28.10.1955
Neðri deild: 12. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í C-deild Alþingistíðinda. (1881)

46. mál, atvinnujöfnun

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. var lítið breytt flutt á síðasta þingi, þannig að þess gerist ekki þörf að fara að flytja um það nú langa framsöguræðu. Það var þá rækilega skýrt, hvaða hugsun lægi hér á bak við, og get ég því aðeins látið mér nægja að fylgja því úr hlaði með nokkrum orðum.

Það er þarflaust að eyða mörgum orðum að því að rökstyðja nauðsyn þessa máls. Það var fyrir fáum dögum rætt hér í hv. þd. annað frv., sem gekk í nokkuð svipaða átt og þetta, og var þá almennt rætt um hina miklu nauðsyn þess að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir af löggjafans hálfu til atvinnujöfnunar með það í huga, að reynt yrði að stemma stigu við óeðlilegum flutningum fólks úr ýmsum landshlutum hingað til Suðvesturlandsins, eins og því miður hefur verið f allt of stórum stíl nú síðustu árin.

Það hefur verið viðurkennt hér á hinu háa Alþingi hvað eftir annað, að þessi nauðsyn væri hér fyrir hendi, bæði með því, að árlega hefur í fjárlögum verið veitt fé í því skyni að efla atvinnuvegi víðs vegar um landið, þar sem atvinnuleysis eða atvinnuörðuleika hefur orðið vart, og enn fremur á þann hátt, að Alþingi hefur samþ. þál., þar sem ákveðið var að láta fram fara rækilega athugun á því, hvernig gerðar yrðu heildarráðstafanir til þess að tryggja og viðhalda jafnvægi í byggð landsins.

Af þessum sökum mun ekki gerast þörf að útskýra fyrir hv. þm. þá miklu nauðsyn, sem er fyrir hendi, og get ég því sparað mér fleiri orð um það, en vikið að frv. sjálfu, eins og það liggur fyrir.

Í stuttu máli sagt er tilgangur þessa frv. að koma á föstu skipulagi varðandi ráðstafanir til atvinnujöfnunar. Það er gert ráð fyrir, að sett verði á fót sérstök stjórn eða sérstök nefnd manna, sem hafi tvíþætt hlutverk, annars vegar að kynna sér, hvernig atvinnuástand er í einstökum byggðarlögum, og skapa sér hugmyndir um það, hvað nauðsynlegt væri að gera til úrbóta í þeim efnum, og hins vegar að undangenginni slíkri athugun að framkvæma lánveitingar af því fé, sem til ráðstöfunar verður í atvinnujöfnunarsjóði. Það er gert ráð fyrir, að stofnaður verði sérstakur atvinnujöfnunarsjóður, sem fái sem stofnfé skuldabréf fyrir þeim lánum, sem veitt hafa verið af atvinnuaukningarfé. Það er að vísu rétt að gera sér grein fyrir því, að margir óttast nú, að æði mikil vanhöld verði á því fé, en það hefur þó verið í flestum tilfellum veitt sem lán, og sannast sagt tel ég, að það sé full ástæða til að leitast eftir að fá þetta fé endurgreitt, svo sem kostur er á, til þess að geta varið því aftur til ráðstafana í þessu sambandi. Auk þess er lagt til, að atvinnujöfnunarsjóður fái árlegt framlag eins og það er hverju sinni á fjárlögum, en þó ekki innan við 5 milljónir, og enn fremur að næstu fimm árin verði 5 milljónum á ári varið til sjóðsins til lánveitinga. Í frv. er síðan getið um það, hvernig þessu fé skuli ráðstafað, hvaða sjónarmiðum skuli fylgja um það efni, og sé ég ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum.

Þá er í frv. enn fremur, í 6. gr., ákvæði. sem er mjög mikilvægt, en það er í sambandi við aðstoð til togarakaupa, ef talið yrði af stjórn atvinnujöfnunarsjóðs, að nauðsynlegt væri, að slíkt atvinnutæki yrði fengið til aðstoðar einhverjum byggðarlögum. Þetta er mál, sem margir hafa áhuga á, og það er engum efa bundið, að á mörgum stöðum er togaraútgerð líklegasta leiðin til þess að leysa úr þeim atvinnuörðuleikum, sem við er að stríða, og þykir því sjálfsagt að hafa heimild um þetta efni í slíku frv. sem þessu.

Þá er loks gert ráð fyrir því, að auk þess sem fjárráðstafanir séu gerðar af hálfu stjórnar atvinnujöfnunarsjóðs, sé heimilt að veita því fjármagni, sem til er í öðrum sjóðum, sérstaklega til þeirra staða, þar sem atvinnuleysi er við að stríða, og að það megi jafnframt, þegar hömlur eru á fjárfestingu, ákveða, að leyfum til fjárfestingar og innflutnings framleiðslutækja sé fyrst og fremst beint til staða, sem við erfiðleika eiga að stríða i þessu sambandi. Í frv. er því gert ráð fyrir mjög víðtækum ráðstöfunum i sambandi við þessi atvinnumál, og ég hygg, að ef þetta mál næði fram að ganga, væri fenginn alltraustur grundvöllur til þess að starfa á að þessum málum. Það er vitanlegt, að það væri full þörf á meira fjármagni en hér er um að ræða, en flutningsmönnum þótti mikilvægara að koma þessu máli á rekspöl en að gera það háar kröfur um fjármagn, að fyrir fram væri sýnt, að ekki væri hægt á slíkt að fallast, auk þess sem þess er að geta, að í frv. er ákvæði um lántökuhelmild, ef um verður að ræða jafnstórvirka aðstoð og togarakaup, þannig að telja má, að ef frv. þetta yrði samþ., þá væri töluvert stórt skref stigið í þá átt að leysa vandamál þeirra staða, sem hér um ræðir. Og það er vissulega eitt af mikilvægustu viðfangsefnum Alþingis, miðað við þá þróun, sem nú er í þjóðfélaginu, að leitast við eftir föngum að sporna gegn því, að fólkið hverfi úr byggðunum víðs vegar úti um land og leiti hingað á mjög takmarkað svæði á Suðurlandi og við Faxaflóa.

Ég vil því leyfa mér að vænta þess, að frv. þetta hljóti góðar undirtektir, ekki sízt fyrir þá sök, að það hafa þegar komið fram fleiri till. um þetta efni, sem mjög stefna í svipaða átt, og ætti því að vera möguleiki á því að samræma sjónarmið manna og fá nú á þessu þingi afgreidd lög, sem fela í sér viðunandi lausn á þessum vanda.

Ég vil svo leyfa mér að lokinni þessari umr. að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.