdabankans, því samþykkur, að þetta lán sé tekið, og efist ekki um, að hægt sé að útvega það, og ég verð að segja, að mér þykir mjög vænt um að heyra slíka yfirlýsingu frá hálfu Framsfl., að einmitt fjmrh. hans skuli vera orðinn svo bjartsýnn í lánveitingamálunum, að hann hiki ekki við að leggja hér fram till. um, að við tökum lán upp á 100 millj. kr. — ég býst við erlendis — til þess að kaupa togara, fiskibáta og annað slíkt handa þeim þremur landsfjórðungum, sem nú eiga við mesta erfiðleika að stríða. Það er mjög gott að fá slíka yfirlýsingu frá hæstv. fjmrh., einmitt með tilliti til þess, að hann var núna nýlega að gefa nokkra yfirlýsingu um, að það væru ein fjögur lán, sem þeir væru nú að reyna að útvega hjá Alþjóðabankanum og hefði nú raunverulega gengið hálftreglega með, og var þó í þessum fjórum lánum, sem hann taldi upp, ekki talið með lán til Sogsvirkjunarinnar að upphæð 120 millj. kr., sem líka þarf að útvegast og það strax.

Það er ákaflega ánægjulegt, að hæstv. fjmrh. og Framsfl. skuli vera orðinn svo bjartsýnn í sambandi við lánveitingamálin, sérstaklega með tilliti til þess, að mér finnst Sjálfstfl. vera orðinn eitthvað bölsýnn með þessa hluti. A.m.k. er það haft eftir einum af hans forustumönnum, hv. 7. þm. Reykv., borgarstjóranum í Reykjavík, að sérfræðingar erlendis álitu fjárfestingu á Íslandi of mikla og of öra, og ég þykist vita nokkurn veginn, hverjir þessir sérfræðingar séu. Ég þykist vita, að það sé von á þessum sérfræðingum hingað til lands nú kannske um þessi mánaðamót eða í byrjun næsta mánaðar og að það séu sérfræðingar frá Alþjóðabankanum. Ég er ákaflega hræddur um, að borgarstjórinn i Reykjavík hafi að einhverju leyti satt að mæla um álit þessara sérfræðinga. Ég er nefnilega hræddur um, að þeir, sem stjórna Alþjóðabankanum, séu haldnir einhverri líkri firru og þeirri, sem t.d. bankastjóri Framkvæmdabankans hefur gengið með og mjög mikið hefur gætt hjá ýmsum hagfræðingum hér á Íslandi upp á síðkastið, þeirri firru, að við Íslendingar þurfum að taka eitthvert tillit til þess, hvort það sé jafnvægi í okkar viðskiptum hér innanlands, þegar við erum að taka ákvarðanir um okkar fjárfestingu. Það hefur verið reynt undanfarið að knýja okkur til að fylgja þeirri pólitík, að við mættum ekki festa meira fé hér á Íslandi en við með því að hafa verzlun við útlönd frjálsa gætum fengið fólkið til að leggja til hliðar og spara á hverjum tíma.

Ég hef áður komið að því hér og skal ekki ræða lengi um það, að ég álít alla slíka pólitík vitleysu, enda hefur hún algerlega misheppnazt. Við Íslendingar þurfum á mjög örri fjárfestingu að halda, við þurfum að byggja upp okkar atvinnutæki og við þurfum að byggja hús á okkar landi, hús yfir þjóð, sem átti svo að segja engin varanleg hús um síðustu aldamót, og við getum ekki gert þetta með því að halda um leið frjálsri verzlun við útlönd og leyfa þjóðinni að kaupa til landsins á sama tíma hvaða skran sem hugur hennar girnist. Við verðum að hafa stjórn á verzlunarviðskiptunum við útlönd, og við verðum að hafa stjórn á okkar fjárfestingu. Þetta tvennt verður að gera samkv. skipulögðum áætlunum um okkar búskap og hans uppbyggingu. Þegar einn maður er að byggja hús, þegar menn eru að þræla við það núna, t.d. hér í Reykjavík og annars staðar, að koma hér upp þaki yfir höfuðið, þá verður sú fjölskylda að spara, sem vinnur að því, og hún verður að leggja mikið að sér, og hún gerir það. Og þegar þjóðin ætlar að byggja hús yfir höfuðið á sínum þegnum og útvega okkar duglegu verkamönnum góð tæki til þess að vinna með á sjó og landi, þá verðum við að líka að geta sparað við okkur svo og svo mikið, sem okkar auðmannastétt og ýmsir fleiri mundu annars girnast að flytja inn, ef allt væri frjálst. Meðan hins vegar sérfræðingar Alþjóðabankans líta svo á, að Íslandi beri fyrst af öllu að hafa frjáls viðskipti við útlönd, koma þeir alltaf til með að segja, að fjárfesting hér á Íslandi sé of ör og of mikil. M.ö.o.: Ef við Íslendingar ætlum að byggja upp ekki sízt atvinnulífið í þeim þremur landsfjórðungum, sem nú eru i vandræðum, þá verðum við að taka nokkurt tillit til sérfræðinga, sem hugsa ekki um okkar þjóðarbúskap og hans þarfir út frá sjónarmiði okkar Íslendinga. Það þýðir ekki þar með, að við þyrftum ekkert lán til einhverra þeirra hluta, sem við gerum hérna.

Ég er fyrir mitt leyti alveg óhræddur við þá till. hæstv. fjmrh. Framsfl. að taka 100 millj. kr. lán, sem felst í þessu frv., og það erlendis. Ég er alveg óhræddur við það, ef því láni er fyrst og fremst varið til þess að auka okkar atvinnutæki, sem efla okkar útflutning. Ég vonast til þess, að menn skilji, að það er mjög mikill munur á því, hvernig við verjum þeim lánum, sem við fáum erlendis. Ef við verjum lánum, sem við fáum, til að kaupa t.d. togara ásamt hraðfrystihúsum, auka okkar vélbátaflota, þá þýðir það um leið, að við getum tvöfaldað þann útflutning, sem við nú höfum, og við yrðum ekki í neinum vandræðum með markaðinn fyrir það. Það þótti mikið, þegar talað var um það hér á árunum að tryggja 30 þús. tonn af hraðfrystum fiski sem ársframleiðslu. Við erum komnir upp í 50 þús. tonn núna, og við getum framleitt 100 þús. tonn af hraðfrystum fiski án þess að þurfa að vera í nokkrum vandræðum með markaði. Okkur er óhætt að auka flota okkar hvað það snertir. En ef við ætlum að taka lán erlendis, þá verðum við um leið að verja ákveðnum, allmiklum hluta af því láni til þess að koma upp þeim atvinnutækjum, sem auka okkar útflutning.

En ég veit, að Alþjóðabankinn mun ekki vera sérstaklega ginnkeyptur fyrir að lána okkur til að kaupa togara, — eða hvaða reynslu hafa hv. stjórnarfl. af því? Hvernig var með þá 10 togara, sem keyptir voru 1948, eftir að Marshallaðstoðin komst á, einu togarana, sem keyptir voru, eftir að hún var samþykkt? Þeir voru keyptir í trausti þess, að það fengist lán frá Marshallstofnuninni, og Marshallstofnunin neitaði um þau lán. Það varð að taka bráðabirgðalán í Englandi til þess að borga þá. Það hefur alltaf andað köldu frá þeim amerísku sérfræðingum og valdhöfum í bankamálum til okkar togararekstrar, og ég held, að ef við eigum að samþ. þessa till. hæstv. fjmrh. Framsfl. og þeirra flokksmanna hans, sem hér leggja hana fram, um 100 millj. kr. lán erlendis, þá verðum við að horfast í augu við, að við verðum að leita annað en til Alþjóðabankans, og það álít ég líka vera nauðsynlegt. Ég álít nauðsynlegt, að við brjótum alveg af okkur þá einokun, sem Alþjóðabankinn er að reyna að taka á lánveitingum til Íslands. Um það er ég reiðubúinn að ræða við hv. þm. og ráðh. Framsfl., þegar ég er orðinn alveg sannfærður um, að þeir meini fullkomlega að standa við þá till., sem þeir hér hafa flutt.

Hins vegar vil ég lýsa því yfir, að ef þeim þm. Framsfl. er einhver alvara með það, sem þeir koma hér fram með, þá stendur þeim til boða trygging fyrir því að geta komið þessu máli í gegnum þingið. Alþfl. hefur hér áðan og nú Sósfl. tekið afstöðu með því að setja svona mál í gegn. Nú er það Framsóknarflokksins að segja til. Og ef það eru einhverjir aðrir hlutir, sem hann ber fyrir sig í því sambandi eða ber fyrir brjósti, við skulum segja stjórnarsamstarf eða eitthvað þess háttar, sem hann er hræddur um, þá er hann búinn að heyra, að meira að segja Sjálfstfl. virðist nú hafa vissa tilhneigingu til þess að koma þessu í gegn. M.ö.o.: Það er bezt, að það fái að sýna sig núna, hver alvara býr á bak víð þetta, það er bezt, að það komi greinilega í ljós, og það mun verða fylgzt með því í fjhn., hvort menn verða með því að afgr. þetta frv., jafnvel eitthvað í breyttu formi, eins og gjarnan mætti vera, og skapa tryggingar fyrir því, að þau lán, sem þarna er lagt til að taka, séu tekin. M.ö.o.: Hafi þm. Framsfl. aðeins meint þetta sem sjónarspil, þá vil ég vara þá við að leggja út í slík sjónarspil hér á Alþingi. Meini þeir það sem alvöru, þá skulum við líka gera alvöru úr því.