16.12.1955
Efri deild: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir betra, að fram komi sú yfirlýsing, sem hv. form. fjhn. flutti hér varðandi framkvæmd laganna að því er snertir póstafgreiðslumenn, sem starfað hafa í langan tíma og gegnt ábyrgðarmiklum störfum. Till. mín á þskj. 223 tekur til nokkurra fleiri, þ. e. til bréfberanna og til deildarstjóra við póst og síma. Ég vildi mega vænta þess, að einnig þessir starfsmenn póstsins eða þeirra launakjör yrðu tekin til athugunar í sambandi við framkvæmd laganna. Það er lítt gerlegt að mismuna svo í launakjörum mönnum innan tveggja starfsstétta í sömu stofnun eins og nú er gert í frv. að því er varðar annars vegar starfsmenn símans og hins vegar starfsmenn póstsins. Bæði bréfberar eða sendimenn símans og deildarstjórar símans eiga kost á að hækka um einn flokk eftir vissan starfstíma, og slíkt hið sama virðist eðlilegt að gildi um hliðstæð störf hjá póstinum. Ég veit ekki, hvort hæstv. fjmrh. vildi upplýsa mig um það, hvort hann teldi meiri örðugleika á að hafa þessa framkvæmd á að því er lögin varðar, ef till. mín á þskj. 223 yrði felld, en ef hún kæmi ekki til atkvæða hér. Ef hæstv. ráðh. teldi ástæðu til að athuga einnig kjör þessara manna í sambandi við framkvæmd laganna, þá mundi ég taka till. aftur í trausti þess, að einnig aðstaða þessara tveggja launaflokka yrði athuguð samtímis póstafgreiðslumönnunum.